Greinasafn fyrir merki: minningarorð

Lík, líkn og líf – líkræður

Presti varð á í útför. Við kistuhornið varð moldunarbænin með þessu móti: “Drottinn minn, gef þú dauðum ró og hinum líkin, sem lifa!“ Eitt i getur breytt miklu! Það sem á að vera líkn umbreytist í lík. Öllum verða á orðaglöp, líka prestum við bænagerð. Kannski klerkur hafi verið heltekinn af önnum, varla hefur hann verið að biðja Guð um fleiri lík. Dauðsfall og þar með lík er vissulega forsenda útfarar, en markmið prestsstarfsins er að þjóna líkn, upplýsingu, lífi – Guði. Hlutverk prests er ekki vera tæknir dauðans heldur verkæri líknar.

Mikilvægi líkræðunnar

Hið íslenska samfélag hefur löngum metið útför mikils og ekki síst líkræðuna. Í könnun Gallup 2004 kom t.d. í ljós að yfir 41% aðspurðra álitu, að ræðan væri mikilvægasti þáttur útfararathafnarinnar og ferlis útfarardagsins. Allt annað, t.d. söngur, kirkjan, umbúnaður, skreytingar, erfidrykkjan, hvarf í skugga líkræðunnar. Í útfararathöfnum finna prestarnir oft, að orðunum er nánast kippt út. Það er sem öll eyru verði orðsugur, sem svolgra. Sjaldan er betur hlustað og tekið við með meiri áfergju en í útförinni. Okkar, prestanna, er að vanda verk.

Í líkræðunni er margt skilgreint og mótað, sem máli skiptir. Trú og von eru boðuð, líf einstaklinga túlkað og prófíll hins kirkjulega vonarboðskapar í hverri samtíð teiknaður. Presturinn leggur til eigin nálgun og þarf að gæta að meðalhófinu en forðast ýmis fen, m.a. að dilla eigin sjálfi og sinna eigin þörfum.

Í eftirfarandi verður fyrst hugað að nokkrum þáttum varðandi texta og textanotkun í útfararæðum. Í síðari hlutanum mun ég skýra eigin nálgun, sem er í flestu lík afstöðu og iðkun margra presta. Ég geri hér ekki greinarmun á merkingu orðanna líkræða, minningarorð og útfararræða og nota heitin um ræður presta við útför. Vert er að minna á hin gömlu heiti eins og líksermón og líkprédikun. Samkvæmt hefðinni var líkræðan prédikun og það má vera hverri kynslóð presta til íhugunar.

Hvaða textar? 

Hvernig prestar nota Biblíuna sem ræðugrunn eða textasamhengi útfararræðunnar hefur aldrei verið grandskoðað. Mér skilst, að flestir prestar  noti jafnan eitthvert biblíuvers, sem uppistöðu eða ívaf minningarorða. Aðstæður skipta máli og lífsefni hins látna ræður oftast efni ræðunnar og oft textavalinu. Í einstaka tilvikum nota prestar texta utan Biblíunnar sem ígildi biblíuvers. Það geta verið ljóð eða meitlaður texti, sem varðar hinn látna, lýsir honum eða henni eða hefur verið uppáhaldsljóð eða orðtæki. Stundum hef ég flutt ljóð í útför eða við kistulagningu sem hinn látni hefur samið.

Ræðutegund

Ýmsar gerðir eru til af útfararræðum. Inntak, form og tilgangur hafa áhrif á ræðumótun. Notkun biblíutexta ræður miklu um hvernig ræðan er stílfærð. Síðan skiptir miklu hvernig fjallað er um líf þess sem kvaddur er. Þar gefast ýmsir möguleikar. Einnig er afdrifaríkt á hvaða guðfræðigrunni útfararræðan er reist, með öðrum orðum: Hver er tilgangur hennar?

Himneska líkræðan

Formgerðir líkræðu eru nokkrar. Í fyrsta lagi eru þær líkræður, sem eru fyrst og fremst útlegging biblíutexta. Þessar líkræður eru svipaðar biblíuskýrandi prédikun. Í sinni einföldustu gerð hefur þessi ræðugerð fremur lítið pláss fyrir líf hins látna og fjallar fremur um vonarmál hins kristna manns, um eilífa lífið. Vítan er gjarnan stutt, en erindi kristninnar aðalefnið. Vonarefnin eru útlistuð og hvernig einstaklingurinn er umlukinn hinum himneska veruleika. Svona ræða getur vissulega slitnað úr sambandi við jarðneskan veruleika.

Fáir íslenskir prestar einskorða sig við þessa ræðugerð, en hún var og er algeng í Skandínavíu. Líf einstaklingsins hverfur í stórramma hins almenna eða himneska. Útfararræðan verður sem næst stöðluð og breytilegu liðirnir eru þá þau örfáu atriði, sem nefnd eru varðandi líf hins látna. Staða útfararathafna er talsvert önnur í skandinavísku en í íslensku samhengi og kann að skýra mismunandi ræðunálgun. Útfarir eru félagslegur viðburður og mikið sóttar á Íslandi en víðast erlendis fámennar og fyrst og fremst ritualviðburður fjölskyldunnar.

