Greinasafn fyrir merki: ofursaga

Ferðasögur og Saga

Hvað gerir þér gott? Hvernig getur frí orðið þér til góðs á þessu sumri? Hvað verður þér til heilsu og eflingar? Hvað verður þér brauð lífs? Ef þú ert í leyfi eða ræður algerlega þínum tíma – já hvað gerir þú? Og hvað gerir þú þessa mestu fríhelgi sumarsins?

Sumaráform fólks eru með ýmsu móti. Til er dugnaðarfólk, sem ætlar sér mikil afrek í sumarleyfinu, að byggja sumarbústað, mála alla íbúðina og skoða líka Austfirði! Við erum komin af vertíðarfólki, heyannafólki og tarnafólki og vinnusemi hefur löngum verið talin dygð á Íslandi. En að vinna hamslaust í sumarleyfi er hvorki ákjósanleg eða óumflýjanleg örlög. Að vinna er ekki tilgangur sumarleyfis. 

Frí er fyrir fólk en fólk ekki fyrir frí. Að “gera” eitthvað í leyfi er stundum nauðsyn, en að “vera” er mikilvægast. Besta markmið leyfis er reynsla sem nær til dýpta. Frí ætti að þjóna hvíld, hleðslu, ástvinum, andríki og uppbyggingu. Þá verður frí þjónn hamingju.

Ferðasögur
Við, sem eigum vini á facebook, sjáum sumarleyfamyndirnar á vefnum. Ekki aðeins á facebook heldur líka á Instagram, Flickr eða öðrum síðum. Svo eru ferðasögurnar. Og það er við þær, sem mig langar til að staldra við í dag. Það merkilega er, að þegar fólk segir sögur af ferðum sínum er það oft að tala um sjálft sig og líðan sína. Frásögurnar eru með margvíslegu móti og sumar hrífandi eða rosalegar. Þegar þú segir ferðasögu þína hverju ertu þá að lýsa? Getur verið að þegar þú segir ferðasögur þínar sértu að lýsa hver þú ert? 

Sum segja töfrandi undrasögur, sem fylla eyrun af músík, nefið af lykt, heilann af myndum og hugann af fögnuði. Ímyndunaraflið fer á flug og við upplifum undur og stórmerki og fáum jafnvel nýja sýn á lífið.

Aðrir segja harmþrungnar ferðasögur: „Gistingin var léleg, bílaleigubíllinn bilaði, kortinu var stolið, ferðaskrifstofan sveik margt, seinkun var á fluginu, það ringdi allan tímann, frumstætt þjóðfélag og þjónustustigið lágt, ferðafélagarnir leiðinlegir, drykkfelldir og hávaðasamir, sumir fengu matareitrun. Og það er gott að vera kominn heim!“ 

Svona sögur eru erfiðar og afar dapurlegar. Segja þær eitthvað um ferðalanginn?

En hrífandi sögur hafa allt önnur áhrif. Hver megnar að segja svo frá ferðum sínum að þær lifni og maður lifni við? Það er fólkið, sem hrífst og vill miðla, fólkið sem leyfir sér að upplifa til að verða snortið og gefur síðan af örlæti sínu. 

Ég hef komist að þeirri niðurstöðu, að ferðasögur fólks segi meira um einstaklingana en ferðirnar sjálfar. Segðu mér ferðasöguna – því hún segir hver þú ert. 

Ferðasögur fólks eru ekki aðeins um Finnland, Korfú eða gönguför yfir Fimmvörðuháls, heldur fremur frásögur þess um eigið líf. Fólk, sem segir frá skemmtilegum ferðum og getur jafnvel séð í óveðri tilefni til tjáningar á dýpri veruleika, það er fólkið sem er tilbúið til að upplifa lífið á dýptina, tilbúið til að sjá margbreytileika eigin lífs. Þetta fólk er auðvitað ekki fullkomið frekar en við hin. Það lendir í djúpum sorgum í lífinu eins og aðrir. Það verður fyrir sjúkdómum og missir líka. En það hefur í sér þessa aukavídd, þennan bónus að geta upplifað perlur á sorgarhafsbotni, ljósbrot í myrkri, augnablikshamingju í hremmingum, séð hið hlálega í grafalvarlegum aðstæðum – numið hið dýrlega í veröldinni. Þetta fólk fer kannski í svipaðar ferðir og hin sem sjá ekkert nema neikvætt. En þau nema þó hið merkilega af því þau hafa í sér vilja og getu til að hrífast og eru tengd hinu stórkostlega. Þau hafa gluggann opinn inn í undur heims og jafnvel undur himins. Þau, sem segja bara sorglega ferðasögu, tjá stundum fremur depurð eigin lífs fremur en ferðar sem það fór.

