Greinasafn fyrir merki: Ólafur Guðmundsson

Ólafur Guðmundsson – minningarorð

Hversu merkilegt verður ekki félagsvist himinsins þegar Guð stokkar stóra stokkinn, hægt verður að spila ofurgrönd, ekki bara heilsóló heldur himinsóló – eða hvernig sem þær stórsagnir himins verða! Þar verður Ólafur Guðmundsson í essinu sínu. Útför hans fór fram frá Neskirkju 12. febrúar 2009. Minningarorðin fara hér á eftir.

Spilað úr gjöfinni

Það er gaman að spila félagsvist með glöðu fólki. Spil eru stokkuð um allan sal. Sumir tvískipta spilabunkanum og fella stokkana saman eins og tannhjól, aðrir bakblanda. Kliður fer um skarann, kátína smitar, nettur spenningur er í lofti. Gefið og sagt, glímt við grandið, reiknað stíft hvað makkerinn á mörg lauf eftir og rifjað upp hvort hjartaásinn var farinn. Hvernig ætli spilin liggi og hvar liggur kóngurinn í leyni? Svo er kanski svínað og stundum gengur það. Ólafur naut spilastundanna – spilalistarinnar og samfélagsins. Svo sló hann duglega í borðið þegar stórt var sagt eða miklu tapað.

Spilað úr lífsgáfunum

Öllum er okkur úthlutað til lífsins. Njáluhöfundur taldi að fjórðungi bregði til fósturs og erfðafræði og lífvísindi nútímans eiga sínar kenningar. Við vitum, að mismunandi lífsgæðunum er úthlutað. Einn fær spil fyrir grand og slemmu en öðrum hentar nóló best fyrir lífið. Svo eru sálar- og líkamsgáfur sú gjöf, sem spila verður úr. Ólafi var gefið gott við upphaf og hann átti því æskuláni að fagna að alast upp í stórum systkinahópi. Hann mat mikils og hafði gaman af hinu góða verki og var vandaður og vandvirkur sjálfur.

Upphaf og samhengi

Ólafur Guðmundsson fæddist í Króki í Ásahreppi þann 20. mars árið 1920 og lést á Landakotsspítala 4. febrúar síðastliðinn, 88 ára. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Ólafsson og Guðrún Gísladóttir, bæði úr Rangárvallasýslu. Barnalán þeirra var mikið, þau áttu fjórtán börn á sextán árum, frá 1915 til 1931. Það er mikið!

Af þessum stóra hóp lifir helmingurinn. Ólafur var fjórði í röðinni og eðli máls samkvæmt lærði hann strax í bernsku að allir verða leggja lífinu lið, allir verða að taka þátt í að afla matar og lífsbjargar, allir verða að standa sína vakt og með athygli og skerpu. Þessa uppvaxtarvisku fór hann vel með alla tíð og ávaxtaði sitt pund og talentur vel.

Í Króki hafði Ólafur stórbrotið umhverfi fyrir augum, Heklu, Tindfjöll og Þríhyrning og sá út til Eyja. Nærri var fljótið mikla og niður Þjórsár söng í eyrum. Þarna ólst hann upp eins og í miðju veraldar þar sem himininn verður ekki öllu stærri og fjallahringurinn er stórkostlegur. Lífið ávaxtasamt en eyðing þó nærri, gróðurmagn ríkulegt, en eldur undir og braust upp með reglubundnum skelfingum og afleiðingum fyrir mannlíf. Hvað er lífið, til hvers, hvaða getur manneskjan sagt? Er það í sókn  – eða er alt í vörn, í nóló. Ólafi hentaði að sækja fram og hann var grand í lífinu.

Króksystkinin hleyptu heimdraganum eitt af öðru. Ólafur fór þó ekki fyrr en hann var búin að sjá unga konu í Þjórsártúni. Jóhanna Kristjánsdóttir, norðan úr Flatatungu í Skagafirði, kom suður til veru hjá venslafólki og vaskur Krókskappinn sá norðankonuna og eitthvað hefur gneistað á milli. Síðar hittust þau suður í Reykjavík og þar voru tengslin endurnýjuð – og svo vel að Jóhanna og Ólafur gengu í hjónaband fyrsta vetrardag árið 1947.

Þá hafði Ólafur atvinnu af sjómennsku, en kom svo í land, starfaði síðan við höfnina, var við Togaraafgreiðsluna í um þrjátíu ár, þjónaði síðan Hafskipum og svo Rekstrarvörum. Ólafur var kappi til vinnu, kunnur fyrir vandvirkni og því var honum falin forysta á vinnustöðum sínum og hélt áfram vinnu löngu eftir að jafnaldrar hans höfðu lagt árar í bát, húfu á snaga og hjól í skúr. Hann var afar staðfastur og allir vissu að ef Ólafur sagði eitthvað stóðst það. Þegar tryggingafélag ætlaði að fara krókaleiðir í kringum sjálfsagt og augljóst réttlætismál settist Ólafur bara niður á skrifstofunni og tilkynnti að hann færi ekki fyrr en hann fengi úrlausn sinna mála. Og auðvitað varð honum ekki haggað fyrr en gengið var frá málum. Látlaus festan var augljós og áhrifarík. Ólafur var í samskiptum við fólk sem klettur sem stóðst áraun og líkamsburðir voru í samræmi við persónustyrkinn.

