Greinasafn fyrir merki: Ólafía S. Ólafsdóttir

Ólafía S. Ólafsdóttir – minningarorð

Hvernig minnist þú Ólafíu? Hvernig var hún þér? Gaf hún þér eitthvað? Tók hún til hendinni þegar þér lá á? Sá hún ef þú varst þreyttur eða lúin og vildi veita þér næðisstund og hvíld? Gaf hún ekki þeim sem þörfnuðust? Var gjafmildi Ólafíu nokkuð einskorðuð við mannheima? Nutu ekki fuglar og jafnvel mýs elsku hennar?

Hugsaðu til baka. Brosandi birtist hún í huga mínum. Þessi glæsilega kona, alltaf hrífandi, með svo elskulega návist að öllum leið vel, vissu að allt var gott og allt yrði gott þar sem hún var. Hún umvafði fólkið sitt með hlýju og glaðværð, var hjálpsöm og gjafmild.

Við kveðjum Ólafíu Sigurbjörgu Ólafsdóttur á síðasta degi jóla. Þrettándi dagur jóla er forn stórhátíð í kirkjunni, þrunginn merkingu sem við megum gjarnan vitja og setja í samhengi Ólafia. Þrettándinn passar vel við líf hennar, lífsafstöðu og verk.

Þrettándinn og gjafir fyrir lífið

Í guðspjalli dagsins, sem ég las áðan, segir frá helgisögunni um vitringa sem voru að leita að hinum nýfædda konungi Gyðinga. Leit þeirra spurðist út, kóngur vildi fá að vita um leitina og svo fóru þeir og fundu barnið í Betlehem. Þar gengu þeir fram og veittu barninu lotningu og færðu því gjafir. Ekki vitum við hvað þeir voru margir eða hvaðan vitringarnir komu. Ekkert er sagt um að þeir hafi aðeins verið þrír eins og helgileikir barnanna sýna gjarnan. Ekkert segir Biblían nöfn þeirra og ekki heldur kyn þeirra. Því hefur löngum verið haldið fram, að þetta geti ekki hafa verið konur því ef svo hefði verið hefðu þær verið komnar á undan Maríu og hefðu verið búnar að skúra húsið og undirbúa fæðinguna og gefið nytsamar gjafir eins og mat og bleyjur. En hvað gáfu þessir vitringar? Börnin í sunnudagaskólanum hafa skemmt sér við að þeir hafi gefið bull, ergelsi og pirru. Nei þeir gáfu ekki slíkar gjafir, og ekki heldur ráðleysi, skuldir og firru. Gjafir vitringanna voru gjafir konungs, prests og læknis – gull, reykelsi og myrra voru gjafir til að efla Jesúbarnið til hinnar altæku þjónustu við líf fólks og líf heims. Vitringarnir komu til að votta lífinu virðingu og blessa starf í þágu lífsins. Við menn erum í sömu stöðu og vitringarnir, kölluð til hins sama, kölluð til að efla aðra, votta því besta virðingu okkar og gera það sem í okkar valdi stendur til að tryggja að allir megi þroskast og eflast.

 

Mér sýnist við hæfi, að við fylgjum Ólafíu í hinstu ferð á þessum degi vitringanna, sem gefa gjafir. Hún var gjöful, hún var vitringur í lífinu. Hún er okkur skínandi fyrirmynd um afstöðu þjónustu, gáska, jákvæðni, raunveruleikatengingar og blessunar.

Uppruni og fjölskylda

Ólafía Sigurbjörg Ólafsdóttir fæddist undir stórum vetrarhimni austur í Landeyjum, þann 25. febrúar árið 1927. Ólafía fæddist á Álftarhóli og bjó þar fram á unglingsár er hún hleypti heimdraganum. Foreldar hennar voru Sigurbjörg Árnadóttir (f. 27. ágúst 1885 d. 28. október 1975), og Ólafur Halldórsson (f. 16. ágúst 1874  d. 5. júlí 1963). Ólafía var þriðja yngst í hópi 12 barna hjónanna  á Álftarhóli. Systkini Ólafíu eru:

Óskar (f. 1911 d. 1989),

Jónína Geirlaug (f. 1913),

Engilbert Maríus (f. 1914 d. 1989),

Laufey (f. 1915 d. 1999),

Björgvin Árni (f. 1917),

Unnur (f. 1919),

Katrín (f. 1921 d. 1994),

Rósa (f. 1922),

Júlía (f. 1924),

Kristín (f. 1928) og

Ágúst (f. 1930).

