Greinasafn fyrir merki: morð

Þú skalt ekki morð fremja!

Fimmta boðorðið er til skoðunar í dag. Hvernig var það nú aftur? Já, það er bannið við að drepa. Þú skalt ekki morð fremja. Boðið er gott en hvar liggja mörkin? Hvenær verður eyðing lífs morð og hvenær ekki? Er bara átt við menn eða getur verið, að endurtúlkun Jesú á boðorðunum þenji regluna út? Varðar boðið jafnvel meira en karla og konur, börn og gamalmenni? Getur verið að náttúran sé systir, bróðir og náungi okkar? Varðar þetta boð umhverfissóða?

Í Íslandsklukkunni er Jón Hreggviðsson alls ekki viss um hvenær menn deyða. Hann svaraði Arnas Arnæus: „Hef ég drepið mann eða hef ég ekki drepið mann?… …Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?” Fimmta boðorðið leynir á sér og á raunar meira erindi við okkur en að banna líkamleg voðaverk.

Í dag verður fjallað um þrennt: Fyrst ástæður boðsins til til forna. Síðan andlega dýpkun Jesú, sem stækkaði umfang boðsins og bætti við innhverfingu þess. Þar á eftir klofum við í guðfræðisögunni alla leið til Lúthers, sem kenndi, að fimmta boðorðið er ekki neikvætt heldur jákvætt og virkjandi. Lúther taldi að við ættum ekki að halda aftur af okkur heldur væru það jákvæðar samfélagsskyldur allra að efla hag allra. Í lokin íhugum við gildi fimmta boðorðins fyrir fólk í samtíðinni. Boð, sem virðist ekki vera sérlega mikilvægt fyrir okkur, sem erum ekki í drápshug, verður allt í einu ágengt og mál dagsins.

Lífsvernd

Lífið er alltaf dýrmætt og á öllum öldum. Þegar blóð hafði flætt, sorgin níst og ástvinir voru grafnir var og verður alltaf niðurstaða hugsandi fólks að nauðsynlegt væri að hefta drápin. Fimmta boðorðið var og er regla um lífsrétt sem var sett gegn hrárri villimennsku, yfirgangi, ofbeldi, vörn gegn hefndum og blóðugri samkeppni, já skikkan gegn hrottaskap. Líf einstaklinga var ekki og mátti ekki vera eitthvað, sem annar gat tekið si svona eða af því svírinn lægi svo vel við höggi eins og sagt er frá í Fóstbræðrasögu og var réttlæting Þorgeirs á mannsmorði. Dráp má aldrei vera geðþóttamál, hrottaleikur og hvatvís hugdetta.

Hið forna samfélag hebreanna bannaði ekki að losa sig við illvirkja. Hagsýni allra tíma hefur reiknað út, að öxin og jörðin geymdu slíka best. Síðan hafa alltaf verið til rök – misgóð – um fælingarmátt dauðarefsinga. Lífsvernd er þó meira en bara einföld hagsýni. Líf mannsins er grundvallað heilagri réttsýni, ákvörðun Guðs. Fimmta boðorðið er stefna Guðs. Lífið er gott – ekki bara vegna þess að það sé svo gaman að lifa og það sé stundum gaman hjá okkur – heldur vegna þess að Guð hefur ákveðið að manneskjan hafi gildi, maðurinn sé kallaður til samvinnu í guðsverkinu. Efnislega er manneskjan ekki mikils virði – tæplega 60 lítrar af vatni, 2 kg af fitu og 1,2 kg af kalki og einhver grömm af ýmsum efnum. Það er ekki hráefnið sem býr til manngildi. Trúmenn fyrr og síðar hafa ekki álitið lífið heilagt vegna útreiknings á einhverjum stærðum og víddum, heldur af því Guð hefur ákveðið það. Guð var trygging manngildis. Manngildisafstaða trúarinnar hefur síðan alið af sér mannhelgi siðakerfa Vesturlanda, löggjöf þjóða og félaga og mannréttindasáttmála Sameinuðu Þjóðanna. Trúmenn eiga því að styðja alla viðleitni manna til að tryggja velferð fólks og réttindi. Sá réttur er óháður trú þó trúmenn sjái í þeim rétti guðlega visku.

