Greinasafn fyrir merki: María móðir Jesú.

María hver?

María, drottins móðir kær,
merkir guðs kristni sanna:
Undir krossinum oftast nær
angur og sorg má kanna.
Til hennar lítur þar herrann hýrt,
huggunarorðið sendir dýrt
og forsjón frómra manna.

Þetta er íhugun Hallgríms Péturssonar í 37. passíusálmi um Maríu, móður Jesú. Á þessum sunnudegi föstunnar, þegar níu mánuðir eru til jóla, íhuga kristnir menn um allan heim hlutverk hennar. Hún ól Jesú Krist í móðurlífi sínu. Og sem erkimóðir heimsins hefur hún gegnt dýrlingshlutverki. Um aldir hefur fólk í vanda leitað til Maríu og beðið hana að ganga erinda sinna, styðja sig í plágum og erfiðleikum. Í dag, á boðunardegi Maríu, íhugum við nokkrar víddir í Maríuhefða kristninnar.

Skilgetið afkvæmi Maríumynda
Við byrjum í fána Evrópusambandsins. Af hverju er sá fáni blár? Af hverju er stjörnuhringur á fána sambandsins? Á hvað minnir þessi geislabaugur stjarnanna? Af hverju lítur hann svo kunnuglega út? Eru einhver minni að baki, sem við mættum vitja? Já, svo sannarlega. Fáninn á sér forsögu og merkilegt myndlistar- og menningarsamhengi.

Evrópufáninn er afkvæmi Maríumynda aldanna, myndverka af Maríu Jesúmóður. Evrópufáninnn líkist fjölda Maríumynda – en mínus Maríu. Blár litur fánans kemur eiginlega frá lit Maríumöttulsins og þeim blálitaða himni sem hún ríkir yfir, en Maríu hefur verið sleppt, henni hefur verið kippt út úr myndinni.

Fáninn varð til á sama tíma og kaþólska kirkjan ræddi um óflekkaðan getnað Maríu á sjötta áratug tuttugustu aldar. Fáninn og ný kenning um þá merku konu voru afgreidd og ákveðin á sama tíma. Síðan hafa tólf stjörnurnar úr geislabaug Maríu verið sem tákn fyrir heild Evrópu á fánanum. Og Maríutáknin hafa birtst á öllum peningaseðlum Evrópusambandsþjóða. Meira að segja skráningarnúmer á bílum þessara þjóða bera þessi tákn Maríu!

Guðskoman boðuð
Á þessum degi minnist heimskristnin Maríu, ofurkonu í menningarsögu heimsins. María hefur verið kölluð mörgum nöfnum; guðsmóðir, heilög María, himnadrottning, móðir María, stjarna hafsins og móðir kirkjunnar og fleira. Hún hefur verið lofuð og líka tilbeðin. María gegnir ekki aðeins hlutverki í kristninni heldur einnig meðal múslima. Margar Maríur hafa borið nafn hennar og María er eitt algengasta aðalnafn íslenskra kvenna. Áhrifasaga Maríu er margþætt og ríkuleg.

Erfisögnin tjáir að engillinn Gabríel hafi birst Maríu og sagt henni að hún hefði verið valin til að verða farvegur fyrir hjálp Guðs í heimi. Hvernig lítur engill út? Var hann með lilju í höndum eins og miðaldamálverkin sýna eða er blómið tákn til að tengja huga við trúartúlkunina? Var María í bláum klæðum – litur Maríu er jú blár? Var himininn blár eins og margar Maríumyndirnar sýna?

Hlutverk Maríu er menningarlega merkilegt. En skiptir María okkur samtímafólk einhverju máli umfram upprunalegt móðurhlutverk hennar? Siðbótarmenn tóku hana út af dagskrá fyrir fimm hunndruð árum vegna þess, að Rómarkirkjan miðaldanna hafði glennt guðfræði Maríu of rausnarlega. Maríu hafði eiginlega verið stolið úr mannlífinu og gerð að gínu uppi á tilbeiðslustalli. Hið kvenlega, mannlega, hafði þar með verið læst í fjötra, sem jafnframt urðu fjötrar kvenna og brengluðu líf fólks. En Maríu hefur aldrei liðið vel á stalli. Við höfum heldur engan hag af henni þar, ofurhetju handan mannlífs, handan heimsins. María ætti að vera í miðri hringiðu lífsins, með okkur í gleði og sorgum, plágum og kórónaklessum.

