Greinasafn fyrir merki: organisti Neskirkju

Steingrímur Þórhallsson – ofurþingeyingur 50

„Ekki gera þá að skrítnu strákunum í götunni.“ Þetta var uppeldisráð Steingríms Þórhallssonar, samstarfsmanns míns, þegar tvíburastrákar mínir fæddust árið 2005. Hann horfði stíft á mig, talaði með tilfinningaþunga og ég tók til mín það sem hann sagði. Og kannski hafði hann fulla ástæðu til að vantreysta rosknu pari sem allt í einu eignaðist  „double trouble.“ Við hefðum auðvitað vandað okkur við uppeldið óháð Steingrímsviskunni en ráðgjafinn hefur þó alltaf verið viðmið í pedagógíu okkar.

Nú er Steini fimmtugur. Elín Sigrún, kona mín, var í nefndinni sem valdi hann til starfa í Neskirkju fyrir aldarfjórðungi. Hann kom fagnandi á kontórinn minn á fyrsta degi þegar ég hóf starf í Neskirkju – og skrifstofan mín varð síðar skrifstofa hans. Svo unnum við náið saman eins og prestar og organistar gera þegar samkomulagið gengur vel. Og samstarfið var gott.  Steini var líka svo músíkalskur að það var faglega gaman að vinna með honum. Hann hafði alltaf sterkar skoðanir á hvað skyldi syngja og hvaða músík skyldi flytja. Það var gott að undirbúa athafnir með honum og hann hikaði ekki við að gefa ástvinum tóndæmi af youtube þegar útfarir voru undirbúnar. Hann var mörgum árum á undan kollegum sínum í þeim efnum og fyrirmynd. Hann var og er óhræddur við tækni og láta hana nýtast í kirkjustarfinu. Svo er hann sem dugmikið tónskáld líka kirkjutónlistarfólki fyrirmynd. Og músíkin hans er margbreytileg. 

Mér þótti skemmtilegt að kynnast manninum að baki tónlistinni og fegurðinni. Ég uppgötvaði fljótt að Steini var óvenjuleg útgáfa Þingeyings. Ég hafði sem unglingur í fjósi í Svarfaðardal notið margra og kostulegra greininga á þingeyskum heilkennum, Sigurður Kristjánsson móðurbróðir minn, var skólastjóri í mannsaldur á Laugum í Reykjadal, S-Þing. Hann þekkti alla Þingeyinga, allar ættir og útgáfur, og lýsti fyrir mér með bliki í augum átakasækni Þingeyinga, menningarreisn, dugnaði, lærdómi og blendingi suðræns skaphita og norrænnar seiglu. Og mér fannst ég sjá í Steingrími flestar víddir þingeyskunnar sem móðurbróðir minn hafði séð ástæðu til að miðla mér með kímni í augum meðfram eftirhreytunum á Brautarhóli. Oft kvað Steini fast að orði, hafði jafnan sterkar skoðanir á pólitík, þyrluumferð, fótbolta, veðurfari, kirkjumálum, litlum málum og stórum, heimsmálum og líka á skrítlingum uppeldis í Vesturbænum. En mér fannst alltaf Steingrímur vera svo víðfeðmur og margbrotinn að hann megnaði í einni og sömu persónunni – sjálfum sér – að vera, tjá og túlka flestar víddir þingeyskunnar. Það er einstakt og engan annan Þingeying þekki ég svo margbrotinn og fangvíðan. 

Steingrímur er sá hamingjumaður að Pamela De Sensi sagði já við bónorði hans – eða var það öfugt? Hún er ekki aðeins tónlistarlegur jafnoki hans heldur á ekki í erfiðleikum með Þingeyinginn, enda alin upp meðal díva og stórmenna á Ítalíu. Þau Steini hafa styrkt hvort annað og slípað. Og þegar Steingrímur kom til starfa í Neskirkju var Pamela ósínk á tíma sinn og tónlistarflutning. Lof sé henni og þökk. Svo hafa þau búið sér skemmtilegt heimili í suðurhlíðum Kópavogs. Og Steini hefur engar áhyggjur af orðrómnum um að vera skrítni maðurinn í götunni sem breytti öllum garðinum í garðyrkjustöð og skýst stundum úr gróðurhúsinu til að gefa túristaþyrlum illt auga. Við höfum mörg notið ávaxta garðsins og alltaf hef ég mátt leita til Steina ef mig vantar að vori salatplöntur eða eitthvert yrki sem ekki aðrir hafa. Alltaf nóg hjá þeim Pamelu og til ágóða fyrir heiminn og vini. Takk fyrir.

Kirkjustarfið er margflókið og skiptir miklu að samverkafólkið gangi samstillt í verkin. Í mestu gleði og dýpstu sorg er mikilvægt að allir séu læsir á aðstæður. Ég dáðist alltaf að hve vel Steingrímur vann verk sín og undirbjó sig. Í undirbúningi fyrir jarðarfarir var hann natinn og skynjaði djúpt þegar fólki leið illa. Í hörmulegustu sorgaraðstæðum reis hann hæst og umvafði ástvini með hlýju og músíkfegurð. Hann var ekki bara fagmaður heldur persóna full af samlíðun. Persónustyrkur hans kom skýrt í ljós þegar hann þjónaði fólki sem átti ekki mikið af fjármunum þessa heims. Þá voru engir reikningar sendir. Honum var í mun að efla fólk til lífs. Mannúðin og mannelskan er frummúsík ofurþingeyingsins að baki öllum hinum tónunum í orðum hans, athöfnum og lífi. Steingrímur 50 hefur nú þjónað okkur vesturbæingum í aldarfjórðung og er enn að. Takk fyrir mig og mína. Og p.s. drengirnir mínir urðu ekki skrítnu strákarnir í götunni!

Myndirnar af Steingrími tók ég meðan ég var prestur í Neskirkju á árunum 2004-14. Neðsta myndin er frá afmælistónleikum og allir sungu afmælissönginn fyrir glaðan kór- og hljómsveitarstjóra.