Greinasafn fyrir merki: lygi

Rannsókn á lygi – og ást

Hvað gerist þegar fals mótar sál og samfélag? Hvernig verpist veruleikinn þegar lygin tekur yfir? Hvernig farnast fólki þegar það er kramið af kerfisvaldi sem aðeins leyfir eina túlkun og eina skipan veraldar – en ekki fjölbreytileika?

Ekki gleyma mér er minningabók Kristínar Jóhannsdóttur sem fjallar um þessi stóru stef. Í bókinni rifjar hún upp námstíma sinn í klofnu Þýskalandi, í Freiburg, Leipzig og Berlín. Námstími erlendis er jafnan umbrotatími í lífi fólks og var í lífi Kristínar mjög dramatískur. Hún segir frá námsgreinum sem hún stundaði. Samanburður á menntunaráherslum báðum megin járntjalds er athyglisverður. Kristín teiknar upp pólitík og með sérlega athyglisverðum hætti samfélagsgerð hins kommúníska þjóðfélags. Svo læðist ástin og tengslin við fólk á milli lína og litar allar blaðsíður Ekki gleyma mér. Þrá, miklar tilfinningar, snerting, unaður, eftirsjá, sorg koma við sögu.  

Það sem snart mig m.a. í bók Kristínar er líf í lygi. Ekki lygi einstaklingsins heldur samfélagi lyganna sem síðan gerir fólk falskt. Samfélagið í Stasi-landinu austan járntjalds var hræðilegt kúgunarsamfélag. Fólkið var alls konar en samfélagsgerðin var á kostnað lífsgæða og lífshamingju. Allir sem bjuggu austan tjalds voru hugsanlega njósnarar. Tortryggnin læddist því um. Ástin var full af grun um svik. Óttinn við fals var alltaf með í för og alls staðar. Lífið var hamið í samfélagi lyganna. Lygasamfélag varð harmafélag og tilfinningalegt sóunarfélag. Samfélagsgerðin bjó til sorgbitið fólk. Barnið dó en hefði mátt lifa. Líf hefði geta orðið hamingjuríkt en grunsamfélag lyginnar hindraði. Bók Kristínar Jóhannsdóttur Ekki gleyma mér er heillandi og vel skrifuð minningabók sem opnar margar gáttir. Opinská úrvinnsla höfundar er trúverðug. 

Við reynum öll að vinna úr aðstæðum, tengslum, tilfinningum og stöðu í samfélagi. Við veljum og stundum úr óljósum kostum í flóknum aðstæðum. En líf í lygi er líf í álögum og leiðir til óhamingju og áfalla. Stasilandið var vont samfélag fólks og það féll. Ekkert samfélag er fullkomið en okkar er skyldan að beita okkur fyrir að þjóðfélag og samfélagsgerð þjóni sem flestum og tryggi möguleika fólks til að elska, tengjast, vinna, menntast og nýta hæfni og gáfur sem best. Samfélag er félag um það sem við eigum saman; gildi, mennsku, menningu, frelsi og ábyrgð. Stasilandið féll en skammsýnir villumenn reyna gjarnan að búa til eigin hömlulönd, hvort sem það er Pútínland, Trumpland, XI-land, ofbeldisfjölskylda á Akureyri eða meðvirknisfjölskylda í Hlíðunum. Ástin fæddist í Stasilandi en veslaðist upp og dó. Ástin lifnar alls staðar þar sem fólk er og á að fá að dafna, nærast og lifa.

Kristín Jóhannsdóttir: Takk fyrir heiðarleikann og þar með merkilega bók sem vekur marga þanka um dásemdir lífsins.

Meðfylgjandi mynd er af forsíðu bókarinnar. 

Ég talaði um Stasilandið í prédikun fyrir nokkrum árum og hægt að nálgast ræðuna að baki þessari smellu.