Maríuhlutverkin
Hver er og jafnvel hvað er María? Eitt er hver hún var og annað hvaða hlutverki hún gegndi eða gegnir. Hún var móðir og átti fleiri börn en Jesú Krist. Fjórir bræður Jesú eru t.d nefndir í Mattheusarguðspjalli. Og kannski átti hann systur líka? María var eiginkona trésmiðs. Hún var húsmóðir og Gyðingur í Rómaveldi. Hún hefur væntanlega gegnt hlutverkum sínum í samræmi við venjur, siði og væntingar.

Gyðingar áttu ekki í neinum erfiðleikum með barnsgetnað og hvernig líf kviknar og hverjir koma við þá sögu. Það voru ekki bara tvö heldur alltaf þrír aðilar: Kona og karl vissulega – en líka hinn þriðji – Guð. Alltaf þrjú. Samkvæmt hebreskri, biblíulegri hugsun er Guð tengdur öllu lífi, líka nánasta fjölskyldulífi. En í tvíhyggjusamhengi í hinum grísk-helleníska heimi voru áherslur aðrar en hinum hebresk-gyðinglega. Hið líkamlega var sett skör lægra en hið andlega. Ástalífið, hneigðir og hið líkamlega var talið lægra sett en hið háleita-andlega. Gat Guð verið á sviði kynlífsins? Gyðingar sögðu já – já, en Grikkir sögðu nei – varla.

Var María einhvers konar staðgöngumóðir fornaldar? Væntanlega lagði hún sitt egg til, en svo sagði sagan – eða jafnvel krafðist – að barnið yrði til án aðkomu Jósefs, festarmanns hennar. Lúkasarguðspjall tjáir föðurlausan getnað og meyfæðingu.

Út fyrir endimörk alheimsins
Við getum hrifist af helgisögunni um Maríu, en ættum þó að skilja hana í samhengi hennar, sem er tilbeiðsla og lofsöngur safnaðar. Helgisaga er trú á vængjum ljóðsins. Og þannig er sagan um Maríu líka. Við ættum líka muna, að menn hafa tilhneigingu til að endurhanna sögu mikilmenna. Það er eins og eftirá þurfi að endurskrifa og eðlisbreyta verði aðdragandasögu eða myndunarsögu stórmennis. Þar er ein skýringin á upphafssögu Jesú. Fleiri atriði koma til skoðunar einnig. Í goðsögum fornþjóða eru til sögur um meyfæðingar guðanna. Tilhneigingin var alltaf í tvíhyggjusamhengi að reyna að hreinsa móður guðsins sem mest og gera úr henni flekklausa veru.

Saga er alltaf áhrifasaga, viðmið og stýringar laumast yfir alla þröskulda tímans, lifa og hafa afleiðingar og lita líf fólks með ýmsum hætti. Þegar Maríudýrkun óx á fyrstu öldum kristninnar varð hún fyrir áhrifum frá kvenskilgreiningum umhverfisins, t.d. frá Artemisdýrkun, frá Vestalíum Rómar og frá Isisdýrkun. Menningarlegar og þar með trúarbragða-stýringar höfðu áhrif á og stjórnuðu eiginlega hvernig María var skilgreind og tilbeðin. María varð ekki lengur Gyðingakonan María, venjuleg kona í hjúskap og fjölda barna, heldur var henni lyft upp úr heimi hins venjulega lífs manna og upp í heim tilbeiðslunnar. Móðirin varð að meyju ofar tíma og lífi. Maríudýrkun óx stöðugt fyrsta árþúsund kristninnar og kenningaflækjan þróaðist og gildnaði. Löng saga trúarhugsunar endaði síðan með, að kaþólska kirkjan fékk yfir sig ákvörðun um, að María hefði líka verið flekklaust getin eins og Jesús. Hin duldu stýrikerfi upphafningar og hreinsunar upphafssögu Jesú skiluðu Maríu sem hreinsaðri mannveru og allt öðru vísi en hún var í upphafi. Djúphvatar sögunnar breyttu Maríu. Hún var ekki lengur mensk heldur utan við söguna. Hún var eiginlega komin út fyrir endimörk alheimsins!

