„Ég held hún sé að koma,“ segja þau og rýna út í morgunmyrkrið. “Jú þarna er amma.” Svo kemur Margrét með fangið fullt af pinklum í dyragættina. Ef dóttir eða barnabarn átti afmæli kom amma með köku og jafnvel líka nýbökuð rúnnstykki eða horn. Svo var slegið upp veislu. Allt heimilisfólkið settist að morgunverðarborði. Nú var hægt að fagna því afmælið kom ekki í húsið fyrr en amma kom. Amma var boðberi og tákn veislunnar. Hún var eiginlega eins og Babette í lífinu.
Upphafið dramatíska
Margrét Pétursdóttir Jónsson fæddist í Bremen í Þýskalandi 30. maí 1928 og lést þann 17. júní síðastliðinn þá nýorðin 76 ára gömul. Foreldar hennar voru Pétur Árni Jónsson, óperusöngvari og Karen Louise Jónsson, fædd Köhler. Eldri systkini hennar voru Erika Jóhannsson og Per Jónsson. Foreldrar og systkinin eru öll látin.
Heim og heiman
Þegar Hitler komst til valda í Þýskalandi leist Pétri ekki á blikuna. Hann var öndverður naismanum og ákvað að fara til Íslands. Ætlaði að vera í ár heima, en fór hvergi. Þau hjónin settust að á Ásvallagötu og síðan á Sólvallagötu. Margrét sótti barnaskóla í Landakoti og nam hjá prestum og nunnum og dró að sér vísdóm hinnar gömlu kirkju. Þegar hún hafði lokið skyldunámi fór hún síðan bráðung í Verslunarskólann og var amk árinu yngri en hin. Eftir útskrift frá skólanum árið 1944 var hún ráðin í Stjórnarráðið og vann almenn skrifstofustörf.
Frá Lækjatorgi fór Margrét í utanríkisþjónustuna. Hún var aðeins nítján ára þegar henni var boðið að fara til New York og vinna þar á skrifstofu ræðismannsins. Hún bjó á Long Island vestan við Central Park við Broadway. Gekk um allt og kynntist Manhattan með fótunum og skemmti sér við að segja, að hún hefði eyðilagt á sér fæturna í verslunarleiðöngrum. Margrét leigði hjá íslenskri konu. Þar var Íslendinganýlenda, hópur listamanna hélt þar til og glatt var á hjalla. Margrét drakk í sig stórborgarlífið, þræddi traðirnar milli skýjakljúfanna, fór og hlustaði á Benny Goodman og fékk fágæta fjölmenningarlega og listræna útsýn sem fylgdi henni æ síðan. Svo fór hún heim.
Hjúskapur
Í New York hafði Margrét kynnst konu frá Seyðisfirði, sem átti fallegan bróður, Jón Gestsson. Ástin blossaði og þau Margrét gengu í hjónaband árið 1953. Þá var Jón, þrátt fyrir ungan aldur, þegar ráðinn rafveitustjóri á Ísafirði. Margrét hugsaði sig vel um, sagði upp starfi í utanríkisþjónustunni og flutti vestur. Þar bjuggu þau hjónin allan sinn hjúskap og eignuðust tvær dætur.
Dæturnar og hjúskapur
Sú eldri er Hildur Karen Jónsdóttir. Hún er í sambúð með Bjarna Má Bjarnasyni. Börn hennar eru Hneta Rós, Margrét Rán og Jóhann Garðar. Yngri systirin er Hólmfríður Jónsdóttir. Hennar maður er Jón Ólafur Skarphéðinsson. Börn þeirra eru Jón Börkur, sem lést af slysförum, Una Björk og Ása Karen. Margrét átti þriðja barnið, sem var andvana fæddur drengur og var jarðsettur með Pétri afa sínum og átti að bera nafn hans.
Margrét og Jón nutu hjúskaparins í átta ár. Eins og hendi væri veifað var líf Jóns slökkt. Hann lést af slysförum í október 1961. Úr vöndu var að ráða fyrir unga ekkju með tvö börn. Margrét var fyrir vestan í nær ár en flutti síðan suður, fyrst í Hátún. Síðan keyptu þær Margrét og móðir hennar samstæðar íbúðir í nýrri blokk við Kaplaskjólsveg. Þegar Margrét kom suður hóf hún vinnu hjá Sölunefnd Varnarliðseigna, leið vel, bar samstarfsfólki sínu afar góða sögu og gerði eiginlega upp búið þegar fyrirtækinu var slitið. Hún vann því lengur en til sjötugs. Síðan fór hún að gera ekki neitt, eða svo sagði hún og hló við.
