Greinasafn fyrir merki: Passíusálmar

Passíusálma+

Lifir einhver í skugga Hallgríms Péturssonar? Eru Passíusálmar einhverjum hindrun eða fyrirstaða? Stór og fyrirferðarmikil skáld geta orðið svo mikil að önnur skáld þora ekki, bera svo mikla lotningu að sjálfstæðið glatast. Um tíma var eins og Halldór Laxnes væri slíkur, hamlaði framvindu og kastaði skugga yfir land og menningu. Skuggar þeirrar gerðar verða í öllum greinum mannvísinda, í öllum listgreinum, trúarheimum og í öllum smáheimum sem mennirnir skapa. Síðan minnkar áhuginn eða að verk þeirra eru svo stórkostleg, kenningarnar svo frumlegar og snjallar að þau verða sígilld eða opna svo veigamikinn verkahring að á þau er fallist. Þetta eru hinir miklu snillingar eða löggjafar mannkyns eins og vísindaheimspekingurinn Thomas Kuhn hefur nefnt þá.

Lifir einhver í skugga Hallgríms og Passíusálmanna? Ég held að svo sé ekki. Allir Íslendingar eru frjálsir að trúarhugsun og skynjun. En hvert er þá gildi þeirra? Passíusálmar hafa lifað með þjóðinni og mótað fólk. Þeir hafa hrifið skáld og mótað skáldamál um aldir. En hvert er gildi þeirra og lífsmáttur í samtíð okkar? Hver er dýpt eða “plús” þeirra sem við nútímafólk getum notið og túlkað okkur til gleði, stuðnings og visku?

Öll verk manna, sálmar og ljóð eru tengd tíma, spíra í jarðvegi og andrúmi menningar. Aðeins þau lifa af samtíð sína sem með einhverjum hætti snerta tilveru fólks með einhverjum djúptækum hætti. Þetta eru klassikerarnir. Bókmenntirnar eiga sér slík verk frá öllum tímum sem fólk les. En til hvers. Ég held að klassískt sé það verk sem með einum eða öðrum hætti tjáir lífsmáta, lífshátt, mögulegt líf manns í heiminum. Shakespeare eða frásagnir Biblíunnar verða innlifuðum lesendum veruleiki sem hægt er að lifa í og af. Þau eru klassíkerar vegna þess að lífið sem tjáð er, lífsbaráttan sem túlkuð er og lausnirnar sem sýndar eru höfða til fólks, eru trúverðugar með einum eða öðrum hætti – hafa dýpt, hafa plús, eru dýrmæti sem hver samtíð, hver nútími getur notið og nýtt sér.

Eru Passíusálmarnir klassiker? Kanski er skáldamál þeirra orðið fornlegt lítt yrkjandi fólki samtímans. En er píslarsaga þeirra ekki ríkuleg öllum þeim sem nema þjáningu í lífi sínu eða átökum heimsins? Eru sálmarnir aðeins sýnisbókmenntir sinnar tíðar eða megna þeir að tjá eitthvað fyrir nútímafólk sem verður til lífs?

Skáldin sem lesa hér í Hallgrímskirkju hafa verið beðin að yrkja eða ljóða í framhaldi eða til hliðar við Passíusálma. Þau hafa frjálsar hendur. En mín spurning er hvort eða hvernig klassíkerinn eða píslarsagan hefur áhrif í nútíma. Hvernig ljóða frjáls skáld en í tengslum við Passíusálma? Eru þau í skugga, eru þau frjáls – er skuggi Passíusálmanna kanski hvítur og ljósgæfur?

Ávarp Sigurðar Árna við upphaf ljóðadagskrár Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju 6. júní 2003. Skáld fluttu frumort ljóð sín í framhaldi af Passíusálmum. Því var notað heitið Passíusálma+ eða Passíusálmaplús og ávarpið er til inngangs en fjallar einnig um merkingu og hlutverk hins klassíska í menningu og lífi – að veita plús, viðbót, örva til nýsköpunar. Skáldin sem beðin voru að yrkja og lesa voru: Andri Snær Magnason, Baldur Óskarsson, Hjörtur Pálsson, Ingibjörg Haraldsdóttir, Ísak Harðarson, Jón Bjarman, Kristján Þórður Hrafnsson, Kristján Valur Ingólfsson, Margrét Lóa Jónsdóttir, Matthías Johannessen, Sigurður Pálsson, Sigurbjörg Þrastardóttir, Vilborg Dagbjartsdóttir, Þóra Jónsdóttir, Þórarinn Eldjárn. Kennimyndin af Hallgrími Péturssyni er verk Leifs Breiðfjörð og er hluti stóra gluggans yfir aðaldyrum Hallgrímskirkju. 

Guðsmynd og guðstúlkun Hallgríms Péturssonar í Passíusálmunum

Fyrir skömmu þjónaði ég við útför. Mér var tilkynnt að fjölskyldan vildi gefa mér listaverk sem þakkarvott – ekki eitt verk heldur tvö! Ég var einnig upplýstur um að þau væru eiginlega portrett af mér, Annað er hvítleitt með fjörlegum en fínlegum litum. Hitt er gulleitt, hrífandi vegna geislandi birtu og hreyfinar. Portrett – það voru skilaboðin. Nú er ég búinn að hengja verkin upp og félagar mínir og vinir óskuðu skýringa á þessum nýupphengdu verkum. Þeim þótti merkilegt að myndirnar væru portrett en sögðust skilja hvaða áherslur kæmu fram í verkunum og raunveruleg tenging væri milli mynda og mín.

