Greinasafn fyrir merki: listmálari

Lifa vel og deyja vel – Gunnar Örn minning

Hann var dásamlega opinn, hafði unnið með myrkrið í eigin lífi og gat því ljós í skuggasundum. Mynd hans af heiminum var máluð með ögun, bernskri hrifningu, ákveðni, krafti og vaxtargetu. Minningarorð um Gunnar Örn eru orðmyndir, flutt við útför hans 11. apríl, 2008.

Gunnar Örn tók öllum heiðarlegum spurningum vel, hló hjartanlega þegar spurt var á ská og með gleði. Tæknilegum spurningum svaraði hann með hraði en upplifunar- og dýptar-spurningum með meiri hægð og íhygli en oft með óvæntum hætti.

Á síðustu páskum sátu nafnar, afi og afadrengur saman og sá yngri spurði: “Afi, hvernig heldurðu það sé að deyja?” Og Gunnar Örn svaraði án hiks: “Æðislegt.” Unglingurinn á þetta svar og fylgir afa sínum með allt öðrum hætti en ef hann hefði sagt að það væri átakanlegt, ömurlegt eða fúlt. Sama gildir um þau hin í fjölskyldunni. Afinn var húmoristi, en alltaf heiðarlegur – við sjálfan sig, fólkið sitt, við vini sína, skjólstæðinga, já alla og þar með listina og Guð.

Æðislegt – og svo sagði hann vini sínum, að hann ætti von á “ljósashowi!” Gunnar Örn átti ekki til tepruskap. Hann gat því skellt slanguryrðum að stóru spurningunum um líf og dauða og þar með kallað fram nýja íhugun. Gunnar var dásamlega opinn. Hann hafði unnið með myrkrið í eigin lífi og gat því betur séð tækifæri og ljós í skuggasundum. Mynd hans af heiminum var máluð með ögun, bernskri hrifningu, ákveðni, krafti og vaxtargetu.

Upphaf

Gunnar Örn Gunnarsson fæddist í Reykjavík 2. desember árið 1946. Hann var aðeins 61 árs er hann lést 28. mars sl. Æska hans var flókin og stálið var hert í honum strax í bernsku. Móðir hans var Guðríður Pétursdóttir og faðirinn Gunnar Óskarsson, bæði látin. Gunnar Örn átti einn albróður og sér yngri, Þórð Steinar. Þeir Þórður ólust ekki upp saman, en urðu nánir sem fullorðnir menn. Auk þeirra átti Guðríður Davíð Eyrbekk og Pétur Meekosha. Þá á Gunnar Örn þrjú systkin samfeðra, þau Finnboga, Sigríði Jóhönnu og Sigurð Má.

Foreldrar Gunnars skildu þegar hann var fimm ára. Hann var þá sendur suður í Garð til afa og ömmu. Afinn var ekki alltaf tilfinningalega nálægur en amman, Munda í Höfn, var honum og öðru fólki sínu lífsakkeri. Davíð, sem var eldri en Gunnar, var með honum og mikilvægur bróðurnum. Lítil tengsl voru við pabbann og þegar Guðríður, Gunnarsmóðir, giftist til Englands var Gunnar 14 ára og varð eiginlega sjálfs síns ráðandi og á eigin vegum þaðan í frá.

Gunnar Örn var forkur og snarráður, en fáir fara að vinna og eiga börn rétt fermdir eins og hann. Hann fór á sjó á Gísla Árna og var á loðnu og síld. Gunnar var aðeins 16 ára þegar hann varð pabbi og Sigríður kom í heiminn. Móðir hennar er Þuríður Sölvadóttir og var jafngömul barnsföðurnum. Þau bjuggu saman um tíma en svo slitnuðu tengslin. Gunnar hafði lítið af dótturinni að segja fyrstu árin, en svo urðu þau náin síðar.