Hinar himnesku ræður er hægt að setja í handbækur presta og væri ástæða til að skjóta einni slíkri í handbók presta þegar hún verður endurútgefin. Sjaldan kemur fyrir að íslenskur prestur semji ekki ræðu og aðstæður eru þá sérstæðar. Þá væri gott að geta hvílt í vönduðum sermón af himneska taginu og úr handbók.

Samlokuræðan

Í öðru lagi er svo minningarræðan þar sem texti úr Biblíunni og útlegging hans verður meginefni inngangs og mótar niðurlag ræðu. Á milli biblíulaganna er víta hins látna. Biblíutextinn verður í þessari ræðugerð uppistaða en útlegging ívafið sem er látið falla að vítunni svo bæði biblíuandinn og lífssaga hins látna rími þokkalega eða vel, þegar best tekst til. Textinn er þá valinn svo hann passi vel að lífshlaupi eða tilefni dauðsfallsins. Þessi samlokuaðferð getur hentað í flestum gerðum útfara og einu gildir hvort dauðsfall hefur borið eðlilega að eða þegar slys hafa orðið eða dauða borið að með voveiflegum hætti. Þessa aðferð nota margir íslenskir prestar en hlutföll milli texta og lífs eru mismunandi og misvel unnið úr og tengt saman. Vegna hins augljósa, oft þrískipta, forms verður ræðubyggingin skýr og þægileg bæði presti og söfnuði.

Flétturæðan

Þriðja ræðan er lík samlokunni í því að biblíutexti og lífsþættir faðmast. En í stað lagskiptingar samlokunnar eru þættirnir fremur fléttaðir saman. Ævibrot eru tengd einhverju í textanum, sem er ætlað að upplýsa og nýtúlka ævibrotin. Ræðan verður að flæða eðlilega og fléttan verður að móta óbrotna heild þegar allt er sagt og ræðu lokið. Texti og líf hafa þá notið samþættunar. Gjarnan er unnið með ákveðið markmið í huga, t.d. að skýra og upplýsa æviþátt í anda guðfræðistefs eða að tengja líf hins látna við huggunarorð og prédika svo að syrgjendur geti tekið nýtt og mikilvægt skref í sorgarvinnunni.

Flétturæður gera miklar kröfur til höfunda sinna. Þær gera kröfur um vandvirkni við val efnis, til þokkalegrar formskynjunar, hæfni til að velja þræði við hæfi úr fjölbreytilegu efni og þor til túlkunar. Mér hugnast líkræður af þessu tagi og tel, að þær henti til skapandi túlkunar. Þær gefa færi á fjölbreytilegri skynjun tilheyrenda og þar með trúarlegri dýpkun. En þær gera ögrandi kröfur til prestsins og oft mikillar vinnu. Flétturæðan gerir líka kröfur til áheyrenda og verður vart sú algengasta.

Skrautræðan

Í fjórða lagi er svo sú gerð líkræðu þar sem biblíutextinn er skraut. Textinn er þá eins og skyldulesning, fluttur til að uppfylla þá venju að eitthvert biblíuorð skuli hljóma. En ræðan er þá ekki beisluð af textanum, heldur stingur ræðumaður sér út úr eða af textanum eins og um dýfingar væri að ræða. Líkræðan verður lausgirt og það sem er rætt um lífssögu hins látna er án Ritningartengsla. Síðan er gjarnan einhvers staðar á ferðinni skvett vonarorðum til áheyrenda, sem vegna sundurgerðar eru oftast klisjur.

Skrautsækjandi stökkbrettisræður eru hvimleiðar. Stundum eru þær jafnvel illa unnar og til þeirra kastað höndum. Ef Biblíunotkunin er marklaus og textinn er skreyting má spyrja, hvort ekki sé alveg eins gott að sleppa biblíutexta í þeim tilvikum, sem presturinn finnur engan texta eða getur ekki tengt texta og líf hins látna með eðlilegum hætti. Auðvitað verða menn stundum andlitlir og aðstæður hindra góð vinnubrögð. Ég man úr eigin prestsskap hversu textaleitin gat orðið tímafrek, ekki síst á frumbýlingsárunum. Þó ég ætti nokkrar voru biblíuhandbækur mínar ekki sérlega góðar og engin leitarforrit voru þá til í veröldinni. Margra klukkutíma leit skilaði stundum litlu. Leitarvélar samtímans eru hins vegar þarfaþing og hafa stytt leitartímann.