Við lýsum fólki, viðburðum og reynslu með ýmsum orðum og sögum en við getum líka málað mynd til að tjá áhrif og líðan í tengslum. Sumar myndir í orðum eða litum heppnast en aðrar síður. Þær geta miðlað  skynjun og lyft upp ákveðnum atriðum sem við viljum túlka. Abstraktmyndirnar drógu fram þætti en kortleggja ekki heild persónu. Þær gefa sjónarhorn en eru ekki nákævmur persónuprófíll.

Guðsmyndir og mál manna

Hvernig er Guð? Hvernig ímyndum við okkur hið guðlega? Við vitum að við getum ekki teiknað Guð nákvæmlega en við getum auðvitað tjáð afstöðu, hugmyndir og tilfinningar okkar um Guð og notað til þess táknmyndir. Í sögu sjónlista er fjöldi guðstákna tiltækur. Guðfræði tjáir líka margt um Guð og líka trúarheimspekin. Í þeim fræðum er margt sagt um trúarlegt táknmál. Hvernig er hægt að tala um Guð? Hvaða tungutak notum við til að tjá tengsl við Guð? Við vitum að við notum ekki tungumál til að lýsa Guði með hlutlægum hætti eins og efnafræðingur lýsir efnahvörfum, stjörnufræðingur lýsir því sem gerist þegar lofsteinn kemur inn í gufuhvolf jarðar eða jarðskjálftafræðingur skýrir út skjálfta upp á 7,8 á Richter í Tyrklandi. Ástfangið fólk lýsir ástinni sinni og notar oft mörg orð til að tjá tilfinningar, afstöðu og hinum elskaða eða hinni elskuðu. Með hliðstæðum hætti lýsir trúmaðurinn tengslunum við Guð og merkingu sambandsins. Til að tjá reynslu fólks er mál vísinda ekki notað heldur fremur mál ástarinnar eða mál ljóðsins. Það er litrík tjáning, mál tengsla og oft líka ástartjáning. Það er myndríkt mál og þar með talið líkingamál.

Myndmálið

Eðlilegasta málfar trúarinnar er myndmál. Jesús notaði það óhikað og frábærlega vel. Svonefndar dæmisögur eru yfirleitt sögur með skýrum myndum. Sagan af týnda syninum er ein af fjölmörgum sögum með ríkulegu myndmáli. Þegar Jesús sagði sögu byrjaði túlkunarferli innan í fólki. Þegar fólk hlustaði á sögur Jesú eða les þær vakna strax spurningar. Hvað meinti hann? Hvað er hann að tjá? Hvernig á að skilja þessa sögu og hver eru skilaboð hennar og merking? Myndmál og líkingamál kallar á og vekur hugsun og túlkun. Saga er aldrei einföld. Gildir einu hvort hún er eftir Jesú Krist, H. C. Andersen eða Halldór Laxnes. Inntaksríkar sögur vekja hugsun, viðbrögð og úrvinnslu. Þannig eru sögur og myndir trúarinnar. Þær kalla á túlkun og að lokum móta hugtök. Myndmálið leitar skilnings og skynsemi. Þess vegna eru ljóð svo merkileg og góðar smásögur og skáldsögur svo áhrifaríkar.

Líkingar útfærðar í stuðningslíkingum – túlkar

Líkingin af persónulegum Guði er grundvallandi í kristnum átrúnaði. En persónur geta verið mismunandi og gegnt ólíkum hlutverkum. Við notum mennskar líkingar um Guð og þurfum því að vera meðvituð um að hægt er að skilja Guð með ólíkum hætti. Það skiptir máli hvort við segjum að Guð sé kóngur og herstjóri og er allt öðru vísi en að segja að Guð sé mamma, kærasti eða elskan. Myndmálið sem notað er um Guð vekur og kallar á túlkun og skilning. Í sögu kristninnar hafa verið notaðar alls konar muyndrænar millistýringar til að skilgreina og móta meginatriðin. En þær stýra og móta túlkunina og ég hef nefnt milliliðina túlka því stuðningslíkingarnar móta hvernig myndmálið er skilið. Við tölum gjarnan um Guð sem föður sem er síðan útfærð í myndinni af syni og börnum. Þau eru túlkarnir sem móta skilning á því hvernig föðurímyndin skilst. Talað hefur verið um Guð sem Drottin sem er konungslíking og var útfærð í kristninni með myndinni af þegnum, þjónum, embættismönnum og hermönnum. Móðurlíkingin á sér stuðningsútfærslu í barnslíkingunni; ástmögur á sér tengda líkingu í hinu elskaða; húsbóndi í eiginkonulíkingu og húsbóndi í stuðningstúlknum þræl o.s.frv.

Málfar hluti menningar – breytingar

Líkingar í trúarefnum tengjast þróun í menningu og merkingarvef hvers samfélags. Breyttar aðstæður og gildaþróun hafa áhrif á hvort fólk skilur og samþykkir grunnatriði átrúnaðar. Jafnréttisáherslur hafa t.d. haft mikil áhrif á hvaða myndir af Guði hafa veiklast eða styrkst. Á síðustu áratugum hefur verið bent á að kristnin hafi verið of karlmiðlæg. Þar með hefur verið gagnrýnd notkunin á líkingunni um Guð sem konung, Guð sem herstjóra, Guð sem heimsstjóra, Guð sem dómara og föður. Þessar líkingar um Guð hafa verið gagnrýndar. Það er eðlilegt að hugmyndir um Guð breytist og við þurfum að virða með opnum huga breytingar. Til að endurskýra og endurlífga guðfræðitúlkun verða burðarmiklir túlkar að koma í stað þeirra sem hafa lifað sinn blómatíma. Í því er fólginn vandi allra þeirra trúmanna sem vilja tefla fram “betri” eða “réttari” guðfræði, að túlkarnir verða að vera nægilega öflugir og vísa til almennrar reynslu fólks. Ef aðeins er vísað til sértækrar reynslu verður túlkunin vart annað en skoðun eða stefna afmarkaðs hóps.

