Greinasafn fyrir merki: mannvirðing

Forrest Gump

Kvikmyndin um Forrest Gump er viðburðasaga fremur en þroskasaga. Forrest litli tekur út lítinn vitsmunaþroska en rambar í hvert stórævintýrið á fætur öðru. Hann slampast í gegnum allt og uppsker ríkulega. Gæskuríkur Forrest Gump nýtur elskusemi flestra, enda stefnt út í veröldina af miklum kvenskörungi, mömmunni. Æskuástin frá skóladögum verður þó ekki hans nema stuttan tíma áður en hún deyr. Varla er nokkuð stórmál í bandarískri sögu sem Gump tengist ekki með einum eða öðrum hætti. Forrest Gump verður stjarna í amerískum fótbolta, hetja í Víetnam, borðtennisjöfur, vellauðugur útgerðarmaður, hlaupastjarna og nokkurs konar spámaður, áður en hann ástarmær lífs hans fellur honum í faðm og þau eignast afkomanda sem heldur sögunni áfram.

Umfjöllun um sögu og trúarstef

Þrjú ofurmáttarvöld eru í þessari mynd: Mamma Forrest Gump (Sally Field); bernskuvinkonan Jenny (Robin Wright) og Guð. Þau eru burðarstoðir eða þrenning myndarinnar. Og mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þetta er kvenleg þrenning sem Forrest lifir af, í og fyrir. Jenny og móðir Forrest eru sem guðlegar ásjónur. Myndin snertir því kvenímynd Guðs og kvenútgáfu guðdómsins. Hins vegar verður þessi mynd aldrei kennd við rótttæka kvennaguðfræði því hún boðar ekki byltingarboðskap eða breytingatillögur. Myndin kann engan feminisma af nútímatagi og predikar ekki góð kvennatíðindi. En hún er engu að síður innlegg í kvennaumræðu þar sem konurnar eru styrkar og magnaðar. Við kíkjum í myndinni í sértækan túlkunarheim í Bandaríkjunum og fáum innsýn í þá konugervið “southern belle” sem ræður mörgu og notar sínar eigin aðferðir í samræmi við stefnuna að tilgangur helgi meðalið. Móðir Forrest Gump er bellukona!

Meginstef myndarinnar, sem unnið er með ýmsu móti, er sátt og sáttargerð. Þrátt fyrir fákænsku verður Forrest Gump hvarvetna farvegur sátta og lífs. Hann hjálpar Jenný til flýja alkóhólíseraðan og ofbeldisfullan föður og styður hana til uppgjörs í lok myndarinnar. Hann styður vin sinn, Dan liðþjálfa, til að gera upp reiðina frá Víetnam. Þótt hann beri nafn stofnanda Ku Kux Klan byggir hann brýr milli hvítra og svartra og gerir ekki upp á milli fólks eftir litarhætti (sbr. Bubba rækjujarl). Konur metur hann jafn mikils og karla og skilur ekki eða virðir að vettugi skiptingar samfélagsins og baráttu hópa, kynþátta og kynja.

Viðsnúningur ímyndanna

Myndin er æfing í viðsnúningi gilda. Að vera efstur í píramída stjórnmála eða samfélags er ekki aðalatriði. Skilaboðin eru einföld. Allt sem fólk sækist eftir á opinberum vettvangi er allt eftirsókn eftir vindi ef heilindi og sannleika skortir. Greind er engin trygging fyrir hamingju því sælir eru fátækir í anda. Stríð mannanna eyðileggja. Baráttuhópar af hvaða tagi sem þeir eru þjóna eigin hag fremur en umbjóðenda sinna. Gildir einu hvort það er fólk sem berst fyrir friði eða réttindum blökkumanna. Að benda á þessi erfðasyndaratriði í öllum hreyfingum og mönnum er ofurlítið framlag til félagsgagnrýni. Myndin er sem sé ekki óraunsæ eða á skjön við lífið heldur dæmisaga til íhugunar og eftirbreytni.

Gumpísk sögugreining

Forrest Gump tengist flestum stóratburðum Bandaríkjanna frá frumbernsku. Hann kennir Elvis að rokka, er fastur gestur í Hvíta húsinu og hittir alla forseta amerísku þjóðarinnar frá og með Kennedy til Nixon. Hann er við hliðina á George Wallace, síðar forsetaframbjóðanda, í frægu uppgjöri um skólagöngu blökkumanna í Alabama. Hann verður allt í einu ræðumaður á mótmælafundi gegn Víetnamstríðinu í Washington og kemur við í sellu Black Panthers. Hann fjárfestir í Apple sem hann hélt að væri ávaxtafyrirtæki. Myndin er því fléttuð útgáfa trúðsins og sakleysingjans af bandarískri sögu. Í því er hún mikilvæg andsaga stórveldis og hjálpar könum og okkur að sjá söguna í dempaðra samhengi en bandarískir haukar túlka. Forrest Gump er barnaútgáfa Bandaríkjamanna, hið titrandi sjálf á bak við grímur, ímyndir og blekkingar. Með hjálp fíflsins og skopsins er sagan endurtúlkuð. Túlkun sögu er með margvíslegu móti í bandarísku samfélagi. Í þessari kvikmynd er gefið sjónarhorn þeirra sem ekki meta fólk meira en vald, umhyggju meira en styrk, elskusemi og samstöðu meira en yfirgang. Hin mjúku gildi eru í túlkun myndarinnar mikilvægari, betri og kraftmeiri en hin hörðu.

