Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Þetta er hin forna páskakveðja um, að dauðinn dó og lífið lifir. Kveðjan þarf að berast sem víðast, heyrast sem best og ná inn í grunn lífs okkar. Fréttin varðar okkur öll, mennina, en líka allt líf, líka lífið í hreiðrum fugla, í moldinni, sjónum, ám og slímhúð mannanna.
Fyrir tæpu ári síðan stóðum við nokkur við leiði neðst í Fossvogskirkjugarði. Fallegt duftker ástvinar var þegar komið að gröfinni. Sólin skein og geislar hennar þrengdu sér milli greina og umvöfðu kerið. Þröstur sat á steini og fylgdist með okkur. Ástarsöngvar annarra fugla heyrðust úr trjánum umhverfis. Til okkar barst líkaflugvélahljóð og bílaniður. Vorflugur voru komnar á kreik. Ástvinirnir færðu sig að gröfinni. Þegar við ætluðum að byrja athöfnina var allt í einu hækkað í útvarpi í bíl, sem var við gröf nálægt okkur. Mannlegi þátturinn var að byrja á RÚV og fjörleg músík hljómaði. „Þetta er forspilið“ sagði ég og ástvinirnir kinnkuðu kolli brosandi. Útfararstjórinn hljóp af stað til bílstjórans og bað um að fjörið yrði dempað. Svo var hægt að halda áfram. Öll voru tilbúin til síðustu kveðju. Ég las úr sálmabók Jesú, Davíðssálmunum, sem tjá allar mannlegar tilfinningar. Kerið fór í jörð og ég mokaði fyrstu skóflufyllunum. Síðan komu synir hins látna og molduðu. Hin líkamlega kveðja.
Þegar grafarholan var nánast full kom þrösturinn fljúgandi. Hann settist við fætur mér og leitaði að möðkum í moldinni. Það var undursamlegt, að sjá þennan fiðraða vin, fullkomlega rólegan og óhræddan. Var þetta teikn, kannski engill? Fleiri ástvinir komu og mokuðu. Fuglinn veik ávallt til hliðar þegar moldin féll, en smeygði sér svo niður í holuna á milli mokstra. Ég beygði mig og setti nokkra maðka til hliðar og þrösturinn þakkaði fyrir sig með höfuðhneigingu. Svo fullmokuðum við. Þrösturinn þjappaði og maðkhreinsaði. Þá blessuðum við og krossuðum, komum fyrir blómum, horfðum hvert á annað, síðan upp í himininn og táruðumst svolítið. Sólin kyssti okkur öll.
Þrösturinn leitaði að fæðu fyrir ungviði sitt á gröfinni. Dauðinn er hluti af lífinu og líf sprettur af gröf. Orðin í 104. Davíðssálmi leituðu á mig: „Öll vona þau á þig að þú gefir þeim fæðu þeirra á réttum tíma. Þú gefur þeim og þau tína, þú lýkur upp hendi þinni og þau mettast gæðum.“ Ég prédikaði ekki yfir fuglunum þennan daginn, en fuglinn prédikaði stórkostlega um Guð og dýrmæti lífsins. Jarðsetning duftkers varð stund upprisunnar. Þrösturinn velti steinum frá tilfinningalegum grafarmunnum. Já, dauðinn dó og lífið lifir.
Á þessum páskum er hugur okkar með öllum þeim, sem eru veik, af kórónaveirunni eða öðrum sjúkdómum. Þeim eru margir dagar langir föstudagar. Margir standa álengdar fjær og hafa áhyggjur af þeim sem eru sóttsjúkir og berjast við veikindi. Og blessað veri allt það fólk sem sinnir hinum veiku. Hin örsmáa kórónaveira hefur kastað álagaham á heimsbyggðina, veiklað kerfi, opinberað vit og mikilvægi þekkingar og fagemennsku en líka vitgrannt vald, sem ekki lætur stjórnast af mannúð, kærleika og umhyggju. Liðið ár og þessi sóttartími hefur dýpkað vitund margra um, að mannkyn og náttúra eru eitt. Menn geta valdið miklum spjöllum og eyðilagt líf og lítil veira getur sett mannlíf þúsunda milljóna úr skorðum. Við menn og lífvefnaður heimsins erum eitt og verðum ekki slitin í sundur. Okkur ber að virða betur hið fíngerða samspil lífheimsins og vera ábyrg.
Kristur er upprisinn er erindi dagsins. Það fagnaðarerindi á erindi við líkamlega sjúkt en líka heilbrigt fólk, en einnig veirur og bakteríur, lofthjúp og sjó, jökla og ár, fiska og fugla. Dauðinn dó en lífið lifir er boðskapur um að föstudagurinn langi er ekki niðurstaða tilraunar um líf á jarðarkúlu okkar. Lífið lifir er erindi páskanna og varðar allt og alla. Líf okkar manna er ekki tilvera til dauða heldur lífs. Fuglinn í dauðaholunni prédikaði um lífið, að öllu er vel fyrir séð og að við erum blessuð.
Kristur er upprisinn – Kristur er sannarlega upprisinn. Guð gefi þér gleðilega páska.
Meðfylgjandi mynd tók ég af þrestinum við matarleit á gröfinni. Sigurður Árni Þórðarson