Guð í Passíusálmunum – merking og gildi

Passíusálmarnir eru safn fimmtíu sálma sem lýsa píslarferli Krists. Ferðalangnum Jesú Kristi er lýst með tvennu og ólíku móti í sálmunum. Annars vegar er dregin upp mynd af honum sem miklum himinkonungi sem vill koma í heim þegna sinna. Hins vegar er Jesús Kristur í hlutverki mennsks fulltrúa mannkyns sem lætur yfir sig ganga illsku þessa heims.  Þessar andhverfur hátignarkonungsins og líðandi þjóns eru spyrtar saman. Jesús Kristur Passíusálmanna er líðandi konungur. Þar með er sprengd annars vegar konungsímyndin og hins vegar sú mannhugmynd að menn séu hjálparvana í hít vonleysis, þjáningar og dauða. Mál himins og heims eru tengd í einingu Jesú Krists. Lausn alls vanda heimsins á rætur í þeirri ást Guðs sem lætur sig varða kjör og velferð manna og heims. Konungur himins kemur og fer síðan krossferil allt til enda. Þar sem hann er fulltrúi manna leiðir hann mannkyn til Guðs. Jesús gengur inn í allan vanda manna og sérhverja kreppu – en stenst. Í því er hann fyrirmynd og sá spegill sem menn geta speglað sig í og séð sjálfa sig. Öllum sem eru kúgaðir og brotnir verður Jesús sem ímynd vonar og hvatningar til að gefast ekki upp í baráttu lífsins. Hann verður daglegur styrkur á vegi trúarinnar. Nálægur bróðir í raun og gleði og öllum lífsglímum.

Íhugunarkveðskapur

Sálmarnir voru hugsaðir sem föstusálmar og til lesturs og íhugunar á sjö vikna föstu. Í hinni norður-evrópsku trúarhefð allt frá dögum Marteins Lúthers var lögð áhersla á daglegt afturhvarf. Það merkir að menn þurfi að gera reikningsskil við Guð, náungann og sjálfa sig á hverju degi. Lífið er ferli og sífellt þarf að skoða hvað er til bóta, hvað hafi farið aflaga og hvernig megi lifa betur í sátt við Guð og menn. Sálmunum var ætlað að efla íhugun og verða fólki hjálp við endurnýjun trúarinnar.

Hinn skipulagði Hallgrímur

Höfundur Passíusálmanna vildi að þau sem læsu eða færu með sálmanna næðu að fylgja söguþræði og draga lærdóm af píslarsögu Jesú. Sálmarnir reyna að hvetja lesendur til að fylgja Jesú eftir. Í upphafi hvers sálms er staða mála kynnt og síðan er sagt frá baráttu Jesú. Passíusálmarnir hefjast við lok síðustu máltíðar Jesú og lýkur við grafarsetningu hans. Allt sem guðspjöllin segja um píslarsöguna er tekið til skoðunar og íhugunar. Ekkert á þeim ferli fer fram hjá vökulum augum íhugunar, hvorki stærstu atburðir né smáatriði. Allt skyldi skoðað og íhugað.[1] Í eftirfylgdinni er sálinni bent á hvað fyrir ber og rætt er við hana um ýmsar víddir og merkingar. Biblíutextar stýra flæði hvers sálms en eintsök stef eru endurtekin og margskoðuð frá ýmsum sjónarhornum.

Tilgangur sálmanna er að efla og styrkja íhugun og innlifun og leiða síðan til skilnings og tileinkunar. Aðferðinni er ætlað að þjóna íhuguninni. Hver sálmur er sem eining. Dregin er heim alls konar lærdómur og speki sem píslargangan vekur. Skoðunin á ferli Jesú á að leiða til styrkingar einstaklinganna og næringu sálar hins kristna. Skoðun og íhugun leiðir lesandan vítt og djúpt og beygir anda og hné til bænar. Jesús fer á undan og „ég“ á eftir. Þetta sameiginlega ferðalag verður til að staða mín sem mannveru verður skýrari, eigindir, staða og brestir opinberast. Ég er sem á flæðiskeri, að mér er sótt, synd mín er stór og leiðin aðeins ein að fylgja líðandi konungi mínum allt til enda. Þrautaleið hans er ekki átakalaus sigurganga hátignarkóngsins heldur þjáningarfull ganga til lausnar og vona. Niðurstöðu er náð í hverjum sálmi – lofgjörð – sem er er hið rétta viðbragð trúarinnar gagnvart baráttu hins líðandi en þó sigrandi konungs sem veitir hlutdeild í sigri sínum.