Myndmál og líkingar

Nettar myndlíkingar ramma inn þessa mynd sem er norstursamlega klippt og meðvituð í myndmáli sínu. Gump situr á bekk í byrjun og er eiginlega að segja sögu sína á þessum bekk myndina út. Fiðrildi flögrar inn í myndina í upphafi og út í lokin og gefur tilfinningu fyrir hinu óræða. Nálægð hins yfirskilvitlega er líklega tjáð með þessu flögri. Í seinni hluta myndarinnar verður rækjubáturinn að tákni um björgun sem kemur Dan á lappirnar að nýju. Á bátnum er uppgjör Dans og Guðs og þeir Forrest lifa af mikið óveður, þegar megnið af rækjuflotanum ferst. Svo er skip grunntákn kristninnar. Rútur koma oft við sögu og tákna firringu því þar er Forrest yfirleitt hafnað og hann niðurlægður. Í myndlok hættir hann við að fara í strætó og hleypur til konunnar sem hann elskar. Í ljós kemur að hann hefur eignast barn með henni. Mikið er af alls konar tilfærslutáknum í myndinni, brúm, ökrum, götum, rennandi vatni og öðrum slíkum til að leggja áherslu á hrynjandi og ferli lífsins. Allt er á hreyfingu, fólk er á ferð á lífsvegunum. Svo má heldur ekki gleyma konfektkassanum, sem Forrest skilur sem tákn um fjölbreytilegt líf. „Lífið er eins og súkkulaðikassi. Maður veit aldrei hvernig mola maður fær.”

Skilaboð og mat

Myndin er m.a. um tengsl fólks og leit að hamingju og merkingu. Samband móður og sonar er nærfærið og vel túlkað, ennfremur tilraunir Forrest til að nálgast aðra og vera öllum góður og gjöfull þrátt fyrir andlega fötlun sína. Þá er ljóst að Forrest getur verið einstæður faðir og forsjáraðili þrátt fyrir að vera vitgrannur. Veganesti frá mömmunni er siðaboðskapur: „Heimskur er maður aðeins í verkum sínum.” Það merkir að maður er ekki heimskur í sér heldur fyrst og fremst ef maður hegðar sér heimskulega. Hinn gáfaði getur verið hreinn og klár heimskingi í lífi sínu en hinn vitgranni verið hinn mesti gæfumaður og hegðað sér dásamlega. Þau sem eru álitin lítilmótleg eru kannski þau sem gefa mest, bjarga flestu og eru stórmennin. Kanski má kreista svolítið líkinguna af konfektkassanum. Maður veit aldrei hvað verður úr fólki, hæfileikarnir sem fólk fær í vöggugjöf eru engar tryggingar um hamingjuna. Sitthvað er gæfa og gjörvileiki.

Forrest Gump er góð mynd og hrífur flesta. En auðvitað munu þau sem vilja að tilveran sé túlkuð algerlega út frá þeirra vitsmunalega sjónarhól verða fyrir vonbrigðum og þykja myndin ekki rísa undir nafni og vera jafnvel á mörkum hins væmna. Myndin er notkunarvæn fyrir hópa, sem vilja ræða um hamingjuna, tilgang lífsins, klisjur í menningunni, söguskoðanir, blekkingar, siðferði, ástina og Guð. Leikurinn er loflegur, Tom Hanks og Sallie Field eiga góðan leik, meistarataktar á öllum póstum. Kvikmyndin er konfekt og klassík. 

Guðsvirðing, mannvirðing og elskan

Ég las bókina Eyland eftir Sigríði Hagalín Björnsdóttur þegar hún kom út. Fyrir nokkrum dögum var ég búinn að hlusta á sögu á Storytel – reyndar Stóra bróður – og leitaði að nýrri bók til að hlusta. Þá datt ég inn á Eyland og byrjaði að hlusta á höfundinn lesa. Þá mundi ég hver ég hafði heillast af bókinni en gerði mér líka grein fyrir því líka að ég hafði gleymt mjög mörgu í flækju og framvindu sögunnar. Ég var búinn að gleyma hve sagan byrjar vel og að hún grípur föstum tökum. Svo ég hélt áfram að hlusta og datt að nýju inn í þessa heillandi framvindu. Ég dáðiist að ritfærni Sigríðar og myndrænum stíl. Ég heillaðist að nýju af hugmyndaauðgi og dýpt sögunnar.Vá, hvílík rosasaga.