Jesús og boðorðið

Jesús vissi vel um reglur samfélagsins. Hann beitti sér ekki gegn siðakerfum og hefðum, sem þjónuðu góðu mannlífi. En hann beitti sér alltaf þegar menn vildu hangýta sér lög og reglur í eigin þágu eða einhverrar þrönghyggju, sem væri á kostnað elsku og umhyggju.

Hópur af mönnum, sem vildu klekkja á Jesú færðu t.d. til hans konu, sem var brotleg í siðferðisefnum og svo mjög að skv. reglunum mátti drepa hana með því að henda í hana grjóti. Dólgarnir ætluðu að koma Jesú í bobba. En hann stóð með lífinu í þetta sinn sem endranær þó hann afsakaði ekki gerning konunnar. Viska Jesú var til að eyðileggja prettavit hópsins. Hann sagði að þeir sem væru syndlausir ættu að kasta steinunum (Jóh. 8.7). Við það hurfu kastararnir. Freka karlinum er alltaf illa við að sjónum er beint að honum.

Í Fjallræðunni kemur fram, að Jesús er sammála boðinu, en hann gaf því þó nýja og dýpri merkingu. Hann túlkaði stórt og vítt. Menn megi ekki deyða aðra heldur sé boðið líka andlegt. Við deyðum ekki aðeins fólk með því að meiða líkamlega, heldur með ýmsu móti, t.d. með því að reiðast einhverjum. Jesús stækkar eða víkkar því merkingarsvið boðsins, lætur sér ekki nægja hið ytra heldur færir það inn í fólk, í afstöðu, tilfinningar þess og innræti.

Af hverju þessi stækkun, breikkun og dýpkun Jesú? Það er vegna afstöðu hans til fólks. Jesús leit svo á, að maðurinn væri óendanlega mikils virði og ætti að hegða sér í samræmi við þær notkunarleiðbeiningar, sem Guð setur fyrir gott mannlíf.

Lúther úthverfði

Þá tökum við langt guðfræðiskref og til siðbótartímans. Margir verða hissa á boðorðaafstöðu Marteins Lúthers, en hrífast þegar skýringarnar hans eru skoðaðar. Lúther þekkti vel sögu siðfræðinnar og að Jesús túlkaði alltaf mannræktandi. Í skýringu Lúthers á fimmta boðorðinu er ekki talað um einangrað ofbeldisverk, heldur er ramminn stór og jákvæður: “Við eigum að óttast og elska Guð, svo við ekki meiðum náunga okkar, né vinnum honum nokkurt mein á líkama hans, heldur björgum honum og hjálpum í allri líkamlegri neyð.”

Í viðbót við innhverfingu Jesú varðandi boðorðin úthverfir Lúther og í samræmi við anda Jesú. Boðorðið hefur samfélagsvídd. Samkvæmt Lúther er ekki aðeins bannað að skadda aðra, heldur er hlutverk okkar að efla aðra og bæta hag þeirra. Hlutverk okkar er að tryggja velferð annarra, beita okkur í samfélaginu svo við eflum lífsgæði, ekki aðeins okkar eigin, heldur samfélagsins alls. Við hlýðum fimmta boðorðinu þegar við erum tilfinningalega og samfélagslega heilbrigð og ábyrg og samfélagið virkar vel og til hags fyrir heildina. Bannið við morðum, fimmta boðorðið, varðar stjórnmál okkar, umhverfismál, samskipti við aðra. Líf okkar er, samkvæmt guðlegri ákvörðun, heilagt. Við eigum að hegða okkur í samræmi við þá skilgreindu stöðu okkar með því að rækta umhyggju og gera öðrum gott.