Illa er komið, ef Ritningartexti er ekkert meira en skreyting, bara snagi til að hengja á nokkrar þokkalega gerðar trúarslaufur. Biblíuskreyti vekur grun um, að Biblían sé þá lítið annað en varahlutalager fyrir það handverk að klambra saman veifu fyrir sýningu í útförinni. Prestur má aldrei leyfa sér að reyna að búa til sýndarveruleika. Hlutverk prestsins er að miðla merkingu, vera merkingarberi. Prestar eiga að gera ríkar kröfur til sín varðandi Biblíunotkunina. Vandi líkræðunnar er að einhverju leyti vandi prédikunarinnar í samtíðinni. Þó margir eigi í vandræðum heimildir og erindi, mega prestar ekki flýja erindi sitt vegna kirkjunnar, vegna trúarinnar, vegna þjónustunnar við Guð.

Er skylda að nota Biblíuna?

Er skylda að nota Biblíutexta við skrif líkræðu? Verðum við að nota Biblíuna? Við getum líka snúið spurningunni við og spurt, hvort ekki væri hentugast og þægilegast að sleppa ritningartextanum? Hvaða hlutverki þjónar hann? Hann er alveg örugglega ekki til þess eins að létta prestinum lífið, vera handhægt sett til að grípa í þegar andinn flögrar fjaðrafár og annir að kæfa.

Kristnin er átrúnaður bókarinnar og við höfum búið við biblíuáherslu í kirkju- og guðfræði-hefð okkar. Ég hef aldrei efast um, að það sé kirkjulega göfugt og dyggilega lúterskt að styðja sig við Biblíuna í útleggingunni. Því oftar sem ég puða í líkræðugerðinni læðist hins vegar að sú vangavelta, hvort ekki væri bæði boðlegt og guðfræðilega ábyrgt að sleppa textavísuninni algerlega. Á hvaða forsendu? Jú, á forsendu trúar á Guð skaparann, þennan sem brosir í smæstu ódeilum, dansar í stærstu stjörnukerfum en hefur líka blessað líf hans og hennar í kistunni fyrir framan okkur.

Líf fólks sem texti líkræðu

Það er í þessu samhengi, sem við getum talað um fimmtu gerð líkræðu, sem er hin bóktextalausa. Líf fólks verður þá texti útleggingar. Þetta getur hljómað sem ókristileg hugsun og óbiblíuleg vangavelta. En þá er vert að minna á, að það er hvorki Guðlast né Biblíulast að viðurkenna verkan Andans. Líf einstaklingsins er vitnisburður um anda Guðs í veröldinni, um lækningu í sögu meina og áfalla, um hjálp í nauðum hins látna, um upprisu úr eða frá sorgum og sjúkdómum, um skin páskasólar þegar lífið hefur lifnað eða líkamleg, andleg eða félagsleg lækning hefur orðið. Birta hins góða, kraftur hins guðlega, í erfiðum aðstæðum blasir ávallt við þegar kafað er í lífssögu hins látna.

Allt frá líkræðuleiðbeiningum Marteins Einarssonar, Skálholtsbiskups, á 16. öld, hefur verið varað við að ana ekki í vitleysurnar. Þaðan í frá hafa kirkjuhirðar og leiðbeinendur bent á hættur og pytti, sem hægt er að rata í. Það getur vissulega reynst snúið að leggja út af ævi þess, sem virðist hafa klúðrað eigin lífi og spillt lífi síns fólks. Margt má liggja kyrrt og ekki er auðvelt að koma orðaböndum á hrylling eða álappaskap. Enginn prestur hefur þörf fyrir að segja allt og engin ástæða til. Á okkur prestum er rík krafa um góða dómgreind, að við túlkum og orðum með skapandi hætti það sem segja þarf.

En líf allra er merkingarríkidæmi, sem má lyfta upp í vitund syrgjenda. Engu skiptir hvort ævin hefur verið það, sem einhverjir teldu vera sorgarsögu eða samfelld sigurganga. Líf allra er köflótt, flétta gleði og rauna. Líf hvers manns er einstakt og undur. Guð er samhengi og gjafari gæðanna. Er slíkt ekki texti til að leggja út af, verðugt viðfangsefni fyrir frjálsa guðfræðinga, skapandi fólk á tímum breytinga? Mér er spurn hvort stætt sé á bóktextalausri líkræðu? Prestur, sem ætlar sér að skrifa slíka ræðu, verður að vera meðvitaður um, að verkefnið gerir miklar kröfur og auðvelt er að tapa þráðum og áttum. Skýr guðfræði verður að marka grunn og skýr guðfræðirammi verður að móta skrifin. Annars er hætt við, að allt verði párað í anda heimafengins smekks skrifarans. Við getum einnig spurt hvort það séu fyrst og fremst áhugamenn um sköpunarguðfræði, sem vilja sleppa biblíutextunum? Hvað verður um Biblíuskilning kirkjunnar og skilning á holdtekjunni?