Andleg tiltekt – María til manna
Hver er þörf nútímatrúmanna fyrir hugmyndafræði upphafningar og sögubreytingar? Þurfum við þessa hreinsuðu upphöfnu Maríu? Við kristnir trúmenn ættum alltaf að ganga hljóðlega um og með kyrru í návist Maríu og ættum alls ekki þrengja líkamsfælnum fordómum að lífi hennar og veruleika. Og við höfum enga þörf fyrir tvíhyggjuaðgreiningu milli raunveruleika okkar annars vegar og trúar hins vegar.

Eins og við þurfum að halda veröld okkar hreinni og gera hreint á heimilum okkar ættum við reglulega að gera hreint í hugarheimi og hreinsa kenningakerfin. Það varðar m.a. að leyfa Maríu að koma til sjáfrar sín og án allra kvaða margra alda efnishræðslu og líkamsfælni. María á ekki að vera á stalli ofar mannlífi. Kristnir menn eiga ekki að rugla saman ólíkum þáttum þótt tengdir séu, frelsun og mannhugmyndum, kristsfræði (Jesús frelsar) og uppeldisfræði (María sem fyrirmynd). María er ekki frelsari mannkyns, heldur mikilvæg ímynd mannlífs og kirkju.

María er merkileg fyrirmynd og vinkona. Og nú er komið að því að María stígi af stalli og taki þátt í hreingerningunni. María er í menningunni, minningunni, söngvum, tónlistinni, myndlist og sögu. María er á fánanum, peningaseðlunum og í blámanum. Ofurhetjur utan við endimörk alheimsins eru góðar fyrir ákveðið skeið bernskunnar. En við þurfum að þroskast til að lifa í raunveröld heimsins en ekki aðeins í draumheimum. María þarf ekki að vera í handanheimi – heldur fremur sem ein af fyrirmyndum raunverulegs fólks. Þannig eru dýrlingar, vinir sem þjóna hlutverkum fyrirmynda. Gínan María er ekki góð en konan María, móðir Jesú Krists, er stórkostleg. María er eins og við og við erum eins og María. Það er vitnisburður versanna sem vitnað var til úr Passíuálmunum. “María, drottins móðir kær, merkir guðs kristni sanna.” Til hennar lítur Jesús Kristur með augum elskunnar.

Hugleiðing á boðunardegi Maríu. Meðfylgjandi mynd af glerverki Guðmundar frá Miðdal af Maríu og drengnum Jesú. Glerverkið er norðan megin í Hallgrímskirkju. 

Maríukjúklingur

Maríukjúllinn er biblíumatur. Mig grunar að María, móðir Jesú, hafi verið hrifin af svona mat. Hún hefði getað eldað réttinn því hráefnin voru til í þessum heimshluta á uppvaxtarárum Jesú Krists. Og biblíumatur er alltaf hollur og rímar við heilsufæði nútímans. 

Fyrir fjóra:
4 kjúklingabringur
4-6 hvítlauksgeirar
1 tsk kúmmín
1,5 tsk túrmerik
1 tsk kanill malaður
Salvía, helst fersk annars þurrkuð
1 stór rauðlaukur
3 skalottulaukar (sbr. Askelon)
Sítrónubörkur (helst lífrænni) rifin með rifjárni
Safi úr einni sítrónu ca 70 ml. má líka vera appelsínubland
150 gr. spínat
300 ml. grænmetiskraftur
10 döðlur langskornar. Mega líka vera fíkjur/sveskjur í staðinn.
Maldonsalt
Heslihnetur til skreytingar

Maldonsalt og olía á heita pönnu. Kjúklingurinn á pönnuna og meira maldon yfir sem og salvían. Laukurinn skorinn fínt og steiktur, settur við hlið kjúklingabitanna. Kryddað yfir allt, grænmetiskraftinum hellt yfir og sítrónubörkurinn einnig yfir. Ekki síðra að leyfa síðan standa í sólarhring í kæli. Sítrónuvökvi, spínat og hnetur yfir og síðan fært í ofn eða pott og látið malla í fjörutíu mínútur. Gæta að vökvinn fari ekki allur, bæta við vatni ef sósan er að verða of þykk. Borið fram með soðnu bulgur (eða byggi eða kúskús). Svo má afhýða appelsínu eða mandarínu, þverskera og koma hálfri fyrir á hverjum diski. Litirnir fara fallega með matnum og sætur ávöxtur passar vel með. 

Borðbæn: Þökkum Drottni þvi að hann er góður, því að miskunn hans varir að eilífu. (Sálm 106.1 og 107.1).