Boðorð fyrir okkur

Já, hvenær drepur maður mann? Við deyðum þegar við stingum, skjótum, lemjum eða keyrum á einstaklinga svo þeir láta lífið. Það er óheimilt trúarlega og líka lögbrot. Samfélagið hefur reglur um slíkt og refsar fyrir. En svo er allt hitt að auki. Við getum deytt þegar tilfinningar okkar leiða okkur í gönur, þegar við leyfum heift að sá sér hið innra, spíra þar og vaxa. Þá verður til dauðaferli. Reiði, hatur, vondar hugsanir og ljótleiki eyða og deyða. Ofsi hið innra er eitur, sem lífið þolir illa eða ekki. Þegar slíkt lifnar í þér og vex er dauðinn að grípa þig og kæfa. Þú byrjar að deyja.

Við deyðum þegar við tökum þátt í eða leyfum að varnarlitlir séu beittir harðræði, einelti, rangsleitni, ofbeldi, baktali og öðru álíka. Við erum samsek þegar við leyfum kerfum að viðhaldast, sem niðurlægja fólk, réttlæta kynjamismunun, þjóðamismunun, kynþáttamismunun eða aðra óeðlilega og ómannlega aðgreiningu hinna betri og hinna verri, hinna æðri eða óæðri. Maður drepur mann ef við gætum ekki hagsmuna fólks og reynum að efla hag og velferð annarra. Boðið er róttækt og lífið er heilagt. Mannlíf fólks er eitthvað, sem okkur ber að virða og engan afslátt veita. Og svo er náttúran systir okkar sem við höfum ekki heimild til að deyða.

Guð vill að lífið sé virt, þitt eigið líf, líf þeirra sem þú elskar, en líka líf hinna sem þér er í nöp við eða eru þér jafnvel kvalræði, líf allra, kvenna og karla, allra manna, allrar veraldar. Við eigum ekki aðeins að beita okkur í mannvernd, náttúruvernd og samfélagsvernd vegna þess að það sé hagkvæmt og tryggi okkur sjálf, heldur vegna þess að Guð vill það. Í því verður siðsemin róttæk og boðið djúpt og altækt. Og boðið á við þig og mig.

Amen

Hallgrímskirkja, 10 mars 2019. Í röð boðorðaprédikana í janúar – apríl, 2019.

Lexían

Þú skalt ekki morð fremja.

  1. Mósebók 20,13

Pistillinn

Skuldið ekki neinum neitt nema það eitt að elska hvert annað því að sá sem elskar náunga sinn hefur uppfyllt lögmálið. Boðorðin: „Þú skalt ekki drýgja hór, þú skalt ekki morð fremja, þú skalt ekki stela, þú skalt ekki girnast,“ og hvert annað boðorð er innifalið í þessari grein: „Þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Kærleikurinn gerir ekki náunganum mein. Þess vegna er kærleikurinn uppfylling lögmálsins.

Rómverjabréfið 13,8-10

Guðspjallið

Þér hafið heyrt að sagt var við forfeðurna: Þú skalt ekki morð fremja. Sá sem morð fremur skal svara til saka fyrir dómi. En ég segi yður: Hver sem reiðist[ bróður sínum skal svara til saka fyrir dómi. Sá sem hrakyrðir bróður sinn skal svara til saka fyrir ráðinu og hver sem svívirðir hann hefur unnið til eldsvítis. Sértu því að færa fórn þína á altarið og minnist þess þar að bróðir þinn hefur eitthvað á móti þér þá skaltu skilja gjöf þína eftir fyrir framan altarið, fara fyrst og sættast við bróður þinn, koma síðan og færa fórn þína. Vertu skjótur til sátta við andstæðing þinn meðan þú ert enn á vegi með honum.

Matt. 5, 21-25

 

Aldrei aftur París

Sonur minn horfði á móður sína og sagði: „Mér finnst allt vera breytt.“ Drengurinn tjáði okkur að honum þætti veröldin væri önnur eftir morðin í París. hann fann að foredlrum hans var brugðið og skelfdist það sem hann heyrði í fjölmiðlum um voðaverk óðra manna. hann óttaðist að þriðja heimsstyrjöldin væri hafin. 