Hinn líðandi konungur

Barátta hins líðandi konungs er meginefni Passíusálmanna og litar guðsmynd þeirra. Hvernig fjallað er um heim, manneðli, samfélag manna, kirkjuna o.s.frv. tekur mið af meginefninu. Sú mynd sem dregin er af Jesú mótar allt annað og hafði áhrif á hvernig Íslendingar liðinna alda skildu líf sitt og lífsbaráttu. Sú Jesúmynd sem Passíusálmar draga upp er af stofni hinnar ágústínsku-lúthersku hefðar, baráttusögu milli góðs og ills. Jesúmyndin er ekki friðsamleg. Í sálmunum er Jesús í stöðugri baráttu. Hann fær hvergi hlé eða skjól. Að Jesú er sótt og á hann er ráðist. Honum er ekki lýst sem hinum örugga konungi að baki víglínu heldur nánast sem andhetju sem fórnar sér til að sigur vinnist. Hann hlýðir, fer fram í staðfastri auðmýkt og víkur sér ekki undan baráttu og þjáningu.

Guð í Passíusálmunum

Menn ímynda sér Guð og túlka guðsmynd sína með ýmsu móti. Guðfræði mismunandi kirkjudeilda getur verið talsvert fjölbreytileg en innan íslenskrar kristni má greina ýmsa stefnur. Passíusálmarnir eru trúarrit sem sver sig til síns tíma og til lúthersks rétttrúnaðar. Þeir eru orktir í anda klassískrar guðfræði og víkja í engu frá meginstefnu játninga kirkjunnar og þrenningarkenningunni. Guði föður er lýst sem skapara, föður, dómara og hjálpara. En Hallgrímur var líka trúr hinni lúthersku hefð í því að virða mörk skynseminnar. Eðli Guðs og leyndardóma getur takmörkuð skynsemi ekki skoðað (21:1) og útlistað. Því kenna Passíusálmar enga frumspeki af heimspekitaginu. Hvernig Guð tengist heiminum er tjáð í sálmunum með tvennu. Annars vegar er Guð ástmögurinn mikli sem ber velferð heims og manna fyrir brjósti (44:4, 44:6, 3, 20). Sú ástarafstaða birtist einnig í mynd reiði sem bregst við heimi sem leitar en fer þó villuvegi (26:2, 12:22 o.áfr.). Guði er ekki lýst sem fjarlægum hátignarkóngi heldur í stöðugum og gagnvirkum tengslum við alvöru heim. Um himinn og guðseðlið vill Hallgrímur ekki segja meira því hann telur sig ekki hafa heimild til að lýsa hinu ólýsanlega. Í því er hann hógvær og þekkir mörk sín, mörk hugsunar og mæri máls.

Jesús í Passíusálmum

En guðsmyndirnar sem við greinum í Passíusálmunum eru þá myndir af Jesú Kristi. Í sálmum er honum hvorki lýst sem hernaðarhöfðingja né dulrænum frelsara af hæðum. Honum er fremur lýst sem guðssyni sem afsalar sér hátign og valdi og gengur inn í stöðu líðandi fulltrúa mannkyns. Í sálmunum er því ekki mikið rætt um hátignareigindir Jesú, hvort hann sé alvitur eða almáttugur. Slíkri túlkun er haldið í lágmarki. Hallgrímur var ekki með hugann við guðfræðilegar útfærslur. Hann virðist hafa aðhyllst hefðbundnar kenningar um Guð og þar með um Jesú Krist. Hann vissi vel af yfirskilvitlegri visku Jesú (1:24, 42:3) en túlkaði merkingu þess ekki frekar.

Þjáningarferill hins líðandi konungs er meginefni eða brennigler sálmanna. Jesús verður fyrir alls konar andróðri og þar með þjáningu. En Jesús líður auðmjúkur og velur að mögla ekki. Lýsingar á písl Jesú er með  fjölbreytilegu móti í Passíusálmunum. Hann er sleginn og hundeltur. Í sálmunum er að honum er vegið að utan. Jesús er niðurlægður. Að hann er lagður á jörðu er tákn um algera lægingu hans. Hann er bundinn, fangelsaður og húðstrýktur (9:10, 2, 3, 6, 23, 38). Árásir Jesú eru úr heimi manna. Að honum er hæðst. Til hans er talað með fyrirlitningu og líkami hans verður fyrir aðkasti. Jafnvel náttúran snýst gegn honum. Líkami hans brestur, svitnar blæðir og skelfur (3). Hið illa er allt um kring og sækir að honum og pínir.[2] Öll skelfing heimsins og fylling illsku hans snýst gegn þessum eina (33).

Fyrir mig – þig

Þjáning Jesú er staðgengilþjáning. Adam er í Passíusálmunum samheiti fyrir alla menn. Þá refsingu sem mannkyn á skilið kemur niður í einn stað – hinn líðandi kóng Jesú Krist. Hann er látinn gjalda fyrir hönd Adams, allra manna. Af píslargöngu hans sprettur sigur og þar er þjáningu og sekt eytt. Bæði menn og veröld öll njóta ávaxtarins (3:10). Passíusálmarnir eru saman settir út frá leiðarstefinu „fyrir mig.“ Sá eða sú er fylgir Jesú eftir til hinstu stundar mun ekki aðeins verða vitni að ópersónulegu kraftaverki heldur eignast hlut í því. Þær líkingar sem notaðar eru í sálmunum um frelsunarávöxt Jesú Krists eru úr sjóði klassískrar kristni. Jesús er upplúkning skuldar okkar (3:13), hann kaupir akur miskunnar fyrir blóðdropa sína (17:15), hann leysir fólk úr útlegð (17:23), hann er sá vindur sem feykir burt skýjum (5:5), hann er sá ólívumeiður sem gefur af sér frelsi þegar hann kraminn (2:1).[3]

