Greinasafn fyrir merki: menning

Bandaríkin, Ísland, Guðsríkið

Í dag höldum við hátíð í Hallgrímskirkju. Við göngum að borði Drottins. Fyrsta altarisgangan eftir meira en árshlé, raunar hlé í meira en fimmtán mánuði. Svo er líka þjóðhátíðardagur vinaþjóðar okkar vestan hafs. Textar messunnar varða guðsríkið. Íhugunarefni dagsins eru gildi, menning Íslands, Bandaríkjanna og Guðsríkisins. Það er merkileg þrenna. Öll jarðnesk ríki þarfnast heilbrigðrar gunnfestu og skipulags til góðs fyrir fólk. Guðsríkið er fyrirmynd um viðmið.

Er til nokkur góður maður?

Mér eru Bandaríki Norður Ameríku kær. Eftir guðfræðipróf frá HÍ stundaði ég framhaldsnám í Tennessee, sem er eitt af suðurríkjunum sem eiga sér mikla og marglita sögu. Mér þótti vera gefandi og heillandi. Eftir fyrsta veturinn vestra kom kom ég heim í sumarfrí og átti tal við konu hér í borginni. Hún vissi af námslandi mínu, horfði á mig djúpum áhyggjuaugum og spurði svo: „Er til nokkur góður maður í Bandaríkjunum?” Spurningin var frá hjartanu, heiðarleg og alls ekki sögð í gamanskyni eða af kaldhæðni. Henni var alvara. Konan hafði sterkar skoðanir í pólitík, á fólki og þjóðum. Hún var raunverulega sannfærð um, að þjóðfélag Bandaríkjanna væri illt og vegna gerðar hins ameríska samfélags væru íbúarnir skemmdir því samfélagið væri kerfislega spillt og íbúarnir þar með líka. Ég furðaði mig á fordómunum og ákvað að svara viðmælanda mínum. En rök mín breyttu engu. Það var engin leið til að fá konuna til að breyta klisjuhugsun sinni.

Er til nokkur góður maður í Bandaríkjunum? Spurningin hefur lifað með mér og vitjar mín reglulega þegar einhver vitleysan gengur fram af mér. Hún er tákn um einfeldningshátt sem því miður margir temja sér og rækta með sér. Jú, það er eðlilegt og nauðsynlegt að gefa sér forsendur í lífinu en vondar og vitlausar forsendur ala klisjur, fordóma og ofstæki. Og í krafti rangtúlkunar verða til falsfréttir, hleypidómar, ótti, vond pólitík, einangrunarhyggja og múgæsing. Afkvæmi slíkrar afstöðu eru mannhatur, ofbeldi, kúgun, manndráp og stríð.

Er til nokkur góður maður? Fordómar sem búa til slíkar spurningar búa í fólki sem dæmir aðra ranglega. Einstaklingar, hópar, félagasamtök, kynþættir, trúarhópar og öðru vísi fólk og jafnvel heilu þjóðirnar eru flokkuð í betri og verri, normal og ónormal, gott og vont. Til verður andstæðan við og þið.

The Declaration of Independance

Á þjóðhátíðardegi Bandaríkjanna rifja ég upp spurninguna um meinta illsku Ameríkana. Margt merkilegt er í sögu þeirrar þjóðar. Ekkert samfélag er fullkomið, hvorki hið bandaríska né íslenska. En margt af því besta, sem heimsmenningin hefur alið, varð til í Bandaríkjunum. Alltaf hefur mér þótt skemmtilegt, að fáni þeirrar þjóðar skuli hafa sömu liti og hinn íslenski. 4. júlí er þjóðhátíðardagur Bandaríkjanna vegna þess að þann dag árið 1776 var samþykkt Sjálfstæðisyfirlýsing þrettán nýlendna, The Declaration of Independence of the Thirteen Colonies.

Sjálfstæðiyfirlýsingin er klassík, eitt af djásnum Bandaríkjanna og líka heimsmenningarinnar. Rétt eins og Marteinn Lúther en ekki Thomas Jefferson væri við pennann segir í yfirlýsingunni, að til að fólk og þjóðir geti notið grunngæða séu stjórnvöld stofnsett. Valdið er frá fólkinu og stjórnvöld stýra í krafti þess valds. Mannvirðing er uppspretta yfirlýsingarinnar og skjalið túlkar kristin grunngildi og mannréttindi sem heilbrigður átrúnaður túlkar og styður.

Sjálfstæðisyfirlýsing Bandaríkjanna er magnað plagg sem fjallar um gildi og frumrétt fólks til lífs, frelsis og sóknar í hamingju. Þegar stjórnvöld bregðast skyldu sinni er rétt og skylt að kollvarpa þeim. Grunnhugsun lýðræðis og mannréttinda er skilgreind og viðurlög brota stjórnvalda ákveðin. Hlutverk stjórnvalda og þar með stofnana og einstaklinga er að verja gæði og einstaklinga. Þessa visku megum við gjarnan taka til okkar, læra af.