Þrenna guðfræðinnar: Biblía – hefð – samtíð

Biblíufesta í prédikunargerð er ekki trúarlegt stjórnarskrármál og biblíueinfeldni er trúarlöstur. Allir prestar verða að ákvarða forsendur eigin guðfræði og þar með prédikunar. Biblían er ekki eina forsenda nútímaguðfræði eða prestsskapar. Jú, vissulega er Biblían meginlind lífmikillar guðfræði, en þó ekki sú eina. Trúarhefðin er önnur lind, sem presturinn þarf að nýta vel. Ef við trúum á skapandi Guð og óttumst ekki breytingar og þróun samfélags verðum við að taka mark á þeim gildum, áherslum og dýrmætum sem menningin kallar fram. Kirkja, sem aðeins lifir af hefð og með Biblíuslitur, er kirkja flóttans. Kirkja, sem iðkar biblíurýni í tengslum við samfélag sitt, mun lifa og getur orðið fólki til hjálpar. Samtíminn, veruleiki hverrar tíðar, er að mínu viti gjörningur Skaparans, sem kirkjan verður að innlífast og svara í guðfræði, atferli, starfsháttum og þar með prédikun og líkræðum. Þetta er þriðja lind skapandi guðfræði. Líf hins látna er vitnisburður um líf og starf Andans og hluti þessa. Líkræða er að mínu viti kall til guðfræði ekki síður en sálgæslu. Líkn er margþætt og margbrotin.

Við ættum ekki að slíta texta úr samhengi og nota sem skraut. En það er nauðsynlegt, að nota Biblíuna með fullri meðvitund og túlka anda Ritningarinnar og þeirrar guðfræði, sem presturinn aðhyllist. Líkræða er ekki bara túlkunarverk varðandi lífshlaup hins látna. Líkræðugerð er a.m.k. þreföld túlkunarvinna, samruni þriggja hringa, svo notuð sé túlkunarlíking Hans Georg Gadamer. Í fyrsta lagi er líf hins látna túlkað. Þá vinnu verður að vanda. Oft er mikið puð að tala við aðstandendur, skilja lífssöguna, greina stofna og aðalatriði, vinsa og raða, opinbera veilur og varnarhætti, meta fjölskyldu og ákvarða hvar er hægt að byggja upp og hvað er hægt og má tala um.

Síðan eru hinir hringirnir, erindi kristninnar. Annar hringurinn er ritningarhringur Biblíunnar, sá þriðji er síðan guðfræðisagan eða hefðin. Biblíuboðskapur, eitthvað í guðfræðisögu eða innlendri eða erlendri trúarhefð, kemur jafnan í hugann, sem andblær af hæðum, og nýtist til að hringarnir falli saman og ræðan nái merkingarskapandi möguleikum, hafi burði til að hugga, færa fólk til í sorgarvinnunni og gangi erinda huggunar og vonar. Form ræðu ræðst af lífi og hvaða atriði úr Biblíu eða hefð nær að upplýsa líf hins látna.

Viðmælendur

Mikilvægt er að spyrja sig reglulega í líkræðuskrifum fyrir hverja er unnið. Fyrir hverja eru minningarorðin? Ekki fyrir hinn látna eða englana. Þau eru ekki flutt vegna kirkjunnar. Þau eru ekki tæki prestsins til að sannfæra söfnuð um snilld hans. Minningarorð geta átt sér vítt samhengi, hinn látni getur verið fulltrúi stéttar, málstaðar, sveitar, landshluta eða þjóðar. Auðvitað þarf að minnast þessa og stundum að fara nokkrum orðum um slíkt. Það getur líka verið afar ríkulegt viðfangsefni t.d. þegar stólpi deyjandi byggðar fellur. Dauðsfallið getur hafa orðið með því móti, að ekki verði undan vikist að ræða samhengi og tala með rödd huggarans inn í aðstæður og leiðbeina, t.d. við sjálfsvíg eða fráfall barns eða ungs foreldris.

Fyrir hverja eru þá minningaroðin? Þeim er beint til syrgjandi ættingja og þeirra sem kveðja hinn látna og eiga að vera orð til styrks og veita hjálp við að sjá tilgang og merkingu í lífi hins látna. Þau mega vera sorgarhvíla, hjálpa fólki til að orða sorg sína. Þau mega líka vera reiðiskífa, hjálp við að fá útrás fyrir angist og jafnvel hatur. Það á að segja satt um mikilvæg mál, en auðvitað að tala svo að til gagns verði en ekki til að gera illt verra. Menn skyldu ræða við aðstandendur hvernig eigi að orða það sem er tvíbent. Líkræðan er ekki tilefni til að sprengja tilfinningabombur, heldur hjálpa fólki við að rísa upp. Líkræðan á ekki heldur að vera rennibraut út úr krísum fortíðar. Viðmælendurnir í kirkjunni og syrgjandi fjölskylda og vinir eru eiginlega fjórði hringurinn, sem þarf að taka tillit til og er réttnefndur lífhringur túlkunarferlins. Ef fyrri þrír hringir túlkunar ná að snerta og fléttast um hinn fjórða hefur handverkið lánast, andinn verið gefinn og líkn Guðs fengið farveg.

Inntak og liðir

Mörg kvíða útfarargrátinum, sem þau óttast að hellist yfir. Mörg eru óörugg gagnvart eigin viðbrögðum og vona að athöfnin sendi þau ekki á einhvern rússíbana tilfinninganna. Flestir prestar eru aðgætnir sálusorgarar og passa að snara ekki spenntum taugum um háls fólks og maka svo í framhaldinu vanlíðan í augu og eyru.

