Greinasafn fyrir merki: Palma

Gaudi og ljóskeilur í Barcelona

Einu sinni sá ég nunnur og presta í Assisi forðast að ganga í sólinni og þau gættu þess að vera alltaf í skugganum. Hitinn var mikill og sólskinið brennandi. Það var dálítið fyndið en ég skildi að með hoppum og stikli reyndu þau að forðast hitann. Ég hef gengið um Jerúsalem, Akka, Genúa, Róm, Malaga, Palma og fleiri suðrænar borgir og furðað mig á hve þétt húsin standa. Svo uppgötvaði ég að í þrúgandi hita er hagkvæmt að stutt sé milli húsa því þau verða fólki, dýrum og húsum skjól. Þau standa svo þétt svo sólskinið skíni sem minnst á vegfarendur og byggingar. Í skuggasundunum er þægilegra að ganga og sitja en í brennandi sólskini og steikjandi hita. Á suðrænum slóðum er mikilvægara að huga að hita og kulda en birtu. Því eru borgirnar í suðrinu með merkjum hugsandi skipuleggjenda. Á norrænum slóðum er mikilvægara að tryggja sem mest ljós en vörn gegn hita. Því er ólánlegt að byggja þéttstæð háhýsi í okkar heimshluta. Þá er ofuhitaarkitektúr ranglega laumað inn eða smyglað í ljósþurfandi byggðir. Þorp og borgir á að skipuleggja til að þjóna fólki og góðri líðan þess.

Palmahúsið

Einu sinni fengum við fjölskyldan lánaða íbúð í gamla hluta Palma, hjarta borgarinnar. Húsið er gamalt, líklega nokkur hundruð ára. Hverfið er enn eldra og með þröngum götum sem halda brennandi sumarhitanum frá og hindra skyndikælingu á vetrum. Íbúðin var dásamleg og hafði verið gerð upp nostursamlega og smekklega. En ég furðaði mig á skipulagi hennar og húsanna í þessum gamla borgarhluta. Litlir gluggar með opnanlegum hlerum voru götumegin og mót suðri og allir svo gerðir að hægt væri að loka þeim, bæði til að hindra ofurbirtu og hitamók sumardaganna en líka hitamissi í vetrarkuldum. Í miðju íbúðarinnar var enginn miðjugangur eins og í mörgum íslenskum íbúðum tuttugustu aldar. Í miðju húsanna í Palma er hins vegar ljóskeila. Húsin eru með miðjustrokk sem opinn er frá neðstu hæð og uppúr – tvær til fjórar hæðir. Gler er allan hringinn kringum ljóskeiluna. Á hæðunum koma íbúar fyrir kerjum fyrir blóm og kryddjurðir í strokknum og við hann. Innan við gluggana er síðan gangur sem nær í kringum ljóskeiluna og gengið er í herbergi, eldhús, baðherbergi og stofur þaðan í frá. Vissulega voru margar íslenskar íbúðir skipulagðar með hringgöngu en án ljóskeilu í miðju. Til eru ljóskeiluhús á Íslandi. Eitt er í götunni þar sem ég bý og oft hef ég komið í hús með „japanskri“ miðju. Þau hús er hönnuð til að hámarka náttúrlega birtu innan dyra. 

Casa Batlló í Barcelona

Palma-útgáfa var áhugaverð og íhugunarefni. Svo þegar ég kom í Casa Batlló-húsið í Barcelona sem Gaudi hannaði sá ég sama skipulag. Reyndar voru ljóskeilurnar tvær í því húsi en ekki ein. Ekki var opið upp úr heldur lokað með gleri til að varna gegn vatni, kulda og ofurhita. Og Gaudi var meistari skreytinga og glæsileika svo ljósbrunnurinn er allur skreyttur og það glæsilega. En lögmálið er það sama í ljóskeiluhúsum á Mallorca, Barcelona eða öðrum borgum við Miðarðarhaf. Brunahita var og er haldið úti, vetrarkulda líka en ljósflæðið tryggt innan hús með ljóskeilu. Ljós frá miðju og svo inn í vistarverur. Skipulagið rímar við sólmiðju og guðsmiðju veraldar. Heillandi.