Viskurof

Sjálfstæðisyfirlýsingin er viðmið og stefnuvaki bandarískar menningar. Í menningarhefð okkar Íslendinga er líka hliðstæð mannsýn og lífsleikni sem við þurfum að rækta og njóta. Viskan er ekki síst tjáð í trúarhefðinni. Í íslenskum trúarritum okkar er kennt að við séum ekki bara óháðir einstaklingar sem lifum bara fyrir eigin þarfir og langanir heldur séum við meðlimir stórfjölskyldu. Hlutverk okkar er ekki að belgja okkur ekki út heldur virða samspil, kunna okkur hóf, seilast ekki of langt, iðka hið góða, gæta að mörkum okkar og köllun til að lífinu sé vel lifað og það verði farsælt. Sú hófstillingarhugsun er líka tjáð í þjóðsögunum. Boðskapur í postillum, hugvekjum, sálmum kristninnar eins og Passíusálmum er að við séum tengslaverur og ættum að sjá hlutverk okkar í stóru samhengi við náungann og Guð. Þá farnast okkur vel. Menn ættu ekki að gera efnislega hluti, fjármuni, stöðu og ytri dýrmæti að keppikefli lífsins, að hjáguðum, heldur leggja sig eftir góðu og gjöfulu sambandi við Guð og menn, sinna skyldum sínum í smáu og stóru, iðka réttlæti og seilast eftir farsæld – en ekki fé og frama. Jákvæð mannhugsun er tjáð í klassík Bandaríkjanna og Íslands.

Erindi lestranna

Þá að Biblíutextum sem eru bæði á íslensku og ensku í ljósrituða sálmayfirlitinu. Í dag er vísað í stóru málin. Lexían varðar að fólk er kallað út úr hinu þrönga samhengi og til hins stóra. Kall Guðs varðar að fara pílagrímaferð til nýrrar tilveru. Þegar Guð kallar reynir á hugrekki: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú vera.“ Hver þorir að slíta sig í burtu, fara?

Þetta var kall þeirra sem fóru frá heimaslóð til að flytjast til Íslands á fyrstu öldum Íslandsbyggðar. Og staða þeirra sem fóru til Bandaríkjanna á sinni tíð til að setjast þar að. Það þarf mikið þrek og hugrekki til að bregðast við boði um að taka sig upp og fara inn í nýjar aðstæður og til nýrrar tilveru. Stef lexíunnar er síðan endurunnið í pistilinum sem varðar að efla nýtt samfélag þar sem alls konar og ólíkt fólk er leitt saman. Hið nýja og óvænta verður þegar Guð kallar fólk frá hinu gamla, hinu hefðbundna, líka fordómum og til hins nýja. Til verður samfélag á grundvelli nýrra gilda, nýrrar mannhugsunar og nýrrar samfélagshyggju. Guðspjallið dregur svo saman að guðsríki Jesú Krists er hið nýja mannfélag elskunnar, samheldni, virðingar og kærleiksríkrar umhyggju. Í guðspjallinu er farið að baki fordómum. Hið illa má og þarf að hverfa. Illa anda, þ.e. hvers konar illsku og mannskemmandi afstöðu, þarf að kveða burt. Í endurvinnslu guðsríkisins skal hið illa fjarlægt. Segja skal skilið við það sem eyðileggur mannvirðingu, virðingu fyrir lífinu, fyrir öðrum. Guðstrú kallar fólk til virðingar fyrir sköpun Guðs, samfélögum, öðru fólki og eigin lífi.

Hver er vinsemd þín?

Og þá er komið að þér og vinsemd þinni. Hver eru gildi þín og hvernig bregst þú við þeim sem eru þér ólík og koma að utan? Ertu til í að leyfa fólki að njóta sannmælis? Ríkir í þér mannvinsemd, sjálfsvinsemd og lífsvinsemd? Slík vinsemd er tjáning trúar á Guð sem elskar fjölbreytni. Eru í þér fordómar um að þau sem ekki hugsa eins og þú séu annars flokks? Er komið að endurskoðun? Þarftu að endurskoða klisjur þínar, jafnvel fordóma um þitt eigið sjálf og persónu? Þarftu að heyra kall lexíunnar að þú þurfir að halda í merkilegra ferð sem Guð kallar þig til? Þarftu að leyfa Guðs góða anda að næra vinsemd þína til eigin lífs, eigin sjálfs, til annarra, samfélagsins, heimsins sem við búum í og náttúrunnar sem umvefur þig með svo ljúflegu móti?