Húmor er ekki útfarartabú. Stundum getur bros eða hlátur orðið til léttis og hjálpar. Hið skoplega er þó vandmeðfarið. Prestur er ekki í hlutverki uppistandara í kirkjunni. Útför er ekki skemmtun, heldur fæðingardeild merkingar. Best er þegar allur söfnuðurinn fer í ferðalag, inn í vítu hins látna, nær að tengja við eigin líðan og tilfinningar, nær að gleðjast yfir lífshæðunum, bogna við áföllin, brosa eða hlægja að gleðiefnunum, vera með á för, vera alsgáður og samlíðandi. Þegar svo fer getur líkræðan haft mikilvægu samfélagslegu sálusorgunarhlutverki að gegna. Hin trúarlega orðræða getur komið fólki að miklu gagni.

Fólk kemur í kirkjuna, ekki aðeins til að votta virðingu hinum látna, heldur líka til að glíma við eigin líðan, eigið sjokk, eigin hrörnun og til að vinna með ágenga árás dauðans á öryggisnet sjálfsins. Hvar er staðfestan, hvernig get ég gert þetta upp? Gagnvart merkingarspurningum þarf að tala með viti en ekki klisjum, tala í krafti trúar, með von og vissu úr veröld kærleikans, þar sem enginn týnist heldur öllum er til skila haldið.

Í útförinni gegnir prestur ekki almennu upplýsingarhlutverki hvorki varðandi trúarkenningar eða um lífsþætti og stöðu hins látna í samfélaginu. Mogginn sér um æviágripið í flestum tilvikum og presturinn á alls ekki að gerast Moggaþulur. Einföld vinnuferilslýsing, upptalning á félögum og helstu lífsstiklum fer langt með að kalla fram í huga tilheyrenda það sem máli skiptir. Presturinn hefur hins vegar túlkunarhlutverki að gegna. Klerkinum ber að lyfta mikilvægum stefjum upp, setja líf viðkomandi í trúarlegt samhengi, tengja líf einstaklingsins við von og veruleika trúarinnar. Hlutverk líkræðunnar er ekki að skilgreina sögulegt gildi einstaklings, heldur að vera trúartúlkun fyrir syrgjandi söfnuð. Þar er dýpsta hlutverk presta, að tengja eilífð og tíma, trúarvisku við líf og dauða, Guð og söfnuð.

Tvílestur

Ýmis atriði geta skolast til við ræðuskrifin. Aðstendur muna stundum rangt eftir einstökum efnum, áherslur geta verið misjafnar og upplýsingar í prentuðum heimildum beinlínis rangar. Vegna þessa hef ég þá reglu, að ég les minningarorðin fyrir nánustu aðstandendur eða senda í tölvupósti. Með yfirlestri er betur fyrirbyggt, að meinlegar villur slæðist með. En hitt er þó mikilvægara, að aðstandendur vita hvers er að vænta, geta því slakað á gagnvart því sem sagt verður og geta hvílt í öryggi að presturinn segi rétt eða vel frá. Þar sem ég geri talsvert úr túlkunarþættinum er beinlínis bæði heiðarlegt og siðlegt að tryggja, að fólk komi ekki af fjöllum og hafi á tilfinningunni, að presturinn fari í furðulegar skógarferðir í ræðu sinni. Aðstandendur eru þá líka undirbúnir undir samræður um áherslur ræðunnar og geta fremur nýtt hana til sorgarvinnu.

Efnistök og skipan ræðu

Ég er ekki sáttur við eigin útfararvinnu, nema ég hafi á tilfinningunni að ég hafi 1. náð að skilja flesta mikilvæga lífsþætti hins látna; 2. hafi þokkalega góðan skilning á fjölskylduaðstæðum og þar með lífsskoðunum og trúarþroska; 3. geti tengt við trúarlega huggun eða skýringu.

Meginkaflar minningarorða minna eru gjarnan fimm en eru í mismunandi hlutföllum og uppröðun eftir aðstæðum.

  1. Inngangur: Ég byrja líkræður oft talsvert bratt með sögu um hinn látna eða lýsi atburði, sem vísa á meginstef síðar í líkræðunni. Inngangurinn verður að vera í samræmi við meginmál og niðurlag rímar gjarnan við upphafið. Tilgangur inngangs er að vekja athygli og opna vegna hins, sem á eftir kemur.
  2. Lífsstiklur: Þau atriði eru tekin með, sem helst vísa til þess sem rætt er um og verður til skilnings.
  3. Trúartúlkun: Með bakvísunum og viðbótarlífsstiklum má túlka lífshlaup trúarlega, mikilvæga atburði og tengsl við höfuðpersónur í lífi hins látna. Ævi hvers manns lyftir upp mörgum stórstefjum trúarinnar og gefur prestinum tækifæri til prédikunar. Klisjur eiga ekki heima hér fremur en annars staðar.
  4. Sálgæsla: Farið er yfir þau atriði, sem hægt er að nefna og ræða. Fólk er orðið það vant að talað sé um erfið mál að hægt er að ræða um sjálfsvíg, erfiða sjúkdóma t.d. geðsjúkdóma ef við á. Eins og dæmin sanna getur líkræðan þjónað samfélagssálgæslu.
  5. Hin kristna von: Hvað verður um fólk þegar það deyr? Hvað er himininn og hvernig kemur elska Guðs við sögu? Síðasti hluti ræðunnar má gjarnan fjalla um líf og hið stóra Guðsfang.