Guðlaug

Engin þjóðhátíð, engir sæludagar eða berjadagar þessa helgi. Fával við forsetainnsetningu. Engin altarisganga í messu og engar útihátíðir. Þetta er einkennileg verslunarmannahelgi. Margir hafa líka tjáð sterk vonbrigði með nýjar reglur vegna sóttvarna og tilfinningarnar flæða á samfélagsmiðlunum. Sumt af því sem er látið vaða er talsvert fjarri góðri dómgreind. En það er mikilvægt að staldra við og skoða aðstæður. Við, kristnir menn, megum gjarnan vitja grunngildanna og minna okkur á, að það er meðal hlutverka kristins fólks að standa með lífinu og vernda þau sem þarfnast skjóls. Og við megum sækja í hlið himins og koma til guðsþjónustu. Guð er samur og möguleikarnir á guðsræktinni eru ekki síðri þó samskipti lúti stífari reglum. En samfélagstengslin og reglurnar eru í þágu lífsins.

Þegar hægir á að nýju hefur hugurinn leitað til baka, til vormánaðanna og sumarsins. Og sumt af því, sem við höfum reynt og séð, hefur setið eftir og orðið til íhugunar. Margir landar okkar hafa notað sumarið til ferða um landið. Ég hef fylgst með sumum ykkar og séð myndirnar, sem vinir mínir hafa smellt á facebook. Mínar Íslandsferðir hafa verið gefandi. Ég fór með fjölskyldu og vinum um Suðurland. Ég gekk á nýjar slóðir í Skaftafelli og þaut um áhrifaríkt Fjallsárlón sunnan Vatnajökuls og dáðist að dekurhóteli á Hnappavöllum. Svo fórum við um Snæfellsnes. Þetta voru góðar ferðir og líka ferðirnar, sem við fórum upp á Akranes. Þangað er ég búinn að fara tvisvar og alla leið út að vitunum. Þar eru Skagamenn að skapa dásamlega aðstöðu og ástæða til að hvetja fólk til að fara á Breiðina. En merkilegast fannst mér að fara að Langasandi og í Guðlaugu.

Laugin við Langasand

Hvað er það? Hver er Guðlaug? Það er ný laug, sem búið er að gera í brimgarðinum við Langasand. Glæsilegt mannvirki á þremur pöllum. Fólk kemur um langan veg til að baða sig í þessari dásemdarlaug með himinnafninu.

Guðlaug þessi á sér merkilega sögu, sem hófst í konu sem bjó á Bræðraparti yst á Akranesinunu. Í mörg ár, raunar áratugi, hefur blasað við, að bæta þyrfti aðstöðu og þjónustu við fólk við Langasand. Þessi gullströnd Skagans hefur verið íbúum aðdráttarafl, leiksvæði og útivistarsvæði. Á síðari árum hefur sjósundsfólkið farið þar í sjóinn. Marga hefur því dreymt um, að heitir pottar yrðu settir niður við Langasand. Umræður bárust jafnvel inn í stjórn styrktarsjóðs, sem kona mín stýrði – og til minningar um ömmu hennar og afa. Sjóðsstjórnin ákvað að leggja fé til framkvæmda. Þáverandi bæjarstjóri studdi áætlanir sem og meirihluti bæjarstjórnar Akraness. Frábærir arkitektar voru fengnir til starfa, sem skiluðu frumlegum tillögum að hófstilltri en glæsilegri byggingu. Ferðamálasjóður og Akranesbær lögðu líka til fé til laugarinnar við Langasand.

Bræðrapartshjónin

Styrktarsjóðurinn, sem samþykkti laugarpeningana, var kenndur við hjón sem bjuggu á Bræðraparti nærri vitunum. Þau hétu Guðlaug Gunnlaugsdóttur og Jón Gunnlaugsson. Að þeim látnum var jörð þeirra og eigur gefnar til mikilvægra uppbyggingarmála á Akranesi. Framlag til laugargerðarinnar var það síðasta, sem sjóðsstjórnin greiddi, áður en þessum mikla milljónasjóði var lokað. Minning vitavarðarins og formannsins Jóns Gunnlaugssonar hefur verið vel varðveitt og nýr björgunarbátur slysvarnardeildarinnar ber t.d. nafn hans. En þar sem byggja átti laug fyrir minningarfé úr sjóði um þau hjón lagði ég til að laugin fengi nafn Guðlaugar. Svo varð og allir sem fara í Guðlaugu njóta hennar og þeirra hjóna er minnst.