Menn og sköpun

Þar sem meginfókus sálmanna er í líkingunni af líðandi konungi litar hún hvernig fjallað er um menn og náttúru í Passíusálmunum. Sá spegill sem Jesú bregður upp er með tvennu móti. Annars vegar lýkur hann upp stöðu okkar mannfólksins gagnvart Guði og hins vegar sýnir hann okkur eðli okkar og köllun (9:3). Sumpart er maðurinn fólginn í Jesú en jafnframt eru allir menn Adam, fallinn og þjáður. Jesús bergir bikar þjáningar til fulls en „ég“ aðeins til hálfs. Hann er Guð en „ég“ sem þýðir Adam – allir menn – aðeins flekkaður og fallinn. Sem mannverur leitumst við að brjóta helsi okkar. En slík iðja gerir illt verra. Við hrösum, leggjumst lágt, erum sem föst í pytti, neti eða öðru sem sleppir ekki. Passíusálmarnir lýsa stöðu manna í heimi ranglætis og synda með hjálp líkinga sem tjá fangelsun eða fresissviptingu. Hin stærstu glöp manna er að greina ekki rétt stöðu sína og möguleika. Öllum skjöplast og hrekjast út af þrönga veginn. Mönnum er lýst sem takmörkuðum og þurfandi verum sem hvorki megna að leysa sig sjálfar né geta.

Hið brotna jafnvægi og rásleysi

Þegar í fysta sálmi er talað til sálar: „Þurfamaður ert þú mín sál.“ Líkami manna er brothættur og visnar (17:10). Hallgrímur bregður á loft fjölda líkinga til að tjá þessa meginstöðu manna, líkingum af forgengilegum náttúrufyrirbærum og brothættum hlutum í mannheimi: Menn eru glerker, sem auðveldlega getur brotnað (1:27), leirílát (17:5), hveitikorn, sem sáð er, ber ávöxt og visnar síðan (17:27) og nakin erum við borin í heim (36). Sálargáfur eru takmarkaðar. Skynsemin getur ekki höndlað nema afmarkaða tilveru, þekking er brigðul og leiðir afvega (7:3, 11:3, 21). Heiðarleiki hripar í burt og menn eru sem brotinn reyr og óstöðugt hold (11:2, 11:8). Þótt ráð og leiðsögn vina sé mikilvæg eru þó þar brestir líka, því samfélag manna er skert hversu þroskað sem það er. Af mönnum er einskis fullkomins trausts að vænta og þegar dýpst er skoðað er hver maður einn og óstuddur (9:2, 7:12). Menn reyna að hagræða veröld sér í hag en rugla eða brengla þar með skipan skaparans. Annað hvort fara menn of stutt og axla ekki ábyrgð þá sem mannlífi fylgir eða fara of langt og falla því út af sköpunarreit sínum öðrum hvorum megin. Menn misnota vald og fara of langt (9), gerast forvitnir (21), reyna að halda út fyrir mörk skynsemi (14:11). Mörk  tungunnar og skipan tungumáls eru brotin. Hægt er að segja of mikið t.d. með baktali og lygi eða með því að segja ekki satt um það sem verður að segja. Möglun er ennfremur röng notkun málsins. Hroki er ofvaxin og því röng sjálfsímynd og leiðir til ills athæfis (11, 13:3, 18:10). Þegar of stutt er farið og ekki gætt réttar er sannleika ekki gætt og samfélagið allt líður fyrir. Höfðingjum og valdamönnum er hætt (28:7). Annað dæmi um að fara of skammt og brjóta sett mörk er að huga ekki að hinum smáu, fátæku og hrjáðu (14:14). Þegar menn fara of skammt eða fara of langt er marka ekki gætt og illska magnast og þjáning leiðist af. Báðum megin við reit manna og athafna þeirra er hengiflug sem menn falla í og leiða aðra í ef þeirra er ekki gætt í hugsun, orðum og æði. Það er því sterk siðvitund í sálmum Hallgríms og hvati til réttlætis í þjóðfélagi manna.

Hverfulleiki

Allt er takmarkað og hverfult í heimi. Jafnvel tíminn er markaður (15) og manneskjan er sett undir hverfulleika hans (8:17). Hvert augnablik í núinu er gefið til góðs. Framtíð er ekki tryggð og sérstaklega er siðferðisáhersla sálmanna skýr þegar rætt er um vald manna yfir öðrum. Höfðingjarnir skyldu ugga að sér. Vald þeirra er ótryggt og verður af þeim tekið (8:18). Tákn ljóss og myrkurs eru gjarnan notuð til að tjá óöryggi og hverfulleika alls sem er (4:18-19, 5:2). Manneskjan er ferðalangur í tíma, undir stöðugri aðsókn og ógn, sett mörkum á líkama og sál.[4] En menn bregðast og falla því. Sérstaklega er fallið fyrir því sem mannheimur veldur. Spillt vald og stjórnmál er uppáhaldsatriði Hallgríms (18). Valdahallir verða táknmyndir djöfulegs öryggis- og samtryggingarnets illvelda. Í sölum þessum er æpt að Guði og þjónum hans (10-29). Réttlæti valdaherra er jafnan aðeins á yfirborði (26, 30).