Blessun og langlífi einkennir þennan systkinahóp og sjö þeirra lifa. Tólf börn á 19 árum. Oftast var kátt í kotinu, en barátta var mikil og sístæð við að hafa í þennan hóp og á. Heimilisbragurinn var myndarlegur og góður. Samheldni var með áægtum. Menntun fengu börnin í farskóla, sem stundum var heima í Álftarhóli. Allir lærðu að vinna og leggja til heimilis. Í því voru foreldrar fyrirmynd. Sigurbjörg mamma Ólafíu fór gjarnan milli bæja prjónandi á göngu sinni. Í vel iðjandi stórfjölskyldusamhengi, sem var orðvart um utalsfrómt, námfúst og fróðleiksleitandi mótaðist Ólafía. Í ljósi uppvaxtar hennar er hægt að skilja af hverju hún var svo kunnáttusöm í samskiptum, umhyggjusöm og eflandi.

Sextán ára fór Ólafía að heiman til að vinna og sjá sér farborða. fyrst fór hún út í Eyjar og síðan til Reykjavíkur, sem varð hennar reitur allar götur síðan. Systurnar voru kunnar fyrir glæsileik, minntu helst á kvikmyndastjörnur, var sagt, smart og elegant. Það var ekkert einkennilegt að ungir menn festu augun á Ólafíu.

Árið 1947 giftist Ólafía Jósef Björnssyni skrifstofmanni (f. 15. desember 1927). Þau voru ung, nutu hjúskapar í blóma lífsins, en Jósef lést hins vegar fyrir aldur fram, aðeins 37 ára gamall (1965). Þau eignust fyrsta barn sitt í ársbyrjun 1948, stúlkubarn sem skírð var Ásta (f. 8. janúar 1948 d. 1. apríl 1948). Hún lést tæpra þriggja mánaða úr heilahimnubólgu. Alla tíða síðan var Ólafía varkár gagnvart veikindum í börnum og árvekni hennar skilaði góðu. Önnur börn þeirra Jósefs eru:

Svanhvít Ásta (f. 14. janúar 1949). Hennar maður er Ásgeir Ólafsson.

Björn Ingi (f. 8. mars 1950). Kona hans er Dóra Ásgeirsdóttir

Yngstur er Ólafur (f. 30. október 1963) og hans kona er Steinunn Svanborg. Afkomendur eru samtals 18

Eftir að fyrsta barnið fæddist var Ólafía heimavinnandi húsmóðir. Þau Ólafía og Jósef bjuggu ásamt Ingibjörgu móður Jósefs nokkur ár í Skerjafirði. Það voru hamingjuár. Árið 1960 fluttist fjölskyldan á Sólvallagötu 28. Þegar Jósef lést fimm árum seinna flutti Ólafía ásamt börnum og tengdamóður í Skipholt 45. Hún fór síðan að vinna utan heimilis. Fyrst hjá Flugfélagi Íslands, í hlaðdeild við þrif á flugvélum en síðan í mötuneyti á Reykjavíkurflugvelli. Í vinnu og afstöðu var Ólafía bæði góður starfsmaður og trygg sínum vinnuveitanda. Á Reykjavíkurvelli vann hún samfellt yfir þrjátíu ár þar til hún lét af störfum vegna aldurs, fyrst hjá Flugfélagi Íslands, síðar Flugleiðum.

Georg Sighvatur Sigurðsson varð vinur Ólafíu og sambýlismaður frá árinu 1977. Þau bjuggu saman í 24 ár þar til hann lést árið 2001. Börn Georgs eru: Sigurður Ingi – hans kona er Anna Sigríður Sigurðardóttir. Róshildur Agla, Anna Þuríður – hennar maður er Haraldur Stefánssonar, Jóna Margrét og hennar maður Kristinn Magnússon. Samtals eiga Georg og fyrri kona hans sem einnig heitir Ólafía og er Egilsdóttir 36 afkomendur. Börnin hans Georgs urðu fólkið hennar Ólafíu Sigurbjargar og þau reyndust henni hið besta. Þökk sé þeim fyrir elskusemi þeirra. Ríkidæmi þeirra Georgs var því mikið í fjölskyldunni. Og þar er mesti auður lífsins, í fólki, í elskunni og því sem mölur og ryð fá ekki grandað.

Ólafía bjó í Skipholti 45 í 40 ár en fluttist árið 2006 í Lækjasmára 21 þar sem hún bjó til dauðadags. Hún lést 21. desember s.l. á Líknardeild Landsspítalans í Kópavogi. 