Skotið inn í líf hins fullorðna

Gunnari Erni var eiginlega skotið úr hlaupi aðkrepptrar bernsku yfir unglingsárin og inn í fullorðinslíf. Hann tapaði fínstillingartíma persónumótunar. Hann var því eiginlega alla æfi að stilla og tjúna og varð því mun meira spennandi karakter en flest okkar hinna. Hann spurði sjálfan sig: “Hvað vil ég, hvað ætti ég að verða?” Myndlist og músík kölluðu. Hann langaði til að láta reyna á tónlistarnám. Meðan dóttir hans dafnaði í móðurkviði mundaði Gunnar Örn sellóbogann í  Kaupmannahöfn. En fljótt uppgötvaði hann að honum leiddist að spila bara það, sem aðrir sömdu og gerði sér grein fyrir að sellisti gæti ekki bara spilað eigin lög! Það er ekki sjálfgefið að menn viðurkenni á hvaða hillu þeir geta ekki verið á. Allt of margir eru í þeirri stöðu, en þora ekki að hoppa niður og lifa því á skjön við sjálfa sig. Gunnar var ekki þeirrar gerðar. Hann var lesblindur og skólamenning þeirrar tíðar skákaði slíkum mönnum í horn tossanna. En Gunnar Örn lét ekki stúka sig af hvorki þá né nokkurn tíma síðar. Að kreppa er tækifæri var inngreypt í afstöðu hans.

Þar sem allar nánar fyrirmyndir skorti varð Gunnar Örn að gera sínar eigin myndlistartilraunir og að mestu leiðsagnarlaus. En barn, sem ekki brotnar í miklu bernskuálagi, er borið til seiglu. Gunnar vissi að uppgjöf var ekki valkostur og hafði í sér næmi til að hlusta á sinn innri mann, tók mark á tilfinningum og vitjaði drauma sinna með ákefð.

Myndir urðu til

Hann fór að skoða myndir, teiknaði og varð sér út um pensla og liti og æskuverkin urðu til. Allir listamenn eiga einhverja litríka upphafs- og gerninga-sögu og auðvitað á Gunnar sína útgáfu. Hann málaði allt, sem hann náði í, masonít og krossvið, þegar annað var ekki við hendi. Svo fór hann að banka upp á hjá útgerðarmönnum í Garðinum og bauð þeim myndir á kjarakjörum. Þeir brugðust yfirleitt vel við og keyptu af Gunnari skiliríin.

Á þessum árum voru Gunnar og Þorbjörg Birgisdóttir hjón. Vilhjálmur Jón fæddist þeim árið 1965, Gunnar Guðsteinn þremur árum síðar og síðan Rósalind María árið 1972. Á þessum barnsfæðingarárum var Gunnar á fullu í myndlistinni. Hann hélt fyrstu sýningu sína í Unuhúsi 1970. Svo fóru þau Þorbjörg til Danmerkur 1973 og Gunnar vann fyrir sér og sínum. Í frístundum málaði hann svo heima í stofu. En svo fór hann heim 1975 og hélt áfram að sýna.

Líkamsslitur

Skólagangan fór fyrir bí, en íslenskir listmálarar voru nægilega stórir í sér til að þola að sjálfmenntaður maður fengi pláss og inngöngu í gildi listamanna. Þeir dáðust að verkum hans, færni og dug. Margir uppgötvuðu Gunnar Örn sem málara á sýningum í Norræna húsinu í byrjun áttunda áratugarins. Hinar stórkostlegu kviðristumyndir og líkamsslitur voru eins og sprengjur. Unglingar þess tíma, aldir upp við sófamálverk Freymóðs og Matthíasar, urðu fyrir fagurfræðilegu sjokki og tilfinningalegri upplifun. Þótt stöðugt yrðu breytingar í list Gunnar eru margir, sem þekkja myndir hans úr fjarska og í sjónhendingu, svo sérstakt er handbragðið og höfundareinkennin sterk.

Þanið líf

Fyrri hluti lífs Gunnars Arnar var eiginlega tilraun um manninn og þanþol mennskunnar. Gunnar reyndi að sjá fjölskyldunni farborða, halda áfram í málverkinu, finna næði til vinnu, stilla tilfinningavíddirnar og lifa. En drykkjuboltastíll fer illa með alla og verst með hinn innri mann. Aldrei skyldi skýra myndir Gunnars Arnar aðeins með vísan í hvort hann var hátt uppi eða langt niðri. Myndir hans eru ekki vísitölur eða línurit sálar hans. En myndir þessara ára sýna þó að hann var sálarsligaður. Þrátt fyrir velgengnina hallaði undan hjá honum. Leiðir hans, barnanna og Þorbjargar skildu og hann var á krossgötum. Fyrri hálfleik var lokið í lífinu, komið var að skilum og uppgjöri. Ætlaði hann að lifa, vera, mála og gleðjast? Í aðkrepptum aðstæðum voru kostirnir aðeins tveir, annar til lífs og hinn til dauða. Gunnar Örn þorði alltaf að velja, og stefndi í átt að litum og ljósi.