Í sögubyrjun dettur Ísland úr sambandi við útlönd. Engar flugvélar koma til landsins og engin skip heldur. Þær flugvélar og skip sem fara koma ekki aftur. Ekkert er vitað um afdrif þeirra. Öll fjarskiptasamskipti rofna, allir strengir óvirkir og radíómatörarnir ná engu sambandi heldur. Íslendingar verða allt í einu einir í veröldinni. Hvað varð eða verður um hinn hluta veraldar er ekki vitað. Sjónum er aðeins beint að Íslendingum í algerri einangrun í langan tíma sem leiddi til algers kerfishruns. Eyland er lítil bók um risastóra hugmynd. Hvað skiptir ríki mestu máli? Hvað heldur þjóðfélagi saman? Hver er uppspretta laga og réttar? Hvað verður um einstaklingana þegar menningin springur? Hvernig bregst fólk við þegar samfélagskerfin brotna? Hvaða kraftur, siðferði og seigla býr í menningunni? Eyland lýsir vel hvernig kerfi vernda líf en líka hve stutt er í villidýrið í mannfólkinu og hve menning er viðkvæm og brotnar auðveldlega.

Boðorðin

Lexía dagsins varðar það sem varnar að frumskógarlögmálin taki yfir og hinn sterki drepi allt og sé hinn eini sem lifi af. Biblíutextinn í annarri Mósebók er samandregin viska og niðurstaða samfélags sem hafði reynt langvarandi kerfishrun. Slík lífsspeki verður til í uppgjöri við áföll, átök og hryllilega reynslu. Mörg okkar munum úr biblíusögunum dramatíska sögu um hvernig boðorðin voru klöppuð á steintöflur á fjalli á Sínaískaga. Það er helgisagan og slíkar sögur eru yfirleitt stutta útgáfa viðburðanna. Helgisögur erueinfaldaðar táknsögur um mikla viðburði og flókið ferli. Lífsspeki eins og í boðorðunum er hins vegar niðurstaða langrar þróunar og mikillar reynslu þó niðurritun gæti hafa verið snögg. Munnleg geymd kom í hinum fornu samfélögum á undan ritun. Viskan sprettur fram og nær viðurkenningu vegna þess að fjöldi fólks og jafnvel margar kynslóðir hafa lent í vondum málum, upplifað að þjóðfélag verður að hafa grunnreglur, lög og rétt og meginreglur um siðferði til að villidýrin meðal okkar valdi sem minnstum skaða. Siðferði, lög og reglur eru til að fólk geti notið lífsins. Hegðunarreglur og samfélagsskipulag er huti af menningu. Þjóðfélag byggir á sáttmála sem er auðvelt að flekka og eyðileggja. Menning er þau andlegu klæði sem menn koma sér upp til að skýla sér fyrir næðingi og hryllingi í lífinu.

Hegðunarreglurnar sem við köllum boðorð urðu ekki til í hirðingjasamfélagi heldur meðal fólks sem hafði reynslu af lífi í þorpum og bæjum og hafði þróað flókið þjóðfélag hvað varðar atvinnu, landbúnað og samskipti innbyrðis sem og við aðrar þjóðir. Þessi lífsspeki hinna fornu hebrea var síðan notuð meðal Gyðinga og vegna kristninnar flutt út til allrar heimsbyggðarinnar. Boðorðin eru uppspretta, fons, fontur hugmynda sem hafa seitlað um allan heim. Við Íslendingar höfum notið þessar speki viðuppeldi um aldir og við mótun menningar okkar. Orðin tíu eru byggingarefni í löggjöf heimsins. Boðorðin eiga sér afleggjara og endurvinnslu í löggjöf nútímans. Hin djúpa mannúð og mannvernd þeirra hafði áhrif á mannréttindalöggjafar sem varðar vernd allra, kvenna og karla, barna og fullorðinna, óháð lit, kynferði og trú.

Um hvað?

Um hvað eru boðorðin? Manstu þau? Jú, þau eru tíu og upphafið er: „Ég er Drottinn Guð þinn, sem leiddi þig út af Egyptalandi…“ Sem sé, Guð er guð vegna verka í sögu, vegna tengsla sem gögnuðust lifandi fólki í raunaðstæðum þeirra. Mörg okkar muna einnig að nafn Guðs eigi ekki að leggja við hégóma. Það merkir að við ættum ekki að hæðast ekki að hinu heilaga heldur einnig bera virðingu fyrir djúpgildum menningar og heimsins. Svo muna flest að einhver staðar í boðorðunum er rætt um að heiðra foreldra, virða makann og halda ekki framhjá, stela ekki og girnast ekki.