Ávallt var Ólafur því virtur. Vert er að þakka samverkamönnum hans samfylgd og vinsemd fyrr og síðar. Minnt skal á hversu vel eigendum Rekstrarvara fórst við hann. Heilindi og gagnkvæm umhyggja á vinnustöðum er dyggð, sem við Íslendingar eigum að halda fast í og rækta.

Heimili – fólkið þeirra Jóhönnu og Ólafs

Jóhanna og Ólafur eignuðust fyrsta heimili sitt í Faxaskjóli 24. Síðan fóru þau inn í Barmahlíð, en komu svo vestureftir að nýju og eignuðust íbúð á Kaplaskjólsvegi og bjuggu á nr. 37. Þar átti Ólafur síðan athvarf yfir hálfa öld – eða í 53 ár. Börnin komu, Valgerður fæddist 1948 og Guðmundur árið 1953. Þau áttu góðar uppeldisaðstæður þarna í nágrenni KR vallarins, svæðið var byggingasvæði með tilheyrandi ævintýrum þegar þau voru börn, með sjó og laug í nágrenninu, góða skóla og litríkt mannlíf.

Þau Jóhanna voru hamingjufólk. Ólafur var dugmikill og framfleytti vel fjölskyldu sinni, kom börnum sínum vel til manns, studdi og hvatti. Hann var alltaf til reiðu, hvatti til átaka, kenndi stundvísi, miðlaði reglusemi og trúmennsku til síns fólks.

Ólafur var svo elskur að sínu starfsumhverfi við höfnina að hann fór þangað niður eftir um helgar líka. Krakkarnir og síðan barnabörnin fóru með honum í þesar ævintýraferðir og lærðu nöfn á öllum togurum þjóðarinnar og hverjir gerðu þá út og með hvaða lagi þeir voru byggðir. Þau fengu góð yfirsýn og innsýn í sjávarútveg þjóðarinnar og vinnuna sem tengdist honum. Það er íhugunarefni hvernig Ólafur miðlaði skilningi á vinnu sinni og samhengi til síns fólks. Þau vissu hvað hann gerði og það er mikilvægt að börn hafi skilning á atvinnu og verkum foreldra sinna og fjölskyldufólks. Í því var hann góð fyrirmynd.

Bóndinn

Ólafur tók með sér lífsbjargarviljann úr sveit í borg. Hann var með hugann við matbjörg og lífsbjörg. Honum lánaðist að útvega sér stóra garða og í áratugi var hann garðyrkjubóndi – eiginlega stórbóndi – í Vatnsmýrinni. Þar stakk hann upp sinn garð, setti niður, fylgdist vel með þegar spíraði og fjólublágræn grösin teygðu sig upp úr moldinni – upp í júníkæluna. Hann reitti arfa með ákveðni, taldi dagana frá niðursetningu og vildi taka upp þegar ákveðinn tími var liðinn, fyrri partinn í september. Þá var ekki verið að tvínóna við hlutina, heldur gengið í verkið, svo þurrkað og sorterað og útsæði tekið með ákveðnu vinnulagi. Kartöflurnar voru síðan fluttar í jarðhús eða pokaskjattar til vina og ættingja til að gefa þeim ofurlítið nýnæmi.

Í kartöflunum var það bóndinn og svo var það hin vídd íslenskrar karlmennsku -sjómennskan. Ólafur hafði ekki aðeins atvinnu af útgerð og útgerðartengdum verkum, heldur varð hann meistari í hákarlsverkun. Hjallurinn hans vestur í Gróttu, sem enn stendur fagur og endurnýjaður, notaði hann til verkunar og varð listamaður í þeirri grein. Alltaf var beita til á Kapló til að gleðja. Að smakka hákarlinn hans Ólafs var engu óvirðulegri gerningur fagurkera en vínsmökkun.

Heimili þeirra Jóhönnu var umhyggjuheimili og opið hús. Vinir barna þeirra voru alltaf velkomnir. Konurnar í stigaganginum og nágrenni sóttu inn á heimilið. Barnamergðin og fjörið var mikið og öllu atinu tók Ólafur með jafnaðargeði. Hálfsystkini Jóhönnu áttu alltaf skjól á heimili þeirra. Allir voru velkomnir hvort sem var til samtals, í mat eða til gistingar. Lítil íbúðin var alltaf stór þegar fólk þarfnaðist.