Meðferð og Dísa

Gunnar hitti Dísu og svo fór hann í meðferð. Meðferðin tókst og Dísa var æðisleg. Seinni hálfleikurinn í lífi hans er tími æðruleysis, gleði, sáttar, vaxtar, leitar, hamingju, afkasta og líknar. Vinir Gunnars skildu ekki hvað Þórdís Ingólfsdóttir vildi með þennan erfiða manna hafa. En Dísa elskaði Gunnar og hann hana. Hún sá í honum gullið og hann í henni dýrðina. Gunnar Örn hætti ekki að vera sérsinna og fara sínar leiðir og Dísa hafði enga þörf fyrir að hafa múl á honum. Þegar hann fór í sínar fagurfræðilegu skógarferðir, myndlistarkollhnísa, andlegu langferðir eða langdvalir erlendis var hún kyrr og hún var alltaf viðmið hans og fasti punktur tilverunnar. Af því að hann hafði afhent henni lífsþræði sína gat hann alltaf ratað til baka með því að fara til hennar.

Þau Dísa eignuðust tvær dætur, Maríu Björku 1980 og Snæbjörgu Guðmundu 1991. Þeim reyndist Gunnar góður faðir og við sem nutum þess að fá jólakort frá Kambi vitum vel hversu barnhrifinn Gunnar var. Og hann þjálfaði sig í föðurelskunni og færði út kvíar, teygði sig í átt til barnanna, sem hann hafði farið á mis við eða misst af. Hann eignaðist góð tengdabörn sem hann tók vel og níu mannvænleg barnabörn, sem hann dáði og mat  mikils.

Kambur

Gunnar Örn og Dísa keyptu Kamb í Holtum fyrir 22 árum, fluttu austur og þar varð himnaríki hamingju þeirra. Dísa átti líka nógu stóran faðm til að taka á móti hinum börnum Gunnars. Þau lærðu smám saman og æ betur leiðina austur, lærðu að tengja og meta, virða og elska. Gunnar Örn hellti sér í viðgerðir húsanna á Kambi, í skógrækt og nýbyggingar. Alltaf var stórfjölskyldan velkomin í verkin og furðu margir sóttust í að komast í það, sem þau kalla með brosi “þrælabúðirnar.” En nú er Kambur gróðursæl paradís og að auki listamiðstöð.

Síðasta framkvæmdin var ný vinnustofa. Gunnar sagði mér sjálfur fyrir stuttu að þetta væri hamingjuhús. Það hefði verið gaman að byggja, þau voru svo mörg sem komu að verki, það hefði verið svo glatt á hjalla og hús sem væri byggt með því móti yrði hús hamingjunnar. Þetta var í hnotskurn vinnusálfræði hans: Leggja lífið í gleðina, átökin, ástríðurnar og samfélagið.

Gunnar Örn naut margs góðs í einkalífinu, leitaði alltaf hamingjunnar. Hann gaf mikið af sér og uppskar ríkulega. Hann var alltaf reiðubúinn til að opna fangið fyrir þeim sem leituðu hans. Ólafur Elíasson, myndlistarmaður, sagði mér hvernig Gunnar Örn hefði gengið honum í föður stað þegar faðir hans féll frá. Ólafur harmar að geta ekki fylgt vini sínum en biður fyrir þakkir sínar vegna alls, sem Gunnar var honum og kveðjur til þessa safnaðar.

Dönsku vinirnir, galleristarnir og myndlistarfólkið sem standa að og tengjast Stalkegelleríinu hafa beðið fyrir kveðjur og þakkir fyrir kynni og ljósið sem Gunnar lýsti þeim með. Sömuleiðis biðja Atli Þór Samúelsson og fjölskylda í Danmörk fyrir kveðjur.

Líknarþjónusta

Mörg ykkar þekkið samfélagsþjónustu Gunnars. Hann fór í gegnum sporin sín og vann með sitt innra. Hann opnaði algerlega og var alltaf til reiðu. Hann starfaði í AA hreyfingunni og þjónaði þeim, sem höfðu ratað í ógöngur. Það er stór hópur, sem á Gunnari Erni mikið að þakka fyrir stuðning, viskuyrði, löng símtöl, ferðir til að styðja vímuruglaða og örvæntingarfullar fjölskyldur þeirra. Aldrei taldi hann eftir sér, aldrei hikaði hann, var alltaf tilbúinn. Jafnvel í Bónus borgaði hann reikning fyrir konuna sem var á undan honum í röðinni og átti ekki fyrir innkaupunum. En honum brá þegar hann gerði sér grein fyrir að konan hafði keypt fyrir 23 þúsund kr. og sagði sínu fólki frá með kátlegum hætti.   