Guðsvirðing og mannvirðing

Eiginlega má skipta orðunum tíu í tvennt. Annars vegar orð um Guð og hins vegar orð um menn. Hvaða boð fjalla um Guð og hver þeirra eru um menn? Jesús þekkti vel boðorðin og samhengi þeirra og hvernig mætti túlka þau með ýmsum hætti. Jesús var ekki fastur í formi eða smáatriðum. Hann var óhræddur að færa gamalt efni í nýtt samhengi. Ástæðan nýtúlkunarinnar var að Jesús var með huga við þarfir fólks, ekki bara einhvers hóps heldur allra – og í öllum flokkum og stéttum. Og með andlegar og líkamlegar þarfir fyrir augum dró Jesús saman öll boðorðin. Þessi samþjöppun Jesú á öllum boðorðunum er það sem við köllum tvöfalda kærleiksboðið. Og hvernig er það? Í stuttu útgáfunni er það: „Elska skaltu Drottin, Guð þinn … – og náunga þinn eins og sjálfan þig.“ Fyrri hlutinn er einfaldlega guðsáhersla boðorðanna. Þar er guðsvirðingin tjáð. Seinni hluti er í samræmi við seinni hluta boðorðanna og varðar mannvernd og manngildi. Þar er mannvirðingin tjáð – að við eigum að virða og elska fólk – alla. Kærleiksboð Jesú er um guðsvirðingu og mannvirðingu – þetta tvennt fer saman. Og ástin – elskan sem tengir.

Kærleiksboðið í krossinum

Krossar heimsins minna á það sama – á tvær víddir boðorðanna. Lóðrétta tréð minnir okkur annars vegar á tengslin við Guð. Trúin er elskan til Guðs. Lárétta tréð minnir okkur síðan á tengslin og umhyggjuna gagnvart samferðafólki okkar, þessum sem Biblían kallar náunga okkar. Náungi okkar er allt sem við berum ábyrgð á. Vald manna er orðið svo mikið að mannkyn ber líka ábyrgð á lífríki heimsins. Náttúran er líka náungi okkar. Boðorðin eru um lífið – en ekki aðeins um þig, heldur um fólk, mannkyn og lífríkið allt. Skordýr, fuglar, plöntur og maðkar eru systur okkar og bræður. Okkur er falið að vernda mannheim og náttúruna. Neðsti hluti krossins er í jörð.

Lögin verða til

Börn og unglingar vita vel hvað gerist ef engar reglur væru til. Þegar þau eru spurð segja þau alltaf að þá yrði allt vitlaust og ofbeldi tæki við. Það er einmitt í samræmi við lýsingu Sigríðar Hagalín Björnsdóttur í bókinni Eyland. Ef engar reglur stýra þjóðfélaginu verður kerfishrun. Frumskógarlögmálin taka yfir og mennsk villidýr ganga laus, meiða og drepa. Reglur eru settar til að þjóna lífi og velferð. Í lögum, siðferði og menningu eru mörk lögð og gefið samhengi. Það þarf þroska til að velja lífið.

Orðin tíu í þágu okkar og lífsins

Löggjöf íslenska þjóðríkisins til forna er hin merkasta og hún átti sér líka uppistöðu í eldri lagahefð, sem rekja má alla leið suður til Sínaískaga. Þær fornu reglur, sem eru í tuttugasta kafla annarrar Mósebókar hafa síðan verið túlkaðar og endurtúlkaðar, fyrst meðal hebrea, síðan í gyðingdómnum, svo í túlkun Jesú og hinni kristnu hefð. Síðan hafa boðorðin haft áhrif á siðfræði í öllum þeim heimshlutum sem hafa mótast af kristni, Gyðingdómi og Islam. Þó uxar og asnar séu ekki á eignalista okkar eru bílar, hlutir, hús og fyrirtæki komin í staðinn. Og þó það sé algerlega úrelt að líta á maka sem tæki girnist fólk yfir mörk sem ekki ætti að fara.

Fyrsta boðorðið er: „Ég er Drottinn guð þinn” er aðalorðið því það varðar meginstefnu. Hvaðan þiggur þú líf, hvar áttu þér athvarf, hver verður þér til blessunar þegar allt þrýtur, öll efni hverfa og kraftur dvín? Guð er upphaf og endir alls sem er – líka þín. Og við megum snúa okkur til Guðs í öllum okkar málum.

Boðorðin eru ekki eitthvað sem aðeins varðar Asíu eða fornöld. Þau vísa til okkar líka. Það var einu sinni karl sem lét sig dreyma og sagði við fólkið sitt við kvöldverðarborðið. „Mikið væri gaman að fara til Sínaí og hrópa boðorðin af fjallstindinum.” Konan hans horfði íbyggin á hann og sagði: „Ég held að það sé nú betra að vera heima og halda boðorðin!” Hlutverk okkar er ekki að skunda á Þingvöll eða til Sínaí til að hafa hátt um sið og reglur heldur vera Guðs. Að vera Guðs er að elska. Það er mál fyrsta boðorðsins. Afleiðing þess að elska Guð er að lifa í þeirri elskuafstöðu til lífsins og leggja lífinu lið. Það er mál seinni orðanna og hindrar kerfishrun – að við verðum ekki eyland eymdarinnar heldur gott og gefandi samfélag. Guð elskar og skapar – okkar er að endurgjalda þá ást með afstöðu, lífsvörn og góðu lífi. Elska og virða – það er hin kristna staða og líf.

