Greinasafn fyrir merki: lúða

Pönnusteikt rauðspretta / eða lúða

Ég elda þessar vikur rauðsprettu, lúðu eða kola á föstudögum. Sem sé pizzan á útleið og fiskur á innleið. Ljómandi skipti og allir kátir. 

Fyrir 4

800 g rauðspretta (roðflett) eða lúða eða koli
2 egg
2 dl hveiti
Salt, pipar og ofurlítið estragon eftir smekk
140 gr smjör

1 dl hvítvín
2 msk safi úr sítrónu
4 hvítlaukslauf kramin
3 dl rjómi
2 msk kapers
30 ólífur eða eftir smekk
Fersk steinselja

Kartöflur
1/2 kg kartöflur
2 msk ólífuolía

2 hvítlaukslauf kramin
Salt, pipar og ½ tsk kúmen

1 dl Parmesanostur

Aspargus

2 hvítlaukslauf kramin. 1 búnt aspargus. Snyrt og síðan gufusoðin í nokkrar mínútur. Síðan steikt í smjöri og hvítlauk á pönnu. Saltað og piprað.

Salat

Grænt með og má gjarnan gefa grænu salatinu uppfrískum með einhverju litríku með t.d. með granateplum og bláberjum

Aðferð

Skerið kartöflur fremur smátt. Blandið saman ólífuolíu, hvítlauk og kryddi og hellið yfir kartöflurnar. Veltið til að kryddölgurinn þeki þokkalega. Setjið í eldfast fat og bakið í ofni við 200°C í 20 mínútur eða þar til kartöflurnar eru fullbakaðar. Á meðan þær eru í ofninum er fiskurinn matreiddur.

Skerið fiskinn í bita og kryddið og veltið úr hveiti. Pískið egg í skál og veltið bitunum upp úr eggi og að lokum aftur upp úr hveiti.

Bræðið smjör á pönnu og steikið fiskinn í smjörinu í 3-4 mínútur á hvorri hlið eða þar til gyllt húð er mynduð á fiskinum.

Bætið ólífum, kapers, hvítvíni, safa úr sítrónu og hvítlauknum út í. Leyfið að malla í 1 mínútu. Bæta síðanrjóma út í. Leyfið að malla í nokkrar mínútur.

Parmesan ostur yfir kartöflurnar og steinselja yfir fiskinn.

Aspargusinn eldaður um leið og fiskurinn er steiktur.

Sanserre með. Pinot Grigio eða Sauvignon Blanc ganga líka ágætlega.

Þökkum Drottni því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

Smálúða eða rauðspretta

Á unglingaheimili er stöðugt viðfangsefni að koma fiski í ungviðið. Og þá er listin að bragðbreyta. Ég eldaði þennan flatfiskrétt í vikunni og þá sagði annar drengurinn. „Þetta er fínn matur. Höfum svona oftar. Mér finnst lax ekkert góður!“ Þessi matur er góður og reyndar góður lax líka. 

Fyrir fjóra:

800 gr. lúðu eða rauðsprettuflök

150 gr ferskir sveppir

1 gulur laukur

1 1/2 msk smjör

1 dós niðursoðnir tómatar

grænmetiskraftur

2 dl þurrt hvítvín

1 dl vatn

1 1/4 tsk salt

2 msk mjúkt smjör

2 tsk. estragon

1 1/2 msk mjúkt smjör

1 dl rjómi

2 msk fínhökkuð steinselja

Fínskera sveppina og laukinn. Látið renna af tómötunum.

Bræða smjörið í víðum, grunnum potti eða pönnu. Brúna sveppina og laukinn hægt.

Láta tómatana og grænmetiskraftinn út í ásamt víni og vatni. Sjóða undir loki í ca. 10 mín.

Breiða úr fiskflökunum á bretti og strá salti yfir. Blanda smjöri og estragoni saman og láta eina smjörlíkpu á hvert fiskflak. Rúlla þeim síðan saman eða leggja saman. Festið þau síðan saman með tannstöngli.

Blanda smjöri og rjóma í sósuna.

Leggið fiskinn síðan í sósuna og láta malla í í ca. 5. mín. undir loki, en án þess að sjóði.

Strá steinselju yfir þegar rétturinn er borinn fram.

Berið fram með hrísgrjónum eða byggi og salati.