Eigindir

Hvernig var hún? Hvaða minningar áttu um Ólafíu. Hvað gaf hún þér? Ef fuglar gætu talað yrði magt skemmtilegt sagt. Ólafía var mikill vinur málleysingjanna, gaf ekki aðeins krummum, spörfuglum og gæsum. Hún mátti ekkert aumt sjá og var eins og hetja úr Deisneymynd og sá aumur á mús um miðjan vetur og kom til lífs. Flestar líflitlar plöntur lifnuðu hjá ólafíu. Hún var eins og Frans frá Assisi, tengd lífinu og lífríkinu, sköpun Guðs með þeim hætti að allt dafnaði og gladdist.

Og hún umvafði samferðafólk sitt. Hún hafði tamið sér þá undursamlegu afstöðu að lifa í nútíðinni. Henni hugaðist ekki að horfa bara til forstíðar. Hún vildi ekki ganga afturábak inn í framtíðina, heldur með fullri vitund. Hún var sér vel meðvituð um að það skiptir máli að hafa jákvæða afstöðu í lífinu. Því forðaist hún allar langlokur um sjúkdóma og sneyddi hjá barlóm, neikvæði, svarts´ni og öllu því sem gat gert daprað lífið. Hún hafði hins vegar gaman af því sem gladdi, gerði lífið skemmtilegra, litskrúðugt, betra. Hún var okkur hinum lýsandi fyrimynd um að fjör lífsins er íokkar eigin hendi, á okkar ábyrgð. Okkar er að spila vel úr því sem er gefið. Já, hún hafði þessa frumafstöðu trúarinnar að manni leggist eitthvað gott til, ef maður er opinn og jákvæður. eins og allir reyna, sem temja sér slíka afstöðu þá lagðist henni gott til, líf hennar spannst vel þrátt fyrir mikil áföll. hún naut elsku og blessunar og var sér með vituðuð um það. H´n fylgdist vel með því sem var á döfinni. Já, þegar sonardóttir mundi ekki dægurlagatexta var hægt að hringja í ömmu. Hún var upplýst. Hún vissi hvað var að gerast í heimi barnabarna sinna. Hún fylgdist einfallega afar vel með og var því fær um að tala við fólk á öllum aldursskeiðum. Ólafía hóf sig því yfir aldur og varð aldrei gömul.

Vitringarnir gáfu gjafir til lífs. Ólafia gaf mönnum og málleysingjum. Hvað viltu með líf þitt. Viltu fylla það af eignum eða fjármunum, sem svo kannski sogast í brut í einhvern svelginn? Eða viltu þiggja fordæmi Ólafíu, gefa af ríkidæmi lífsins, gefa af ríkidæminu hið innra? viltu verða vitur og gefa gjafir viskunnar?

Á þessum degi við jólalok og lífslok Ólafíu skaltu staldra við og hugsa um til hvers við lifum – já til hvers þú lifir. hvað var best í henni og það skaltu temja þér, þá fá gjafir hennar að ávaxtast vel, nýtast vel og verða öðrum til góðs.

Fossvogur, 6. janúar, 2009.

Guðspjall:  Matt 2.1-12

Þegar Jesús var fæddur í Betlehem í Júdeu á dögum Heródesar konungs komu vitringar frá Austurlöndum til Jerúsalem og sögðu: „Hvar er hinn nýfæddi konungur Gyðinga? Við sáum stjörnu hans renna upp og erum komnir að veita honum lotningu.“
Þegar Heródes heyrði þetta varð hann skelkaður og öll Jerúsalem með honum. Og hann stefndi saman öllum æðstu prestum og fræðimönnum og spurði þá: „Hvar á Kristur að fæðast?“
Þeir svöruðu honum: „Í Betlehem í Júdeu. En þannig er ritað hjá spámanninum:
Þú Betlehem, í landi Júda,
ekki ert þú síst meðal hefðarborga Júda.
Því að höfðingi mun frá þér koma
sem verður hirðir lýðs míns, Ísraels.“
Þá kallaði Heródes vitringana til sín á laun og grófst eftir því hjá þeim hvenær stjarnan hefði birst. Hann sendi þá síðan til Betlehem og sagði: „Farið og spyrjist vandlega fyrir um barnið og er þið finnið það látið mig vita til þess að ég geti einnig komið og veitt því lotningu.“
Þeir hlýddu á konung og fóru. Og stjarnan, sem þeir sáu austur þar, fór fyrir þeim uns hana bar þar yfir sem barnið var. Þegar þeir sáu stjörnuna glöddust þeir harla mjög, þeir gengu inn í húsið og sáu barnið og Maríu, móður þess, féllu fram og veittu því lotningu. Síðan luku þeir upp fjárhirslum sínum og færðu því gjafir, gull, reykelsi og myrru.
En þar sem þeir fengu bendingu í draumi að snúa ekki aftur til Heródesar fóru þeir aðra leið heim í land sitt.