Guðlaug var tekin í notkun í desmeber 2018 og hefur síðan glatt marga, ekki bara kroppa baðgesta heldur hrífur líka fyrir fegurð og góðan arkitektúr. Guðlaugin byggir á sögu en líka formum, litum, hreyfingu sjávar, grjóts og sands strandarinnar nærri.

Þegar ég kom að Guðlaugu í sumar voru margir á ferð og fjöldi í lauginni. Guðlaug hefur komið Akranesi á kort ferðamennskunnar og orðið sem nýtt og opið hlið að sögu Akraness en líka Skaga nútímans. Fólk nýtur blessunar, líkamlega, félagslega, listrænt og þar með andlega. Þessi laug hefur táknvíddir, sem spanna ekki aðeins steinsteypu og hreinsun, heldur svo margt fleira.

Hið sanna

Þetta er inngangur að texta dagsins og útleggingu. Áhersla guðspjallsins er á sannleika og heilt og gott líf. Silli og Valdi gerðu eitt af versum dagsins úr Fjallræðunni að slagorði. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Og það hefur nú löngum verið kennimark góðrar matvöruverslunar að ávextir séu góðir og grænmetið gott. Svo er líka minnt á, að líferni og gerðir mannanna séu birtingarmynd um hið rétta, góða og gefandi. Á þessum álagstíma COVID-19 blasir við í pólitík heimsins að sannleikurinn er ekki við stjórnvöl alls staðar. Sjálfhverfir lukkuriddarar vekja á sér athygli til að ná sem lengst. Sagt hefur verið að narcisistar leiti inn í stofnanir og kerfi þar sem völd eru og peningar. Í Noregi er reiknað með að narcisistar séu nærri 3% innan stjórnsýslunnar og 4% þeirra sem eru í valdastöðum. Og sjálfhverfungar reyna alltaf að ná völdum, peningum, lofi og dýrð. Þeir hika ekki við, að sveigja sannleikann til að kýla andstæðinga sína niður, koma sjálfum sér á framfæri, hrifsa til sín gæði heimsins – sem er alltaf á kostnað annarra. Falsfréttir eru tæki sannleiksglæpamanna. Í heimsfréttum þennan morguninn er sagt frá falsfréttaveitum sem valdamenn í Brasilíu halda úti. Hæstiréttur landsins varð að beita sér því þetta eru hópar sem vilja valdarán og skert tjáningarfrelsi. En slíkir hópar eru um allan heim, hópar sem halda úti lygafréttum til að seilast eftir völdum og halda þeim.

Hér á Íslandi er þessa mánuðina sérstakt verkefni íslensku fjölmiðlanefndarinnar, að vekja athygli fólks á því að við þurfum að vera á varðbergi, trúa ekki athugunarlaust því sem sagt er á vefmiðlum eða miðlað á netinu, ekki heldur í stóru fjölmiðlunum, því sannleiksspellvirkjarnir reyna alltaf að búa til nýja veruleika – til hliðar við sannleika og gildi – og skapa sér stöðu í stríðinu um áhrif. Þeir eru ekki aðeins úlfar í sauðargæru heldur fótósjoppaðar grímur. Oscar Wilde skrifaði læsilega bók um slíka í ritinu Myndin af Dorian Grey. Fallegir að utan en hroðalegir að innan. Stoppa, hugsa, athuga. Það er nafnið á átaki Fjölmiðlanefndar sem er ætlað að efla almenning til þess að greina falsfréttir frá öðrum.

