Greinasafn fyrir merki: ljósengill

Verði ljós og tangó skýjanna

Bláfjöllin og sólin brostu við veröldinni og þar með okkur sem áttum leið austur fyrir fjall 26. nóvember. Ég var á leið í Alviðru á fund og sá útundan mér ljósaævintýri suður af Sandskeiði. Það var sem skýin dönsuðu tangó við taktinn í ljósmúsíkinni. Þrátt fyrir nauman tíma stoppaði ég bílinn við vegarútskot, renndi niður rúðu og tók mynd beint úr ökumannssætinu. Móðurlegur ljósengill breiddi út faðminn og blessaði dansinn. Tólf metra hár ljósviti listamannsins Claudio Parmiggiani var sem biðjandi og þiggjandi dvergur í ljósagnótt nágrannanna. Verði ljós þessari veröld, meira líf og kröftugri dans. Guði sé lof fyrir ljósið.