Greinasafn fyrir merki: ljósberi

Verði ljós

 

 

Í Hallgrímskirkju er ljósberi með sætum fyrir bænakerti. Þangað leitar fólk og kveikir á kertum, vitjar ástvina í huganum og biður bænir. Á hnattlaga ljósberanum eru sæti fyrir 61 bænakerti. Í honum miðjum er stórt kerti sem er tákn fyrir heimsljós Guðs, Jesú Krist.

Hallgrímskirkja er ekki aðeins mest myndaða hús og fjölsóttasti ferðamannastaður landsins, heldur helgistaður alls heimsins. The Guardian útnefndi Hallgrímskirkju sem eitt af tíu mikilvægustu íhugunar- og bænahúsum veraldar. Alla daga situr fólk í kyrru kirkjunnar og íhugar og biður. Bænahnötturinn í kirkjunni laðar að og fljótlega eftir opnun kirkjunnar að morgni loga ljós í öll sætum ljósberans. Þá hefur fólk tyllt kertum sínum á aðra hluta ljósberans. Vegna fjöldans, sem reynir að koma ljósum fyrir, hafa kerti fallið niður á gólf. Það er fólki sárt að sjá bænaljósin sín hrynja. Og það er líka mikil vinna fyrir starfsfólk kirkjunnar að þrífa gólf og stjaka. Spurningarnar hafa oft leitað á starfsfólkið. Var bænahnötturinn orðinn of lítill?

Velgerðarfólk Hallgrímskirkju gaf kirkjunni ljósberann í ársbyrjun 1996. Hönnuður var Gunnsteinn Gíslason, myndlistarmaður og Þuríður Steinþórsdóttir, járnsmiður, vann stjakann. Í gjafabréfi segir: „Víða höfum við ferðast og ávallt á feðrum okkar leitum við til kirkju og hlýðum messu eða sitjum í kyrrð og þökkum þá miklu gleði sem börnin okkar þrjú hafa veitt okkur. Á þessum stundum höfum við kveikt á litlum kertum og látið á bænastjaka sem þar hafa verið. Við hjónin höfum margt að þakka. Því gleður það okkur mikið að ljósberinn fái að standa í Hallgrímskirkju sem þakklætisvottur okkar fyrir þá miklu gæfu sem börn okkar hafa fært okkur. Við biðjum þess jafnframt að margir finni sér stund til að tendra ljós á stikum hans og að þessi litlu ljós megi veita birtu í sál á tímum sorgar og hlýju þakklætis á tímum gleði.“

Ljósberar eru víða til í kirkjum og fólk staldrar við og hugsar um líf sitt og sinna og biður fyrir fólki. Hnattlaga ljóshnettir þjóna sama hlutverki og ljósberi Hallgrímskirkju.

Ljósberinn er Hallgrímskirkjufólki kær og enginn hefur viljað breyta honum þótt aðsókn og hreingerningavinnan væri mikil. Til að þurfa ekki að láta gera stærri ljóshnött smíðaði Járnsmiðja Óðins járnbaug undir stjakann. Hlaðbær Colas gaf marga poka af ljósum mulningi sem var hellt í bakkann. Flestum kom á óvart hve ljósberinn naut þessa nýja samhengis, eiginlega lyftist í rýminu. Sandmulningsbaugurinn rímaði vel við fótstykki Kristsstyttu Einars Jónssonar.

Hvernig brást fólk svo við sem kom í kirkjuna? Það var spennandi að fylgjast með hvernig ljósafólkið færi að. Þegar flest kertasætin voru fullnýtt var enginn sem tyllti aukaljósum á ljósberann eins og áður var. Kertunum var komið fyrir í sandinum. Sumir mynduðu handarfar og komu ljósinu sínu þar fyrir. Aðrir teiknuðu hjarta í sandinn sem varð eins og amen við bænirnar. Hin nýja undirstaða ljóshnattarins kemur til móts við þarfir ljóssækins bænafólks. Fleiri ljós, fleiri bænir, aukið þakklæti og meiri birta. Velkomin í Hallgrímskirkju. Verði ljós.