Kirkjur brenna. Í sumum er kveikt af ásetningi. Að meðaltali er kveikt í 274 kirkjum í hverjum mánuði, ár eftir ár um allan heim. Aðrar brenna vegna bilana, mistaka eða af öðrum ástæðum. Kirkjubruni er alltaf stórmál.
Miðgarðakirkja í Grímsey brann í september 2021. Mikilvægur sögustaður fuðraði upp, vettvangur stóratburða samfélagsins hvarf og mikilvægir gripir hurfu í gin eyðingar. Altaristafla Miðgarðakirkju brann líka. Þá mynd gerði Arngrímur sem hafði viðurnefnið málari. Hún var ein af ellefu altaristöflum sem hann málaði og sýndi síðustu kvöldmáltíðina. Fyrirmyndin var frægasta kvöldmáltíðarmynd allra alda, verk Leonardo da Vinci í Mílanó. Söfnuðurinn í Grímsey keypti mynd Arngríms fyrir 120 krónur árið 1879 og síðan var hún í Miðgarðakirkju. Nú er þessi þokkafulla mynd málarans horfin í eldi tímans. Bruninn í Grímsey rifjaði upp fyrir mér annan eld sem Arngrímur tengdist og málaði líka. Það var kirkjubruninn á Möðruvöllum árið 1865
Angrímur málari var umtalaður í uppeldi mínu. Svanfríður Kristjánsdóttir, móðir mín, var Svarfdælingur. Hún sagði mér í bernsku frá Arngrími sem meistara lita og forma. Hún benti á málarastofu hans, sem blasti við frá Brautarhóli hinum megin dalsins. Þar var ég í sveit í sautján sumur. Ég fann fyrir svipaðri virðingu þegar nafni minn, frændi og fóstri, Sigurður Kristjánsson, talaði um Arngrím. Málarinn varð í tali þeirra systkina að dýrmætum nágranna, frænda og fyrirmynd. Margir Svarfdælingar hafa heiðrað Arngrím og haldið minningu hans á lofti. Við ævilok skrifaði Kristján Eldjárn, forseti, bók um málarann og Þórarinn, sonur hans, bjó ritið til prentunar þegar Kristján féll frá og skrifaði einnig formála bókarinnar.
Svarfdælingar hafa virt fleiri en eigin dætur og syni. Arngrímur Gíslason var ekki Svarfdælingur heldur Þingeyingur og fæddist í Skörðum í Reykjahverfi árið 1829. Síðustu æviárin bjó Arngrímur og seinni kona hans, Þórunn Hjörleifsdóttir, í Svarfaðardal, fyrst á Tjörn, síðan á Völlum og að lokum í Gullbringu ofan við Tjörn. Þar reisti Arngrímur sér smáhýsi til listiðju sinnar. Húsið var elsta vinnustofa listmálara á Íslandi. Hún er enn til og loflega vel varðveitt af eigendum, fjölskyldu Kristjáns Eldjárns. Þrátt fyrir drátthæfni naut Arngrímur ekki myndlistarmenntunar fyrr en hann var kominn á fullorðinsár. Arngrímur var hæfileikamaður og kunnáttusamur á mörgum sviðum. Hann var forystumaður sundmennta á Norðurlandi. Hann lærði bókband og þótti listamaður á því sviði. Hann hafði atvinnu af bókbandi um tíma og skrifaði líka um listina að binda bækur. Rit hans um bókbandsreglur er til í afriti á Landbókasafninu. Þá hreifst Arngrímur af tónlist, lærði á fiðlu og flautu og lagði sig eftir tónfræði. Svo spilaði hann á samkomum og hafði nokkrar tekjur af giggunum. Hann var poppari tímans. Arngrímur stundaði einnig nótnaskrift og var áhrifamaður í tónlistarþróun á Norðurlandi á nítjándu öld.
Á́ fertugsaldri, þegar Arngrímur var við nám í rennismíði í Reykjavík, fékk hann tilsögn í myndlist hjá Sigurði Guðmundssyni, málara. Fjárskortur meinaði Arngrími þó frekara náms en hann hélt áfram að teikna og munda penslana. Hann var sjálfmenntaður alþýðumálari. Björn Th. Björnsson, listfræðingur, rómaði atorku Arngríms, dug við gerð mannamynda sem og sjálfstæði hans. Þó altaristafla Miðgarðakirkju væri eftirmynd var Arngrímur þó lausbeislaður við málverkið og altaristöflurnar málaði hann gjarnan í samræmi við eigin hugmyndir. Hann var frjálshuga og hentaði að fara eigin leiðir í lífi og list.