Ég birti sumar líkræður á netinu. Ég ræði við aðstandendur hvort þeir telji sér hag í að hafa ræðuna á vefnum. Fólk les þessar ræður talsvert og oft er haft samband vegna efnis þeirra síðar. Þegar rætt er um viðkvæm mál er niðurstaða stundum, að ræðan eigi ekki erindi á netið þótt hún segi ekki neitt sem þoli ekki almenningssjónir. Oft má satt hvíla í kyrru kirknanna.

Líkn fremur en lík

Þegar okkur tekst ekki upp í útförinni rætist bænin: “Drottinn minn gef þú dauðum ró, en hinum líkin sem lifa.” En þegar presturinn gengur inn í þjónustu við hina trúarlegu merkingarveitu verður ekki lengur bara lík og sorg, heldur líkn sem er fyrir lífið. Hlutverk presta er ekki að þjóna guði, sem safnar líkum, heldur að þjóna lífsins Guði.

Fyrst flutt sem fyrirlestur á prestafundi í Skálholti í október 2006. Birtist sem grein í Kirkjuritinu; 2009; 75 (2): bls. 30-34. Meðfylgjandi myndir tók ég í Hallgrímskirkju. Þá neðstu á allra heilagra messu. Myndina með skírnarfont Leifs Breiðfjörð í forgrunni tók ég við útför Lilju Sólveigar Kristjánsdóttur, móðursystur minnar. Svo er kenninmyndin frá sumartónleikum. 

 

Ísleifur Sumarliðason + 1926 – 2015

Ísleifur Sumarliðason
Ísleifur Sumarliðason

Hvað var það skemmtilegasta sem Ísleifur á Vöglum gerði? Börn hans urðu hugsi því margt kom til greina, margs að minnast á heimili, úr starfi skógarvarðarins í 38 ár og plöntuframleiðslu í áratugi.

Sáning í helgidóminum

Kannski var það þegar hann fór með fræpokana að sáningarreitunum til að sá. Þá urðu börnin að hafa hljótt um sig – ekki vera fyrir þegar Ísleifur varð samverkamaður skaparans, varð prestur í gjörningi sköpunarinnar, dreifði samviskusamlega trjáfræi í frjóa mold og í sléttum beðum. Augu hans horfðu yfir sáðbeðin, hendur hans og fingur dreifðu með agaðri natni mjúku fræinu svo það lagðist á spírunarstað í hæfilegri dreifingu. Og svo var jafnað yfir, vökvað og hlúð að.

Skógurinn varð helgistaður, Vaglir kórinn og sáðreiturinn altarið. Svo spíraði undir gleri í reitum. Fuglum var haldið frá og skepnum einnig. Illgresi var reitt burt og svo uxu upp fjarska lítil birkiskott, lerki, furuskinn, heggur eða einhverjar fáséðar tilraunaplöntur sem Ísleifur hafði löngun til að reyna að rækta undir misblíðum himni við brjóst landsins.

Myndin af sáðmanninum Ísleifi Sumarliðasyni er laðandi fögur. Hún dregur saman þræði í lífi hans, eðliskosti, upphaf og lífsstarf. Og hún tengir hann í sögu Íslands á 20. öld, framvinu samfélags, hugmyndir um hlutverk fólk í landinu, atvinnusögu og einnig menningarpólitík. En svo er sáðmaðurinn líka fulltrúi mannkyns í faðmlögum við náttúru, umhverfi og svo auðvitað við Guð, sem er “yfirskógarvörður” alheimsins.

Upphaf og mótun

Ísleifur Sumarliðason fæddist á Akranesi 12. nóvember 1926. Foreldrar hans voru hjónin Sigríður Guðmundsdóttir Thorgrímsen og Sumarliði Halldórsson. Nafn Ísleifs var vitjunarnafn eins og nafn föður hans. Fyrstu árin bjuggu foreldrar Ísleifs og Sigríðar, eldri systur hans, á Krossi við Akranes. Sumarliði var af fyrstu kynslóð skógfræðimenntaðra manna á Íslandi. Hann starfaði á árunum 1910-14 sem fyrsti skógarvörðurinn á Vesturlandi. Sumarliði var ekki aðeins áhugamaður um að endurklæða landið ilmandi skógi heldur vildi stuðla að innri ræktun íslenskrar æsku og var í þeim efnum samverkamaður sr. Friðriks Friðrikssonar í KFUM og sá um starf félagsins á Akranesi. Vegna tæprar heilsu og veikinda foreldra Ísleifs fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur þegar hann var á unglingsárum. Og móðir hans lést þegar Ísleifur var 18 ára.

