Greinasafn fyrir merki: ljóð

Jarðljós

Gerður Kristný kom í gættina hjá okkur, brosti og rétti fram nýjustu ljóðabókina, Jarðljós. Bókin brosir við manni og opnar faðminn ákveðið og innilega. Ég las bókina alla í gærkvöldi og svo aftur í dag. Og stefni að því að lesa hana alla á morgun því hún hún á margþætt erindi. Og þannig eru góðar bækur og allar sem við köllum klassískar.

Það er kyrra í þessari bók, ekki stilla eða lognmolla heldur fremur laðandi dýpt. Bókin er ekki ljóðabálkur heldur í stefjum og hlutum. Gerður Kristný fer víða. Hún vitjar hörmulegra atburða, náttúruundra, níðingsverka, ljóðar um kraftaverk og ljósbrunna lífs og veralda. Hún er snillingur merkingarsnúninga – alvöru skáld hefur smekk og getu til slíks. Gott dæmi er ljóðið Blíða:

Himinsvellið brestur

sólin laugar sveitir

leysir ísa

stuggar burt skuggum

 

Enn erum við minnt á

að við fæðumst úr myrkri

og hverfum um síðir

þangað aftur

 

Um stundarsakir

lögum við okkur

að ljósinu

Gerður Kristný vinnur oft með sögulegt efni og líka inntakið í goðsögum. Þegar hún vísar til einstaklinga er merking þeirra og lífs fléttuð svo sagan verður ávirk og kemur okkur við. Mér þótti vænt um hve mörg ljóðanna voru táknsterk. Ljóðlist Gerðar Kristnýjar er marglaga og djúpið að mínu viti í þeim er trúarlegt, ekki í þröngri merkingu heldur víðfeðmri. Veröld Gerðar Kristnýjar er ekki einföld heldur litrík og þrungin merkingu. Í henni eru undrin ekki gestir. Og minni trúarbragðanna eru nýtúlkuð og smellt í skapandi samhengi. Þessi ljóð smætta ekki heldur opna möguleika og leiðir. Biblíuleg dauða- og lífs-saga verður í meðförum hennar hnyttin nútímasaga. Í þessari bók er laðandi efni sem á örugglega eftir að rata í jólahugleiðingar. Frábær bók og ég segi takk fyrir mig og mun áfram ausa af þessum ljósabrunni.  

Ísak Harðarson +++

Ísak Harðarson er dáinn. Hann er mörgum okkar harmdauði. Mér þykir vænt um ljóðin hans og tel hann vera besta skáld minnar kynslóðar. Mér fannst hann vera vinur minn – eiginlega trúnaðarvinur því svo ærlega og fagurlega talaði hann. Ljóð Ísaks voru öðruvísi en hinna skáldanna. Mörg afvopnuðu mann eins og glöð börn. Hnyttin viska þeirra laðaði. Máttugt líkingamál ljóðanna var grípandi. Snöggur viðsnúningur þeirra opnaði huga. Trúartúlkun og ekki síst guðstúlkun Ísaks heillaði mig og mér fannst hann jafnan orða lífsglímuna með ferskum hætti.

Kristján B. Jónasson gaf út safnrit ljóða Ísaks, Ský fyrir ský, árið 2000 á vegum Forlagsins. Takk fyrir. Ísak samdi ljóð þeirrar bókar á árunum 1982-95. Ég mat Ísaksljóðin svo mikils að í staðinn fyrir krimma og skvísubækur tók ég safnið með mér á sólarströnd og las með áfergju. Þegar ég leysti nafna minn af í Hallgrímskirkju haustið 2003 efndum við sr. Jón Dalbú til fræðsludagskrár um ljóð Ísaks. Kristján B. Jónasson og Andri Snær Magnason fluttu þá snjallar ræður um skáldið en Andri Snær skrifaði frábæran inngang að 2000-útgáfunni. Ísak tók þátt í Passíusálmaplús sem ég stýrði á vegum Kirkjulistahátíðar í Hallgrímskirkju.

Bækur Ísaks Harðarsonar hafa verið félagar mínir í mörg ár. Mér þykir vænt um þær. Ég gaf þær ekki frá mér þegar ég bar marga tugi af bókakössum í Basar kristniboðssambandsins í vetur. Ísak er klassík. Ísaksljóðin eru framtíðarljóð. Næst-efsta bókin á kollinum við hlið lestrarstólsins míns er gula bókin: Hitinn á vaxmyndasafninu. Nærri lífslokum skrifaði Ísak sjö kraftaverkasögur.

Meðfylgjandi mynd úr safninu Ský fyrir ský birtir ljóð Ísaks Harðarsonar: Vegurinn til Sunnuhlíðar. Guð geymi Ísak Harðarson í Sunnuhlíð eilífðar. Guð styrki ástvini hans og blessi okkur öll.