 

Palma er í plús

Íslendingar tala um Majorkaveður og flestir skilja að það er gott veður. Frá 1958 fóru Íslendingar í sólarlandaferðir til „Mallorca.“ Veðrið var lofað, ódýrt vín líka og líflegt strandlíf. En er það allt og sumt? Eru íbúar eyjarinnar ódýrt vinnuafl í þjónustu sólarþyrstra N-evrópubúa? Við, fjölskyldan, höfum farið í sólarferðir til Florída, Kanarí, meginlands Spánar, í Eyjahafið gríska og til Portúgal og Ítalíu en aldrei til Majorku. En svo opnaðist möguleiki. Elín Sigrún, kona mín, fann fallega íbúð í Palma sem eigandinn vildi gjarnan lána okkur. Svo við slógum til og fórum í viku.  

Við vorum heppin. Íbúðin var í hjarta gömlu Palma, rétt hjá Chopin-torginu og við Nikulásarkirkjuna við Mercat-torg. Í þessum borgarhluta er engin bílaumferð. Göturnar eru þröngar og skýla vel gegn brennandi sólarhitanum í ágúst. Borgin er svo miklu ríkulegri en mig óraði fyrir. Sagan er þykk og fjölbreytileg enda Palma siglingaborg frá því í fornöld og stjórnsýslumiðstöð stórrar eyjar með tengsl við nærliggjandi stórveldi. Márarnir byggðu glæsilegar byggingar á miðöldum og þegar þeir misstu völdin var byggt áfram í stórveldisstíl. Þessar byggingar eru áhugverðar og skemmtilegt og lærdómsríkt að skoða. Baðstrendur eru nálægar og fljótlegt að ganga eða hjóla frá bænum á ljómandi strendur með góðri þjónustu. Sigling með fallegri og klettóttri strönd flóans er meðmælanleg. Við fórum eins slíka ferð á katamaran og nutum veislu um borð og syntum í sjónum. 

Majorka tengist íslenskri sögu fyrri alda. Þegar leysingjar „Tyrkjaránsins“ komu úr barbaríinu í Norður-Afríku voru þeir sendir til Palma á leið til Kaupmannahafnar. Ég hugsaði því um Guðríði Símonardóttur, konu Hallgríms Péturssonar, þegar ég gekk um hafnarsvæðið (og ég mæli með hinni frábæru reisubók Guðríðar eftir Steinunni Jóhannesdóttur). Glæsilegar byggingar hafa verið á Majorku um aldir og allt til þessara daga hefur verið bætt við. Nýja ráðstefnuhöllin er eins og Harpan í Reykjavík – mikið mannvirki. Kirkjurnar eru stórkostlegar og stutt á milli þeirra. Skoðunarferðatemun geta verið ólík og mörg. Palma verður seint fullkönnuð. 

Ég heillaðist af íbúðinni okkar. Hún er lokuð út mót götum og veröldinni en skipulögð í kringum ljóskjarna sem veitir birtu í öll herbergi. Húsagerðin þjónar því að halda hita úti á sumrin og hita inni á vetrum en tryggja ljósflæði um allt. Í hjarta Palma fara allir ferða sinna fótgangandi. Því er kyrrð í borgarhlutanum. Stutt er í allar verslanir og stórmarkaðir eru nærri. 

Palma var svo miklu ríkulegri en mig hafði órað fyrir. Þjónustan við okkur aðkomufólkið var slök og óáreitin, byggði á gömlum merg. Veitingahúsin eru mörg, alls konar, ekki aðeins í miðborginni heldur á Granda – hafnarsvæði – þeirra Palmabúa líka. Eldamennskan mjög góð og víða heillandi. Palma hefur flest sem ferðafólk við Miðjarðarhaf óskar eftir. Listalífið er fjölbreytilegt og hvergi í heiminum hef ég séð eins mikið af góðum listagalleríum á litlu svæði og í Palma – og hef ég farið víða. Áhugaverðar sérverslanir eru ótrúlega margar og staðfesta þykka og söguríka menningu. Palma er snyrtileg, vel skipulögð hafnar-, ferðamanna- og menningar-borg. Hún er litrík, glaðvær, slök, vellíðandi, glæsileg og elskuleg. Palma er ekki bara borg hins góða veðurs heldur borg gæða á svo mörgum sviðum. Alicante er fín, Valencia og Kanarí líka en Palma er betri. Við vorum öll sammála um að Palma var mun ríkulegri en við áttum von á. Okkur leið vel í hjarta Palma – gömlu borginni – og við viljum gjarnan koma aftur og dvelja þá í sama hjarta Palma – gönguhlutanum fremur en á hótelasvæðinu. Palma er í algerum plús. Takk Púma og takk Palma . 

Myndir okkar frá Palma eru á slóðinni að baki þessari smellu.