Greinasafn fyrir merki: máltaka

Mannamál

Ég heyrði smellina í kjallarakarlinum þegar hann var á leið upp stigann. Hann skellti lausa tanngarðinum upp í efri góminn við hvert tröppuskref. Munnmúsíkin boðaði vindlareyk, ræðuhöld og kaffidrykkju í eldhúsinu okkar. Hann kom sér fyrir í pabbastólnum við borðsendann í eldhúsinu. Mamma umbar hann þó hann væri hávaðasamur en húsmóðirin á miðhæðinni lokaði á hann. Mamma opnaði alla glugga til að reykurinn af Bjarnafrávogi- og Hofnar-vindlunum hans bærist sem fyrst út, gaf honum sterkt kaffi og hlustaði svo á hann, talaði lítið og andmælti sjaldan. Hann talaði niður komma og aðra heimskingja heimsins, sagði frá verktakasnilld sinni og stórlöxum sem hann hafði veitt. Þegar hann var búinn að reykja, drekka tvo bolla og nota þúsundir orða til að tala niður heimsósómann stóð hann á fætur og lagði af stað ofan frá efri hæðinni í þríbýlishúsinu og niður í kjallaraíbúð sína. Hann gómsmellti líka alla leið niður og lokaði á eftir sér þegar hann fór úr forstofunni okkar kjallaramegin. Reykurinn, reiðin og orðin liðuðust um íbúðina. Mamma pírði augu lítillega þegar hún loftaði út og hreinsaði hugann. Ég þagði.

Svo hringdi elsti bróðir mömmu oft í hana rétt eftir að karlinn var farinn. Þá settist hún niður og hallaði sér aftur í símastólnum á ganginum. Það brakaði lítillega í stólnum þegar hún teygði úr fótum. Hún hélt svörtu símtólinu að betra eyranu. Glaðværðin streymdi úr tækinu og kaffiþjónninn umbreyttist í káta unglingssystur. Hún skellti á læri þegar stóri bróðir sagði henni sögur úr Svarfaðardal og hló hjartanlega. Þegar hún lagði á brosti hún, stóð svo á fætur og undirbjó hádegismatinn syngjandi.

Pabbi kom heim í hádeginu með steypulykt í hárinu. Mamma baðaði hann blíðuorðum sem linuðu orðlausa þreytu hans. Mamma fékk málið þegar skrúfað var fyrir útvarpið eftir hádegisfréttir. Hún talaði við pabba og okkur systkinin með hlýjum umhyggjuorðum, ólíkum þeim sem hún notaði í vindlakófinu.

Vinkonur mömmu, reyklausar og jákvæðar, komu oft í heimsókn og fengu síðdegiskaffi. Ég lék mér á gólfinu að leikföngum mínum en leit stundum upp og horfði á varir þeirra, hvernig þær geifluðu þær og bleyttu með tungunni. Orðasveimur þeirra var mismunandi. Sumar töluðu mikið en aðrar vönduðu sig við svör og spurningar. Nokkrar smjöttuðu á orðum sínum og þótti gaman að hlusta á sjálfar sig. Þær klöppuðu á koll minn, létu nokkur orð falla en töluðu ekki við mig enda svaraði ég ekki. Ég horfði í augu þeirra, íhugaði og þagði.

Einn morguninn kom kjallarakarlinn og var vanstilltur. Gómasólóið var hávært þann daginn og óvinir heimsins, kommarnir, fyrirferðarmiklir. Svo sagði hann: „Hann talar ekkert þessi drengur þinn! Er hann eitthvað skertur?“ Roði spratt fram í kinnum mömmu sem svaraði með snöggu nei-i. Þegar gómsmellirnir hljóðnuðu fór hún niður tröppurnar og læsti. Hún opnaði ekki kjallaradyrnar næsta dag og ekki heldur næstu vikur. En mamma var eins og Guð, gaf annan séns en var að lokum nóg boðið og lokaði endanlega. Reykurinn hvarf og taktföstu gómahljóðin líka.

Mörgum árum síðar sagði mamma mér að ég hefði verið seinn til máls og ekki talað fyrr en þriggja ára. Hún hefði verið orðin áhyggjufull um drenginn sinn. Spurning karlsins í kjallaranum hefði því meitt hana. En skömmu síðar hefði ég allt í einu byrjað að tala. Ég hefði raðað orðunum fallega og heilastarfsemin virtist eðlileg. Ekkert babl heldur skýrar og meitlaðar setningar. Ég hefði verið altalandi og orðaforðinn furðumikill. „Hefurðu einhverja skýringu af hverju þú talaðir svona seint?“ spurði hún. Já, ég mundi vel ástæðuna. Ég horfði á munnana, varirnar, vindlana, hlustaði og hugsaði. Ég ímyndaði mér að öllum væri skammtaður hámarks fjöldi orða rétt eins og allir lifðu ákveðinn tíma. Orðin væru takmörkuð gæði. Kvótinn gilti fyrir alla og orð væru dýr. Ég ætlaði ekki að misnota orðin mín heldur nota þau vel.

13. október 2024