Máli skiptir hvað valdi er lotið

Heimur, menn og mannfélag er afmarkað og með skýrum mörkum. Í Passíusálmum er hvatt til að menn geri sér ljósa grein fyrir þessari sköpunarskikkan og gæti stöðu sinnar í hvívetna. Í fyrsta lagi skyldi hver maður gera sér grein fyrir að engu valdi skal lúta nema Guði. Að öðrum kosti hrasa menn og falla í eitthvert díki, fangelsi, myrkur og örvæntingu (3:11, 4:8 6, 9:3, 9:5, 12, 17, 23, 29, 12, 41:17). En ef rétt vald er tilbeðið, Guð, getur maðurinn lifað vel og verið ábyrgur. En list trúarinnar er ekki list hvíldar og kyrru heldur vegur eftirfylgdar. Hinn kristni maður sem fylgir Jesú er á stöðugri för, fylgir eftir meistara sínum á leið um mannheim með öllum verkefnum sem þeim heimi fylgja. Förin er líka för upp til Jerúsalem og þáttaka í öllum verkefnum og áraun sem meistarinn varð fyrir. Jesús sem líðandi konungur leiðir pílagrím um klungur trúar til lokahæða. Hinn trúaði hlýtur stöðuglega að endurnýja sambandið við meistara sinn, vera í stöðugu sambandi og feta götu í skugga hans. Þar með viðurkennir hinn trúaði öll takmörk sem veröld eru sett og getur betur fótað sig. Trúarlíf er aldrei án siðferðis í skilningi Passíusálma. Siðleg breytni tekur mið af þeirri veröld sem uppteiknuð er. Gott siðferði á upphaf í trú til hins eina raunverulega máttarvalds sem er Guð. Í afstöðu til tímanlegra valdsherra veraldarinnar gengur hinn trúaði fram eins og Jesús, lætur yfir sig ganga hið illa en berst jafnframt gegn röngu valdi sem er illt. Hinn trúaði á að reyna í öllu að gæta meðalhófs í samskiptum við samferðamenn, í orðum og æði og stjaka ekki heldur við meðreiðarsveinum sínum á einstigi lífsins (1:19, 2:9, 2:18, 9:13, 14:11, 18:5, 22:2, 34:4). Ábyrgð manna er mikil og sérhvern skyldi umgangast eins og sjálfan sig. Í öllu verður atferli og iðja Jesú fyrirmynd. Starf hinar kristnu kirkju og safnaðar Guðs á að styrkja menn til þess bænir, orð og sakramenti.

Niðurlag

Guðsmyndir og guðsnálgun með ólíku móti á ólíkum tímum. Hallgrímur var vel að sér og þekkti trúfræðina. Hann valdi mað fjalla ekki um Guð með aðferðum heimnspeki. Guðsmynd hans var ekki hin frumspekilega. Hann notaði ekki hátignarorðræðu um Guð heldur tjáði hið trúarlega með því að segja sögu Jesú Krists. Sú saga sýnir mannvitund og að Guð væri elskur að mönnum, kæmi ekki sem herstjóri, dómari og með eldi og heimsendi heldur sem mennskur þjónn sem lifði eins og aðrir menn. Þar með sprakk konungslíkingin og umbreyttist í annað en veldislýsingu konungsríkis. Hin dramatíska nálgun Hallgríms og innlifun opinberaði guðsmynd sem var mannnálæg og tengdist reynslu fólks. Guð var ekki hátt á tróni sínum í fjarlægum himni heldur hafði áhuga á venjulegu fólki og lífsbaráttu. Því varð trúartúlkun aldanna á eftir þeirri sautjándu sem Hallgrímur lifði á svo lífstengd og nálæg lífsbaráttu venjulegs fólks.

Framsöguerindi í Hallgrímskirkju 7. febrúar 2023. Mynd af listaverki Leifs Breifjörð yfir aðaldyrum kirkjunnar. 

    [1]Nálgun Hallgríms er í anda íhugunarhefðar miðalda. Sjá umfjöllun um fjórar aðferðir túlkunar. Sigurður Árni Þórðarson, Limits and Life: Meaning and Metaphors in the Religious Language of Iceland (American University Studies) 1989, 105-106. Um skiptingu sálmanna samkvæmt inntaki sjá sama rit, 108-109.

    [2]Kvæðið Endurminning Krists pínu sýnir einnig vel hina aðsteðjandi ógn: „°Blessaður sveitist í lóði sín/ barðist við dauðann stranga,/ harmkvæli öll og alls kyns pín/ yfir hans sálu ganga:/ falskoss, fjötur og bönd,/ færður í Júða bönd,/högg, slög, og hráka leið,/ hæðni, álygð og neyð/ og dómsályktan ranga.“ Hallgrímskver, 1952, 127.

    [3]Halldór Laxnes bendir réttilega á dýpt þjáningar Jesú sem umvefur alla þjáningu. Í þjáningu hans er fólgin öll þjáning Íslendinga. Halldór Laxnes, 1942, 41-42.

    [4]Sjá einnig sálminn um dauðans óvissan tíma.

Hvað meinti hann?

Hvað er inntakið eða merkingin í Passíusálmum Hallgríms Péturssonar? Á fræðslusamverum í Hallgrímskirkju í mars var rætt um erindi sálma Hallgríms, uppbyggingu þeirra, tilgang, listfengi, barokk, málfar og ást. Guðríður Símonardóttir, kona Hallgríms, kom líka við sögu. Þrjár hljóðskrár urðu til í þessum samverum og hafa verið birtar á kirkjuvarpi þjóðkirkjunnar. Rætt er við Steinunni B. Jóhannesdóttur, dr. Margréti Eggertsdóttur og að auki flytur Sigurður Árni Þórðarson yfirlitserindi um um ástina í Passíusálmunum. Hægt er að nálgast og hlusta á samtölin og erindi að baki þessari smellu.

