Greinasafn fyrir merki: lífsgleði

Takk fyrir …

Guð ég þakka þér fyrir lífið og þessa undursamlegu litríku veröld. Takk fyrir síkvika verðandi spriklandi af möguleikum, fyrir dansandi sól, tunglið og stjörnurnar sem þú hefur skapað. Guð ég þakka þér hljóma heimsins, hvísl stráanna, ýlið í gluggum húsanna, blæstrokur í hári, alla tónlist heimsins. Guð ég þakka þér fyrir foreldra og tilraunir þeirra til uppeldis hvort sem þær tókust eða ekki, afa og ömmur, vini, börn og félaga. Takk fyrir elskuna sem við höfum notið í lífinu, gáfurnar sem þú hefur gefið okkur rausnarlega, hæfileikana, hjartsláttinn, hugsanirnar, lífsplúsa og púlsa. Takk fyrir vetur og árstíðir, breytilegan ljósgang, djúpmyrkur og jólaljós, matarlykt í nefi og bragðundur í munni. Takk fyrir getuna til máls og hugsunar og líka fyrir hendur til að gæla við ástvini, þvo þvotta, elda mat, prjóna, smíða, þrífa, skapa listaverk og músík. Takk fyrir krydd lífsins og munnsins, ljóð og sögur, ævintýri, gleðiefni og hlátra. Takk fyrir leik barnanna, spilandi kátínu daganna, styrka hönd í áföllum og faðm þinn í dýpstu sorgum. Takk fyrir dagana sem við njótum, tilfinningar, tengsl og gjafir sem þú og vinir lífsins gefið. Takk fyrir að við megum vera í þessari miklu fylkingu lífsins sem veitir af sér, miðlar og þakkar …

Undur lífsins

IMG_4139Kæri hlustandi – góðan dag. Hvernig ætlar þú nú að vera og lifa í dag? Má bjóða þér meðal gegn öldrun? Ég er búin að uppgötva það. Hvað skyldi það vera? Jú, að umgangast börn. Vísast er öflugasta meðalið til lífsgæða að eignast líka börn seint og á efri árum! Öldrun er ekki aðeins það að missa heilsuna. Fyrir slíku geta allir orðið á öllum aldursskeiðum. Nei, verst er þegar heilsugott fólk hrynur inn í sjálft sig, verður svo upptekið af sínu, að það sér vart út yfir smáhring eigin þarfa og aðstæðna. Sögurnar verða nærsýnar og harmhneigðar. Með ellinni veikjast varnir og hverfa jafnvel. Gallar koma í ljós, sálarsprungur stækka og gleypa lífsgæðin. Þá fjarar lífið út en grjótið verður eftir í fólki.

Börn eru dásamlegir afréttarar og hvatar til lífs og gleði. Afstaða og tilraunir barna þjóna þroska þeirra. Leikjasókn þeirra er ekki aðeins í þeirra þágu, heldur megum við læra af þeim og efla spuna í lífi okkar, sem eldri erum. Leikur í hjónalífi þeirra, sem hafa verið gift lengi, er meðmælanlegur. Prufið bara og aldrei of seint. Og það er afar fátýtt að fólk deyji af undrun og fögnuði, en gáski í tjáskiptum gerir oft kraftaverk. Fróðleikssókn er í anda lífssóknar barna. Verkefni hvers manns er vinna að hamingjunni. Okkar eldri er að setja mörk og markmið, en börnin kenna okkur líka stórkostlegar kúnstir og sýna okkur aðferðir lífsleikninnar.

Jesús Kristur miðlaði trausti, hann var barnavinur. Hann hafði ekki aðeins þá afstöðu að börn væru leir til að móta, heldur benti á hæfni og skapandi leit sem væri til eftirbreytni. Temjum okkur því opna og einlæga sókn þeirra. Hvernig er himnaríki? Það birtist í gleðileik barnanna.

Börn og ástvinir eru flestum mestu dýrmæti lífsins. Þau gefa lífi okkar lit, sögur, ævintýri og auðvitað líka vandkvæði. Líf án skugga er blekking. Brandarar, spenningur yfir veðri og náttúru, tilraunir, spurnargleði, vilji til að skoða og þroskast eru einkenni bernskunnar. Við megum gjarnan temja okkur undrun. Börn eru hæfir kennarar í símenntun hinna eldri. Að vera með börnum skerpir okkur til lífs. Til að vera nálægur börnum og tengjast þeim verðum við að þola hið bernska, að hrífast, gleðjast, gráta og hlægja. Þetta varðar fólk á öllum aldri, líka þig. Leikur er list lífsins. Börn opinbera undur lífsins.