Guðstrú varðar að stækka tilveru okkar. Guð er ekki handbendi og málsvari hins smáa, héraðs, menningar eða þjóðar. Guð er skapari heimsins, sem kallar okkur til að virða sköpun sína, náttúruna, annað fólk. Við erum ekki kölluð til klisjulegrar einfeldni heldur til virðingar fyrir grunngildum, góðu samfélagi, friði og réttlæti. Köllun okkar allra er að tengja lífið við Guð með þeim hætti að við verðum fulltrúar Guðs í heimi. Okkar hlutverk er að þjóna fólki vegna þess að það er lífsafstaða trúmannsins að gera öðrum gott því Guð vill þessum heimi gott.

Er nokkur góður maður í Ameríku? Er nokkur góður maður á Íslandi? Er nokkur góður maður í þessu húsi í dag? Velferð Bandaríkjanna og lífsgæði á Íslandi eru háð því að við iðkum mannvirðingu. Við erum kölluð til að vera borgarar Guðsríkisins, abyrgir fulltrúar ríkis Jesú Krists. Amen.

Prédikun í messu í Hallgrímskirkju 4. júlí 2021. Fimmti sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Þriðja textaröð. Myndina af drengjunum tók ég fyrir sex árum. Hattarnir og hálsfestin voru gjöf sendiherra BNA en drengirnir Guðsgjöf. 

Lexía: Fyrsta Mósebók 12.1-4a
Drottinn sagði við Abram: „Far þú burt úr landi þínu, frá ættfólki þínu og úr húsi föður þíns til landsins sem ég mun vísa þér á. Ég mun gera þig að mikilli þjóð og blessa þig og gera nafn þitt mikið. Blessun skalt þú vera. Ég mun leiða blessun yfir þá sem blessa þig og bölvun yfir þann sem formælir þér. Allar ættkvíslir jarðarinnar munu af þér blessun hljóta.“ Þá lagði Abram af stað eins og Drottinn hafði sagt honum og Lot fór með honum.

Pistill: Rómverjabréf 16.1-7
Ég bið ykkur fyrir hana systur okkar, Föbe, sem er djákni safnaðarins í Kenkreu. Veitið henni viðtöku vegna Drottins, eins og kristnum ber, og hjálpið henni með allt sem hún þarf að fá hjá ykkur. Hún hefur verið bjargvættur margra, þar á meðal mín sjálfs. Heilsið Prisku og Akvílasi, samverkamönnum mínum í Kristi Jesú. Þau hafa stofnað lífi sínu í hættu fyrir mig. Fyrir það votta ég þeim þakkir, ekki ég einn heldur og allir söfnuðir meðal heiðinna þjóða. Heilsið einnig söfnuðinum sem kemur saman í húsi þeirra. Heilsið Epænetusi, mínum elskaða. Hann er frumgróðinn handa Kristi í Asíu. Heilsið Maríu sem mikið hefur erfiðað fyrir ykkur. Heilsið Andróníkusi og Júníu, ættmennum mínum og sambandingjum. Þau skara fram úr meðal postulanna og gengu Kristi á hönd á undan mér.

Guðspjall: Lúkasarguðspjall  8.1-3
Eftir þetta fór Jesús um, borg úr borg og þorp úr þorpi, prédikaði og flutti fagnaðarerindið um Guðs ríki. Með honum voru þeir tólf og konur nokkrar er læknaðar höfðu verið af illum öndum og sjúkdómum. Það voru þær María, kölluð Magdalena, er sjö illir andar höfðu farið úr, Jóhanna, kona Kúsa, ráðsmanns Heródesar, Súsanna og margar aðrar. Þær hjálpuðu þeim með fjármunum sínum.

Leiðtoginn sem elskar og …

“Drottinn er minn hirðir” segir í 23. Davíðssálmi. Jesús bætir við og segir um sjálfan sig: “Ég er góði hirðirinn.” Mörg eigum við minningar um litríkar biblíumyndir, sem afhentar voru í sunnudagskólum kirkjunnar. Meðal þeirra voru myndir af fallegum Jesú í framandlegum fötum og í upphöfnu landslagi. Á mörgum myndanna hélt Jesús á lambi, sem hvíldi óttalaust á armi hans. Hann hafði gjarnan staf í hendi, risastaf, mannhæðarháan. Myndin á Ljósgeislamyndunum brenndist inn í vitundina, þannig hlytu Jesús og stafurinn að hafa litið út. Eftir á að hyggja held ég, að ég hafi haft meiri áhuga á staf Jesú en hirðishlutverki hans, meiri áhuga á græjunni en gerandanum. Og þannig er það með afstöðu margra til trúar – meiri áhugi á smáatriðunum, en á aðalmálinu, meiri áhugi á aukaatriðum en aðalpersónunni.