Ástin í sóttinni

Hvernig líður þér á þessum COVID-tíma? Hefur þessi tími reynt á þig, dregið þig niður eða hvílt? Líður þér verr eða betur? Og hvaða hugsar þú? Hvernig er hægt að bregaðst við í þessum aðstæðum?

Ég gekk meðfram bókahyllunum mínum og dró fram bækur um farsóttir fortíðar. Þá rakst ég bók, sem ég stalst í á unglingsárunum. Það var bókin Decamerone sem heitir Tídægra á íslenskunni  – pestarbók, sem segir frá fólki í nágrenni Flórence í kólerufaraldri. Þau fara að segja hverju öðru sögur, flestar merkilegar og sumar ansi safaríkar. Svo rakst ég á aðra eftirminnilega sögu um hræðilega sótt. Og dró hana fram úr hyllunni. Það er La Peste – Plágan, bók Albert Camus, sem var í bókaskáp foreldra minna rétt hjá Tídægru. Ég man að ég las hana á sínum tíma af áfergju bernskunnar. Tilfinningar og viðbrögð fólks í hinni lokuðu borg Oran í Alsír höfðu djúp áhrif. Yfirvöldin voru í afneitun og áttu erfitt með að viðurkenna vandann. En læknirinn Bernhard Reiux var meðvitaður um hlutverk sitt og annars hjúkrunarfólks í farsóttinni. Hann vissi ekki frekar en annað samstarfsfólk hvað biði hans. Myndi hann veikjast og deyja? En hann axlaði ábyrgð, mætti verkefnum af skyldurækni og sinnti hinum sjúku. Og mér fannst erindi bókarinnar vera að miðla að öllum mönnum væri sameiginlegt að þrá ást. Margir nytu hennar en allir þráðu hana. Hvað skiptir okkur mestu máli? Það er fólk, tengsl, kærleikur. Ástarþörfin hríslast í okkur og magnast á tíma plágunnar. Kunnuglegt! „All you need is love“ sungu Bítlarnir og það er söngur kristninnar líka.

Viðbrögð í farsóttinni

Hvernig getum við brugðist við kreppum? Saga Íslands er áfallasaga. Hafís, eldgos, uppblástur, snjóflóð, sóttir, barnadauði, mannskaðar á sjó og landi. Áföllin eru í menningunni, hafa litað ljóð, mótað sögur, uppeldi, hlutverk, menningarefnið og jafnvel læðst inn í í genamengi okkar Íslendinga. Við fæðumst nakin og menningin færir okkur í föt, sem halda frá okkur sálarkulda. Hvernig gat fólk túlkað sögu sína svo myrkrið, kuldinn og sorgin linaðist? Við greinum hinar andlegu almannavarnir í bókmenntum þjóðarinnar og sérstaklega í trúarritunum. Þar er spekin, lífsleikni þjóðarinnar í aðkrepptum aðstæðum. Engar plágur og dauðsföll gætu eyðilagt galdur lífsins. Það er boðskapur trúarritanna. Ástin er alvöru.

Ástarasagan

Hallgrímur Pétursson var aðalpoppari þjóðarinnar um aldir. Hann klúðraði málum sínum herfilega á unglingsárum en var bjargað. Saga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms er hrífandi ástarsaga fólks, sem hafði lent í rosalegum aðstæðum en þorði að elska og lifa. Þau misstu mikið, sáu á eftir börnum sínum en töpuðu aldrei ástinni. Þau unnu úr áföllum og vissu að lífið er til að elska og njóta. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu, sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Ástin blómstraði. Þessi mikla ástarsaga varð jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma, saga um hvernig væri hægt að elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskast þrátt fyrir hræðileg veikindi, sækja í andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Ástarsaga, alvöru klassík fyrir krepputíma.

Lífið í passíunni

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma, sem ég dró líka fram úr bókaskápnum. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsaga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.

Erkisagan um okkur

Hvernig líður þér og hvað ætlar þú að gera með reynslu þessa undarlega tíma? Í öllum kreppum er hægt að bregðast við með því að flýja eða mæta. Annað hvort flýjum við og látum kreppuna fara illa með okkur. Töpum. Eða við mætum og horfumst í augu við sorg, sjúkleika, einsemd eða áföll. Og kristnin er um að lífið er ekki kreppa heldur ástarsaga. Ég kippti Biblíunni úr hyllunni með hinum bókunum. Þar eru allar farsóttir og kreppur heimsins saman komnar. En þar er líka meira en bara sögur fyrir innilokað fólk. Jú, margar safaríkar sögur. Þar er efni um óábyrga en líka ábyrgt fólk sem axlar ábyrgð. Þar er boðskapur um að flýja ekki heldur mæta. Með ýmsum tilbrigðum er sögð mikil saga um hvernig farsóttum heimsins, raunar öllum áföllum er mætt. Það er erki-ástarsagan. Sagan um Guð, sagan um heiminn og sagan um þig.

Íhugun í heimahelgistund. Visir 26. apríl, 2020. Upptaka, Studíó Sýrland, Gestur Sveinsson og Sveinn Kjartansson. Félagar í Mótettukór Hallgrímskirkju og Hörður Áskelsson. 