Bænir

Guð gefi þér leikandi lífsgleði og góðan dag.

Morgunorð – morgunbæn RÚV 2. október 2014.

Mannsins vegna…

photo

Hljóðskrá að baki þessari smellu.

Fyrst er það upphafsspurning? Hver ykkar sem sitjið í kirkju í dag teljið að þið séuð alfrjáls í öllum efnum? Hver ykkar eru bundin af einhverju, þrælar einhvers, undir ofurvaldi einhvers? Leyfðu spurningunni um frelsi eða helsi að hvíla í hugskotinu – eða bak við betra eyrað í einhverjar mínútur.

Frelsisdrama

Á þriðjudaginn sátum við þrjú saman á Torginu í safnaðarheimilinu. Ég var farinn að huga að prédikunartexta dagsins og hugsa um hvað hefði forgang í lífi okkar. Í guðspjallinu minnir meistarinn á að hvíldardagurinn sé fyrir manninn en ekki öfugt. Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna. Við spyrjum um hvort sé á undan hænan eða eggið. Hvað er fyrst – hvað er mikilvægast og hvað setjum við í efsta sæti, í forgang?

Guðspjöllin segja frá ýmsum gerningum og andófi Jesú gegn þrældómi samfélags síns og presta vegna öfgafullrar helgidagalöggjafar. Jesú líkaði ekki og barðist gegn að settar væru óþarfa skorður um líf fólks sem ekki þjónuðu hamingju og hagsmunum þess. Hvort á manneskjan að þjóna formi eða formið að þjóna mönnum? Erum við þrælar einhvers í stað þess að njóta lífsins? Og enn og aftur má spyrja: Ertu frjáls eða þræll? Eða kannski frjáls í sumu og hamin í öðru? Jesús stóð alltaf með frelsinu. Hann var ekki aðeins frelsispostuli sem breytti menningarsögunni. Hann var og er frelsisguð sem gefur og vill að veröldin njóti. Hið kristna drama er frelsisdrama.

Ryðja burt hindrunum

Þegar við ræddum frelsi og helsi á Torginu komu tvær ungar konur til okkar. Þær höfðu fengið sér súpu og við heyrðum að það var gaman hjá þeim – þær hlógu svo hjartanlega. Mér varð að orði að það væri ánægjulegt að þær fögnuðu svona vel í kirkjunni. Þær tóku athugasemdum vel og sögðu að lífið væri svo skemmtilegt og engin ástæða til annars en að gleðjast. Önnur þeirra bætti við að það væri svo mikilvægt að ryðja því úr vegi því sem eyðileggur gleði í lífinu. Svo kom í ljós að þær höfðu verið að tala á líkum nótum og við sessunautar mínir höfðu verið að ræða við okkar borð. Lífið er dásamlegt, skemmtilegt og má vera það. En hvað hindrar, hvað eyðileggur lífsgleðina og veldur okkur vandkvæðum og blettar hamingjuna? Þetta var það sem Jesús glímdi við á sínum tíma. Þetta er verkefni allra kynslóða, allra manna – að greina ógnir frelsis og velja í frelsi það sem eflir og gleður. Erindi Jesú og líf hans var fólgið í að leysa fjötra, ryðja burt hindrunum, opna líf fólks til lífshamingju. Allt sem deyfir lífsgæðin þarf að hverfa.

Og Jesús sagði: „Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins.“

Ertu frjáls? Þegar ég las lexíu, pistil og guðspjall þessa sunnudags fannst mér þeir leggja áherslu á leiðina frá hinu vonda til hins góða, frá helsi og til frelsis.

