Greinasafn fyrir merki: möguleikar

Alger krísa

Vísindamenn heimsins hafa á síðustu árum orðið dómsdagsspámenn. Yfir 99% þeirra vísindamanna sem skrifað hafa um lofstslagsvá halda fram að menn séu ábyrgir fyrir ofurhitnun jarðar og afleiðingar hafa verið og verða hrikalegar fyrir lífríkið. Eigum við að hræðast og fara í keng? Í dag er dómsdagur! Vissulega ekki dómsdagur náttúrunnar eða heimsendir af Hollywoodtaginu en biblíutextarnir eru um dóm og endalok lífsbrenglunar. Við lifum í skurðpunkti tíma og eilífðar og dómsdagur verður ekki umflúinn! En dómsdagur kristninnar varðar ekki ragnarök eða fjöldadauða. Dómsdagur trúarinnar er mun merkilegri, betri en líka ágengari. Hann er núna! Hvað merkir það? Af hverju er dómsdagur? Eru textar dagsins kannski bara tjáning á fornum heimsslita- eða dauðakvíða, áhugaverðir en þó túlkun á úreltri hugmyndafræði? Kemur dómsdagur Biblíunnar okkur við?

Kirkjuárið og tímamót

Þá er það inngangurinn. Já, sunnudagurinn í dag er síðasti sunnudagur kirkjuársins. Kirkjuárið byrjar á öðrum tíma en almanaksárið. Það á sér allt annan hjartslátt en tímatakt klukkunnar eða dagatalningar ársins sem lýkur við áramót. Einingar og inntak þess tíma sem nú endar varðar ekki sekúndur eða mínútur og er ekki mælanlegur með úrum, tölvum og símum. Tími kirkjuársins varðar hinn djúpa andardrátt og hjartslátt lífsins. Tíminn sem nú endar varðar tengsl við það djúp lífsins sem við köllum Guð.

Þessi dagur er eiginlega gamlársdagur kirkjuársins. Við tímaskil er þarft og hollt að meta og skoða hvernig við lifum, hvað við erum og gerum. Það mat er hraðpróf sjálfsins, skoðun eigin sálar og lífs. Hallaðu þér því aftur, láttu fara vel um þig og spyrðu þig vinsamlega og nærfærið: Hvað hefur reynst þér erfiðast? Á liðnum dögum, mánuðum og ári? Hvernig hefur þér liðið? Hvað var þér erfiðast í vinnunni? Hvað sleit þér mest í tengslunum við ástvini þína, foreldra, börn, maka og vini? Hvað snart þig eða skók þig harkalega? Og þá getum við spurt meginspurningar á dómsdegi kirkjuársins: Hver er krísan í lífi þínu og hvernig bregstu við henni?

Krísa og dómur

Orð skipta máli og merking þeirra. Saga orða er oft lykill að merkingu þeirra og tengingum. Í flestum vestrænum málum er orðið krísa kunnulegt og notað og vísar gjarnan til áfalla og erfiðleika. Á enskunni er það orðið crisis, á þýskunni og norðurlandamálunum Krise. Orðið er notað í margs konar samhengi. Við tölum stundum um „krísu-stjórnun” og mörg eru sérmenntuð í slíkum fræðum. Þegar allt er í volli hjá okkur finnst okkur við vera í krísu. Svo eru peningakrísur, sálarkrísur, pólitískar krísur og heilsufarskrísur. Það er enginn hörgull á krísum. Enginn sleppur alveg við áföll og raunverulegar krísur reyna skelfilega á, skadda og jafnvel deyða.

Eitt mikilvægasta orðið sem er notað í Nýja testamentinu um dóm og að dæma er gríska orðið krisis. Vegna hins biblíulega upphafs og áhrifa kristni í heiminum hefur orðið borist um heimsbyggðina. Merking orðsins er fjölbreytileg. Krisis merkir ekki aðeins að fella dóm, heldur einnig að velja á milli kosta. Orðið varðar mat og jafnvel líka að hætta við eitthvað, breyta um stefnu og taka jafnvel u-beygju í lífinu!