Bæn: 

Lífsins Guð

Lof sé þér fyrir skínandi sól; fugla í ástaleik, golu á kinn, alla sprotana sem gæjast upp úr moldinni, glaðar öldur og daggardropa sem vökva. Við þökkum fyrir hina dásamlegu sköpun, sem þú gefur líf. 

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

Þú lausnari heimsins

Þú veltir burt hindrunum á leið okkar til lífs og gleði. Lof sé þér fyrir að þú lætur ekki dauðann sigra heldur ruddir lífinu braut. Leið okkur út úr kvíum einsemdar og sjúkleika. Leyf okkur að lifa í vori og sumri upprisu þinnar. Styrk þau og lækna sem eru sjúk og vonlítil. Við nefnum nöfn þeirra í hljóði…….  Ver með fjölskyldum þeirra.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

 Þú andi lífs

Við biðjum þig að blessa öll þau er ganga erinda lífsins, hjúkrunarfólk, kirkjufólk, uppalendur, þjóna almennings. Veit sköpunargleði í atvinnulíf okkar. Blessa þau sem dæma, stjórna og marka löggjöf. Farsæl líf og atvinnulíf samfélags okkar. Ver með þeim sem útbreiða frið þinn, boða orð þitt, þjóna að altari þínu, hlúa að æsku og mennta fólk og efla til lífsleikni. Gef vitur ráð í þjónustu við þig. Allt skapar þú Guð, allt leysir þú, allt lífgar þú.

Fyrir Jesú Krist, Drottinn vorn: Drottinn heyr vora bæn.

Allar bænir felum við í bæn Jesú og segjum saman:

Faðir vor, þú sem ert á himnum.
Helgist þitt nafn, til komi þitt ríki,
verði þinn vilji, svo á jörðu sem á himni.
Gef oss í dag vort daglegt brauð.

Fyrirgef oss vorar skuldir, svo sem vér og fyrirgefum
vorum skuldunautum. Eigi leið þú oss í freistni, heldur frelsa oss frá illu. Því að þitt er ríkið, mátturinn og dýrðin að eilífu.

Drottinn blessi þig og varðveiti þig.

Drottinn láti sína ásjónu lýsa yfir þig og sé þér náðugur.

Drottinn upplyfti sínu augliti yfir þig og gefi þér frið.

 

Ástarsagan

Á innilokunartíma á föstu 2020 hvarlar hugurinn til Passíusálmanna. Er eitthvað í þeirri sögu sem er mikilvægt og sígilt? Hvernig var saga höfundarins? Við vitum að Hallgrímur var metinn og jafnvel elskaður af formæðrum og forfeðrum okkar? Af hverju? Margt kom til, skáldskapurinn vissulega – en líka maðurinn og ævi hans. Hann var hæfileikastrákur, sem fór þó í hundana. Hann týndist þó ekki alveg bölvandi og ragnandi í Glückstad, heldur reis upp og nýtti alla hæfileika sína. En það var ekki bara bókmenntaperlan Passíusálmar, sem varð til að kynslóðir Íslendinga elskuðu hann, heldur margþátta ástarsaga Guðríðar Símonardóttur og Hallgríms. Þeirra smellur er eins heillandi og ástardrama getur orðið. Saga um konu sem var rænt, herleidd, flekkuð, en varðveitti í sér undur og ást. Og svo sveinninn, sem hafði týnst í járnsmiðju í Evrópu, en var svo settur til að kenna íslenskum leysingjum frá N-Afríku kristinn sið að nýju. Og ástin blómstraði. Þau áttu erfiða daga, en brotnuðu ekki heldur elskuðu. Og líf þeirra bar ávexti. Þau horfðu á sín börn og hugsuðu um hvernig hægt væri að veita þeim gott líf. Þau leituðu, fundu en misstu líka mikið. Þessi mikla ástarsaga varð eiginlega jarðteinasaga á eftir-kaþólskum tíma um hvernig dýrlingar verða til, hvernig þeir elska þrátt fyrir hatur, lifa í reisn þrátt fyrir mótlæti, þroskuðu andlegt heilbrigði þrátt fyrir hræðileg veikindi, og sýndu andlegan styrk þrátt fyrir holdsveiki. Stór og heillandi ástarsaga. Klassík.

Ástarsaga Guðríðar og Hallgríms er gluggi að safaríkum lífsvísdómi Passíusálma. Þar er sögð saga Guðs. Þar er uppteiknuð mynd af Guði umhyggjunnar, en ekki reiðum guði. Guð, sem kemur, en er ekki bara fastur á tróni fjarlægs himins. Guð, sem líknar, vinur en ekki óvinur. Passíusálmarnir urðu guðspjall Íslands. Sálmarnir uppfylltu andlegar þarfir og svo var bókin lögð á brjóst látinna, eins og vegabréf fyrir himinhlið.

Íslensk menning hefur breyst. Ný viðmið hafa orðið til. Tengsl trosna og gliðna eins og við prestar sjáum oft. Einstaklingarnir eru berskjaldaðri en áður var. Stofnanir hafa riðlast og virðing þeirra hefur minnkað eða veiklast. Fólk leitar ekki lengur að stofnun heldur upplifun, reynslu, því sem kemur til móts við djúpa kærleiksþörf fólks. Á bak við Passíusálma er merkileg ástarsöga um Hallgrím og Guðríði. En á bak við þau og okkur öll er ástarsaga Guðs.