Hugleiðing í Hallgrímskirkju, 12. mars, 2023.

Guð hjálpi Trump – og okkur öllum

Eru kirkjur leiktjöld og leikmunir eða heilagir staðir? Eru sum mannslíf minna virði en annarra? Þetta eru meðal mála vikunnar í fjölmiðlum heimsins.

George Floyd var tekinn af lífi í Minneapolis 24. maí. Hvítur lögreglumaður drap svartan mann. Mótmælt var og er í mörgum borgum Bandaríkjanna og reiðibylgjur flæða um heiminn. Morðið og afleiðingar þess varða trú, réttlæti, siðvit, samfélag, kirkju, alþjóðastórnmál og Guð.

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hélt ávarp í sjónvarpi til bandarísku þjóðarinnar á öðrum hvítasunndegi, 1. júní, til að koma þeim skilaboðum áleiðis að hann gengi erinda laga og réttar. Á meðan forsetinn talaði í Rósagarði Hvíta hússins fór hópur lögreglu og sérsveitarmanna að kirkju heilags Jóhannesar, sem er skammt frá verustað Trumps og hefur verið bænastaður flestra forseta Bandaríkjanna síðustu tvær aldir. Sérsveitarmennirnir skutu reykbombum og táragasi yfir og á fólk. Trump ætlaði að nota kirkjuna sem bakgrunn fyrir auglýsingamynd af sjálfum sér og því var svæðið rutt. Þegar búið var að reka mannfjöldanum burt gekk forsetinn í gegnum reykinn eins og stríðsherra í kvikmynd. Hann tók sér stöðu við kirkjuna og lyfti Biblíunni yfir höfði sér – með frosinn svip eins og stytta. Þetta var gjörningur á leiksviði. Hver voru skilaboðin? Kirkjan var umgjörð fyrir myndatöku á hasarmynd. Er þetta í lagi? Helgar tilgangurinn meðalið?

Kirkja sem leiktjöld

Fólkið sem stóð við þessa anglikönsku kirkju í Washington var að mótmæla drápi manns og ofbeldi. Það var engin nauðsyn að reka það. Kirkjuleiðtogar í Washington brugðust hart við. Mariann Budde, biskup anglikönsku kirkjunnar í borginni og þar með ábyrg fyrir kirkjunni var misboðið. Í viðtölum við Washington Post, CNN og fleiri fjölmiðla sagði hún, að kirkjan hefði verið notuð sem leikmunur. Stjórnvöld hefðu ekki haft samband við presta eða kirkjuyfirvöld til að upplýsa að kirkjusvæðið yrði rýmt svo forsetinn gæti notað þessa frægu kirkju sem baksvið. Og Budde sagði, að erindi Trumps væri andstætt kærleika og mannúð sem Jesús Kristur hefði sýnt og kennt. Trump notaði kirkju og Biblíu í heimildarleysi til að réttlæta boðskap, sem væri þvert á boðskap kristninnar og köllun kirkjunnar. Erindi kristinna manna væri alltaf að ganga erinda réttlætis, standa með kúguðum og með þeim sem mótmæltu ofbeldi sem George Floyd hefði orðið fyrir. Aðrir trúarleiðtogar hafa einnig haldið fram, að Trump hafi misnotað helgirit og helgidóm sem leikmuni fyrir sjálfan sig í stað þess að ganga erinda mannhelgi, réttlætis og kærleika Biblíunnar. Tilgangur Trump væri sjálfhverfur og sundrandi í stað þess að friða og sameina. Svo bættist fyrrverandi hershöfðingi og ráðherra í stjórn Trump í gagnrýnendahópinn og sagði að það ólíðandi, að forsetinn beitti bandarískum her á eigin þjóð. Meira segja samtök háskólamanna í Biblíufræðum sendu frá sér harðorða yfirlýsingu um  háskaleik forsetans – og slíkt gera samtök Biblíufræðinga afar sjaldan. 

Hver er heilagur?

Jóhannesarkirkjan hefur lengi verið kraftmistöð kristni og mannræktar.  Ferð Trump var gjörningur til að minna á, að stefna hans væri önnur en kirkjunnar. Hann endurskilgreindi hvað ætti að vera og hvað ekki. En kristnir menn allra alda og um allan heim kunna fyrsta boðorðið. Aðeins einn er Guð. Aðeins einn er heilagur. Táragas, löggur, hermenn, piparúði og að veifa Biblíu gera Trump hvorki guðlegri né trúverðugri. En hann vill að stórtákn þjóni sér, gengur inn í táknin og belgir sig út í kima merkingarsviðs þeirra. En Guð hættir ekki að vera Guð þótt Trump sjái sjálfan sig í trúartáknunum og vilji helst að mynd hans komi í stað Guðs. Þegar helgidómar eru misnotaðir og helgiritin líka glaðvaknar samviska trúmanna eða ætti að gera það. 