Guðlaug á Akranesi varð í sumar fyrir mér tákn um andstæðu vitleysu, blekkingar og sannleiksflótta samtíðar. Konan Guðlaug Gunnlaugsdóttir á Bræðraparti var hæfileikakona, mikilvirk í störfum sínum, öflug móðir, sem hvíslaði ekki aðeins ástarorð í eyru barna og bónda, heldur beitti sér fyrir menntun síns fólks og ábyrgð í vinnu og lífi. Hún ól upp barnahópinn sinn vel. Þau urðu til mikils hags og gagns í menntunarmálum og útgerð og lögðu margt til mannlífs á Skaganum og víðar. Guðlaug var engin blekkingarkona, heldur beitti sér gegn vitleysum, lagði gildi í líf ástvina sinna og samfélags. Hún kunni að tala við mannfólk en líka við Guð. Guðlaug var sjálf lauguð guðsástinni og lifði í ljósi trúar sinnar og himintengsla.

Persónan Guðlaug er því til fyrirmyndar. En svo er mannvirkið sem nýtur nafns hennar og gjafa hennar svo vel hannað að það er þrenna og minnir á þrenninguna efra. Vatnið í lauginni tengir við vatnið í skírnarfontum kirknanna. Baðferð í Guðlaugu verður flestum inntaksrík því laugin er svo marglaga listaverk og táknverk. Einföld hressingarstund kallar til dýpta og þess sem er æðra. Svo er ljómandi að baðferðin kostar ekkert, hún er gratís eins og allt það besta í lífinu. Eins og fagnaðarerindið

Samfélag okkar er á ferð. Gildi trosna, siðurinn er sprunginn í lífi margra. Við það rofnar siðferði og lífsstefna margra einstaklinga. Þegar gildin fletjast út heldur merkingar- og menningarvefur samfélagsins ekki. Lukkuriddarar hlaupa af stað og reyna að sannfæra okkur um hliðræna veruleika, nýtt gildismat, ný tilbeiðslugoð í pólitík, lífi og menningu. En hvað svo sem okkur finnst um kirkju eða átrúnað er málefni kristninnar hið slitsterka og mikilvæga í samfélagi okkar. Kristinn siður er til verndar lífi, fólki og sköpunarverki. Við þurfum ekki lukkuriddara sem eru sérfræðingar í spuna hliðrænna veralda heldur gildi og ábyrgð gagnvart lífi, samfélagi, náttúru sem Guð gerði svo góða.

Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Hverjir eru þínir ávextir? Hver eru þín hlutverk? Hvað viltu? Og hvað skiptir mestu máli og er kjarni siðarins? Guðlaug minnti mig á grunngildin. Okkar verkefni er að skola vitleysunni burt og verða samfélagi til heilla í lífinu. Stoppa, hugsa, athuga. Guðlaug skolar af okkur og setur okkur í samband. Kristinn siður setur okkur í samhengi lífsins. Ekkert fals, heldur sannleikur í þágu lífsins, sem Guð kallar okkur til.

Í lífsins tæru lindum 

þú laugar mig af syndum 

og nærir sál og sinni

með sælli návist þinni.

(SE sálmur 701 í sálmabók þjóðkirkjunnar)

Amen

2020 Íhugun í Hallgrímskirkju 2. ágúst, 2020.  8 sunnudagur eftir þrenningarhátíð. Verslunarmannahelgi. Sóttvarreglur voru mjög hertar föstudaginn 31. júlí. 

Um laugina, gerð Guðlaugar og verðlaun eru ýmsar heimilidir á vefnum og hvernig hún hefur opnað Akranes fyrir mörgum. 

https://www.akranes.is/is/frettir/gudlaug-a-langasandi-formlega-opnud-almenningi

Guðlaug fékk umhverfisverðlaun Ferðamálastofu í desember 2019. Sjá grein í Skessuhorni:

https://skessuhorn.is/2019/12/18/gudlaug-saemd-umhverfisverdlaunum-ferdamalastofu/

Minningargrein Péturs Ottesen um Guðlaugu Gunnlaugsdóttur: https://timarit.is/page/1334124#page/n16/mode/2up

Á annað hundrað milljónum veitt til samfélagsmála á Akranesi. Um framlög úr minningarsjóði Guðlaugar og Jóns: http://skessuhorn.rat.nepal.is/frettir/nr/184945/