Hvaða sögu segir þú af ferðum þínum? Staldraðu við og spyrðu þig um ástæður og samhengi. Sorglegar sögur þarf að segja og depurð þarf að tjá. En það er ekki heppileg leið til að leysa sálarháska að segja sorglega ferðasögu! Ferðasaga þín er sannleiksspegill. Ferðasaga fólks er eins og minningargrein um eigið líf!

Ferðasaga Guðs

Já, ferðasögur eru harla merkilegar. Mannasögur eru margs konar. En Guð hefur líka sagt sögu um sig. Sú saga byrjar með því að Guð elskar – elskar þig – vill ganga með þér á þinni för. Guð gisti í mennskum móðurlíkama konu, óx í mannheimi, hefur reynslu af þér og mér, þekkir mannkyn í gæsku og grimmd, gleði og sorg. Allar ferðasögur mannanna komu svo saman í krossi á hæð og tómri gröf. Ferðasaga Guðs er ekki saga um lélegt hótel Jörð, töpuð kort og leiðinlega ferðafélaga, heldur um að lífið er gott, vonbjart og mikilfenglegt. Það er ferðasaga Guðs, sem allar smásögur okkar manna ganga upp í. Ferðasaga Guðs er saga um gleði lífsins, að lífið er sterkara en dauðinn. 

Ferðasaga Guðs er jákvæð, kraftmikil og um ríkidæmi lífsins. „Ég er brauð lífsins…“ segir í texta dagsins. Á ferð með Guði njótum við fæðu, gæða, brautargengis – brauð lífsins er fyrir líf og nægir okkur. Allt sem er í þessar veröld eru gjafir sem Guð gefur, brauð lífsins er koma Guðssonarins og öll gæði sem Guð hefur mönnum, lífi, náttúru til gæfu. Brauð lífsins merkir að allt sem við reynum og lifum eru gjafir Guðs og til blessunar. Guð lætur sig þig varða, gefur þér og er með þér í öllum málum lífs. Er sjálfur kominn til að umvefja þig, efla, næra og blessa. Og fer aldrei fráþér. Guð er alltaf á veginum með þér.

Hver ert þú? Hver er ferðasagan þín? Varpaðu henni upp á spegil hugans, segðu fólkinu þínu hver þú ert og hvað þú upplifir, og berðu svo söguna þína fram fyrir hinn mikla ferðafrömuð sem hefur tjáð þér sína sögu í fyllingu lífs – dauða og síðan lífs.

Segðu mér ferðasögu þína og þá er ljóst hver þú ert.

Guð segir þér ferðasögu sína til að þú vitir hver Guð er. Og þú mátt ganga fram í messunni og njóta brauðs og víns. Það er ferð, sem Guð býður til og þar er tilefni reisu lífsins. Mynd af þeirri ferð verður ekki smellt á facebook, heldur er sagan undrasaga um faðmlag tíma og eilífðar, lífgun sálar. Sú saga verður endursögð í gleðisölum eilífðar. Saga þín verður saga Guðs.

Amen

A few words on the the theme of today. This happens to be the most active weekend for travelling in Iceland. The entire nation is on the move. And those of you coming from abroad are travelling too. I did talk about accounts or stories people tell about the travelling. What stories do people tell. Some tell awful stories and others tell stories of wonder and adventure, colorful and enticing stories. I have noticed that some people tell rather negative stories and others more or less tell stories of positive experiences. So my conclusion is that when people tell about their travelling they more or less tell stories about themselves. People who have negative stories about food, hotels and trips are telling more about themselves than the actual turn of events. And the people who tell about wonders and miracles are talking about their positive approach. So tell me about your trip – and I know something about who you are.

God has told us who God is. God has told about God´s trip in the world. That is an account about human bodies, human joy, hopes, wonders, miracles, and also about cruelty but finally that life is more powerful than death, hope is more powerful than despair, the good endures that which is evil.

All our accounts, all human experience and events are part of the primary story of God. All our short stories are parts og pieces of the divine story.

So, turn inside and think obout your story and turn to the world, and become engulfed by the wonder of the world, time, eternity and heaven. You are a pilgrim on the divine road.  

Hugleiðing í Hallgrímskirkju 4.8. 2019.

Sjöundi sunnudagur eftir þrenningarhátíð og verslunarmannahelgi. B-textaröð.