Greinasafn fyrir merki: Laugaskóli

Sigurður M. Kristjánsson – frændi

„Nú ert þú kominn?” sagði frændi í haust. Hann hafði ekki mörg orð um gleði sína en sagði flest með bliki augna. Flöktandi vitund hans small inn í nútímann og hann óskaði frétta um helstu mál, fjölskylduhagi, viðfangsefni og verkefni. Vitund mín víkkaði og hálfrar aldar saga okkar frænda rann hjá hið innra. Hann var mér sem besti faðir. Minningar hrönnuðust upp á sálarskjáinn, allt frá því að hann faðmaði mig sem ungsvein í sveit bernskunnar eða setti mig á hné til að kenna vísu. Hann kenndi mér að marka lamb, þuldi mér örnefni, renndi í gegnum ættboga í Þistilfirði eða Dölum, skýrði Hávamál, veitti innsýn í guðfræðiátök fyrri aldar, gladdist á gjöfulum dögum búskapar, berja og veiði, lagði mér lífsreglur, kenndi að lesa bæði í veður og kringumstæður mannlífs. Hann miðlaði líka að á öllum skuggahliðum er birta hinum megin. Alltaf treysti hann mér til verka, aldrei tjáði hann efa sinn um að ég gæti ekki eða gerði ekki það sem hann fól mér. Þau Stefanía fóru í marga daga fundaferðir og skildu mig einan eftir, unglinginn, með allan búrekstur á Brautarhóli. Ég mat tiltrúna og hef síðan skilið eðli ráðsmennsku. Hann tjáði þakklæti fyrir vel unnin verk, stuðning eða samúð með meitluðum orðum. Frændi var góður stjóri, vildi ræktun lands, lýðs og fólks. Ungmennafélagsandinn rímaði vel við stefnu guðfræðingsins, sem fléttaði vel forsendur sínar í þjónustu menntunar og búskapar.

Við eigum okkur mæður og feður, frændgarð og umhverfi. Minn lífsbónus var að eiga frænda líka. Móðir mín kenndi mér að “frændi” væri eitt göfugasta heiti veraldar. Sigurður M. Kristjánsson fyllti svo það hlutverk inntaki og afstöðu. Að vera frændi er iðka mannvirðingu og elskusemi. Ég ber ekki aðeins nafn hans heldur naut hans með svo margvíslegu móti. Hann lagði til hugmyndir og skoðanir með snörpum tilsvörum, hnussi eða hlýju. Hann kenndi mér að njóta náttúrunnar, stoppaði mig stundum til að hlusta eftir hljóðum, kenna hvaða fugl syngi eða til að benda á bæjaröð og segja mér sögu fólksins á svæðinu. Ég var sumarvinnumaður skólastjórabóndans allt til fullorðinsára. „Þú ert elsta barnið okkar Stefaníu” sagði hann stundum við mig og tjáði þar með ást sína og afstöðu þeirra beggja. Svo fylgdist hann grannt með námi, sögu, ráðlagði mér hiklaust, hafði skoðanir á hvað yrði til eflingar og hvað til tjóns. Ráð hans voru glögg, stundum óvænt en alltaf til gagns. Alltaf átti ég í frænda styrka stoð. Frændi í lífinu er ómetanlegt þakkarefni.

Svo var komið að skilum. Ég sagði honum, að nú væri ég búinn að selja og láta frá mér eigur mínar í Svarfaðardal. Þá komu tár í augu hans. Við vissum báðir, að þar með yrðu skil. Farfuglinn að sunnan hætti að koma og hann væri á förum. Haustið væri komið. Við strukum hvorn annan og ég merkti hann krossi bæði á enni og brjóst. Við föðmuðumst meira og kvöddumst í hinsta sinn, með harm í vitund en líka gleði í sál fyrir að hafa átt hvorn annan að. Guð geymi hann og hans fólk.

Á kennimyndinni efst er Sigurður lengst til hægri í hópi bræðra. Sigurjón í miðið og Gísli til vinstri. Á myndinni í miðri grein eru Kristján Tryggvi, Gunnar Þór, frændi og Stefanía auk mín með hund í fangi. Hér að neðan horfir frændi heim að Brautarhóli.