Elska og afleiðingar

Í texta dagsins talar Jesús við sitt fólk. Og samtalsaðferðin er mjög persónuleg og ávirk. Hann spyr beinnar spurningar, sömu spurningarinnar, aftur og aftur og ekki annað hægt en svara. Jesús spyr Símon Pétur: “Elskar þú mig?” – ekki einu sinni eða tvisvar, heldur þrisvar! Það hlýtur að hafa verið óþægilegt að svara svona persónulegri spurningu aftur og aftur. Þrisvar nefndi Jesús afleiðingu elskunnar: Gæta sauðanna. Hvað er málið? Það er að elska hirðinn og gæta sauðanna. Þá höfum við það. Boðskapur þessa sunnudags á gleðidögum er að elska og passa. Elskar þú? Gætir þú? Spurning Jesú varðar þjóðfélag, kirkju, menningu, heimili, þennan söfnuð, aðalfund sóknarinnar og þitt eigið líf. Elskar þú? Gætir þú? Þroskatvenna lífs og kirkju er að elska og gæta. Gæta og elska – það er einkenni góðs mannlífs, tilgangsríks lífs.

Brestir og viðmið

Tungumálið er lifandi og breytist. Mikilvægur þáttur þess eru líkingar, myndmálið sem við notum til að túlka viðburði og skýra og skilja. Og líkingar lifna í málinu en geta líka dáið, tapað merkingu og orðið líflausar klisjur. Hirðishlutverkið skildist í landbúnaðarsamhengi, en síður nú þegar engir fjárhirðar eru í fjölskyldu okkar lengur. Ég spurði einu sinni barn hvað fjárhirðir væri og fékk svarið: „Það er sá sem tekur alla peningana og hleypur svo í burtu!“ Sem sé, hirðir peningana og leggur svo á flótta! En hirðir er ekki þjófur heldur þvert á móti. Hirðir er vörður og verndari lífs.

Hverjir eru hirðar í samtíðinni? Það eru þau, sem hafa áhrif til góðs. Það eru leiðtogarnir. Hirðir er leiðtogi, sem eflir líf annarra. Hirðir er ekki sá eða sú, sem stýrir í krafti stöðu eða valds heldur lífsgæða.

Leiðtogahlutverk er ekki sjálfgefið og er á breytingaskeiði í samtíð okkar. Börn þarfnast góðra fyrirmynda, nándar foreldra og ástvina. Annars verður sjálfsmynd þeirra sprungin. Poppgoðin, álitsgjafar og íþróttahetjur eru ímyndir en ekki góðir hirðar, sem taka í hendina á fólki og þrýsta að barmi sér, þegar ástarsorgir dynja yfir, maki deyr eða áföll lama einstaklinga og fjölskyldur. Þau, sem ekki hafa notið góðra fyrirmynda og eru neydd til að búa sig til sjálf, púsla eigið egó úr molum og brotum, verða aldrei annað en samtíningur, án kjarna og heildarmyndar. Hver eru góðir leiðtogar. Elskar þú og passar þú?

Skjól í veröldinni

Hvernig varstu þegar þú fæddist? Þú varst örugglega hrífandi og hafðir mikil áhrif á alla nærstadda. Þú varst vonarvera, með engar spjarir en opna framtíð. Að við fæðumst nakin eru engin tíðindi og öllum augljóst mál. Börn deyja því ekki á Íslandi vegna klæðleysis. En þó við ættum nóg af fötum gætum við þó ekki lifað eða þroskast nema í skjóli annars, sem gerir okkur að mannfólki. Við hljótum þann yl, sem verður okkur vaxtarrammi í samhengi, í því sem við köllum menningu. Föt eru líkamsklæði, en menning er andleg klæði okkar. Við eigum skjólgóðar flíkur og hús, en það er sístæð spurning hvort þjóðfélag okkar sé skjólgott öllum. Af hverju deyja svo margir í sjálfsvígum? Af hverju er svo mikil vanlíðan í öllu ríkidæminu? Af hverju er misskipting í samfélaginu? Er menningin götótt?