Í dómssal er ekki til siðs, að dómarinn fari í eitthvert Pollyönnukast og segi við hinn dæmda: „Já, ég sé að þú hefur gert upp þín mál, hefur tekið út mikinn þroska síðan þú framdir glæp þinn. Ég sleppi þér við fangelsisvistina og gef þér tækifæri til að byrja upp á nýtt og bæta fyrir brot þín.” Svo kumpánlegt réttarfar búum við ekki við í köldum heimi skilvirks réttarríkis. Eftir málaferli er dómur felldur í venjulegum réttarhöldum. Þar á ekkert að vera óljóst og á milli vina. Þar er annað hvort sýkna eða sekt. En dómari getur auðvitað metið eitthvað til refsilækkunar. Dómarinn hefur ekki siðbótarhlutverki að gegna, heldur ber aðeins að dæma í ljósi þess sem fram hefur komið í réttarhaldinu og á grundvelli gildandi laga og réttarhefðar.

En réttlæti Guðs er annað en lagakerfa mannheima. Guð er ekki ofurdómari sem í fullkominni réttvísi sinni bíður aðgerðalaus eftir þér við lok æfi eða tíma og dæmir þig sekan eða saklausan. Guð heldur ekki á þessum frægu vogarskálum réttarfarsins og vegur réttlæti, gildi og gæði fólks. Réttur Guðs er annar en manna. Guð bíður ekki eftir ákveðnum tíma fyrir dómsuppkvaðningu heldur er persónulegur, sýnir frumkvæði, kemur og beitir sér. Guð er pró-aktívur. Að vita margt um réttarfar heimsins er ekki til skilningsauka um dómsdag og réttlæti Guðs.

Í fimmta kafla Jóhannesarguðspjalls er tjáð að sumir menn kæmu ekki til dóms heldur slyppu algerlega við hann. Jesús segir að við göngum frá dauðanum til lífsins og komum ekki til dóms. Eru þá í Biblíunni tvenns konar dómar eða skýrist málið ef við skoðum betur hvað það merkir að Guð dæmi? Skilningurinn á orðinu krisis hjálpar við að leysa gátuna. Krísa, þ.e. dómur Guðs er ekki aðeins það að dæma í eilífðarmálum, heldur ekki síður að hjálpa okkur núna, aðstoða okkur til að taka okkur á, ákveða að taka sinnaskiptum, efla okkur í lífsleikni og reyna að gera gott úr ástandi okkar – krísu okkar. Við skiljum líkinguna af Guði sem dómara best þegar við hugsum um, að Guð hjálpi okkur til góðs í raunverulegum aðstæðum lífsins, leiðbeini okkur, styðji okkur þegar við brjótum af okkur, erum að skilja við maka okkar eða verðum fyrir fjárhagsáfalli eða krísu í vinnunni. Jesús talar um dóm sem endurnýjun fólks og í tengslum við hann sjálfan.

Dómsdagur er þegar menn viðurkenna að Jesús sé lífgjafi þeirra og taka skrefið frá dauðanum til lífsins. Dómsdagur er þá ekki aðeins framtíðarviðburður heldur í núinu og varðar þennan dag og okkur öll. Dómsdagur Jesú merkir, að í tengslum við hann verður öllum kreppum snúið til góðs, ef við viljum horfast í augu við vanda okkar og að Guð kallar okkur til góðra viðbragða. Allt sem áður íþyngdi er leitt til betri vegar. Það sem við gerðum og sáum eftir er fyrirgefið. Það sem við botnuðum ekki í og var okkur til ills er endurunnið til góðs. Krísan í Kristssamhengi merkir þá, að það sem var vont verði betra. Að vera í krísu hjá Kristi er að mega fara „yfir um” og til lífsins! Á hverju augnabliki kemur Guð og er kominn. Við lifum í skurðpunkti tíma og eilífðar.

Skiladagur eilífðar

En hvað þá um hinsta tíma? Gerir presturinn lítið úr honum og dómsdegi? Ber að skilja þessa íhugun dagsins eins og útvatnaða tilvistarspeki og að kostur okkar sé að lifa í tómhyggjuhugrekki gagnvart dauða og tilgangsleysi. Nei. Öll verðum við að standa skil á lífi, verkum, hugsunum og gjörðum. Við eigum að lifa svo að við mætum uppgjöri. Það er eiginlega nauðsyn svo hægt sé að gera upp hið illa sem ekki er hægt af mönnum og mannlegu dómsvaldi. Þess vegna hafa sjáendur allra alda talið framhald lífsins í eilífðinni nauðsyn. Öllum ber að lifa þannig á hverjum tíma að hann eða hún geti mætt „dómi“ með hreina samvisku. Í postullegu trúarjátningunni játum við, að Jesús muni dæma lifendur og dauða.

