Ég varð einu sinni vitni að vopnuðu ráni í sjoppu í borginni Nashville í Bandaríkjunum. Ég hafði farið á föstudagskvöldi til að kaupa nauðþurftir fyrir sambýlinga mína. Þegar grímuklæddur byssumaður hentist inn um sjoppudyrnar var ég eini viðskiptavinurinn í búðinni. Allt gerðist ofurhratt. Ég átti bágt með að trúa eigin augum og eyrum. Ránsmaðurinn var æstur og augnaráðið tryllingslegt. Hendur hans titruðu og skjálfandi byssan voru tákn þess að maðurinn væri til alls líklegur. Afgreiðslumaðurinn tók fyrir hjartað og staulaðist að peningakassanum. Hann gerði sig líklegan að afhenda grænt dollarabúnt. Allt í einu beindi ræninginn byssunni að mér. Mér fannst hlaupið svo stórt að það minnti helst á haglabyssuhlaup. Svo heyrði ég hann öskra: „Leggstu á gólfið með andlitið niður.” Ég lyppaðist niður. Það var mun verra að geta ekki séð neitt eða fylgst með með framvindunni. Ég vissi ekki, hvort maðurinn væri líklegur til að lóga okkur afgreiðslumanninum eða hvort þetta væri bara venjulegur þjófur sem vildi valda sem minnstum usla en ná sem mestu fé. Af því ég sá ekkert bjóst ég við hinu versta. Ég fékk sting í aftanverðan hálsinn og hnakka eins og kúla færi brátt í gegnum höfuð mitt. Ræninginn fékk féð og hljóp út. Ég staulaðist á fætur og fór að stumra yfir afgreiðslumanninum sem var enn með sáran verk í hjarta og ofsahræddur. Þá sá ég að hann hafði verið með skammbyssu í afgreiðsluborðinu og skildi að hann hafði verið í spennu hvort hann ætti að grípa hana og skjóta. Ránið settist að í mér og þegar ég minnist þess finn ég enn fyrir verknum í hnakkanum og óttanum.
Hví hræddir?
Texti dagsins er í áttunda kafla Mattheusarguðspjalls. Jesús og hópur hans hafði lokið verkum og þeir höfðu lagt í hann. Í stað þess að ganga fóru þeir í bát. Jesús var óttalaus og sofnaði. Veðrið snarversnaði og rokið skóflaði upp öldum. Lærisveinarnir ýttu við meistara sínum og báru upp erindið: „Herra, bjarga þú, við förumst.” Jesús spurði: „Hví eruð þið hræddir, þið trúlitlir?” Hann hastaði síðan á veður og vatn og þeir náðu áttum og landi og undruðust. Báturinn er tákn um stærri veruleika, hluti fyrir heild, hvort sem það varðar friðarmál, umhverfismál eða menningarmál. Við erum öll á sama báti hvort sem við erum söfnuður á Íslandi, vinahópur á Genesaretvatni, þjóð, mannkyn eða jarðakúlan. Við eigum samleið og eigum allt undir að báturinn farist ekki í einhverju stormviðrinu. Það skiptir síðan öllu máli hver er í bátnum og hver bjargar.
Samfélag óttans
Condoleezza Rice sem var utanríkisráðherra Bandaríkjanna notaði gjarnan orðasambandið „samfélag óttans“ fear society til aðgreiningar frá því samfélagi sem væri í jafnvægi. Ótti hefur um aldir læðst um og spillt heilbrigði þjóðfélaga og þar með menningar. Frá tíma Hermanns Göring í þriðja ríkinu hafa margir og meðvitað alið á ótta. Í samfélögum samtímans reyna hópar að magna spennu og tortryggni sem seytlar síðan um æðar menningar og samfélaga. Í öllum átakamálum samtímans eru óttavaldar á fullu. Óttamenning er þeirra kjörlendi.