Og þá að þér. Hvað hefði orðið um þig, ef þú hefðir ekki notið fræðslu og öryggis, ekki verið miðlað gildum og gæðum í bernsku? Þú hefðir farist í einhverjum skilningi. Menning er ekki bara listir. Menning er allt, sem gefur stefnu, staðfestu og haldreipi í lífinu. Menning er vissulega bækur, myndir, tónverk en ekki síður það sem fólkið þitt, mamma og pabbi hvísluðu að þér þegar þú varst lítill eða lítil. Lífsreglur og viska, sem þú notar síðar í lífinu og miðlar áfram til komandi kynslóða, þinna barna, er líka menning, skjólklæði sálarinnar. Vinnulag, heiðarleiki, hláturefni og sögur eru menning til lífs. Trúarefnin, bænirnar sem þú lærðir, vefur öryggis, sem þér var færður, er líka menning, jafnvel mikilvægasta skjólið sem þér var veitt til lífsgöngunnar. Fötin skapa ekki manninn, heldur skapar menning föt og fólk. Trúmenn vita svo, að Guð gefur máttinn og andann til að skapa fólk og föt sköpunar.

Góði hirðirinn og hamingjan

Einn merkilegasti þáttur mennskunnar, að vera manneskja, er getan eða færnin að snúa við, t.d. hverfa frá villu síns vegar, endurnýjast og taka nýja stefnu. Okkur mönnum er gefið að geta tekið ákvörðun um að láta ekki áföll, slys og sorgarefni brjóta niður heldur fremur stæla til vaxtar. Í mestu hörmungum er líka hægt að greina tækifæri, færi til að snúa frá því sem ekki gekk upp og að því sem er til góðs. Láta ekki fortíð hindra góða framtíð. Opna sig fyrir framtíðinni.

Lífsafstaða skiptir máli. Ímyndir, ofurstirni, hetjur verða þér til lítils, þegar stóru spurningarnar æða um hug þinn eða ljár dauðans syngur. Þú nærð ekki kyrrð og sátt nema þú eigir hið innra með þér það, sem getur verið þér leiðsögn, stefna, hirðir.

„Elskar þú mig?” spyr Jesús. Hvernig er ástarbúskapurinn í þér? Í því er hin góða menning fólgin að elska Guð. Elskan verður uppistaðan í vef lífsins til að við náum sambandi við samhengi alls sem er. Þegar fólk elskar þá er það líka aðgætið og passasamt.

Elskar þú? Gætir þú? Umhyggjan er systir elskunnar og báðar eru dætur Jesú. Það er ástæða þess, að hirðistextarnir eru íhugaðir á gleðidögunum eftir páska. Elskaðu og iðjaðu, njóttu og miðlaðu, lifðu og passaðu. Elskan er gefin og ætti að töfra lífið til unaðar. Lífið lifir af því Guð elskar og gætir. Ef okkur lánast að leyfa elskunni að eflast í okkur nærist líf okkar.

Elska og aðgát eru góðar systur sem fylgja þér úr kirkju í dag vegna þess að dauðinn dó og lífið lifir. Iðkaðu ástina. Farðu heim og játaðu fólkinu ást þína. Þér verður örugglega vel tekið. Elska og aðgát – lyklar dagsins á þessum gleðitíma eftir páska.

Hallgrímskirkju, 2. sunnudag eftir páska, 2019. Aðalfundur safnaðarins.

Textaröð:  B

Lexía:  Slm 23

Davíðssálmur. Drottinn er minn hirðir, mig mun ekkert bresta. Á grænum grundum lætur hann mig hvílast, leiðir mig að vötnum þar sem ég má næðis njóta. Hann hressir sál mína, leiðir mig um rétta vegu fyrir sakir nafns síns. Þótt ég fari um dimman dal óttast ég ekkert illt því að þú ert hjá mér, sproti þinn og stafur hugga mig. Þú býrð mér borð frammi fyrir fjendum mínum, þú smyrð höfuð mitt með olíu, bikar minn er barmafullur. Gæfa og náð fylgja mér alla ævidaga mína og í húsi Drottins bý ég langa ævi.

 

Pistill:  1Pét 5.1-4

Öldungana ykkar á meðal hvet ég sem einnig er öldungur og vottur písla Krists og einnig á hlutdeild í þeirri dýrð sem mun opinberast: Verið hirðar þeirrar hjarðar sem Guð hefur falið ykkur. Gætið hennar ekki nauðugir heldur af fúsu geði eins og Guð vill, ekki af gróðafíkn heldur fúslega. Þið skuluð ekki drottna yfir söfnuðunum heldur vera fyrirmynd hjarðarinnar. Þegar hinn æðsti hirðir birtist munuð þið öðlast þann dýrðarsveig sem aldrei fölnar.