Hvorgt þeirra Jóhönnu tók bílpróf, Ólafur fór allra sinna ferða á hjóli og við Vesturbæingar sáum hann oft fara um á svarta hjólinu sínu. Þegar Guðundur hafði aldur til keypti hann bíl og þá var farið í ferðir, fleiri ferðir norður en líka austur. Ólafur hafði gleði af ferðalögum, vissi margt, fræddi sitt fólk um það sem fyrir augu bar og naut þess að segja frá. Ferðalögin urðu fjölskyldunni góðar og gjöfular.

Vinnan var Ólafi mikilvæg alla tíð. En eins og kona hans var hann fjölskyldumaður. Hann vissi að ekkert skiptir meira máli en ástvinirnir. Og Ólafur átti sitt stærsta og mesta lán í fólkinu sínu. Hann ólst upp í ofurfjölskyldu og þar lærði hann vel á mannlífið. Hann lærði að umgangast fólk. Og hann varð góður maki og faðir og síðan vinur allra sem tengdust honum vensla- og fjölskylduböndum.

Börnin og elskurnar

Börn þeirra Jóhönnu og Ólafs eru tvö: Valgerður og Guðmundur.

Valgerður (f.13. febrúar 1948) er gift Ásgeiri Þormóðssyni. Þau eiga þrjá syni, Ásgeir Þór og hans sambýliskona er Guðrún Árnadóttir. Pétur er næstur og sambýliskona hans er Halldóra Lillý Jóhannsdóttir. Ólafur Ástþór er yngstur og sambýliskona hans Sigríður Dagmar Jóhannsdóttir.  

Kona Guðmundar (f. 18 desember 1953) er Fjóla Guðmundsdóttir. Af þremur börnum þeirra er Ólafur elstur og unnusta hans er Sigurlaug Erla Pétursdóttir. Yngri eru dætur þeirra Guðmundar og Fjólu: Jóhanna og Fjóla Ósk. 

Samtals eru langaafabörnin átta talsins.

Allt þetta fólk mat pabbinn, tengdapabbi, afi og langafi og þau nutu hans, höfðu gaman af hákarlsgæðum, visku og fróðleik. Og merkilegt er að Guðmundur, faðir Ólafs, vildi helst vera í horninu hjá Ólafi syni sínum. Það gefur innsýn í hvern mann Ólafur hafði að geyma og hvernig heimilislíf ríkti á heimili þeirra Jóhönnu þar sem gamli maðurinn dvaldi í 35 ár og varð aldargamall er hann lést.

Jóhanna lést árið 1993. Ólafur sá síðan um sitt heimili og gerði vel. Þegar um hægðist vegna vinnu gat hann stundað sundlaugina betur. Í Vesturbæjarlauginni átti hann vini og félagsskap. Og svo fór hann í strætó til vina sinna í félagsvistinni, spilaði, spilaði sín grönd og spaða, sló í borðið og skemmti sér. Hann lifði vel og fékk alltaf sína vinninga í bingói og spilum lífsins, en bestir voru stóru vinningarnir í fólkinu hans.

Spilamennska lífsins

Hvernig eru þessi lífsspil okkar? Hvað má segja og hvað er hægt að segja? Slagafjöldinn er takmarkaður og möguleikarnir ekki endalausir. Svo er í málum hjartans, lífsins, sálarinnar – eða hvað? Já, eins og við hin spurði Ólafur um stóru spilin líka. Hvert er vitið í þessari spilamennsku veraldarinnar. Hann var góður í sinni spilamennsku, stóð vörð um velferð fjölskyldu og þeirra, sem þurftu stuðning. En hvað meira?

Hvernig skilur þú lífsmörk og dauða? Er allt búið þegar síðasta andvarpið líður frá brjósti? Þeim sem sættir sig við það smálíf, að lífið sé bara þetta og ekkert meira verður engin alger huggun möguleg. Það er mun vænlegri, stórkostlegri heimssýn og lífsýn að vænta þess að dauðinn sé fæðing til nýrrar veraldar. Því trúir hinn kristni, í því er m.a. fólgin von trúarinnar. Gastu ímyndað þér þegar þú varst í móðurkviði hvernig veröldin utan magans yrði? Nei og varð ekki líf þitt fjölskrúðugt? Getur þú ímyndað þér hvernig lífið handan dauða er? Máttu ekki vænta þess að meira og enn stórkostlegra sé í vændum en þetta?

Guð hefur stokkað þessa veröld skemmtilega, með litum, fjöri, góðu lífi, góðri útgerð og afgreiðslu allra fleyja. Hugsaðu þér hina skemmtilegu félagsvist himinsins þegar Guð stokkar með stóra stokknum, hægt verður að spila ofurgrönd – ekki bara heilsóló heldur himinsóló, eða hvernig sem þær stórsagnir himins verða! Þar verður Ólafur glaður, í góðum hópi og í góðu formi.

Nú eru Ólafur og Jóhanna í faðmi hans sem elskar veröldina. Guð geymi þau og varðveiti um alla eilífð og gefi okkur viturt hjarta í lífsspili okkar. Okkur hefur verið gefið og okkur ber að spila vel – eins og Ólafur. Guð geymi hann, Guð blessi þig og varðveiti.