Björn Ingi Hrafnsson skrifaði um hvernig Guðlaug hefur komið Skaganum á kortið að nýju í grein í Viljanum: https://viljinn.is/dagbok-ritstjora/af-hverju-er-akranes-komid-aftur-i-alfaraleid/

Best geymda leyndarmál Akraness:

https://www.mbl.is/ferdalog/utivist/2020/02/10/best_geymda_leyndarmal_akraness/

Um árvekniátak Fjölmiðlanefndar er hægt að fræðast á slóðinni: https://fjolmidlanefnd.is/stoppa-hugsa-athuga/

Myndirnar af laugarfólki í frumbaðinu í Guðlaugu tók ég á opnunardegi sem og myndina af undirbúningshópnum. Kennimyndin, þ.e. stóra myndin sem og drónamyndin eru af facebookvef Guðlaugar. Kristjana Jónsdóttir fann til mynd af Guðlaugu. Myndina af Bræðrapartshjónunum fékk ég af þeirri stórmerku síðu haraldarhus.is Takk Haraldur Sturlaugsson. 

Lygi eða sannleikur?

vitringarSagan um vitringana er ekki goðsaga heldur helgisaga. En er helgisagan lygi eða sannleikur?

Jólatímanum er að ljúka og við jólalok er sagan um vitringana gjarnan íhuguð. En hvers konar saga er hún og hvað merkja vitringar og atferli þeirra? Er saga þeirra goðsaga, helgisaga, dæmisaga eða eitthvað annað – eða kannski bara lygisaga, bull og vitleysa?

Það skiptir máli hvernig lesið er til að fólk greini með viti og skilji þar með. Í Biblíunni – og líka í trúarbrögðum og menningarhefðum – eru margar sögur sem kallast kallast helgisögur. Þær eru oft nefndar með slanguryrðinu legendur því þær kallast á ensku legends og eru ólíkar og gegna öðru hlutverki en svonefndar goðsögur um uppruna heimsins.

Helgisögur eru gjarnan um efni á mörkum raunveruleikans. Þær eru oft sögur um einstaklinga, sem gætu hafa verið til og um líf eða viðburði sem eiga jafnvel við eitthvað að styðjast í raunveruleikanum. Áhersla helgisögu er ekki á nákvæma rás viðburða og söguferlið sjálft, staðreyndir eða ytra form atburðanna, heldur fremur á dýpri merkingu og táknmál. Svona greining á formi og flokkum skiptir máli til að merking sögunnar sé rétt numin og skilin. Bókmenntafræðin, þjóðfræði og greinar háskólafræðanna eru hjálplegar til að skilja svona sögur. Inntak og form verður að greina rétt. Inntakið kallar alltaf á form til að ramma inn og miðla með merkingu. Reglan er einföld: Svona sögur á ekki að taka bókstaflega heldur alvarlega og skilja þær í ljósi eigin forsendna. Svona sögur á ekki að kreista því þá brotnar allt, líka skilningurinn. Og vitringasagan er helgisaga en ekki goðsaga.

Vitringar?

Hvað vitum við um þessa vitringa sem komu til Jesú? Af hverju var sagan sögð af þeim? Hvaðan komu þeir? Hvað hétu þeir og hvað gerðu þeir? Hvað voru þeir margir?

Vitringarnir hafa gjarnan verið þrír í sögum og á myndum og nefndir Baltasar, Melkíor og Rafael. En í guðspjallinu segir ekkert um fjöldann þó okkur finnist að svo hafi verið. Í austrænni kristni eru þeir taldir allt að tólf. Ekkert í guðspjöllunum er heldur um nöfn þeirra.