 

Guðspjall:  Jóh 21.15-19

Þegar þeir höfðu matast sagði Jesús við Símon Pétur: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig meira en þessir?“ Hann svarar: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú lamba minna.“ Jesús sagði aftur við hann öðru sinni: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Já, Drottinn, þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Ver hirðir sauða minna.“ Hann segir við hann í þriðja sinn: „Símon Jóhannesson, elskar þú mig?“ Pétur hryggðist við að hann skyldi spyrja hann þriðja sinni: „Elskar þú mig?“ Hann svaraði: „Drottinn, þú veist allt. Þú veist að ég elska þig.“ Jesús segir við hann: „Gæt þú sauða minna. Sannlega, sannlega segi ég þér: Þegar þú varst ungur bjóstu þig sjálfur og fórst hvert sem þú vildir en þegar þú ert orðinn gamall munt þú rétta út hendurnar og annar býr þig og leiðir þig þangað sem þú vilt ekki.“ Þetta sagði Jesús til að kynna með hvílíkum dauðdaga Pétur mundi vegsama Guð. Og er hann hafði þetta mælt sagði hann við hann: „Fylg þú mér.“

Guð blessi Ísland

Textar þessa sunnudags eru áleitnir og tala beint inn í tíu ára afmæli bankahrunsins. Í guðspjallinu er sagt frá manni sem var í miklum vandkvæðum, en Jesús líknaði honum og reisti hann á fætur til nýs lífs. Pistillinn hvetur til endurnýjunar og í lexíunni segir: „Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja … Snúið við svo að þið lifið.“ Þetta er kjarnyrt samantekt á erindi kristninnar í veröldinni, verkefni hvers manns og orð í tíma töluð þegar hugað er að uppgjörum áfalla – já allra hruna heimsins.

Geir og Guð

Í gær voru rétt tíu ár frá því sá merki stjórmálamaður Geir Haarde, forsætisráðherra, flutti áhrifaríka ræðu 6. október árið 2008. Ræðan var öll birt á forsíðu Fréttablaðsins í gær. Erindi hennar er skýrt og Geir endaði ræðu sína með því að segja: „Guð blessi Ísland.“ Íslenskir stjórnmálamenn hafa ekki ofnotað Guð í kveðjum. En það er skýr og jákvæð kveðja að biðja mönnum blessunar Guðs. Og hefur aldrei skaddað nokkurn mann – en alltaf bætt. Amma mín og móðir sögðu við alla, sem þær kvöddu: „Guð blessi þig.“ En þessi blessun Geirs Haarde varð eins og táknsetning um ótrúlega atburði þessara haustdaga fyrir tíu árum, þegar bankakerfi Íslands hrundi.

Ekki gjaldþrota á meðan

Stórar stundir brenna minningu í huga. Og Guð blessi Ísland – kveðja Geirs var „aha-stundin“ þegar raunveruleiki hrunsins dagaði á okkur og brenndist í vitund flestra. Mörg eigum við sterkar minningar, sem tengjast þessum tíma. Við kona mín vorum vorum á leið til útlandi og líka uggandi um stöðu bankamálanna. Og hún hringdi í starfsmann í þjónustudeild bankans og tjáði áhyggjurnar. Hann sagði við hana vinalega og hughreystandi: „Elín mín, hafðu engar áhyggjur. Þó þú farir til útlanda verður Kaupþing ekki gjaldþrota á meðan.“

Þegar við lentum í Barcelona opnuðu margir símana sína á leiðinni út úr flugvélinni. Og það varð mikið uppnám í landgangnum, hróp og köll. Glitnir hafði fallið og ríkið tekið yfir reksturinn meðan við flugum í suðurátt yfir úthafið. Ræða Geirs Haarde hitti okkur og við fylgdumst með fréttum og svo féll Landsbankinn. Daginn, sem við fórum heim, féll Kaupþing. „Elín mín, hafðu engar áhyggjur. Þó þú farir til útlanda verður Kaupþing ekki gjaldþrota á meðan.“ Jú, Kaupþing féll, allir stóru bankarnir féllu. Fjármálakerfi Íslands hrundi. Tugir þúsunda urðu fyrir fjárhagstjóni, samfélagið lemstraðist, stjórnálaumræðan eitraðist og þjóðin varð fyrir áfalli. Guð blessi Ísland.

Álagahamur peninganna

Og nú lítum við til baka og rifjum upp. Og það er mikilvægt að fara yfir tilfinningarnar, þó sumar séu sárar og íþyngjandi. Eins og mörg önnur hlustaði ég – fyrir hrun – á helstu fjármálasérfræðinga þjóðarinnar lofa getu, fjárfestingasnilld, íslenskra útrásarmanna. Flestar trommur voru slegnar til að magna trúna á velgengnina. Forsetaembættið var notað og stjórnmálamennirnir voru líka málaliðar. Blekkingarvefurinn varð álagahamur Íslands. Það var nístandi sárt þegar háskaleikurinn endaði með skelfingu og í ljós kom að fataskápar keisaranna voru tómir. Þeim, sem treyst var, brugðust, hvort sem það var með vilja eða vegna álaganna. Eldarnir loguðu, harmurinn var mörgum mjög þungur. Við prestarnir heyrðum margar sorgarsögur fólks í miklum vanda.

