Greinasafn fyrir merki: Ólöf Erla Bjarnadóttir

Leir-andi

Ólöf Erla Bjarnadóttir sýnir verk sín á hlöðuloftinu á Korpúlfsstöðum. Verk frá ýmsum tímaskeiðum í listferli Ólafar eru á sýningunni Leir-andi, sem er afar fjölbreytileg og gefur innsýn í margar vídir í listferli hennar. Við Elín höfum notað og notið bolla sem Ólöf hefur skapað og dáðst að brúkshlutunum fyrir viðburði hvunndagsins og veislur hátíðanna. En mér þótti skemmtilegt að sjá og skynja breiddina í ferli Ólafar. Jólakúluserían er stórkostleg og var sem nútímaleg helgitafla yfir kökudiskaaltarinu. Jökul- og Laugavegsskúlptúrarnir eru hrífandi og hafa ýmsar trúarlegar skírskotanir. Afgangaskúlptúrarnir eru enn ein víddin og sumir fingurskraut. Staup og stjakar eru á einu borðinu. Allt eru þetta helgimyndir, grúpperaðar uppstillingar eins og ég ólst upp við á bernskuheimili mínu  – svo mér þótti hrífandi heimakennd gagntaka mig að ganga um hlöðuloftið á Korpúlfsstöðum.  

„Þarftu ekki að gera bók?“ spurði ég Ólöfu. Hún horfði á mig með þessu sposka og afvopnandi augnaráði og svaraði: „Ég er búin að því og Saga dóttir þín tók nokkrar af myndunum!“ Svo við Elín fórum með bókina Leir-andi frá Korpúlfsstöðum sem gefur innsýn, skýrir samhengi Ólafar Erlu, sýnir fjölda mynda af verkum hennar og dýpkar því lifunina á hlöðuloftinu. Leir-andi veitir merkingu og skilning á ferli, lífi og verkum Ólafar, handverksþróun hennar, rannsóknir á leir, litun og glerjun, hvernig hugmyndir og handverk hafa þróast og unnið saman og einstakir flokkar eða gerðir hafa orðið til í tímans rás. Svo er bókin afar persónuleg og speglar dásamlega skopskyn, tengslagetu, innsæji, hugsun og iðju Ólafar. Við lesturinn fannst mér hún vera við hlið mér mér og jafnvel hlægja með mér þegar ég skellti upp úr. Lífsgáskinn stígur upp úr texta og myndum bókarinnar.

Glæsileg, vönduð og frábærlega hönnuð sýning. Leir-andi er hrífandi og leiftrandi vel gerð bók um feril frábærs listamanns sem hefur gert okkur mikið gagn en líka miðlað okkur fegurð og inntaki til að njóta. Verkin eru listmunir og helgimunir sem auka unað lífs. 

Um verk Ólafar Erlu: 

https://www.instagram.com/olofeb/

https://www.arkiv.is/artist/242

https://oloferlakeramik.is/Information

Myndirnar hér að neðan tók ég á syningunni á Korpúlfsstöðum 10. maí, 2024.