Dómsdagslýsingar

En hvernig það verður hafa menn skiptar skoðanir. Það er eðlilegt. Mikilvægt er að muna að hugmyndir okkar um dómsdag eru mjög tengdar forsendum og jafnvel fordómum. Sögulegt efni litar líka hvernig við skiljum eða hvort við tökum dómsdag alvarlegan. Margir afskrifa hann sem skemmtilegt en úrelt rugl. Áhugamenn um tónlist þekkja dómsdagssálminn Dies Irae, dies illa… sem sr. Matthías Jochumsson þýddi með Dagur reiði, dagur bræði… Lýsingar dómsdags eru í bókmenntum fornaldar og miðalda næsta rosalegar og tónsnillarnir hafa notað dramað í sálumessum. Listamenn aldanna hafa málað stórkostlegar dómsdagsmyndir, um hvernig hinir óguðlegu eru dæmdir til hryllingsvistar og hinir hólpnu leiddir inn í dýrð ljóssins. Þetta eru rosalegar krísur en menn eiga ekki að trúa þeim bókstaflega.

Svo eru auðvitað allar heimsslitakvikmyndir Hollywood tilbrigð við dómsdagsstef. Þó við höfum gaman af drama, litagleði og hugarflugi kvikmynda, listaverka og tónverka er efamál að dómsdagur Guðs verði í samræmi við lýsingarnar. Þetta eru tjáningar á tilfinningum en ekki hlutlægar eða vísindalegar lýsingar á viðburðum á krossgötum tíma og eilífðar. Textar Opinberunarbókar Jóhannesar eru eins og litríkar skyggnur, tilfinningaþrungin túlkun dómsdags og framtíðar. Við þurfum vissulega að að taka þessar tjáningar alvarlega, en þó ekki bókstaflega. Okkar er að greina merkingu að baki táknmáli.

Dómsdagsspár eru ekki lengur aðeins viðfang listamanna eða spámanna. Raunvísindamenn hafa tekið við af sjáendum fortíðar að spá fyrir um alvöru dómsdaga. Þar er krísa sem hvetur til að mannkyn, þjóðir, hópar og einstaklingar horfist í augu við ábyrgð okkar. Við búum framtíð börnum okkar og afkomendum. Við höfum ekki leyfi til loka eyrum, augum og vitund okkar. Guð kallar til ábyrgðar en þó ekki til kvíða, angistar eða þjáningar. Áhersla Biblíunnar er að Guð er Guð og að maðurinn hefur ráðsmennskuhlutverki að gegna.

Dómsdagur núna

Lærðu að sjá krísurnar í lífinu sem aðstæður sem þarf að taka á og leyfa að verða til góðs. Guð sendir þér ekki áföll til að reyna þig. Guð stendur með þér í krísunum og þær geta orðið til vaxtar og þroska. Guðshjálpin er raunverulegur kraftur til að breyta ógn í tækifæri, krísu í vaxtarmöguleika. Dómsdagurinn er dagur möguleika en ekki dagur reiði og bræði. Hin kristna dómshugsun hjálpar okkur til að skilja betur að við megum breyta öllu, hætta að dæma aðra og dæma fremur okkur sjálf til lífs og ábyrgðar. Niðurstaðan er að dómsdagur merkir að Guð stendur með þér og hjálpar þér að stíga frá dauðanum til lífsins – núna og líka um alla eilífð. Dómsdagur er nú því Guð kemur. Svo endar gamla árið og aðventan hefst sem tími eftirvæntingar og vona. Til hamingju með dóminn. Til hamingju með nýjan tíma og gjöfult líf.

Síðasti sunnudagur kirkjuársins.

