Greinasafn fyrir merki: Nolan

Oppenheimer

Barbenheimer er óvæntasta gos menningarinnar þennan seinni hluta júlímánaðar. Tvær myndir voru frumsýndar vestan hafs sama daginn. Önnur var um Oppenheimer, stjórann í bombugerð Bandaríkjamanna. Hin var um Barbie. Eftirvæntingarspenningurinn vegna frumsýninga mynda var nefndur úr samtvinnun nafna myndanna og varð því Barbenheimer en líka Oppenbarbie og sfrv.

Barbie og bomban hafa verið hluti af lífi margra okkar í þessum heimshluta. Barbie var til í mörgum útgáfum á bernskuheimili dætra minna. Klæðaskápar barbíanna var litríkur og margar stundir voru notaðar til að búa til ævintýraveraldir þar sem Ken kom jú gjarnan við sögu. Ég sat stundum með Kötlu, Sögu og jafnvel vinkonum þeirra og gleymdi mér í dúkkó. Barbie dætra minna var ekki bara hin veiklaða og afmyndaða heldur voru þær feministar líka enda nutu stúlkurnar jafnræðisuppeldis. Svo breytti bomban sem búin var til í Los Alamos heimssögunni, ekki aðeins með hinum hræðilegu árásum á Hirosima og Nagasaki heldur opnaði heimsvá og setti rauðar línur sem of margir hafa verið að leika sér með og við síðan. Nú fléttast saman þessi langa saga Barbie og Oppenheimer.

Ég var búinn að lesa um Barbenheimer í vefmiðlum heimsins og var því uppýstur þegar sonur minn bauð mér í bíó í gærkvöldi. Hann hafði ekki áhuga á Barbie, kannski minni en vert væri. En ég hafði líka meiri áhuga á Oppenheimer en ljóskunni. Svo fórum við saman í Laugarásbíó, fengum okkur popp og biðum með hinum nördunum. 80% þeirra sem voru í bíó voru karlkyns og ég hef aldrei séð fyrr á opinberum stað að það var löng biðröð á karlaklósett í hléi en engin á kvennaklósettið! Ég þykist vita hlutfallið sé öfugt á Barbie.

Christopher Nolan er meistari og fer með áhorfendur gjarnan inn í höfuðið á söguhetjunum og þar með inn í okkkar eigin höfuð. Myndin byrjaði bratt, tímaflakki var beitt, hratt farið milli innri heima og hinna ytri. Heimsgallerí snillinga eðlisfræðinga tuttugustu aldarinnar var kynnt. Einstein, Heisenberg, Bohr og svo voru allir hinir þarna líka. Farið er á milli Harvard, Cambridge, Leiden, Göttingen, Washington og Los Alamos. Við fáum innsýn í stjórnmálasögu Bandaríkjanna frá þriðja áratugnum og fram á þann sjöunda, hvernig vinstri öflin vestra voru barin niður með ofsóknum. Við verðum vitni að því hvernig erfðasynd læðist um alla menningu og að enginn er óhultur fyrir henni. Mörk manna eru feiknavel teiknuð, sem og mæri menningar, fræða og einstaklinga. Svo fáum við örnámskeið í skynjun og heimssýn Oppenheimers. Hann var tungumálaséní og áhugamaður um trú og trúarheimspeki. Í höndum hans sjáum við Wasteland T. S. Elliot sem er tákn fyrir okkur sem höfum áhuga á bókmenntum og hugmyndasögu. Oppenheimer var ekki aðeins fljótur að læra hollensku og þýsku heldur las sanskrít sér til gagns og þar með trúarbókmenntir hindúa. Bíllinn hans bar nafn hindúísks guðs og hann gaf gjarnan vinum sínum Bagavad Gita og þótti speki þess dýpri en hinnar vestrænu. Hin opna persónugerð Oppenheimers er vel tjáð í myndinni og líka leitin að festu í siðferði, lífsmynstri, einkalífi, vísindum og pólitík heimsins. Oppenheimer var maður á mærum, heillandi, opinn en samt hinn tragíski snillingur. Hann var enda gjarnan með hugann við Guð sem tortýmanda en ekki lífgjafa. Guðsmyndin er ekki aðeins vörpun á himinn sálarinnar heldur skilgreinir og mótar líðan og vegferð fólks (sbr. „Ég er dauðinn …“ ) Fyrir trúmenn, áhugamenn um trúarbrögð og menningu er margt eftirminnilegt í myndinni. Sprengjustaðurinn í Los Alamos kallaði Oppenheimer Trinity – þrenningu. Stöðugt leitaði á hug minn meðan ég horfði á myndina hve djúpið í grísk-kristinni hefð og auðvitað gyðingleg áhrif voru mikil í lífsafstöðu Oppenheimers.

Þekking á notkun kjarnorku breytti sögunni og myndin útlistar vel afneitun stjórnmálamanna heimsins á breytingunni og rauðu línunum sem ekki má fara yfir. Trumann er ekki lofaður en JFK fær þumal. Þar sem ég naut bandarískar akademíu og menningar í nokkur ár þótti mér hrífandi að fylgjast með túlkun Nolans á samskiptum vísindamannanna og stjórnmálamanna. Og Einsteinspekin fór svo með okkur út í sumarnóttina um mörk manna og orsakir viðburða og hvata til vekefna. Það er ekki sjálfgefið að lánast að túlka flókna vísinda-, menningar- og persónusögu en mér hugnaðist hvernig Nolan vann með efnið. Leikurinn í myndinni var stórkostlegur og Cillian Murphy (Peaky Blinder-kallinn), Emily Blunt, Matt Damon og Robert Downey Jr. voru frábær og mér kæmi mjög á óvart ef eitthvert þeirra fengi ekki Óskar fyrir. Músíkin var fín en hljóðið og líkamleg áhrif í ofursal Laugarásbíós voru mikil. 

Hvað margar stjörnur fyrir Oppenheimer? Níu og hálfa af tíu. En hvað gefið þið Barbie margar? Hvað gerum við með þessi tvö? Þau eru áhrifavaldar og okkar er að bregðast við menningu, siðferðisspurningum, já öllum stórmálum lífsins. Kannski ég bjóði drengnum á Barbie.