129 manns létu lífið í París í fyrradag. 352 særðust og þar af eru um eitt hundrað í lífshættu. Við kveiktum ljós fyrir allt þetta fólk í gær á kyrrðarstund í kirkjunni og komum þeim fyrir í kórtröppunum. Ljósin voru óhugnanlega mörg og þöktu efstu tröppurnar. Smátt og smátt erum við að fá tilfinningu fyrir umfangi, dýpt og hryllingi þessara voðaverka glæpamanna sem standa fremur með dauðanum en lífinu.

Þau sem létu lífið eru í bænum okkar, ástvinir þeirra og franska þjóðin. Og hverjir voru þessir glæpamenn sem myrtu saklaust fólk með köldu blóði, skutu fólk sem sat úti fyrir kaffihúsum og á tónleikum og sprengdu sprengjur – og sjálfa sig með – m.a. við þjóðarleikfang Frakka, Stade de France. Það voru ekki einhverjir gamlir, vitskertir, siðblindir kallar heldur fyrst og fremst ungir menn, sumir voru unglingar, aðeins 15-18 ára gamlir. Þessi drengir hafa verið aldir upp í og heilaþvegnir til að standa fremur með dauðanum en lífinu. Hvers konar afstaða er það? Hvers konar viðhorf og siðhrun er það? Öll heimsbyggðin er agndofa gagnvart hryllingnum. Allt er skelfilegt varðandi hörmungaratburðina í París.

Og hvað eigum við að gera? 

Hvernig getum við brugðist við? Samfélagsmiðlarnir loga og margt er þar vel sagt. Mikil samúð er tjáð, fólk speglar samstöðumyndir með Parísarbúum og Frökkum, litar prófílmyndirnar á facebook í frönsku fánalitunum og smellir inn friðarmynd af Eiffelturninum með krossi í miðju. En svo eru önnur sem bregðast við með gífuryrðum og hella úr skálum reiði sinnar með því að tengja ófriðinn við fólk sem hefur ekkert til saka unnið. Það þjónar ekki réttlæti eða friði að uppteikna alla múslima sem djöfulóða öfga- og glæpamenn. Er það hjálplegt í þessum hryllilegu aðstæðum að fella alla múslima í einn hóp? Búa til úr þeim hóp sem eru allt annað en “við?” Nei, allir múslimar eru ekki ábyrgir fyrir þessum hryllingi frekar en að ég og þú eigum sök á fjöldamorðunum í Útey í Noregi. En það þjónar hins vegar ekki friði eða réttlæti að bregðast við með því að afneita alvöru málsins. Stríð í Austurlöndum nær eru stríð sem okkur varða og vandi íbúa þeirra einnig. Fólkið sem flýr Sýrland til Evrópu er að flýja sömu glæpamennina og sama drápshópinn og réðst á Parísarúa. Átökin eru ekki aðeins átök stríðandi hópa sem berjast til valda. Stríðin varða afstöðu til lífsins, siðferði, rétt minnihlutahópa, hvort úrelt hugmyndakerfi fái ráðið.

Hvað eigum við að gera? Hvernig eigum við að bregðast við? Við getum margt lært af viðbrögðum Norðmanna við fjöldamorðunum í Noregi fyrir fjórum árum. Þá létu Norðmenn ekki dauðann ráða heldur lífið og lífsástina. Gegn hatri og grimmd létu Norðmenn hatur og ótta ekki ráða för heldur kærleika og mannúð. Forystumenn múslima og kristinna, húmanista, trúmanna og vantrúarmanna tóku höndum saman um að treysta frið og eindrægni í samfélaginu. Haldnar voru fjöldasamkomur í kirkjum og á torgum, í moskum og félagsmiðstöðvum til að fólk gæti sameinast um lífið til að dauðinn fengi ekki sigrað.