Margrét kynntist Ragnari Seindóri Jenssyni og þau gengu í hjónaband 1971. Þau skildu eftir átján ára hjúskap.
Kátína og spuni
Hvernig kona var Margrét? Hún sagðist vera skapgóð eins og faðir hennar og hefur sjálfsagt erft hina æðrulausu skaphöfn hans. Raunar var hún kát, vildi léttleikandi mannlíf og átti í sér léttbeislaðan hlátur. Hún hafði gaman af öllum spuna. Skemmti sér við að ryðja stofugólfið með dóttur eða dætrum til að dansa á föstudagskvöldum. Hún hikaði ekki við að fara með ungviðinu niður á Borg þó hún vissi hvar mörkin voru.
Með fólki og fyrir fólk
Kátínugjörningurinn var tengdur fólki. Margrét hafði gaman af að fara út að borða, en með fólki – dóttur, barnabarni eða vinum. Hún naut þess að fara á kaffihús og tala og gleðjast. Hún hafði gaman af gleði barnanna og gat alveg unnt ungviðinu að mála eldhúsvegginn með skærum vatnslitum. Þá var hún kát þótt það síðan kostaði hana mikla vinnu að þrífa kokkhúsið að nýju. Hún hafði þörf fyrir nánd, knúsaði sitt fólk, tjáði ástríki í orðum, með látæði og líkamlegu móti. Hún var ástúðleg og gjafmild, rausnarleg og minnug á merkisdaga í ævi samferðafólksins síns. Hún var trygglynd, átti mikið af vinum og kunningjum, sem er ekki undarlegt þar sem hún bar með sér veisluna í sér og í fanginu.
Náttúrutengsl og umhverfisvernd
Margrét var náttúruunnandi, naut þess að horfa á litbrigði veðurs, sjá fegurð staða og árstíða og lét sig umhverfisábyrgð varða. Hún lagði mikið á sig við að koma pappír í endurvinnslu. Engu skipti þótt hún ætti ekki bíl til að flytja dagblaðabunkana, hún bar þá eða hjólaði með þá. Það er einbeitt þátttaka í endurvinnslu. Margrét vildi líka að allir legðust á eitt að viðhalda fágun og snyrtilegu umhverfi. Tyggjóklessur á gangstéttum voru ekki vinir Margrétar og hún vildi að bæði fólk og borg gerði eitthvað í málinu.
Fegurðin
Hún var fagurkeri alla tíð og hefur sjálfsagt þegið eigindirnar frá foreldrunum báðum. Hún vildi góð efni í föt. Hún hafði áhuga á vönduðum húsgögnum og var órög við hönnunarnýjungar. Hún hreifst af fallegum hlutum, fallegum sögum, fegurð í lífinu og lífsmöguleikum. Henni fannst stórkostlegt að geta flutt í nýja íbúð og lagði mikið á sig við að innrétta hana sem best. Hún var fíngerð í sér og hafði ýmigust á öllu því sem var klúrt. Hún var næm á hið vandaða, hafði gaman af Marimekko-efnum löngu áður en dæturnar uppgötvuðu gæðin. Svo féll hún auðvitað fyrir dönsku Poulsen ljósum – jú af því að þau voru góð hönnun.
Margþætt flétta
Það er góð og væn kona sem við kveðjum í dag. Og þó var líf hennar markað löngum skuggum. Hún sagði að skúrirnar kæmu í lífinu til að hreinsa. Það var margt sem ýrðist yfir daga hennar og líf hennar var eins og margþætt flétta. Hún var samsett að upplagi og lífsreynslu.
Margrét var í senn Íslendingur og heimsborgari. Hún var ekki aðeins tvítyngd þegar hún kom til Íslands heldur eiginlega þrítyngd. Síðan bætti hún enskunni við síðar og varð með veru sinni vestanhafs ekki aðeins Evrópsk heldur vestræn, blanda að því sem var beggja vegna Atlanshafsins.
Svo var hún flétta í sér hvað varðar geðslag, bæði sterk og veik, ákveðin og leitandi. Lífskúnstner og líka jarðbundin, hrifgjörn og stefnuföst. Hún var einstaklega tengd foreldrum sínum báðum og þó var hún alltaf að skapa sér eigin tilveru. Mægðurnar, Mutti og Margrét, þjónuðu hvor annarri með ástúð og innra bandi sem aldrei var rofið hvað sem dreif á daga. Þær voru sjálfsagt afar mikilvæg akkeri fyrir hvor aðra í stórsjó lífsins og ferða yfir landamæri menningar og þjóða. Margrét var alin upp við klassíska tónlist en varð svo heilluð af jazz. Allt eru þetta þræðir í fléttu.
