Greinasafn fyrir merki: lögmaður

Sextug og stofnaði fyrirtæki fyrir fólk

Elín mín stofnaði fyrsta fyrirtækið sitt sextug – og blómstrar. Vegna myglu á fyrrverandi vinnustað ákvað hún að velja heilsuna fremur en vinnuna. En fólk hleypur ekki í störf þegar það er komið á sjötugsaldurinn. Hún skoðaði atvinnumöguleikana og fór svo í langa göngu og spurði sjálfa sig hvað hún vildi gera? Hver væri ástríða hennar og hvað henni þætti skemmtilegast? Þegar hún kom heim tilkynnti hún mér að hún ætlaði að stofna sérhæfða lögfræðiþjónustu fyrir fólk sem stæði á krossgötum og væri að íhuga búsetuskipti. Áherslan yrði að þjóna 59+. Hún kynni lögfræðina, hefði brennandi áhuga á fasteignamálum og vildi þjóna fólki. Ég þekkti glampann í augum hennar. Hún var ákveðin, búin að taka stefnuna. Nei, hún hafði engan áhuga á að stofna fasteignasölu því það væri nóg af slíkum. En það vantaði algerlega að þjónustu við fólk áður en það færi á fasteignasöluna og væri að hugsa og meta kostina. Það þyrfti að þjóna fólki sem væri á krossgötum, spyrja það spurninga um óskir, drauma og þarfir. Hún væri nú líka markþjálfi og gæti farið inn í stóru málin. Og svo væri gott að fagmaðurinn hjálpaði við að meta og vega kostina með fólki áður en það færi í leiðangurinn. 

Ég dáðist að hvernig Elín Sigrún gekk í verkin, allt frá fyrstu hugmynd til blússandi rekstrar. Þegar hugmyndin kom skoðaði hún möguleika og útfærslur, kjarnaði svo umfang, viðfangsefni og þjónusturamma. Hún leysti út lögmannsréttindin og gerði samninga við fasteignasölur sem hún hafði góða reynslu af og treysti. Svo kom nafnið Búum vel. Hún skráði fyrirtækið og skráði líka nokkur lén hjá ISNIC, skráningaraðila íslenskra heimasíðna. Svo fór hún á erlendar hönnunarsíður og teiknaði merki eins og hún væri grafískur hönnuður. Svo var það heimasíðan. Elín ákvað að gera þetta bara sjálf frekar en að flækja málin með vefsíðuhönnuðum. Hún valdi wix-umsýslukerfi í stað word-press sem ég kann á. Ekki gafst hún upp þó alls konar hindranir yrðu og um tíma hvarf grunnur sem hún var búinn að vinna. Hún kláraði vefnaðinn og nú er síðan komin upp. Slóðin er www.buumvel.is

Elín Sigrún veit að margir óttast að taka ákvarðanir um peningamál, lagagerninga og fasteignaviðskipti. Margir skelfast þegar lesa þarf samninga og smáa letrið og óttast að gera afdrifarík mistök. Nú nýtir Elín sína fjölþættu þekkingu og reynslu og aðstoðar fólk við að meta kostina varðandi búsetuskipti og vinna pappíra í tengslum við skilnaði eða dánarbú. Fólk fær sinn einkalögmann. Fasteignasölurnar lækka sölugjaldið því vitað er hve þjónusta Elínar skilar fólki miklu öryggi, gleði og farsæld á álagstíma búsetuskipta. Sem sé lækkun þóknunar fasteignasalanna eru laun Elínar.

Það hefur verið sérstaklega skemmtilegt að fylgjast með Elínu stofna fyrirtækið Búum vel og verða vitni að því hve fagnandi hún gengur til starfa og þjónar fólki af mikilli fagmennsku, alúð og hlýju. Og það vermir þegar fólk tjáir djúpt þakklæti fyrir að hún tryggði að það seldi vel og gerði góð kaup og klúðraði ekki fjármálum sínum. Öryggi er aðalmál í fasteignaviðskiptum.

Búum vel er algerlega ný vídd í þjónustu við fólk sem er á krossgötum, ekki aðeins á Íslandi heldur er svona lögmannsþjónusta einstök. Hugmyndin kemur ekki frá útlöndum, hún kom af himnum og í kollinn á Elínu Sigrúnu Jónsdóttur á göngu við sjóinn. Það verður enginn svikinn af Búum vel og stefna Elínar er að fólk eigi að búa eins og vel og það vill. Hún er til þjónustu reiðubúin.

Allt er sextugum fært. Já, Elín Sigrún er fyrirmynd okkur eldra fólkinu og til fyrirmyndar í störfum. Og tímalínan þessi: Tala fyrst við Elínu Sigrúnu og þar á eftir að tala við fasteignasölurnar. Fá sinn eigin lögmann en borga ekkert meira.

Skrifstofa Búm vel verður í nýsköpunarhúsinu Grósku, húsinu við hlið Íslenskrar erfðagreiningar. Það verður væntanlega tekið í notkun í lok nóvember 2020.