Í máli okkar eru til fjölmörg orð yfir það sem er ógnvænlegt og vekur með okkur sterkar tilfinningar: Kvíði, ótti, hræðsla, beygur, uggur, angist og skelfing. Til skilningsauka getum við flokkað hræðsluheitin í þrjá flokka. Í fyrsta lagi eru þau orð sem vísa til þess sem er hið innra í okkur. Flokkur númer tvo varðar hræðsluefni hið ytra og eru fyrir utan okkur. Þriðji flokkurinn er síðan það sem er handan hins þekkta heims og lífs. Ég nota orðið hræðsla um allar víddirnar en síðan eru einstök hugtök, sem eiga betur við einstaka flokka en aðra. Hræðslu hið innra kalla ég kvíða en hræðslu við eitthvað hið ytra kalla ég ótta. Þriðji flokkurinn er sérstakur og varðar það sem ég kalla ugg eða lífsangist.
Kvíðinn
Hræðsla hið innra er kvíði gagnvart einhverju sem við ímyndum okkur, einhverju sem ekki er en gæti orðið, einhverju sem er ekki nálægt eða yfirvofandi en veldur samt hræðslu. Flughræðsla er dæmi um kvíðaefni. Staðreyndin er sú að það er hættulegra að keyra út á flugvöll en ferðast með flugvél. Þetta vita flestir en samt eru margir hræddir. Aðrir eru kvíðnir vegna veikinda eins og krabbameins þó ekkert bendi til slíks. Áætlað er að nærri sjö prósent fólks sé haldið kvíða þ.e. yfir tuttugu þúsund Íslendingar. Enginn smáfjöldi! Kvíðaefni geta orðið svo ógurleg í lífi einstaklinga að þeir verða sjúkir og líf viðkomandi undirlagt og brenglað með ýmsu móti.
Óttinn
Svo er hræðslan sem beinist að ákveðnum atriðum. Það er óttinn gagnvart beinum ógnum t.d ofbeldismanni sem beinir ofsa sínum að þér. Byssumaður í búð er hræðilegu ógnvaldur. Það er líka raunverulegt óttaefni að vera í sama rými og stórt og svangt rándýr. Óttinn á sér rætur í reynslu sem er miðlað í menningu eða sem einstaklingurinn hefur orðið fyrir. Ef tilefni óttans er ógurlegt og yfirvofandi getur fólk fyllst skelfingu. Ef maður er á efstu hæð háhýsis sem er alelda hið neðra, engar flóttaleiðir mögulegar og engar þyrlur nærri verður fólk hrætt. Þau sem voru á efstu hæðum tvíburaturnanna í New York eftir að flugvélarnar flugu á þá voru í þeirri stöðu. Ef maður keyrir í hálku og stór strætisvagn kemur skautandi stjórnlaus beint á móti manni, engar bremsur virka og áreksturinn virðist yfirvofandi er ekkert einkennilegt að skelfingin verði alger.
Flokkun reynslu
Bátsverjarnir voru hræddir. Kannski var einhver þeirra kvíðinn svona almennt talað. En ástandið var þó meira en kvíðvænlegt. Þeir voru fullir ótta við óveður sem var svo rosalegt að vanir sjómenn töldu að lífi væri raunverulega ógnað. Því vöktu þeir Jesú og leituðu aðstoðar. Hann spurði: „Við hvað eruð þið hræddir” og bætir við „þér trúlitlir?” Hver eru þá tengsl trúar og hræðslu? Það var ekki kvíði sem ég upplifði í búðarráninu heldur ótti við klikkaðan ránsmann. Ef mér hefði ekki lánast að vinna úr reynslunni hefði ég getað orðið kvíðinn og haldið að ég lenti í ráni í sjoppum heimsins í hvert sinn sem ég færi í slíka. Það sem varð mér drýgsta umhugsunarefnið í kjölfar þessarar reynslu var hversu lífið er brothætt og hve lítið þarf til að manneskjan drukkni í öldugangi daganna og lífið hverfi. Gagnvart háska vakna oft spurningar um hinstu rök. Það eru trúarlegu spurningarnar. Líf okkar gefur tilefni fyrir úrvinnslu. Það er trúarglíman. Ef við náum ekki að þroska með okkur trú geta hræðsluefni valdið skemmdum t.d. í mynd kvíða og alvarlegri andlegum sjúkleika.