Ísleifur hóf skólagöngu á Skaganum en hélt svo áfram í Ingimarsskóla þegar suður var komið. Í fríum og eftir að skóla lauk fékk Ísleifur vinnu við skógræktarstörf. Ræktin var í fingrum hans og sinni. Líf skógræktarfólks varð honum eðlilegur lífsháttur. Alla tíð – allt til enda – var leiðin að hjarta og huga Ísleifs greiðust með því að ræða um gróður og ræktun.

Ísleifur fékk á stríðsárunum vinnu í Múlakoti í Fljótshlíð sem varð til að hann ákvað að fara til náms í skógfræði í Danmörk. Sumarliði, faðir hans, hafði lært á Jótlandi en Ísleifur fór til náms á Sjálandi. Hann naut ekki aðeins Danmerkurtímans sem gleðilegs tíma heldur ferðaðist suður allt Þýskaland. Það var hans – og þess tíma – útgáfa af Interrail-ferð. Ísleifi ógnuðu afleiðingar styrjaldarinnar og ásýnd Þýskalands hafði djúp áhrif á hann.

Þegar Ísleifur hafði numið fræðin, notið danskrar menningar og – skv. því sem mér telst til orðinn skógfræðingur þjóðarinnar nr. 7 – var hann tilbúinn til starfa á Íslandi. Í ársbyrjun 1949 var Ísleifur ráðinn til að verða skógarvörður á Norðurlandi, með aðsetur á Vöglum í Fnjóskadal. Hlutverk hans var að vakta skóga á Norðurlandi. Víða voru kjarrsvæði og skógarleyfar sem þurfti ekki aðeins að vakta heldur einnig að verja til að þau lifðu. Hlutverk skógarvarðarins var ekki aðeins að girða heldur líka beita sér í samskiptum við fólk og þmt stjórnvöld til að vernda viðkvæm svæði, sjá til að umgengni við skógana yrði bætt og peningar yrðu til að manna stöðvar og starf.

Svo breyttist skógarvarðarstarfið á Vöglum. Ísleifur beitti sér fyrir uppbyggingu ræktunarstöðvar og umfangsmiklum tilraunum með tegundir og kvæmi sem hægt væri að nýta á Íslandi. Hann og starfsfólkið á Vöglum byggðu upp þekkingargrunn sem var hagnýtur við skógræktarstarf í landinu á seinni hluta tuttugustu aldar. Um 1980 voru á Vöglum framleiddar um 150 þúsund skógarplöntur árlega til plöntunar í Fnjóskadal eða annars staðar á Norðurlandi. Þessi framleiðsla kom til móts við aukin skóræktaráhuga landsmanna, þjónaði skógræktarfélögum og einnig mikilvirkustu skógræktarmönnum þjóðarinnar, sumarbústaðafólkinu. Merkilegar tilraunir voru gerðar við að greina hvaða tegundir hentuðu og við hvaða aðstæður.

Sigurlaug, börnin og Vaglir

Svo var það ástin. Hinn bráðungi skógarvörður á Vöglum var einhleypur þegar hann kom norður í veturinn í Fnjóskadal. Fyrst bjó hann á Skógum, sem er vestan ár. En svo kom vorið. Skógræktin var byggðarstólpi í dalnum og veitti mörgum atvinnu. Og Ísleifur réði fjölda fólks til starfa, m.a. Sigurlaugu Jónsdóttur frá Skarði í Dalsmynni (f. 15. júlí 1931 – dóttir hjónanna á Skarði, Sigrúnar Guðmundsdóttur og Jóns Jóhannssonar).

Og kannski var það fyrirsjáanlegt að fallegi Ísleifur og hin fallega Sigurlaug hrifust af hvoru öðru. Þau féllust í faðma og voru glæsileg hjón. Þau gengu í hjónaband 12. nóvember árið 1950. Hann fékk hana í afmælisgjöf – og sú gjöf var ein af stóru lífsgjöfum hans og til blessunar. Það voraði vel í lífi hans í Vaglaskógi og hjúskapurinn varð Sigurlaugu og Ísleifi ávaxtasamur. Þau eignuðust sjö börn. Elst er Sigríður Ingibjörg sem fæddist árið 1951. Síðan komu börnin eitt af öðru og þétt. Jón fæddist árið 1952, Jóhann Svavar tveimur árum síðar. Sumarliði Ragnar fæddist árið 1955 og Sigurður Örn ári síðar. Rúnar kom svo í heiminn árið 1962. Árið 1973 fæddist Guðmundur Einar, en hann lést aðeins tveggja ára.