Samfélag og Ísland

Covid-heimsfaraldurinn hefur opinberað veikleika og styrkleika kerfa og samfélaga heimsins. Fram til þessa höfum við Íslendingar verið svo lánsamir að vit en ekki vald hefur stýrt stefnu og aðgerðum. Skynsamt fólk hefur stýrt sóttvörnum þjóðar okkar. Stjórnmálamenn okkar hafa farið að ráðum fagfólksins en ekki misviturra kóvita. Svo kom líka í ljós menningarlegur styrkur og siðleg dýpt samfélags okkar. Við stöndum saman þegar á bjátar. Við erum mörg og jafnvel flest tilbúin að leggja mikið á okkur til að verja og vernda þau, sem veikust eru í þjóðfélagi okkar. Við erum ekki ein heldur saman, öll almannavarnir. Hin sterku vernda hin veiku. Þannig virkar siðvitið í heilbrigðri heild. Við viljum, að allir njóti lágmarksverndar, réttlætis, heilbrigðisþjónustu og öryggis. Covid-faraldurinn hefur opinberberað styrkleika okkar. Við erum samfélag og það er ríkidæmi að vera hluti slíkrar heildar.

Valdið styrkst en vitið veikst

En á sama tíma hefur faraldurinn opinberað veikleika Bandaríkjanna. Heimilislausum hefur fjölgað á undanförnum árum. Geðfatlaðir njóta ekki verndar, heldur eru reknir út á gangstéttar og torg. Tjaldbúðir þeirra eru að verða eins búðir flóttafólks, táknmyndir um samfélagssjúkleika, sem sker mitt hjarta. Ég bjó i Berkeley fyrir nokkrum árum og þótti hörmuleg átakanleg staða útigangsfólks. Mannréttindabaráttu er ekki lokið í Bandaríkjunum heldur er aðeins að byrja. Vandi mismununar er kerfislægur. Misskipting auðs hefur ekki minnkað heldur aukist. Valdið hefur styrkst en vitið veikst. Bandaríkin eru ekki lengur samfélag heldur vígvöllur hagsmunahópa. Ofbeldi kraumar og stríðsherrarnir láta reykbomba götur borga og ganga svo yfir blóðvöllinn eins og upphafin goð í hasarmyndum. Þegar veikustu hóparnir, eins og svartir, sjúkir, fátækir og innflytjendur missa tekjur og vinnu í COVID-faraldrinum vex spennan. Dráp George Floyd kveikti stórt bál. En eldsmaturinn var þegar til. Öryggin á sprengjunum voru löngu slitin af.

Að  friða en sundra ekki

Þjóðhöfðingja ber að beita sér í þágu friðar, einingar og heilbrigði og vera sameiningartákn. En aðferð Trump er að splundra, etja fólki og hópum saman í stað þess að sætta og efla réttlætið. Hann fellur á öllum prófum. Vegna þess að kristnin gengur erinda mannúðar og kærleika töluðu kirkjuleiðtogarnir skýrt. Biblían er ekki leikmunur, kirkja er ekki bakgrunnur fyrir sjálfu og narcisista. Michael Curry, sem sló í gegn í hjónavígslu Harry og Megan Markle í fyrra, er yfirbiskup anglikönsku kirkjunnar í Bandaríkjunum. Hann sagði eftir Trump-gjörninginn, að kristni væri ekki pólitískt tæki. „Guð er ekki leiktæki.“

Við erum Trump

Vandi Bandaríkjanna leysist ekki þó Trump fari. Við erum öll Trump inn við beinið. Það heitir á gömlu máli kirkjunnar að við séum syndarar. Við menn sjáum okkur illa í spegli sannleikans, viljum vera meira en við erum sköpuð til. Við missum marks, tökum rangar ákvarðanir og bregðumst öðrum.  Ef við lærum ekki af reynslunni og ræktum ekki mannhelgi og visku koma nýir Trumpar fram. Trump er ekki guðstákn heldur lastatákn, jafnvel summa allra lasta. Hann er orðin erkitákn brenglaðrar mennsku. Hvorki ameríkanar né við, vinir Bandaríkjanna, getum framar látið sem ekkert sé að. Við samþykkjum ekki heldur að fólk misnoti trú, Biblíu og helgidóma í eigin þágu, sérhyggju eða sundrandi stjórnmála. Trúmönnum heimsins, líka stjórnmálamönnum, ber að vera farvegir réttlætis í þágu samfélags.  Heimsbyggðin þarf að læra hvað er rétt, gott og göfugt. Nú er lærdómstími og við erum að læra námsgreinina Trump101 og hún er um okkur líka. Hin námsgreinin Samfélag101 er um að allir menn eigi að njóta mannhelgi. Og að kirkjur eru ekki leikmunir. Helgirit á að nálgast með virðingu.  Guð verður aldrei leiktæki. En Guð hjálpi Trump, Bandaríkjamönnum og okkur öllum.