Þegar Gunnar Örn kafaði á djúpmið sálarinnar og efldist sem vitringur var hann reiðubúinn að bera fólk á bænarörmum til blessunar og heilsu. Fólk gat ekki annað en treyst þessum manni, sem átti í sér djúp stillingar og kyrru sem Gunnar Örn. Líknarþjónusta hans varðar þúsundir og hér get ég fyrir hönd allra þeirra þakkað elsku hans. Margir eiga honum líf og lán að þakka.

Já það voru skeið í lífi Gunnars, stundum hlé. Og nú gerum við hlé á minningarorðum, hlýðum á hinn rismikla Matthíasarsálm við lag Þorkels Sigurbjörnssonar: Til þín, Drottinn hnatta og heima… 

    Skeiðin og túlkun

    Já það voru skeið í lífi Gunnars og hann gerði myndir af heiminum á öllum skeiðum. Myndirnar hans eru um fleira en plöntu í skógi, kú í engi, fjall í fjarska og hús við ás. Allt lífsins undur er í myndum hans. Heimur, lífið, tilfinningarnar, himinn og skelfing líka. Gunnar var alla tíð maður litríkis. Hann naut sterkra lita og líka spennu í samspili þeirra. Hann gerði tilraunir með form og var alla tíð að prófa nýtt.

    Þegar æskuskeiðinu lauk og líka því, sem hann kallaði stundum í gamni Kviðristukobbaskeiðinu komu ormar inn í list hans. Flatatungufjalirnar eignuðust í honum öflugan nýtúlkanda. Ormurinn leynir á sér, leitar í okkur öll. Gunnar Örn veik sér aldrei undan stóru málunum. Á fyrstu Kambsárunum urðu til margar myndir undir stefinu maður og land. Gunnar fór reglulega í gegnum Kjarval, sem varð hans helsti myndmentor. Gunnar sá landið með augum margsýninnar, sá verur og lífhvata, þetta sem er svo mikilvægt ef við eigum ekki að deyja tæknidauða gagnvart lífsundrinu.

    Frá hinum kraftmiklu og margræðu myndum um mann og land hélt hann inn í tímabil örveranna. Þá kom svarta tímabilið, gamlar hleðslur, mold og tilraunir. Svo komu sálirnar. Þeirra var tímabil einföldunar og könnunar lífsins innan frá. Litirnir dofnuðu, hvítan jókst og einfaldleikinn var strangagaður. Þegar Gunnar Örn var kominn á brún sálarklungra var hann líka á brún málverksins og lengst gekk hann í hvítum myndum, sem voru eins og spádómur um dauða og annað líf. Gunnar Örn skoðaði reglulega nöf.

    Sjö árin

    Gunnar gekk alltaf í gegnum endurnýjun, eiginlega á sjö ára tímabilum. Hraði nýunganna var slíkur að aðdáendur Gunnars voru rétt búnir að sætta sig við nýnæmið þegar hann var komin í allt annað. Breytingarnar voru Gunnari ekki léttúðarmál og reyndu oft mjög á hann. En því stærri er hann sem listamaður að hann gat og þorði. Aldrei á ævinni málaði hann til að selja, hann lét aldrei undan markaðsfreistingum. Ég fylgdist náið með, og las öll bréfin, þegar Gunnar gerði upp við mikilvægan erlendan listhöndlara, sem hefði getað fært honum ríkidæmi og öryggi. Þar ríkti stefnufastur trúnaður við listina. Gunnar var alltaf heill og hefði ekki getað selt frelsi sitt, sálu sína. Þrællyndi var ekki til í honum og því ekki heldur sókn eftir ytri gæðum.