Þau Sigurlaug og Ísleifur bjuggu á Vöglum í 38 ár. Heimili þeirra var fjölsótt. Það var m.a. áfangastaður erlendra skógræktarmanna sem komu víða að úr veröldinni. Svo var fjöldi fólks sem starfaði í skóginum, nokkrir allt árið og jafnvel einhverjir tugir yfir sumarið. Því var í mörg horn að líta og reyndi á hæfni og samstöðu þeirra hjóna. Þau nutu svo föður Ísleifs meðan honum entist aldur (+1965). Hann studdi son sinn og tengdadóttur í ýmsu m.a. með því að vera börnunum á Vöglum natinn afi sem miðlaði fjölskyldusögu, trú og gildum hins gamla Íslands.

Vaglaskógur var vegna skógræktar tengdur stórheiminum ekki síður en nærheimi. Skógarvörðurinn var ekki aðeins í góðri samvinnu við innlenda skógrækt heldur erlenda einnig. Fræsendingar komu um langan veg. Gestir komu færandi hendi og skógarvörðurinn eða þau Sigurlaug bæði ferðuðust um heiminn í vinnuerindum og oft í einkaerindum einnig. Á heimili þeirra Ísleifs mátti sjá minjagripi um heimsreisur þeirra og hve víða þau höfðu farið.

38 ár á Vöglum og svo þegar þau létu af störfum nyrðra voru þau reiðubúin að brjóta nýjan akur. Þegar þau höfðu lokað Vaglabænum í síðasta sinn hófu þau nýjan feril. Ísleifur og Sigurlaug fluttu árið 1986 suður í Mosfellsbæ. Þar keyptu þau hús og land og settu síðan upp gróðrarstöð sem þau ráku í tvo áratugi og framleiddu garðplöntur. Þau voru vön að starfa saman, nutu styrkleika hvors annars og gátu á eigin kostnað gert áfram tilraunir með gróður og í nýjum aðstæðum og á nýju svæði. Garðplöntusalan varð líka samastaður og jafnvel á stundum vinnustaður afkomenda þeirra hjóna. Þegar Ísleifur var áttræður og kona hans á áttræðisaldri var komið að nýjum skilum. Þau seldu hús og land og fluttu til Reykjavíkur. Ísleifur stríddi við vaxandi heilsuleysi síðustu árin og lést mánudaginn 29. júní, 88 ára að aldri. Þá höfðu þau Sigurlaug verið í hjónabandi í 65 ár.

Kveðjur hafa borist frá Frímúrum á Akureyri sem og frá systkinum í Nesi í Fnjóskadal.

Minningarnar

Hvernig manstu Ísleif Sumarliðason? Manstu dugnaðinn og vinnusemina? Hann var atorkumaður sem við munum eftir sem kynntumst honum. Hann var fjölhæfur hæfileikamaður. Áhugamaður um samfélagsmál og þjóðfélagsmál og las mikið alla tíð. Hann opnaði huga gagnvart menningu heimsins. Ísleifur var málafylgjumaður, hafði skoðanir á flestu og var stefnufastur í mörgu. Hið innra bjó í Ísleifi næmni og meir lund sem kom betur í ljós þegar leið á æfina. Hann var heiðarlegur og raungóður. Ættingjar og sveitungar vissu að hægt var að leita til Ísleifs um stuðning af ýmsu tagi. Ísleifur var öflugur stjórnandi, hvatti fólk til dáð í kringum sig, börnin sín til mennta og nærsamfélag til dáða.

Hvernig manstu hann? Hvað kemur í huga þinn? Lyftu upp, farðu vel með og legðu frá þér með natni – eins og þegar lagt er til spírunar það sem er ætlað til lífs.

Sumarlandið

Og nú er komið að skilum. Maðurinn sem byrjaði æfina með því að búa á Krossi fer nú undir merki krossins inn í eilífðina. Meistarinn mikli frá Nasaret var áhugamður um gróður, benti á liljur vallarins, sagði sögur af garðyrkju og fólki í ræktunarstörfum. Það er skógrækt og lífrækt í þeim Jesú Kristi sem líkti sjálfum sér við tré. Og það tré tilheyrði lífinu. Svo ræddi hann líka um sáðmann sem fór út að sá og sumt fræið bar ávöxt og annað ekki. Það er sagan um okkur menn, líka Ísleif Sumarliðason. Hann gekk í helgidóm skógarins, sáði í frjóan jarðveg og fylgdist svo með spírun, lífvexti og ávexti. Guð á himnum horfði með áhuga og stuðningi til Ísleifs, fylgdist með lífi hans og ávöxtum verka hans og fjölskyldu. Og svo er boðskapur úr gróðrarstöð himins skýr: Ég er upprisan og lífið. Ný spírun í nýjum sáðreit eilífðar. Þar fer ekkert forgörðum því sú ofuræktunarstöð er fullgerð, er án hreta og laus við öll dýr og mein.

Guð geymi Ísleif í því sumarlandi. Og Guð geymi þig.

Minningarorð í Neskirkju 7. júlí, 2015. Erfidrykkja í Neskirkju og jarðsett í Guðfuneskirkjugarði.