Hliðrun – veiklun

Vandinn var vissulega margþættur: Oflæti í fjárfestingum, getuleysi stjórnmálastéttarinnar, hræðsla embættismanna, háskólafólksins og líka kirkjunnar. Teflonhúðin var álagayfirborð stétta og hópa. Guð blessi Ísland. En gerðir eða getuskortur einstaklinga eða hópa er ekki eina ástæða hrunsins heldur fremur hliðrun í menningunni, sem stóð í langan tíma. Að fjármálamenn, stjórnmálamenn, embættismenn og við öll skyldum lenda í hruninu var niðurstaða þróunar í heila öld. Gamla Ísland var ekki fullkomið, en í menningu okkar hafði kristin mannsýn stýrt meðferð fjármuna. Raunsæji var um styrkleika, en líka breiskleika fólk. Fyrr og síðar hafði verið hamrað á í prédikun, bókum og stjórmálum, að menn væru samfélag en ekki samsafn einstaklinga, um mikilvægi þess að standa með náunganum og öðru fólki. Samstaðan var aðall menningar okkar. Um aldir var hamrað á, að peningar væru ekki markmið, heldur tæki til að þjóna öðrum. Gróði væri ekki í eigin þágu, heldur til að bæta líf heildar. Við erum ekki eyland fyrir okkur sjálf – eða fyrir fjölskyldu okkar og ættmenni. Við erum ábyrg fyrir velferð þeirra sem hafa lítið, þeirra sem eru líðandi – allra. Guð blessi þig merkti alltaf á fyrri tíð að Guð hefði áhuga á velferð allra. Það var þessi sýn og vitund, sem hafði spillst í vaxandi velsæld tuttugustu aldar Íslands. Hið trúarlega var alla liðna öld æ ákveðnar flæmt úr almannarýminu og lokað inn í kirkjuhúsunum og helst á skrifstofum prestanna. Íslensk þjóð gleymdi, að Guð blessar ekki bara þjóðkirkjuna, heldur vill efla uppeldi og blessa atvinnulíf, banka og móta útrásarvíkinga. Siðferðisveiklun samfélags er vond menningarhliðrun. Og þegar Geir Haarde sagði Guð blessi Ísland hljómaði það ekki eins og góð kveðja um að við öll nytum góðs, heldur fremur eins viðvörunaróp. „Nú er allt komið til fjandans og búið ykkur undir það versta.“

Blessun en frelsi manna

Við getum spurt: Blessaði Guð Ísland? Ég segi já. Guð var og er með. Við treystum frekt, gerðum mistök, fórum of hratt, trúðum bláeyg og hrundum öll. En alltaf var Guð þó með. Guð er alltaf nærri, Guð blessar einstaklinga, gefur líf, ljós, mat og drykk, vind og sól, veröld til að lifa í – og róttækt frelsi til starfa og að gera gott. En þótt Guð blessi allt og alla tekur Guð aldrei frá okkur ákvörðunarvaldið, hið rótttæka frelsi til að ákveða okkar stefnu, vinnu, fjárfestingar, líf og lífshætti. Við getum ákveðið, að halda í þau gildi sem hafa reynst vel í samfélagi manna um aldir. En við getum líka ákveðið að sleppa þeim og bara græða og grilla.

…svo að þið lifið

Geir Haarde sagði í ræðunni merku: „Ég hvet ykk­ur öll til að standa vörð um það sem skipt­ir mestu máli í lífi hvers ein­asta manns, standa vörð um þau lífs­gildi sem stand­ast það gjörn­inga­veður sem nú er að hefjast…  …Guð blessi Ísland.“

Bæn Geirs virkaði.  Björgunaraðgerðirnar skiluðu ótrúlegum árangri. Víða hefur verið tekið faglega og vel á málum. En við erum ekki búin að vinna grunnvinnuna við að ákveða hvað við ætlum að gera í siðferðisefnum okkar, menningarhliðrun og uppeldi barnanna. Guð blessi Ísland gekk eftir í flestu hinu ytra. En það er okkar að vinna með blessunina í okkar lífi og okkar menningu. Það varðar nýjan anda, nýtt hjarta.

Ég kalla eftir þeim nýja anda, því nýja hjarta. „Snúið við svo að þið lifið.“ Guð blessi Ísland og í Jesú nafni – Amen.

Hallgrímskirkja 7. október, 2018. 19. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Tíu ára afmæli hruns.