Voru þetta konur eða karlar – eða bæði? Um það getum við ekki fullyrt heldur. Sú hnyttni hefur löngum gengið í kristninni, að vitringarnir hljóti að hafa verið karlkyns því ef þetta hefðu verið konur hefðu þær byrjað á að fá sér almennilegar leiðbeiningar um hvar Jesús myndi fæðast, þær hefðu verið á staðnum á réttum tíma, þrifið húsið til að undirbúa fæðinguna, hitað vatn, hjálpað til og gefið barninu og foreldrunum eitthvað nothæft s.s. bleyjur, mat og föt en ekki ónothæft dót eins og gull, reykelsi og myrru!

Uppruni og eðli

Margar tilgátur eru um uppruna vitringanna. Um aldir hafa menn séð í þeim tákn mismunandi hluta hins þekkta heims. Ýmsar sögur hafa gengið: Einn þeirra átti að vera svartur og frá Eþíópíu, annar frá Indlandi og einn frá Austurlöndum fjær. Enn í dag er álit margra kristinna manna í Kína, að einn vitringanna hafi verið frá Kína. Um þetta er ekkert vitað með vissu.

Þegar rýnt er í textann eru mennirnir nefndir á grískunni magos (μάγος) og í ft. magoi. Magusar gátu verið töframenn og af þessu orði er magic sprottið t.d. í ensku. Líklega ber að skilja söguna sem svo að komumenn, hversu margir sem þeir voru, hafi ekki átt að vísa til töframanna heldur svonefndra mágusa, presta í norðurhluta þess svæðis sem við köllum Íran í nútímanum. Þeir hafi verið fræðimenn, kunnáttumenn í stjörnufræði og lagt sig eftir táknmáli stjarnanna. Kannski hafi þeir verið úr þeim væng Zóróastrían-átrúnaðarins, sem var opinn gagnvart guðlegri innkomu eða birtingu hins guðlega.

Víkkun – fyrir alla

Matteus guðspjallamaður var ekki upptekinn af jólasögunni sem lesin er á aðfangadegi úr Lúkasarguðspjalli. Af hverju sagði Matteus aðra útgáfu jólasögunnar? Ástæðan varðar stefnu og tilgang rits hans. Í guðspjalli Matteusar er áhersla á opnun hins trúarlega. Matteus taldi að Jesús Kristur og kristnin ætti ekki aðeins erindi við lokaðan hóp Gyðinga heldur allan hinn þekkta heim manna. Guð væri ekki smásmugulegur heldur stór. Guð veldi ekki aðeins litinn hóp heldur hugsaði vítt og útveldi stórt. Guð léti sig ekki aðeins varða einn átrúnað heldur allt líf, hugsun og veru allra. Vegna þessa er eðlilegt, að í þessu guðspjalli, sem býður að kristna allar þjóðir, skíra og kenna öllum, komi prestar við sögu utan úr heimi trúarbragðanna. Erindi vitringanna er m.a. að tjá opnun og alþjóðavæðingu hins trúarlega. Hrepparígur og bókstafstrú passar ekki við trú þessarar gerðar, trúin er fyrir alla. Guð starfar í þágu allra. Guð er alveg laus við snobb og er ekki hrifnari af sumum en síður af öðrum. Guð er ekki bara Guð einnar þjóðar heldur allra manna.

Kóngavæðingin

Táknleitandi hugsuðir aldanna hafa lesið í táknmál vitringasögunnar, stækkað hana og lesið í hana. Kóngavæðing sögunnar er einn þáttur flókinnar túlkunarhefðar. Þegar veraldlegir konungar fóru að trúa á Jesú Krist var að vænta, að kóngarnir vildu koma sér að í guðssríkinu – valdið vill alltaf meira. Sögur fengu byr um að hinir vitru og gjafmildu ferðalangar hlytu að hafa verið konungbornir. Í ýmsum þýðingum Biblíunnar var gjarnan skrifað (t.d. í ýmsum enskum biblíuþýðingum), að vitringarnir hafi verið kóngar og eðli og tilgangur gjafa þeirra breyttist þar með. Danska biblíuhefðin var í anda þessarar konungatúlkunar. Á dönsku er t.d. talað um þrettándann sem helligtrekongersdag. En ég held þó að ef komumenn hefðu verið konungar hefðu þeir verið nefndir öðrum nöfnum en magos og magoi í Biblíunni.

