Greinasafn fyrir merki: ljós

Verði ljós og tangó skýjanna

Bláfjöllin og sólin brostu við veröldinni og þar með okkur sem áttum leið austur fyrir fjall 26. nóvember. Ég var á leið í Alviðru á fund og sá útundan mér ljósaævintýri suður af Sandskeiði. Það var sem skýin dönsuðu tangó við taktinn í ljósmúsíkinni. Þrátt fyrir nauman tíma stoppaði ég bílinn við vegarútskot, renndi niður rúðu og tók mynd beint úr ökumannssætinu. Móðurlegur ljósengill breiddi út faðminn og blessaði dansinn. Tólf metra hár ljósviti listamannsins Claudio Parmiggiani var sem biðjandi og þiggjandi dvergur í ljósagnótt nágrannanna. Verði ljós þessari veröld, meira líf og kröftugri dans. Guði sé lof fyrir ljósið.

Ljóssókn

12. desember er mikilvægur og stórmerkilegur dagur í sögu okkar Íslendinga. Árið 1904 var kveikt á fyrstu perunum hér á landi. Jóhannes Reykdal gangsetti þá ljósavél í Hafnarfirði. Svo logaði á perunum á nokkrum heimilum og ljósvæðing þjóðarinnar hófst. Raflýsing hefur gerbreytt aðstæðum fólks. Raforkan skiptir okkur miklu máli og finnum það best þegar allt slær út. Þá erum við í vandræðum. Við þörfnumst orku til að kveikja á perunni og til velferðar.

Ljós og myrkur er erkitvenna í skynjun manna. Þegar myrkur umlykur okkur vaknar ótti. Við kveikjum til að rjúfa myrkur nátta á norðurslóð og höldum í skreytingar jólanna fram eftir þorra til að stytta myrkrið svolítið.

En ljósið hefur dýpri merkingu en aðeins hina sjónrænu. Ljósið tjáir lífsgildi, ekki síst titrandi kertaljós. Þau miðla í viðkvæmni sinni að lífið er auðsæranlegt, að ekki megi mikið út af bregða til að illa fari. Kertaljós aðvetunnar skírskota til dýpri veruleika og verða tilefni íhugunar. Tilgangur ljósskreytinga, já allra kertakveikinganna, er að vekja þrá barnsins í okkur, tendra skynjun ljóskomunnar í veröldina sem sagan um Jesúbarnið tjáir með öllu sínu hlaðna táknmáli, reykelsislykt, jötuilmi, flakkandi stjörnu og konunglegum vitringagjöfum.

Kynslóðir fyrri tíma álitu tímann fyrir jól undirbúningstíð til að undirbúa sig fyrir komu jóla. Áar og eddur notuðu jafnvel ævintýri um jólasveinana til að brýna andann. Kannski trúðu fæstir að sveinarnir væru til, heldur voru þessir vondu gaurar fremur tákn. Sögurnar um þá voru kennslusögur til að minna á að ávallt væri sótt að dýrum, atvinnuvegum og heimilum fólks. Fólk þyrfti að gæta sín og gæða sinna.

Á myrkasta tíma ársins segir Rúrik Gíslason, knattspyrnumaður og hönnuður: „Það er alveg hægt að kvarta yfir þessum átján tímum þar sem er myrkur hérna um háveturinn en það er líka hægt að gleðjast yfir þessum sex tímum þar sem er birta.“ Síðasti jólasveinninn ætlaði að stela ljósinu úr húsunum. Það var hinsta tilraun til að hindra jólakomuna, svipta fólk jólunum. Aðventan er með eftirvæntingu og von sinni tími til undirbúnings svo ekkert megni að stela ljósi jólanna. Mörg ljós hafa verið kæfð á liðnu farsóttarári. En við höfum frelsi til að ákveða viðbrögð okkar. Sótt er að afkomu og hamingju fólks. Opnum vitund og greinum möguleikana. Njótum aðventunnar sem eftirvæntingartíma fyrir ljóskomuna. Ljósið kemur í heiminn.