Lífsgæðalanghlaupið

Þrældómur fólks, menningar og þjóða getur verið með mismunandi móti. Eitthvað í menningu og samfélagsskipan getur valdið mismunun, kúgun, spillingu og mengun. Það getur líka verið eitthvað innra með okkur. Við getum verið matarfíklar, hömluð af áfengissókn eða lyfjasókn. Helsið getur verið sjálfsdýrkun og einhverjar sálarbeyglur. Í okkur getur búið mein – andlegt eða líkamlegt – sem við getum ekki eða höfum ekki náð að vinna með og losna við. Svo er hægt að týnast í fangelsi hluta og eigna. Sumir detta í lífsgæðalanghlaupinu. Aðrir eru þrælar ásýndardýrkunar og gera allt til að koma sér upp klisjumynd hins flekklausa sýndarveruleika. Þessi atriði – og önnur – geta orðið okkur vont yfirvald, ok sem Jesús talaði um. Þetta geta verið okkar “hvíldardagar” sem gefa enga hvíld, enga lífshamingju. En þessir persónulegu þrælapískarar eru ekki náttúrulögmál sem við þurfum að búa við og lúta. Berð þú ábyrgð á eigin lífi eða fær einhver annar eða annað að stjórna þér? Ertu frjáls?

Endurnýjun

Í tvær vikur hef ég tekið þátt í námskeiði sem hefur haft mikil áhrif á mig. Ég hef fastað. Fyrir hálfum mánuði kom hópur saman í heimahúsi á Tómasarhaga til að fræðast um mat og áhrif á líkamann og síðan hófst fastan. Þetta er ekki strangur kúr til að megrast heldur til að hreinsa og endurnýja líkamann. Maturinn er góður og engin er svangur. Við borðum ríkulega af grænmeti og ávöxtum en látum kjöt, fisk, kaffi, sykur og hveiti alveg vera.

Margt kom mér á óvart á þessari föstu. Ég hélt ég ætti erfitt með að láta kaffið vera og hina fæðuflokkana líka. En svo var ekki. Mér kom líka á óvart hve líkaminn brást vel við, að orkubúskapurinn breyttist og krafturinn varð meiri en áður. Svo breyttist ég hið innra líka. Ég notaði tækifærið til að vinna með mitt innra líf, líka hið tilfinningalega, vinnulega og félagslega. Og ýmsir fjötrar féllu.

Tveir flokkar fæðu – frumfæði og líkamsfæði

Föstustjórinn okkar, Margrét Leifsdóttir, hélt vekjandi íhuganir um samspil fæðu og annarra þátta lífsins og minnti á að líkamsfæðan er aðeins einn af fjölmörgum þáttum sem eru okkur nauðsynjamál. Hún talaði um primary food og secondary food, grunnfæði og líkamsfæði. Hver er grunnfæða, frumfæðan? Ekki fiskur eða kjöt heldur aðalmál lífshamingjunnar: Í fyrsta lagi tengsl við fólkið okkar og ástvini. Í öðru lagi hreyfing – við þurfum ekki að fara allt í bíl eða sitja í stól alla daga. Svo er þriðji þátturinn vinnulífið. Gleði í starfi er nauðsyn. Fjórði þátturinn – og að mínu viti sá mikilvægasti – er andlega lífið. Ef dýpstu lífsþættirnir eru í óreiðu berst vanlíðan til alls annars. Frumfæða mennskunnar – ástvinatengsl, hreyfing, vinnulíf og andans rækt – og líkamsfæðan er svo hin fæðuvíddin. Hana þarf að vanda jafnvel og frumfæðuna.

Helsi eða frelsi

Hvernig er með tengsl þín við fólkið þitt? Einhverjar hömlur eða festur? Hvernig gengur þér að hreyfa þig? Eða vinnulífið? Hvernig er með fæðumálin þín – er kannski hægt að bæta þann þátt? Og hvernig gengur þér með ástarsambandið við Guð? Ertu í klemmu eða vanda í einhverju. Ertu að reyna að leysa málin með trixum og yfirborðsaðferðum? Form eða inntak, helsi eða frelsi. Hefur einhver lagt á þig ok?

Þrældómur er ekki lögmál. Þú þarft ekki að fylgja forskriftum annarra, hefðar eða kerfa. Þú þarft ekki að láta auglýsendur, framleiðendur, stórfyritæki eða almenningsálit stjórna þér. Hver stjórnar þér? Ertu við stjórnvöl í þínu eigin lífi eða ertu háður eða háð og undir ofurstjórn einhvers? Þú ert valdur og völd að hamingju þinni. Grunnfæða og líkamsfæða eru nærri en þú mátt velja. Og svo er Guð nær en hugur þinn, reiðubúinn að taka þátt í samtali, stuðningi og samvistum – gleði þinni. Til frelsis frelsaði Kristur okkur. Þú lifir til að vera hamingjusamur eða hamingjusöm. Guð hefur skapað þig þannig. Þú getur rutt úr vegi hindrunum og verið frjáls af því Guð er máttur frelsis. Þú getur af því þér er gefið allt sem þú þarft til þess lífs. Mannssonurinn er herra hvíldardagsins, frumfæðu, líkamsfæðu – alls sem er.