(Íhugun á þrenningarhátíð 2020. Hluti textans hér að ofan var í hugleiðingu dagsins í gðsþjónustu í Hallgrímskirkju. Sóknarfólkið hafði ýmislegt um þanka dagsins að segja. Í ljósi viðbragða í kirkjukaffinu skar ég niður helming ræðunnar, ma um Nikódemus, þann merka ráðherra Ísraels, en bætti svo við ýmsu öðru. Takk Andrés Narfi og annað sóknarfólk í H.)

Vel gert – já takk fyrir

Þau þrjú, sem svo vel hafa stýrt íslenskum sóttvörnum liðinna vikna, hafa verið dugleg að hrósa. Það hefur verið hvetjandi að heyra jákvæðnina og hve fallega þau tala um fólk og það sem vel er gert. Hrósið fer hjá þeim á undan því erfiða og þungbæra. Þau hafa verið til fyrirmyndar og markað stefnu jákvæðni í niðurdrepandi aðstæðum. Vitið hefur stýrt en ekki vald, jákvæðni en ekki fúllyndi eða hræðsla. Vel gert, takk fyrir.

Fyrir nokkrum árum fórum við fjölskylda mín til Ameríku. Við lentum í Seattle og ég átti von á hefðbundinni stórflugvallafýlu starfsmanna, sem tækju út pirring sinn á okkur ferðalöngum. Nei, ónei. Elskulegt fólk mætti þreyttum útlendingum. Einn sagði með hlýju í augum “verið velkomin” og annar sagði “njótið verunnar í Bandaríkjunum.” Takk, þetta var óvænt móttaka. Börnin sem voru með í för fengu líka sinn skammt af elskulegum viðbrögðum: “Fínn hattur” og “falleg peysa.” Jákvæðnin var skýr og almenn.

Svo héldum við áfram og enduðum suður við landamæri Mexíkó og bleyttum tærnar í Kyrrahafinu. Herra Fúll og frú Fýla virtust gersamlega týnd. Var eitthvað að? Fólk hafði getu til að sjá, virða og hrósa. Jafnvel í atinu í Disneylandi og Legolandi tjáðu vandalausir ef eitthvað hreif. Svo vorum við boðin inn á heimili vina okkar og eflingarorðin flugu.

Þessi áberandi jákvæðni og hrós urðu mér íhugunarefni. Fúll og Fýla lauma sér ótrúlega oft og fljótt í umræðu fólks. En þó margt sé okkur mótdrægt er óþarfi að temja sér neikvæðni í tengslum við fólk. Börnin hafa þörf fyrir að við sjáum þau og við bregðumst við þegar þau gera vel og vinna sigra í smáu eða stóru. Nábíturinn má aldrei yfirtaka atvinnulíf, stofnanir, fjölmiðla og samfélag okkar, ekki heldur í aðkrepptum aðstæðum. Við megum og þurfum að tjá fólki, að það og verk þess veki hrifningu og gleði. Ástvinir okkar þarfnast að við sjáum þau. Fólk við búðarkassa tekur jafnan vel við þegar hlý orð falla í þess garð.

Hrós varðar ekki málæði og yfirborðstjáningu, heldur að temja sér ákveðna afstöðu til annarra og lífsins. Fólk er einstakt, dýrmæti. Allir þarfnast orða. Við lifum í krafti tengsla, höfum þörf fyrir að vera séð, að lífshættir, hæfileikar, eigindir og verk séu færð í tal með jákvæðum hætti. Öllum verður gott af því, sem hefur verið kallað H-vítamín – hrós. Það er trúverðug lífsleikni að næra aðra með orðum þegar vert er og er ástæða til. Jesús Kristur kenndi okkur þessa mannvinsamlegu nálgun. Hann hafði alltaf áhuga á fólki og sá í öllum eilíft gildi og gæði. Við þig segir hann með jákvæðum hætti og eins og satt er. „Þú ert frábær!“

Er einhver nálægt þér, sem þarfnast þess að heyra eitthvað jákvætt? Hrós er blóm allra daga.

Að ræna maka sinn

Ég hef orðið vitni að þjófnaði, líka ráni þar sem ofbeldi var beitt. Og svo þekki ég marga, sem hefur verið stolið frá. Minning um stuld, rosalegan þjófnað, hefur sótt á mig síðustu daga og hún kemur úr minningasafni námsára minna í Bandaríkjunum.