Mynd SÁÞ

Nýr tími

Tímaskil geta orðið ágeng og vakið miklar tilfinningar. Mér er minnistætt þegar einn drengja minna var sjö ára og yfirkominn af tímaöng. Hann fylltist af depurð yfir glötuðum tíma. Hann sá svo óskaplega eftir gamla árinu sem kæmi aldrei til baka. Hann var lostinn harmi yfir að gleðitíminn væri farinn og aldrei væri hægt að lifa hann aftur. Við foreldrarnir tókum drenginn í fangið og töluðum um víddir og takt tímans og möguleika lífsins. Þá var líka gott að tala um hvað afar og ömmur, við foreldrar og allir hinir ástvinirnir hugsum og gerum gagnvart tortímanda tímans. Eftir gamlárskvöld kemur nýr dagur og nýir möguleikar. Tíminn er ekki búinn heldur opinn. Til að tákna það breiðum við á nýársdegi hvítan dúk á borð nýársdags. Blóm dagsins væru hvít til að tákna að dagurinn væri upphaf nýs og óspjallaðs tíma. Meira segja litur kirkjunnar á þessum degi væri hvítur til að minna okkur á að framtíðinn væri opinn faðmur. Hvítt gegn myrkvaðri glatkistu fortíðar til að minna okkur á að hið liðna er farið. En tíminn er opinn.

Nýr tími merkir að við erum frjáls. Hvað um tíma nýs árs í vinnu, í einkalífi og í samskiptum? Er eitthvað sem bindur hug og líf? Þarf að losa festur, opna tabú og segja satt? Hver er djúplöngunin? Hvað viljum við gera við tímann, hvernig næra sjálf og stæla líkama? Kostur hvers tíma og hvers dags er að vera farþegi eða við stýrið í eigin lífi.

Skáldið bað: „Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Það er verkefnið. Viturt hjarta – fyrir líf og dauða, fyrir gleðistundir, hörmungartíma og hamingjuvegi. Guð hefur úthlutað gáfum og gæðum til að vinna verkin og vit til að greina úrræðin. Guð hefur skapað tímann og okkur mannfólkið svo listilega að okkur er það mögulegt. Framundan er nýr tími, ómengaður og hreinn tími. Tímaöng varðar fortíð en fögnuður hæfir framtíð. Gleðilegt nýtt ár 2021.

Myndina tók SÁÞ eftir helgihald í Hallgrímskirkju á nýársdegi. Myndin er af bílrúðu við Hnitbjörg, safn Einars Jónssonar. Textinn er Gleðilegt nýtt ár 2021.

Möguleikarnir í plágunni

Ég á vinkonu sem slasaðist í bílslysi. Hún lamaðist neðan mittis og kemst ekki um nema í hjólastól. Eftir slysið hugsaði hún um hvernig lífið yrði eftir slys. Hún gerði sér grein fyrir að kostirnir væru tveir. Hún gæti valið að hafa hjólastólinn allaf fyrir framan sig og þar meða láta hann stöðugt hindra sig. En svo væri hinn kosturinn. Hún gæti tekið ákvörðun um að hafa stólinn tilfinningalega og vitsmunalega aftan við sig. Og hún valdi seinni kostinn. Hún hefur svo sannarlega lifað ríkulegu lífi, ferðast mikið alla æfi og lifað mikil æfintýri. Við erum í sömu stöðu og vinkona mín var. Hvort látum við vanda og erfiðleika fylla tilveru okkar eða lítum á hvert mál sem viðfangsefni til eflingar? Getum við brugðist við plágum og kreppum sem viðfangsefnum til að læra af og eflast? Vinkona mín brást við með skapandi hætti.

Covid-veiran fer um heiminn og kerfi mannanna brenglast. Nú hefur verið sett á vítækt samkomubann á Íslandi og mun hafa mikil áhrif á líf okkar. Tilgangurinn er skýr og góður. Reynt er að verja þau, sem eru með einhverja sjúkdóma sem veikla viðnám gegn veikindum. Við erum öll kölluð til ábyrgðar og að standa saman og þétta raðirnar í þessari merkilegu iðju að búa til net kærleika og umhyggju. Við endurskipuleggjum vinnu, heimilislíf og samfélag okkar og tökum tillit til ólíkra þarfa fólks. En á þessum aðkreppta tíma erum við líka hvött til að njóta sem mestra gæða í einkalífi okkar. Covid er ekki skemmtilegur ferðafélagi, en er þó á milli okkar og á ferðinni. En við viljum hann ekki, viljum hann út úr mannfélaginu, en til þess að svo verði þurfum við að standa saman. Hvað langar okkur til og hvernig líf viljum við?