Viðurnefnið málari fékk Arngrímur seint á ævinni þegar hann sneri sér af krafti að myndsköpun. Hann fór um Suður-Þingeyjarsýslu, teiknaði og málaði fólk á bæjunum þar sem hann kom. Möðruvallakirkja brann árið 1865 og þá var Arngrímur á staðnum. Möðruvellir eru brunavellir. Klaustrið brann 1316 og Davíð Stefánsson skrifaði leikrit um þann atburð. Árið 1712 brunnu öll staðarhús nema kirkjan. Amtmannsstofan varð eldi að bráð árið 1826 og amtmannssetrið, Friðriksgáfa, árið 1874. Þegar kirkjan brann árið 1865 var litlu bjargað. Arngrímur horfði ekki aðeins á brunann heldur óð hann inn í eldhafið til að bjarga altaristöflu kirkjunnar. Honum var verðlaunað afrekið og fékk þá mynd að launum. Líklega varð þessi tafla til að beina sjónum, huga og höndum málarans að gerð trúarmynda. Töflurnar sem Arngrímur gerði voru allar unnar eftir 1870, þ.e. eftir að hann eignaðist Möðruvallamyndina.
Ein af merkustu myndum Argríms er vatnslitamynd hans af kirkjubrunanum á Möðruvöllum. Hún er raunar fyrsta myndin af samtímaatburði eftir íslenskan listamann, fyrsta fréttamyndin eins og Kristján Eldjárn kallaði hana. Gerð brunamyndarinnar vitnar um andlega auðgi listamannsins sem og kraft og þor í dráttum, ljósi og skuggum. Þegar brunamyndin er skoðuð sést hve slyngur teiknari og málari Arngrímur var. Myndin sýnir vel útlit kirkjunnar, glugga, turn og hlutföll. Hún opinberar að veðrið hefur verið á norðan eða norðaustan því kirkjan stóð austur-vestur eins og flestar íslenskar kirkjur. Svo sést að hún hefur haft norðlenska kirkjulagið, með glugga á austurgafli sem gerir slíkar kirkjur að elskulegum guðshúsum. Í þeim ljóshúsum er gott að messa því birtan flæðir inn í kirkjuna báðum megin við altari og í mörgum kirkjum að ofan líka. Í seinni tíð eru tré gjarnan í kirkjugarði utan glugga og hafa orðið fólki augnhvílur í athöfnum.
Þegar fólkið á brunamyndinni er skoðað sést að flestir eru hættir að bera vatn að. Fólk er búið að gefast upp gagnvart eldinum. Amtmaðurinn stendur þarna og styður sig við amboð eða staf og hin líka. Ég hreifst af hugarflugi málarans, hvernig myndin var útfærð. Hún er dökk, eins og sótið sæki að honum. Væntanlega hefur kirkjan verið bikuð líka. En til að búa til sterkar andstæður reynir Anrgrímur að magna eldinn. Hann málar bálið kunnáttusamlega og býr til ógnvænlegar myndir til að tjá hve eldhafið hefur verið algert. Mikil hreyfing er í myndinni og einkum í eldinum. En mennirnir eru sem lamaðir, stirnaðir. Eldurinn gýs upp og tungurnar teygjast til hægri, þ.e. til suðvesturs. Í reyknum er sem óvættur eða drekar birtist, einhverjar yfirjarðneskar ásóknarverur. Það gæti rímað við trúarhugmyndir fólks á þessum tíma, þá trúarvitund sem Hallgrímur, Jón Vídalín og aðrir túlkuðu í ritum sínum. Að fólki væri sótt og menn yrðu að gæta sín og sinna, annars færi illa.
Miðað við eldhafið og hvernig Arngrímur málaði sýnist að eldur hafi komið upp í forkirkju eða framkirkju því eldurinn er mestur vestast í byggingunni. Það passar við frásagnir staðarmanna síðar. Í kirkjunni var ofn og hefur verið í miðri kirkju sbr. staðsetning reykháfs. Eldurinn gaus upp eftir að kveikt var upp í ofni að morgni til undirbúnings guðsþjónustu dagsins. Talið var að neisti eða glóð hafi fallið einhvers staðar á milli útidyra og ofnsins.
Arngrímur málari var áhugaverður maður. Mynd hans er líka áhugaverð. Hún er vel skipulögð. Myndbyggingin er skýr. Mennirnir eru teiknaðir og málaðir sem varnarlaust fólk, þó í mismunandi stöðu sé. Eyðileggingin er alger og tjáð í teikningunni. Allir sem þekktu til og sáu þessa mynd hafa fundið til missisins. Þarna fer kirkja forgörðum, mikil verðmæti, menningarhögg. Kirkjur eru ekki bara hús út á túni. Kirkjur eru meira, þær eru táknhús byggða og menningar. Kirkjur lifa ákveðnu lífi og hafa hlutverki að gegna sem tákn hvers samfélags. Þegar kirkja brennur eða eyðileggst af einhverjum ástæðum fara ekki bara verðmæti forgörðum heldur lemstrast samfélag. Má kirkjan brenna? Geta menn bara staðið hjá og látið sér fátt um finnast, annað en að þar fari fortíð og eyðist? Nei. Kirkja er hjarta samfélags, en líka ásýnd og tákn.
Brenna Möðruvallakirkju 1865. Arngrímur Gíslason (1829–1887), Blýantur og vatnslitir, 27 x 36. Gjöf Friðriks Sveinssonar (Fred Swanson), Winnipeg, 1930. LÍ 376.