Greinasafn fyrir merki: Lambakóróna

Lambakóróna með kartöflusalati og myntu-jógúrtsósu

Lambakjöt er besta kjötið og nýjar kartöflur eru nammi. Uppskriftahugmyndir Bjarka Þórs Valdimarssonar voru í Mogganum í morgun. Þær vöktu athygli okkar og við aðlöguðum þær að smekk heimilsfólksins. Lambakórónur voru til í Melabúðinni (200 gr. á mann). Nýjar kartöflur eru dásamlegar fyrir kartöflusalat í byrjun ágúst. Við elduðum þetta heilsufæði til heiðurs nýjum forseta.

Kjötið var marinerað í nokkra klukkutíma. Við áttum ókjör af myntu og sítrónumelissu í garðinum og ég notaði mikið af báðum, fínsaxaði og bætti svo þurrkuðu tímían og rósmarín út í. Safi úr einni sítrónu bættist við, slatti af ólífuolíu, salt og pipar skv. smekk. Kjötið var penslað og leyft að standa (og best sem lengst). Þegar farið er að steikja er kjöthitamælir settur í kjarna á kjötstykkjum og steikt – á grilli eða í ofni – þar til hitinn er 67°C (sem er smekksatriði).

Myntu-jógúrtsósa

1 bolli grísk jógúrt 
1/2 bolli smátt skorin mynta
2 hvítlauksgeirar smátt skornir
1⁄2 tsk. kummin
1⁄4 tsk cayenne
Safi úr hálfri sítrónu
Salt og pipar eftir smekk
Öllum hráefnum blandað í skál

Sumarkartöflusalat

1 kg nýjar kartöflur
2 rauð epli
1 piklaður rauðlaukur (þokkalega fínt saxaður laukur og síðan safi úr einni límónu yfir og látið standa)
1 bolli majónes
2 msk. dijon-hunangs-sinnep
2 msk capers
Ferskt dill skv. smekk
Sjóðið kartöflurnar í 20-25 mín.
Blandið saman hráefnunum.

Ég átti ekki mynd af matnum – svo fallegar möndlukartöflur fá að tjá gæði matarins. 

Bæn: Þökkum Drottni því hann er góður og miskunn hans varir að eilífu. Amen