Lexía: Esk 18.29-32
En Ísraelsmenn segja: „Drottinn breytir ekki rétt.“ Er það breytni mín sem ekki er rétt, Ísraelsmenn, eruð það ekki öllu fremur þið sem breytið ekki rétt? Því mun ég dæma ykkur, Ísraelsmenn, sérhvern eftir sinni breytni, segir Drottinn Guð. Snúið við, hverfið frá öllum afbrotum ykkar svo að þau verði ykkur ekki að falli. Varpið frá ykkur öllum þeim afbrotum sem þið hafið framið. Fáið ykkur nýtt hjarta og nýjan anda. Hvers vegna viljið þið deyja, Ísraelsmenn? Því að mér þóknast ekki dauði nokkurs manns, segir Drottinn Guð. Snúið við svo að þið lifið.

Pistill: Ef 4.22-24
Þið eigið að hætta hinni fyrri breytni og afklæðast hinum gamla manni sem er spilltur af tælandi girndum en endurnýjast í anda og hugsun og íklæðast hinum nýja manni sem skapaður er í Guðs mynd og breytir eins og Guð vill og lætur réttlæti og sannleika helga líf sitt.

Guðspjall: Matt 9.1-8
Þá sté Jesús í bát og hélt yfir um og kom til borgar sinnar. Þar færa menn honum lama mann sem lá í rekkju. Þegar Jesús sá trú þeirra sagði hann við lama manninn: „Vertu hughraustur, barnið mitt, syndir þínar eru fyrirgefnar.“ Nokkrir fræðimenn hugsuðu þá með sjálfum sér: „Hann guðlastar!“ En Jesús þekkti hugsanir þeirra og sagði: „Hví hugsið þið illt í hjörtum ykkar? Hvort er auðveldara að segja: Syndir þínar eru fyrirgefnar, eða: Statt upp og gakk? En til þess að þið vitið að Mannssonurinn hefur vald á jörðu að fyrirgefa syndir þá segi ég þér,“ -; og nú talar hann við lama manninn: „Statt upp, tak rekkju þína og far heim til þín!“Og hann stóð upp og fór heim til sín. En fólkið, sem horfði á þetta, varð óttaslegið og lofaði Guð sem gefið hafði mönnum slíkt vald.

Ógnar pólitísk rétthugsun jólum?

img_1621

Er það hlutverk sveitarstjórna, skólastjóra, kennara, stjórnmálamanna og fyrirtækja aðbreyta ferlum og mannfundum til að móðga ekki einhverja, sem eru ekki hrifnir af kristnum siðum og venjum? Á Bretlandseyjum hefur ekki lánast að byggja menningarbrýr sem hafa þjónað fjölbreytnisamfélaginu. Það var niðurstaða nefndar á vegum enskra stjórnvalda og var birt í The Sunday Telegraph og fleiri miðlum. Að skera kristin gildi, heiti, venjur og hefðir út úr opinberu menningarlífi, t.d. jólahaldi, hefur ekki orðið til að skapa opið samstöðu-samfélag sem hinir pólitískt rétttrúðu væntu. Af ótta við að særa brugðust yfirvöld og vel meint kurteisin var kjánaleg í ýmsum tilvikum. Lög voru jafnvel ekki virt. Í sumum innflytjenda-gettóum var ekki tekið á ofbeldi, s.s. misnotkun barna og kynferðisglæpum gegn konum. Spennan vex í bresku samfélagi og Brexit er m.a. niðurstaðan af vaxandi pirringi.

Boðskapur skýrsluhöfunda á vegum Cameron og May er að nú sé komið að menningarlegum viðsnúningi. Jólatrén á ekki lengur að kalla “hátíðartré” heldur Christmas tree. Skólayfirvöld, sveitarstjórnir, ráð samfélags og viðskiptalífs eiga að virða að samfélög hafa gildi, hefðir og venjur sem þarf að viðhalda og rækta. Verja þarf fólk gegn hvers konar ofbeldi.

Niðurstaða ensku skýrslunnar er að mestu mistökin hafi verið að halda ekki í grunngildi, grunnlög og grunnhefðir til að þau sem fluttu inn gætu aðlagast bresku samfélagi. Til að samfélag sé opið og vel virkt þarf að gæta inntaks menningar. Trú og hefðir eru veigamiklir þættir heilbrigðs siðar en einfeldningsleg pólitík er engum til gagns.

Við Íslendingar megum gjarnan læra af mistökum granna okkar. Miklu skiptir að halda vörð um gildi og siði sem þjóna fólki, gefa samhengi, tjá menningu, styrkja samfélag og auðga andlegt líf fólks. Kristnir menn eiga alltaf að styðja það sem eflir andlegt heilbrigði. Trú, gildi og gefandi hefðir lífga og efla. Ræktum hið góða á aðventu og Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól.

Fréttablaðið 19. desember, 2016.