Sprengjur sprungu í Belgíu í vikunni. Yfir þrjátíu létust og hundruð manna særðust. Myndirnar sem bárust með vefmiðlum heimsins voru hjartaslítandi. Drengirnir á mínu heimili voru heima í skólafríi og urðu varir við að dagskráin var rofin. Skyndifréttatími færði þeim vátíðindin og þeir hringdu í okkur foreldra sína til að ræða málin. Með sprengjurykinu þyrluðust spurningarnar upp. Koma þessir glæpamenn til okkar? Er hætta á að truflaðir sprengjumenn komi líka og ráðist á okkur? Við fórum yfir skelfingarefnin – og svipaðar spurningar og vöknuðu í tengslum við ofbeldisverkin í París í nóvember síðastliðnum. Brusselsprengjurnar voru ítrekun á voðaverkunum í Frakklandi. Og þar sem við fjölskyldan vorum nýlega á ferðinni í Evrópu og Afríku ræddum við ítarlega í tengslum við þá ferð um öryggi, líf, dauða, ofbeldi og hvernig við gætum brugðist við. Hvaða afstöðu temjum við okkur gagnvart því sem ógnar lífi og limum? Hvernig getum við brugðist sem best við?
Öryggi
Hvenær ertu örugg og öruggur? Í hverju eru hættur lífsins fólgnar? Það er ólíðandi að glæpalýður sem knúinn er af hatri og eyðingarfýsn nái að sprengja óttasprengjur sínar og skjóta skelfingarkúlum sínum í almannarými heimsins. En það eru ekki aðeins íbúar og ferðafólk í Brussel og París sem líða. Morðingjarnir í Sýrlandi hafa gert sig að óvinum okkar allra því þeir reyna að valda sem mestum ótta, raunum og skelfingum sem víðast. Og gleymum því ekki að milljónir Sýrlendinganna sem eru á flótta í og við Evrópu eru á flótta undan sömu sveitunum og sprengja í borgunum í nágrenni okkar.
Hvað ætlum við að hleypa þeim langt? Ætlum við að leyfa hatursflokkunum að sprengja óttasprengjur líka innan í okkur? Leyfum við soranum að síast inn í okkur og krydda hugsun okkar, móta innræti og magna okkur til andúðar og hræðsluviðbragða? Það væri að virða vald ofbeldissegjanna og játa mátt þeirra. Það er mál dauða og grafar.
Hátíð lífs
En nú er gröfin tóm. Páskar eru hátíð lífsins. Páskar eru dagar gleði, ljóss og fögnuðar því dauðinn dó en lífið lifir. Mál íslamska ríkisins er ekki mál páska heldur föstudagsins langa. Hverju trúum við og hvernig lifum við? Hvað temjum við okkur og hvaða lífsstefnu höfum við? Ertu föstudagskona eða föstudagskarl? Er í þér lífssafstaða föstudagsins langa? Leyfir þú ótta eða neikvæðni að ráða geðslagi þínu, hugsunum og tilfinningum? Bregstu við breytingum með neikvæðni, líka pólitískum tíðindum, listrænum gerningum eða alvarlegum heilsufarstíðindum? Hræðistu og ferð í bakkgírinn? Hvort ertu þá föstudagsvera eða páskakona eða páskakarl?
Kúbudeilan og móðursvör
Ég skildi vel spurningar drengjanna minna. Í bernsku minni varð Kúbudeilan að skelfingarviðburði í mínu lífi. Vegna fréttaflutningsins sannfærðist ég um að heimurinn væri á heljarþröm. Kennedy var kominn með puttann á kjarnorkutakkann og skuggi kjarnaoddana náði inn í barnssálina. Ég var svo sannfærður um vanda og endalok að ég tók ákvörðun um að ef heimurinn færist ekki á sjöunda áratugnum væri siðferðilega óábyrgt af mér að eignast börn því heimurinn hlyti að farast innan nokkurra áratuga. En móðir mín setti drenginn sinn á hné sér og minnti mig á að ef Guð væri til, páskarnir væru hátíð lífins, Jesús væri á lífi og Guð væri besti ferðafélagi mannsins væri ótti skiljanlegur en ætti þó ekki að fylla hugann og myrkva veröldina. Guð væri sterkari en brjálaðir karlar sem lékju sér að fjöreggjum heimsins. Þessi lífsviska ófst inn í trú mína og hefur síðan verið mér ljósgjafi í einkalífi og einnig forsenda í starfi mínu sem prests, frammi fyrir syrgjandi fólki og fórnarlömbum vonds kerfis eða spillts valds. Og svo eignaðist ég nú reyndar fimm börn sem er sterk tjáning á að Guð er gjafmildur og að lífið lifir!
Afstaða til lífsins
Trú er ekki bláeyg heldur skarpskyggn. Trú er ekki flótti frá lífinu heldur forsenda lífsstyrkjandi afstöðu. Páskarnir eru tjáning þess að líf, ást, gæði og hamingja eru sterkari og altækari en neikvæðni, hatur, eiturlyfjabyrlun, sérhyggja, vond stjórnmál, ástleysi, hatursorðræða, mengun, fyrirlitning – alls þess sem hindrar fólk í að njóta hins góða lífs. Páskarnir eru veruleiki og tjáning kraftaverksins – að lífið er gott, – að maðurinn er ekki einn. Páskarnir eru ekki aðeins dagur með boðskap heldur lífshvati að við stoppum aldrei á löngum föstudegi heldur höldum áfram, berjust gegn því sem hindrar fólk til hamingjulífs. Því varðar páskadagur flóttafólk frá Sýrlandi og hvernig eigi að bregðast við í trú og af ábyrgð. Páskar varða líka pólitík í okkar eigin landi. Páskarnir eru boðskapur um hvernig við eigum að nota og umgangast land, sjó og loft. Páskatrúin er kraftuppspretta og lífsmótandi fyrir tengsl okkar við fólk. Dauðinn dó og lífið lifir varðar hvort við hættum að fyrirlíta aðra og förum að sjá í þeim vini Guðs, stórvini Jesú Krists, já fulltrúa hans í heimi. Páskatrú varðar því félagsafstöðu, pólitík, umhverfismál, utanríkismál, hlutverk kirkju í heiminum og einkalíf þitt við eldhúsborð og páskatrúin á líka erindi inn í svefnherbergin! Hvort við erum föstudagsfólk eða páskafólk varðar hvort við sjáum tilgang í að vera góðir foreldrar eða ekki, blása bjartsýni í hrædda drengi og skelfdar dætur eða ekki. Páskatrú er afstaða til lífsins – að fara út úr skugga föstudagsins langa og inn í birtuskin hinnar dansandi sólar á páskum, standa alltaf lífsmegin.