Kínversk hjón byrjuðu á sama tíma og ég í doktorsnámi við Vanderbilt-háskóla í Tennesse. Ég veitti þeim enga sérstaka athygli í fyrstu. En svo voru þau í einu námskeiði með mér. Þá reyndi ég að ræða við þau og komst að því að þau komu frá Hong Kong. Bæði höfðu lokið BA-prófi í heimaborg sinni. Þar kynntust þau og þar ætluðu að vera þegar doktorsnáminu lyki í Ameríku. Karlinn var skráður á sama fræðasvið og ég; trúfræði, trúarheimspeki og hugmyndasögu. Ég reyndi ítrekað að ræða við hann, en hann virtist forðast samtöl. Ég hélt að hann væri bara feiminn og óframfærinn. Kona hans var hins vegar í Nýja-testamentisfræðum og strax á fyrstu vikunum furðaði ég mig á, að hún sótti tíma með bónda sínum en þaut svo í eigin tíma á milli. Karlinn hlustaði í tímum en skrifaði ekkert niður og talaði aldrei ótilneyddur. Konan var hins vegar þeim mun iðnari, skrifaði glósur af miklum móð, hlustaði með öllum líkamanum en sagði fátt.  Aldrei sóttu þau fundi utan tíma né komu í samkvæmi nemenda. Þetta kínverska par var mér og félögum mínum fullkomin ráðgáta.

Svo leið tíminn. Kínverski karlinn hikstaði eitthvað í verkefnaskilum og kennararnir höfðu áhyggjur af honum, en frú hans skilaði öllu og stóð sig vel. Svo kom langur og lýjandi prófatími, en þá varð sprenging. Einn daginn hentist sú kínverska inn í skóla og inn á skrifstofu eins kennarans. Hún var í miklu uppnámi, bólgin af gráti og sagði: „Ég get ekki meira. Ég er búin. Ég er að fara yfirum.“ Sagan kom svo í bútum og milli ekkasoga, táraflóða og angistarhljóða. Eiginmaður hennar var af yfirstéttarfólki kominn. Hann var vanur þjónustu og óvanur að leggja hart að sér. En eiginkonan var hins vegar vön að vinna og hafði alltaf komið sér áfram vegna eigin verðleika. Hún var klára stelpan í hópnum og hann féll fyrir snilli hennar og getu. Og svo þegar þau fóru að tengjast fannst henni sjálfsagt að hjálpa honum með námið því hann var raunverulega hjálpar þurfi. Vegna þjónustu hennar fór honum að ganga skár í háskólanum í Hong Kong og kláraði prófin. Þau gengu í hjónaband áður en þau fóru til Ameríku. Þegar þangað var komið gekk karlinum illa að aðlagast. Hún varð að vinna flest verk. Honum fannst, að þar sem hún væri konan hans yrði hún að aðstoða hann. Hún varð því ekki aðeins rúmfélagi, kokkur, þvottakona, sendill, kennari og sálfræðingur heldur ritarinn hans líka. Hann ætlaðist til að hún kláraði það, sem hann kom ekki í verk. Hún varð að sækja tíma með honum til að tryggja að hann skildi og skrifa svo ritgerðir fyrir hann líka. Doktorsnám er full vinna en að klára tvöfalt doktorsnám sem þræll er ógerningur. Karlinn varð fúll, beitti konuna ofbeldi og hún brotnaði niður.

Kennararnir, námsráðgjafarnir og starfslið skólans vann úr þessu skelfilega máli, virti sögu konunnar og ræddi við mann hennar. Þeim var báðum veitt aðstoð. Konan gat ekki búið við harðræðið og þráði frelsi. Hún komst að þeirri niðurstöðu að leiðir yrðu að skilja. Hann myndi aldrei sætta sig við uppreisn hennar og að hún „niðurlægði“ hann. Hún skildi því við karlinn. Honum var vísað úr skóla og sneri heim til Hong Kong með skömm. Hann hafði stolið frá konu sinni frelsi, gleði, lífshamingju, sjálfsvirðingu, ást og stofnaði til nauðungar og þrældóms hennar. Að lokum gat hún ekki meira og vildi ekki lengur láta stela af sér, ræna sig. Að skilja við manninn var eina leið konunnar úr þrældóminum.

Þú skalt ekki stela. Sjöunda boðorðið er ekki bara um peninga og eignarrétt. Andi orðanna varðar manngildi og lífsgæði, sem eru mikilvægari en peningar eða efnisgæði. Jesús túlkaði boðorðin með vísan til hins mikilvægasta. Það eru Guð og menn eins og sést í tvíþætta kærleiksboðinu. Gyðingar hafa um aldir vitað og kennt að fólk skiptir meira máli en fjármunir. Við megum læra af og ættum að útvíkka túlkun okkar á sjöunda boðorðinu. Við megum ekki stela fólki, ekki stela af fólki né heldur ræna það.