Íslenska hómilíubókin, sem er prédikanasafn frá fyrstu öldum kristni á Íslandi, segir berlega að komumenn hafi verið “Austurvegskonungar.” En hins vegar þýddi Guðbrandur Þorláksson orðið magos með orðinu vitringur í Guðbrandsbiblíu og þannig hefur verið þýtt allar götur síðan á 16. öld og vitringarnir eru vitringar en ekki kóngar í núgildandi Biblíuþýðingu. 

Hvenær?

Flestir halda, að vitringarnir hafi vitjað Jesú á fæðingarkvöldinu í Betlehem af því þannig eru myndirnar og helgileikirnir, sem við setjum upp t.d. helgileikur Melaskólans sem sýndur hefur verið í marga áratugi hér í kirkjunni. En ekkert er sagt í guðspjallinu um, að vitringarnir hafi vitjað Jesúbarnsins þegar það var nýfætt. Ekkert er sagt hvenær þeir komu heldur það eitt að þeir hafi opnað hirslur sínar og gefið góðar gjafir.

Lestur helgisögunnar

Hvað eigum við að gera við helgisöguna um vitringana? Svarið er að sagan er kennslu- eða mótunarsaga. Sagan tilheyrir áhrifasviði mannlífsins. Hún á sér hugsanlega sögulega stoð. Engu skiptir þó hvort svo er eða ekki, en þó hefur hún engu að síður merkingu fyrir raunverulegt líf. Við þurfum ekki að trúa, að vitringarnir hafi verið þrír eða tólf. Við þurfum ekki að vita hvort þeir voru frá Eþíópíu, Íran eða Kína. Við verðum ekki að trúa þessari sögu frekar en við erum neydd til að trúa Hamlet eða Njálu. En helgisögur hafa merkingu eins og aðrar mikilvægar sögur mannkyns. Helgisaga er ekki lygi heldur opnar möguleika í lífinu, varðar sannleik viskunnar. Hlutverk helgisagna – eins og annarra klassískra sagna og þmt skáldsagna – er ekki að lýsa staðreyndum eða segja nákvæma frétt á vefnum heldur segja segja sannleikann á dýptina, lýsa því sem er mikilvægt og hjálpa fólki við að lifa vel.

Að lúta barninu með vitringunum

Hin táknræna merking helgisögunnar um vitringana er m.a. að menn séu – og það á við okkur öll – ferðalangar í tíma. Lífsferð allra manna er lík langferð vitringanna til móts við barnið. Aðalmál lífs allra manna er að fara til fundar við Jesú. Okkar köllun eða hlutverk er að mæta honum og gefa það, sem er okkur mikilvægt, af okkur sjálfum, okkur sjálf – eins og vitringarnir – og snúa síðan til okkar heima með reynslu og lífsstefnu í veganesti.

Við erum frjáls að því að túlka þessa vitringa og helgisöguna að okkar hætti, en tilvera þeirra er eins og tilvera mín og þín. Þú ert í sporum eins þessara manna. Engin nauðsyn knýr að þú trúir að þeir hafi verið þrír eða tólf. Fjöldi þessara vitringa getur verið allur fjöldi allra manna á öllum öldum. Þín er vænst í hóp þeirra. Þú mátt vera þarna við hlið þeirra og með þeim.

Þegar þú íhugar og innlifast helgisögunni um vitringana er þín eigin saga endursköpuð. Þegar þú lýtur Jesú í lotningu – eins og þeir – breytist líf þitt með þeim. Helgisaga er utan við lífið og lygi – ef hún er skilin bókstaflega – en eflir lífið ef hún fær að tjá merkingu. Þegar þú viðurkennir mikilvægi þess að lúta barninu – veruleika Jesú Krists – verður þú einn af vitringunum. Þá verður lífið töfrandi – ekki bull eða lífsflótti – heldur undursamlegt. Helgisagan er til að efla fólk til lífs – skapa farveg fyrir heill og hamingju.

Hugleiðing við lok jóla.