Guð og dauðinn.
Margrét missti karlmennina sína í lífinu. Hún missti drenginn sinn andvana fæddan. Og faðir hennar, sem var henni svo náinn alla tíð, fór á sömu dögunum. Fá ár liðu og þá hrundi tilvera hennar þegar maður hennar dó. Það var óendanlega sárt áfall. Síðari manninum tapaði hún einnig í margvíslegum skilningi. Jón Börk, efnilegan dótturson missti hún svo í Skerjafjarðaslysinu fyrir þremur árum. Sá missir reif upp gömlu sárin.
Margrét var reið við Guð framan af ævinni og skildi ekki þann vísdóm að nema á brott þau, sem hún elskaði. Við getum vel skilið að hrópað sé upp í himininn: Af hverju? En Guð leikur sér ekki að veröldinni og slítur ekki fólkið burt af geðþótta einum. Guð er frelsisforsenda og leggur grunn að gjörningum og tilraunum í þessum heimi frelsis.
Borðið og veislan
Í hverri kirkju er borð í miðju. Kristnin er átrúnaður veislunnar. Meistarinn sjálfur tók þátt í mannfagnaði, talaði þegar fólk kom saman, kenndi í gleðskap, vildi vera meðal lifandi fólks í líflegum aðstæðum.
Og Margrét var veislukona. Eitt af því sem sterkast einkenndi hana var að hún kunni að umbreyta hinu fábreytilega í flottan fagnað, kunni að greina í gráum hvunndeginum tilefni til að gleðjast, mundi merkisdagana, gerði úr hinu litla mikið. Hún litaði afmælisdagana í fjölskyldunni. Hún skapaði samhengi fyrir veislur. Alltaf átti fólkið hennar athvarf í hennar ranni þegar mikið stóð til. Hátíðir ársins voru gjarnan þar haldnar.
Hún vildi fá gott bakkelsi og stelpurnar hjóluðu jafnvel upp á Bergstaðstræti til að kaupa góðgæti. Hún var fyrimyndar kokkur. Á hátíð fengu allir sitt. Ef smekkurinn var ólíkur var alveg hægt að koma til móts við alla. Einn fékk rjúpur, annar kalkún, þriðji svínkjöt og sá fjórði lambakjöt! Allt galdraði hún fram með gleði hins örláta gestagjafa, því hún var veislukona, skapaði veislu, var veislan holdi klædd. Hún hafði gaman af dramanu í lífinu og var órög við að skapa.
Margrétargleði – arfurinn besti
Nú er veislan hennar mömmu og ömmu búin. Fallegu Wedgewood-bollarnir hennar, sem hún keypti smátt og smátt, fara ekki lengur á borð í yndislegu og kátínuríku kaffiboði. Engin amma í leigubíl með köku og anda afmælisins.
Hvað verður nú? Ykkar er að lifa og leyfa afmælum að verða fagnaðarrík, lifa með veisluanda, æfa ykkur í þeirri kúnst að lyfta hinu smáa upp í ljós gamansins. Margrétargleðin þarf að lifa meðal ykkar, því þannig lifir maður vel.
Fullkomið afmæli
En vita skaltu að veislan heldur áfram, því tilveran er grundvölluð á gleðskap og kátínu himinsins. Gestgjafinn mikli, Jesús, býður til sín öllu veislufólki veraldar í samfelldan fögnuð. Við megum trúa að Margrét og Jonni, Jón Börkur, Pétur og Mutti og allt hitt fólkið finnist þar, stemmi hlátur inn í samkór himinsins, skemmti sér við Sonny boy englanna og gleðjist yfir einhverjum krásum sem gætu verið eins og grískar matarfurður!
Það er hin róttæka boðun kristninnar að tilveran er veruleiki veislunnar og það er innrím í lífi Margrétar og lífi kristninnar. Við megum því líka gleðjast í dag. Margrét er ekki töpuð, heldur hefur fæðst til nýrrar tilveru, sem er enn betri en þessi og fullkomlega skuggalaus. Fullkomið afmæli. Hún er komin alla leið og nú er það ekki hún sem skapar afmælishátíð heldur Guð sjálfur. Sú veisla er mest allra.
Minningarorð flutt við útför Margrétar Pétursdóttur Jónsson.
Fossvogskirkja 29. júní 2004.