Hvernig ertu hið innra? Ertu föstudagsmaður eða sunnudagsmaður? Er glasið þitt hálffullt eða hálftómt? Kannski er í þér blanda af báðum dögum. Hvernig ferðu með allt, sem er þér mótdrægt og andsnúið? Ég heyrði um konu, sem alla ævi bjó við kröpp kjör, mikla fátækt og missti mikið. Hún átti sér orðtæki og sagði gjarnan: „Ég er svo heppin.“ Hún hafði lært að sjá í erfiðum aðstæðum ljós og möguleika. Hún var – þrátt fyrir áföllin – hamingjusöm og lánsöm því hún tamdi sér jákvæðni.
En lífið er ekki bara spurning um jákvæðni eða neikvæðni, að vera í stuði eða í mínus, föstudagsgeðslag eða sunnudagsstemmingu. Þegar föstudagurinn langi var að kvöldi kominn var öllu lokið. Guð og maður á krossi! Þá var illt í efni og verra verður það ekki. En síðan er seinni hluti sögunnar sá, að dauða var snúið í andhverfu sína og sagan endaði vel þrátt fyrir dauða söguhetjunnar. Gröfin sleppti feng sínum, lífið lifnaði og tilveran er góð. Það eru þær fréttir, sem breyta öllu í lífi kristins manns.
Ef við temjum okkur jákvæðni í lífinu höfum við lært lífsleikni, sem hjálpar í þrautum og þegar eitthvað verður okkur mótdrægt. Við verðum þar með sunnudagsfólk. En þegar við heyrum páskaboðskapinn og tökum hann til okkar verðum við að auki páskafólk. Og páskaboðskapurinn er kraftaverk í lífi sunnudagsjákvæðninnar. Því lífið er ekki bara af sjálfu sér heldur líf í sólarsamhengi Guðs. Ekkert er svo slæmt í þínu lífi, ekkert er svo dapurlegt, engin áföll eru svo stór, ekki í Brussel, París, Sýrlandi eða í Reykajvík, að Guð geti ekki, megni ekki og megi ekki koma þar að með hjálp sína og gleði. Trúir þú því?
Kristur er upprisinn. Hann reis upp fyrir þig og þér til lífs. Amen.
Textaröð: A
Lexía: Slm 118.14-24
Drottinn er styrkur minn og lofsöngur,
hann varð mér til hjálpræðis.
Fagnaðar- og siguróp kveða við í tjöldum réttlátra:
„Hægri hönd Drottins vinnur máttarverk,
hægri hönd Drottins er upphafin,
hægri hönd Drottins vinnur stórvirki.“
Ég mun eigi deyja heldur lifa
og kunngjöra dáðir Drottins.
Drottinn hefur hirt mig harðlega
en eigi ofurselt mig dauðanum.
Ljúkið upp fyrir mér hliðum réttlætisins
að ég megi ganga inn um þau og lofa Drottin.
Þetta er hlið Drottins,
réttlátir ganga þar inn.
Ég þakka þér að þú bænheyrðir mig
og komst mér til hjálpar.
Steinninn, sem smiðirnir höfnuðu,
er orðinn að hyrningarsteini.
Að tilhlutan Drottins er þetta orðið,
það er dásamlegt í augum vorum.
Þetta er dagurinn sem Drottinn gerði,
fögnum og verum glaðir á honum.
Pistill: 1Kor 5.7-8
Hreinsið burt gamla súrdeigið til þess að þið séuð nýtt deig enda eruð þið ósýrð brauð. Því að páskalambi okkar er slátrað sem er Kristur. Höldum því hátíð, ekki með gömlu súrdeigi eða súrdeigi illsku og vonsku heldur með ósýrðum brauðum hreinleikans og sannleikans.
Guðspjall: Mrk 16.1-7
Þá er hvíldardagurinn var liðinn keyptu þær María Magdalena, María móðir Jakobs og Salóme ilmsmyrsl til að fara og smyrja hann. Og mjög árla hinn fyrsta dag vikunnar, um sólarupprás, koma þær að gröfinni. Þær sögðu sín á milli: „Hver mun velta fyrir okkur steininum frá grafarmunnanum?“ En þegar þær líta upp sjá þær að steininum hafði verið velt frá en hann var mjög stór. Þær stíga inn í gröfina og sjá ungan mann sitja hægra megin, klæddan hvítri skikkju, og þær skelfdust.
En hann sagði við þær: „Skelfist eigi. Þér leitið að Jesú frá Nasaret, hinum krossfesta. Hann er upp risinn, hann er ekki hér. Sjáið þarna staðinn þar sem þeir lögðu hann. En farið og segið lærisveinum hans og Pétri: Hann fer á undan yður til Galíleu. Þar munuð þér sjá hann eins og hann sagði yður.“