Uggur og angist
Kvíði og ótti eru ekki trúarleg fyrirbæri en geta orðið tilefni til trúarlegrar glímu og hafa ýmsar trúarlegar skírskotanir. En ein tegund hræðslu varðar trú. Hún er handan þess sem við köllum kvíða og ótta. Þá á ég við það sem stundum hefur verið nefnt uggur eða angst í erlendum bókum og danski heimspekingurinn Sören Kierkegård notaði til að nefna það sem er djúprættara en venjulegur ótti við eitthvað. Þessa vídd hræðslunnar getum við líka kallað lífsangist. Í ritum Kierkegård og síðan ýmissa tilvistarspekinga á tuttugustu öld merkir angst allt annað en kvíða eða ótta við veraldarfyrirbæri eins og dýr, hættulegar aðstæður eða fólk. Kierkegård lagði áherslu á að menn væru frjálsir en gagnvart Guði mistækist þeim. Menn væru því fullir af ugg sem er staða hins seka gagnvart hinu guðlega. Uggur er líka hræðsla gagnvart djúpum sjálfsins og tilverunnar, hræðsla gagnvart innræti og merkingu heimsins, dýptum okkar sjálfra og líka myrkrinu. Uggur er hræðsla við hið óþekkta og hræðilega í okkur sjálfum og heiminum, því sem er handan við veruleikann eins og við sjáum hann og þreifum á.
Lífsangist
Kvíða- og ótta-efni er hægt að sefa án hjálpar trúarinnar. En lífsháski og ótti rífur hins vegar falskt öryggi og opinberar sálarnekt okkar. Að okkur læðist í kjölfarið lífsangist, þessi grunur um að líf okkar sé ekki fyllilega rétt og ekki fullsátt eða fagurt nema eitthvað meira komi til, eitthvað sem sættir andstæðurnar hið innra, streituþætti veraldar og leysi tilvistargáturnar, geri upp óuppgerð mál og líka höfuðsyndir mannkyns sem engir menn megna að leysa. Dæmi um slíkt eru þjóðarmorð. Menn í þessum heimi eru í báti sem siglir sjó lífsbaráttu. Við reynum að túlka reynslu okkar. Þegar verst lætur mögnum við hjátrú, hindurvitni, ofstopa eða hatur á grundvelli hræðslu. Þegar vel fer lærum við af aðstæðum, horfumst í augu við hræðsluna og verðum skynug og vitur. Það er mannlegt að hræðast. En það er hollt að gera sér grein fyrir hvað eru kvíðaefni, hvað óttaefni og hvað uggur um inntak tilverunnar, okkur sjálf og Guð. Að lifa er oft háskalegt en það er hræðilegt að sjá bara bylgjurnar og taka ekki eftir honum sem er í bátnum með okkur og getur bjargað. Við þurfum að viðurkenna hræðsluefni okkar en líka læra að sjá það sem gerir upp angistina. Trúmenn hafa engin fyrirheit um að sleppa betur en hin trúlitlu. Það sem gerir gæfumuninn er að eiga þann að í bátnum sem hjálpar í óveðrinu. Við megum rífa í hann þegar allt virðist vera að sökkva. Þá tikkar trúin inn og hjálpar í glímunni við kvíða, óttaefni og líka angist hinnar meiri. Þeir sem eru einir á báti eru trúlitlir og sjá oft tilveruna bara í mynd óveðurs og ógna leggja því sitt til samfélags óttans. Þau eiga ekki neina algilda vörn gegn vonsku og hættum. Byssuhlaupin verða slíkum að skelfingarmálum sem kalla á ofbeldisviðbrögð og ofsa. En þegar menn gera sér grein fyrir að kvíðaefni og önnur fár heimsins eru gárur sem hægt er að hasta á með hjálp skapara himins og jarðar verður auðveldara að glíma við kvíðann, líka óttann sem og lífsangistina. Trú verður ekki til á grundvelli hræðslunnar. En hræðslan verður stundum tilefni þess að menn fara að leita til trúar og síðan til hans sem er viðfang og höfundur trúarinnar. Þegar menn eru í þeim sporum þá vaknar hann. Þá fá menn tækifæri til að upplifa að kvíðinn getur sefast, óttinn líka og uggurinn dvínar.
Fjórði sunnudagur eftir þrettánda. Jes. 40.25-31. Rm. 13.8-10. Matt. 8.23-27.
Meðfylgjandi mynd eftir Shepard Fairey, We the people are greater than fear frá árinu 2017.