Prófið mikla

Nú er komið að miklu prófi menningar Vesturlanda. Hvernig eiga franska þjóðin og okkar heimshluti að bregðast við dauðasveitunum? Hvað er best og ábyrgast að gera? Er það valkostur að Vesturlönd fari í stríð við Islamistanna? Hófst þriðja heimstyrjöldin í París? Margir halda að svo sé en við eigum ekki að láta ofbeldismennina ráða, við eigum aldrei að láta eða leyfa glæpamönnum að stjórna samfélögum eða lífi okkar. Okkar köllun og okkar skylda er fyrst og fremst að standa með lífinu en ekki dauðanum. Standa með rósemi en ekki ótta. Efla friðinn en ekki óreiðu og órétlæti.

Fellur aldrei úr gildi

Kæru fermingarungmenni sem sitjið á fremstu bekkjunum í kirkjunni í dag. Hvaða afstöðu ætlið þið að taka? Hvað ætlið þið að gera í ykkar lífi? Hvaða stefnu ætlið þið að taka? Hvernig gildi viljið þið temja ykkur? Og þær spurningar varða okkur líka sem eldri erum.

Tíma einfeldninnnar er lokið um hvað trú og siður sé. Það skiptir máli hver eru gildi okkar og lífsafstaða. Við höfum alist upp í menningu sem er gegnsýrð og mótuð af kristindómi, kærleiksboðskap Jesú, umburðarlyndi, tillitssemi, fyrirgefninu og kærleika. Sá boðskapur fellur aldrei úr gildi. Kristin gildi eru leikreglur vestrænna samfélaga og hafa haft áhrif á viðmið, uppeldi, samskipti, menntunarstefnu og löggjöf. En mörgum hefur sést yfir í hraða og erli síðustu ára hve kristnin er samofin mestu dýrmætum menningar okkar. Nú er komið að krossgötum. Viljum við frelsi, jafnrétti og bræðralag sem er slagorð frönsku byltingarinnar sem jafnframt eru gildi kristninnar? Eða eitthvað annað? Það er ekki valkostur að afskræma trú og menningu annarra og það er ekki valkostur að afskræma hinn kristna sið og gildi heldur.

Ræða stóru málin

Við þurfum hugrekki til að ræða trú og sið, menningu og ómenningu opinskátt og í almannarými samfélagsins. Við þurfum að ræða málin í skólum, fjölmiðlum, samfélagsmiðlunum og í almenningnum. Við megum gjarnan vera eins og Jesús Kristur og horfa á alla með augum ástarinnar, með hlýju en fullkomnu raunsæi og einbeittri skynsemi. Nú flæða inn í vestræn samfélög, og brátt okkar líka, fólk með allt öðru vísi mótun, annan hugsunarhátt og viðhorf. Móttökur okkar eiga að vera kærleiksríkar en skynsamlegar. Við megum og eigum að gera kröfur um að fólk virði leikreglur vestrænna samfélaga, vestrænnar gagnrýni, vestrænnar löggjafar – hins vestræna vefs menningar.

Aldrei aftur París

Já, það er allt breytt. Við stöndum á krossgötum og þurfum að hugsa okkur um og taka stefnu, án ótta, með upplýstri trú og af kærleiksríkri einurð. Fjöldamorðin í París eru árás á gildi, trú, menningu og stefnu vestrænna þjóða. Stríðsyfirlýsing gagnvart siðum og venjum Vesturlanda. Skipta þau okkur máli? Tíma einfeldninnar er lokið. Við stöndum með Frökkum. Við erum öll Parísarbúar þessa sorgardaga. Eigum við að leyfa skothríðinni í París að hræða og beygja okkur? Nei. Glæpur var unnin á frönsku þjóðinni en líka okkur – öllum. Hatrið réðst gegn ástinni. Látum ekki fólk deyja til einskis, heldur heiðrum þau með því að treysta samfélagsfriðinn. Mætum ótta með trausti. Hvikum ekki frá uppeldi fólks til menningarlegrar og trúarlegrar fjölbreytni. Ræðum opinskátt eðli hatursins. Leyfum lífinu að lifa. Til forna var sagt: Aldrei aftur Masada. Gegn hatri nútíma: Aldrei aftur París.

Íhugun í Hallgrímskirkjumessu 15. nóvember, 2015