    Nokkur helstu listasöfn heimsins eignuðust myndir Gunnars, hann varð einhver þekktasti málari Íslendinga. Hann málaði mikið í þrjá áratugi, en svo varð þurrð. Gunnar Örn málaði ekkert í tvö ár. Hann losaði sig við megnið af myndunum sínum, sópaði borðið, hreinsaði sálina, gerði upp lífið, sættist við allt og alla. Úr þeirri för kom hann svo nýr og enn betri, hamingjusamur, nýtti vel tímann í faðmi fjölskyldunnar. Hann átti löng samtöl við fólkið sitt um lífið, tilganginn, trúna, sáttina, litina og tengslin. Hann ræktaði kyrruna í sálinni, hugleiddi og bað, hætti að láta tíma angra sig en naut hans og leyfði öðrum að lifa stórar stundir af því hann var svo nálægur viðmælanda sínum tilfinningalega. Eilífiðin hafði sest að í sál hans. Og svo byrjaði hann að mála aftur. Hann var kominn heim og síðustu myndirnar málaði hann eins og upp úr sverðinum heima. Þetta eru myndir af  hjartablóði moldarinnar.

    Kominn heim og í svörðinn

    Myndin á norðurveggnum hér frammi í safnaðarheimilinu, er ein af síðustu myndunum, sem hann málaði, mynd úr mýrinni á Kambi. Farið að henni og sjáið elskuna. Svo eru nokkrar nýlegar myndir þarna líka, merkilegar glímur við stórmálin. Sálirnar hans Gunnars eru ekki myndir af heiminum heldur túlkun á afstöðu. Gunnar Örn var þroskaður maður, hafði unnið sína heimavinnu og var galopinn gagnvart æðri mætti. Það er fallegt, að fólkið hans Gunnars hengdi upp myndir hér frammi, sem þið getið skoðað. Útför hans er líka opnun sýningar.

    Jafnvel kistan er listaverk. Fólkið hans Gunnars elskaði hann. Saman komu afkomendur hans að kistunni, völdu sér lit, máluðu hendur sínar og handþrykktu svo á kistuna hans. Þetta er bernsk og yndisleg tjáning ástarinnar. Svo eru handaför Dísu á gaflinum, sem blasir við söfnuðinum. Þessi litríka tjáning er sefandi þegar Gunnar Örn er slitin úr fangi þeirra, já okkar allra.  

    Myndin af heiminum. Gunnar Örn málar ekki meira en sál hans lifir. Það er vel, að ein sál er á sálmaskránni og sálirnar eru frammi líka. “Afi, hvernig heldur þú að það sé að deyja?” Já, beygurinn var að baki, hann albúinn að verða. Gunnar þorði að opna fyrir litríki lífsins og vissi vel, að maðurinn er ekki algildur mælikvarði alls sem er. “Hvernig getum við þekkt veginn?” spurði Tómas postuli forðum. Jesús sagði honum skýrt og klárlega, að hann væri vegur, sannleikur og lífið.

    Fósturmyndir

    Hvaða hugmynd hafðir þú um veröldina þegar þú varst í móðurkviði? Jú, þú heyrðir einhver hljóð, hátíðnisuð í blóðæðum móður þinnar. En þú hafðir enga hugmynd um liti, hnött, sól, flugur, Kamb eða undur lífsins utan strengds móðurkviðar. Þú fæddist til þessa fjölbreytilega lífs og óháð væntingum. Gunnar hafði skilið þetta fæðingarferli sálna. Hann hafði skilið, að tilveran er stærri en skynjun og vænting eins manns. Jafnvel villtustu draumar fóstursins spanna ekki lífheim okkar hvað þá geiminn allan. Hliðstæðuna megum við hugsa, megum líkja okkur við fóstur gagnvart eilífðinni? Er ekki afstaða Gunnars Arnars sú líflegasta, að búast við fagurfræðilegri reynslu, ríkulegri upplifun, góðu ferðalagi, kátlegum félagsskap og hamingju? Myndríkidæmi trúarbókmenntanna varðar einmitt þessa afstöðu. Þorum við að opna?

    Þegar þessi yndislegi, væni og þroskaði maður Gunnar Örn Gunnarsson var kominn á spítala með verk fyrir brjóstinu, sagði hann gáskafullur: “Ég á eftir að mála eina mynd!” Já, hún var eftir, myndin af sálarferðinni og himninum. Hann var tilbúinn og Kambur eilífðar er stór og góður. Lífið er æðislegt. Lærðu líka að fara þá viskugöngu og hræðstu ekki fæðingu til Guðs góðu veraldar, sem heitir himinn og er eilífð.

    Guð laun fyrir Gunnar Örn. Guð geymi hann eilíflega í ríki sínu. Guð varðveiti þig. Amen.

    Gunnar Örn var jarðsunginn frá Neskirku 11. apríl 2008 og jarðsettur í Hagakirkjugarði í Holtum í Rangárvallaprófastsdæmi.