Amen

Prédikun í Neskirkju 22. september 2013, 17. sunnudag eftir þrenningarhátíð. B-textaröð.

Lexían; Jes. 1. 16-17

Þvoið yður, hreinsið yður.

Takið illskubreytni yðar í burt frá augum mínum.

Látið af að gjöra illt, lærið gott að gjöra!

Leitið þess, sem rétt er.
Hjálpið þeim, sem fyrir ofríki verður.
Rekið réttar hins munaðarlausa.
Verjið málefni ekkjunnar. 

Pistillinn: Gal. 5. 1-6

Til frelsis frelsaði Kristur oss. Standið því stöðugir og látið ekki aftur leggja á yður ánauðarok. Takið eftir því, sem ég, Páll, segi yður: Ef þér látið umskerast, þá gagnar Kristur yður ekkert. Og enn vitna ég fyrir hverjum manni, sem lætur umskerast: Hann er skyldur til að halda allt lögmálið. Þér eruð orðnir viðskila við Krist, þér sem ætlið að réttlætast með lögmáli. Þér eruð fallnir úr náðinni. En vér væntum í andanum að öðlast af trúnni réttlætinguna, sem er von vor. Í Kristi Jesú er ekkert komið undir umskurn né yfirhúð, heldur undir trú, sem starfar í kærleika.

Guðspjallið: Mark. 2. 14-28

Og er hann gekk þar, sá hann Leví Alfeusson sitja hjá tollbúðinni, og hann segir við hann: Fylg þú mér! Og hann stóð upp og fylgdi honum.

Svo bar við, að Jesús sat að borði í húsi hans, og margir tollheimtumenn og bersyndugir sátu þar með honum og lærisveinum hans, en margir fylgdu honum. Fræðimenn af flokki farísea, sem sáu, að hann samneytti bersyndugum og tollheimtumönnum, sögðu þá við lærisveina hans: Hann etur með tollheimtumönnum og bersyndugum.

Jesús heyrði þetta og svaraði þeim: Ekki þurfa heilbrigðir læknis við, heldur þeir, sem sjúkir eru. Ég er ekki kominn til að kalla réttláta, heldur syndara.

Lærisveinar Jóhannesar og farísear héldu nú föstu. Þá koma menn til Jesú og spyrja hann: Hví fasta lærisveinar Jóhannesar og lærisveinar farísea, en þínir lærisveinar fasta ekki?

Jesús svaraði þeim: Hvort geta brúðkaupsgestir fastað, meðan brúðguminn er hjá þeim? Alla þá stund, sem brúðguminn er hjá þeim, geta þeir ekki fastað. En koma munu þeir dagar, er brúðguminn verður frá þeim tekinn, þá munu þeir fasta, á þeim degi.

Enginn saumar bót af óþæfðum dúk á gamalt fat, því þá rífur nýja bótin af hinu gamla og verður af verri rifa. Og enginn lætur nýtt vín á gamla belgi, því þá sprengir vínið belgina, og vínið ónýtist og belgirnir. Nýtt vín er látið á nýja belgi.

Svo bar við, að Jesús fór um sáðlönd á hvíldardegi, og lærisveinar hans tóku að tína kornöx á leiðinni. Farísearnir sögðu þá við hann: Lít á, hví gjöra þeir það, sem er ekki leyfilegt á hvíldardegi?

Hann svaraði þeim: Hafið þér aldrei lesið, hvað Davíð gjörði, er honum lá á, þegar hann hungraði og menn hans? Hann fór inn í Guðs hús, þegar Abíatar var æðsti prestur, og át skoðunarbrauðin, en þau má enginn eta nema prestarnir, og gaf líka mönnum sínum.

Og hann sagði við þá: Hvíldardagurinn varð til mannsins vegna og eigi maðurinn vegna hvíldardagsins. Því er Mannssonurinn einnig herra hvíldardagsins.