Greinasafn fyrir merki: lime

Kjúklingur með miso, mirin, engifer og fleiri dásemdum

„Pabbi, þetta er uppáhaldskjúklingarétturinn minn“ sögðu yngri synir mínir þegar við vorum að borða. Þeir voru að vísu búnir að vera úti í körfubolta og fótbolta í marga tíma. En þetta er frábær réttur, sem upprunalega kom frá Ottolenghi en hægt að spinna með uppskriftina í ýmsar áttir. Ljómandi með eggjanúðlum eða basmati-hrísgrjónum. Ef eitthvað vantar af hráefnum er það til í Melabúðinni, ég er búinn að kaupa svo oft í þennan rétt.  Fyrir 6.

12 kjúklingaleggir eða tveir bakkar úrbeinaðir kjúklingaleggir.

2 msk ólífuolía

2 ½ msk mirin

2 ½ msk hlynsíróp

2 ½ msk soya eða tamarin

80 gr hvítt miso eða 1 poki miso.

4 cm ferskur engifer, flysjaður og síðan rifinn – ca 30 gr

4 hvítlauksrif smáskorin eða marin

1 límóna – börkur rifinn og safinn pressaður

40 gr kóríander

2 rauðir chilli, meðalsterkir. Fræhreinsaðir og skornir langsum – þurrkaðar chilliflögur duga ef ekki er til chilli í kælinum

10 vorlaukar. 8 skornir langsum en 2 fínt þverskornir til að bera fram í lokin. Í kvöld átti ég ekki vorlauk en notaði bara púrrulauk í staðinn sem sést á meðfylgjandi mynd.

Salt, pipar og krydd að vild

  1. Forhita ofninn í 200 °C og með viftuna á.
  2. Koma kjúklingnum fyrir í skál og krydda og setja olíu yfir.
  3. Steikja síðan kjúklinginn á pönnu við meðalhita og snúa við eftir ca 4 mínútur og steikja fjórar mínútur í viðbót.
  4. Meðan kjúllinn steikist setjið í stóra skál mirin, soya-sósuna, miso, engifer, hvítlauk, límónubörkinn og límónusafann. Blandið saman.
  5. Setjið síðan nýsteiktan kjúklinginn í skálina með öllum vökvanum, hrærið lítillega til að tryggja að marineringin nái að öllum kjúklingabitunum.
  6. Olíuberið ofnþolið fat. Setjið lauk, kóríander og chilli í botninn og síðan kjúklingabitana ofan á. Hellið vökvanum yfir. Setjið inn í heitan ofninn og álpappír eða lok yfir. Steikið í ca 20 mínútur. Takið lokið af og snúið kjúklingabitunum. Steikið síðan í 20 mínútur í viðbót eða 30 mínútur ef þið notið kjúklingaleggi með beinum.
  7. Berið síðan fram með núðlum eða hrísgrjónum. Og skreytið gjarnan með skornu kóríanderlaufi og vorlauk. Ausið bragðmikilli sósunni yfir kjúling og núðlur. Og auðvitað má nota litríkt salat með eða strá einhverri tegund af Ecospíru yfir eins og ég gerði þennan sólardag í apríl. 

Þökkum Drottni, því að hann er góður. Miskunn hans varir að eilífu.

Verði ykkur að góðu.

 

 

 

 

 

 

Lax, graslaukssósa og bygg

Uppskriftin er auðveld og hentar ágætlega bæði fyrir gestaboð sem og heimilismáltíð. Vert er að vinna sósuna nokkrum klukkutíum fyrir máltíð eða jafnvel deginum áður. 

Uppskrift ætluð 4

laxaflök, 800 gr, roðflett og beinlaus notið ekki sjóeldisfisk heldur fisk úr ám eða landeldisfisk) 
8 súrdeigsbrauðsneiðar
1 dl rifinn óðalsostur eða pizzuostur
1 tsk oreganó
1 tesk tímían
1 tsk salt
rifinn börkur af 2 limeávöxtum (þ.e. límónum)
safi úr 1 limeávexti
2 hvítlauksrif, pressuð
(150 g smjör – má sleppa)

Stillið ofninn á 200 gráður. Smyrjið stórt eldfast fat og leggið laxaflökin á fatið og saltið fiskinn. Setjið brauðsneiðarnar, ostinn, kryddið, börkinn og safann af limeávextinum og pressaðann hvítlaukinn í blandara og tætið vel í sundur. Látið vélina ekki ganga of lengi, þá verður brauðið blautt. Dreifið mylsnunni jafnt yfir laxaflökin. Bakið í 15 mínútur. Takið flakið úr ofninum og setjið smjör í litlum bitum ofan á – eða bræðið smjörið og hellið jafnt yfir.

Berið laxinn fram með graslaukssósunni, byggi, og uppáhaldssalati. Ég fer ýmsar leiðir bæði vegna bragðs og til að gefa liti á diskinn. 

Graslaukssósa
200 ml majones
200 ml sýrður rjómi
1 dl smátt klipptur eða saxaður graslaukur
2 msk smátt söxuð steinselja
1 tsk oreganó
ferskmalaður pipar og cayenne pipar á hnífsoddi
safi úr ½ limeávexti (þ.e. safi ur hálfri límónu)

Blandið öllu vel saman og kælið helst í a.m.k. 3 klst.

Sagan um fiskidráttinn mikla í fimmta kafla Lúkasarguðspjalls er mögnuð og verð íhugunar með fiskmeti. Fiskur er gamalt Kriststákn, sem kristnir menn frumkirkjunnar teiknuðu í sandinn til að tjá á hvern þeir tryðu. Kirkjan er kölluð til veiða í margvíslegum skilningi. Bragðgóður kirkjufiskur hentar í kirkjusamhengi og hefur í sér heilnæma merkingardýpt sem tjáir hlutverk kirkjunnar í veröldinni.

Bæn: Þökkum Drottni því að hann er góður, því miskunn hans varir að eilífu.

Verði ykkur að góðu.

Myndin er af Ísak, syni mínum. Hann var kátur þegar hann veiddi sjóbirting í Eystri Rangá fyrir mörgum árum. Nýrunninn sjóbirtingur hentar ágætlega í þessum rétti. Fyrsti lax Þórðar, elsta sonar míns, sem hann veiddi í Bíldfellshylnum í Soginu fyrir enn fleiri árum, var eldaður skv. þessari uppskrift. Vinir okkar Elínar elduðu réttinn fyrir hjónavígsluveisluna okkar á aðfangadegi páska 2000. Þetta er því hjónahamingjuréttur og ekki einkennilegt að Elín biður stundum um hann í kvöldmatinn. Kokkur segir þá amen.