Líðan?

Hvernig líður þér í þessum undarlegu aðstæðum þegar stjórnvöld banna okkur að halda stórar samkomur? Hvernig líður þér ef þú hefur skert þol gagnvart pestum og ef ónæmiskerfi þitt er veiklað? Hvernig líður þér, ef þú mátt ekki fara á fundina, sem þér þykir svo gaman að sækja? Hvað getur þú gert? Eru einhver tækifæri í stöðunni og í þessum aðstæðum? Getur þetta orðið inntaksríkur tími í stað þess að vera tími corona-kvíða?

Viðbrögð

Við ráðum ekki öllu því, sem gerist í lífi okkar. Áföll verða, en við getum hins vegar alltaf ákveðið hvernig við bregðumst við þeim. Við erum frjáls í viðbrögðum okkar. Við megum gjarnan temja okkur æðruleysi, núvitund og óttaleysi. En hvernig? Jesús sagði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ Kjarni þessa er, að við þurfum ekki að óttast. Við getum verið hrædd við aðstæður, smitbera, einsemd og erfiðleika, en þó megum við gæta okkar að ala ekki óttann með okkur, fylla ekki sál okkar og vitund með skelfingu eða sannfæra okkur sjálf um að allt fari á versta veg.

Óttinn sem læðist og magnast

Á tímum plágunnar getum við gert svo margt. Það er þakkarvert að þessi tími, sem við lifum nú er allt öðru vísi en Hrunið fyrir 12 árum síðan. Þá bullaði samfélag okkar af reiði í garð fólks. En enginn er reiður vírusnum. Óttinn nærir ekki reiðina nú. Nú er tækifærið til að stoppa, hugsa, anda djúpt og spyrja sig mikilvægra spurninga um gildi, ást og gleðimál. Hvað skiptir þig mestu máli í lífinu? Hvað elskar þú? Hver elskar þú? Getur verið að þú eigir að minnka puðið og fara frekar að gera það sem þér þykir skemmtilegt? Forgangsraða að nýju? Hringja í frænda þinn eða gamla vinkonu, sem þú veist að er með undirliggjandi sjúkdóm og þarf einhvern til að tala við um ótta sinn. Eða kaupa inn fyrir þau? Það er margt fólk í kringum okkur sem bíður eftir að þú spyrjir þessara einföldu spurninga: Hvernig líður þér? Hefur þú áhyggjur?

Úr framtíðinni

Nú er tími að endurskoða. Við erum kölluð til að hugsa um líf okkar. Vissir þú, að Guð er ekki bara til í fortíð og nútíð? Sagan um Guð er ekki bara til í menningunni og í gömlum bókum. Guð er ekki bara á eftir þér. Guð kemur líka úr framtíð. Þegar aðstæður fortíðar og nútíðar vekja með okkur ugg eða ótta kemur Guð. Og þar sem Guð er verður líf til. Á tíma veirunnar er ekki aðeins skelfilegur kórónavírus á ferð heldur er andi Guðs löngu kominn. Guð kallar þig til að setja tilfinningar í samhengi. Ótti er eðlilegur öllu lífi en óttinn á ekki að verða húsbóndi nokkurs manns. Ótti hjálpar okkur í lífsbaráttunni en trú, von og kærleikur mega verða stjórnkerfi okkar. Hvaða möguleika hefur þú núna? Hvað langar þig að gera? Hvernig getur þessi kreppa opnað líf þitt til góðs? Nú er tækifærið.

Jesús sagði: „Frið læt ég yður eftir, minn frið gef ég yður. Ekki gef ég yður eins og heimurinn gefur. Hjarta yðar skelfist ekki né hræðist.“ Á tímum kórónaveirunnar – eins og allar aðrar stundir – er Guð nærri þér. Og heyrir bænir þínar, gengur við hlið þér og styður þig.