Greinasafn fyrir merki: kyrrð

Það er gott að sækja í kyrru

Hallgrímssöfnuður á afmæli og er áttatíu ára. Árið 1940 ákvað Alþingi að stofna þrjár nýjar sóknir í Reykjavík og þar á meðal var Hallgrímssókn. Fyrstu árin var helgihald í Austurbæjarskóla. Bygging Hallgrímskirkju hófst svo árið 1945 og þremur árum síðar var kjallari kórsins vígður sem kirkjusalur. Þar var messað þar til nýr kirkjusalur var tekinn í notkun í suðurálmu turnsins árið 1974. Kirkjan var síðan vígð 26. október 1986, daginn fyrir 312. ártíð Hallgríms Péturssonar, sama ár og Reykjavík hélt upp á 200 ára afmæli sitt. Í lok október er ártíðar Hallgríms Péturssonar og vígslu kirkjunnar minnst.

Hallgrímskirkja er mikið hátíðahús og vaninn að efna til litríks helgihalds og menningarviðburða. En gleði kirkju og samfélags eru nú skorður settar. Hvernig er hægt að fagna á þessum sóttvarnatíma? Kirkjan er hverfiskirkja og þjóðarhelgidómur. Hallgrímskirkja er komin á ofurskrár heimshúsa – topp tíu, topp fimmtíu og topp hundrað. Hún er á ofurlistum um mikilvæga ferðamannastaði, hrífandi kirkjur og mikil steinsteypumannvirki. Hún er líka á lista the Guardian sem eitt af tíu mikilvægustu tilbeiðsluhúsum heims. Fólk nær sambandi hvort sem það leitar sjálfs sín, friðar, vonar eða Guðs.

Þó auglýstar athafnir verði ekki í kirkjum þjóðarinnar í október eru kirkjurnar opin bænahús. Alla daga er opið í Hallgrímskirkju milli 11 og 14. Það er gott að sækja í kyrru Hallgrímskirkju til að stilla huga, íhuga, kveikja kerti, hlusta á tónlist orgels eða veðurs og njóta síbreytilegs ljósaleiks himinsins utan glugganna. Að fara í kirkju styrkir fólk, líka á álagstímum. Í stað þess að láta skuggana lita sálarlífið getum við ákveðið að leggja rækt við það sem skiptir okkur máli og það sem gleður og eflir. Hallgrímskirkja er hlið himins fyrir okkur öll. Verið velkomin.

Þessi grein birtist í Morgunblaðinu 20. október, 2020.

 

 

Streita, kyrrð og þögn

Ég var í búðarferð og fór út úr bílnum mínum. Kona kom úr öðrum bíl, lokaði hurðinni, stóð svo kyrr og andaði djúpt nokkrum sinnum. Leið henni illa? Átti ég að skipta mér af? Og ég spurði: „Er eitthvað að?“ Svarið var: „Nei, nei. Ég er bara stressuð og er að reyna að róa mig. Held ég fái mér ís!“

Streita, læti, hraði, asi og hávaði gera okkur takmarkað gott. En það er róandi að draga djúpt andann. Hvað nærir okkur og styrkir? Kyrrð, merking, streitulaus gleði. Ég virði kyrrðarsókn mína. Hún er sterk. Alla tíð hef ég haft þörf fyrir að fara reglulega í hvarf, vera einn með sjálfum mér og alnánd Guðs. En skil urðu árið 1974. Það var sumar í svissnesku Ölpunum austan við Lausanne. Síðhærður hippaprestur með tagl laðaði til sín ungt fólk af meginlandi Evrópu og frá Ameríku. Fjöldinn var slíkur, að byggt hafði verið stórt menntasetur til að koma til móts við leitandi fólk. Þegar klerkur kom til að ræða við hópinn kom í ljós að dagurinn væri bænadagur. Allir voru sendir út í skóg eða upp í hlíð, sem var alveg eins og í Heiðubókinni. Við vorum ein með sjálfum okkur allan daginn og áttum kyrrðardag. Vissulega heyrðum við skröltið í kúabjöllum, fagnaðarsöngva fuglanna og syngjandi vind í stráum. En eingangan, einveran var rík að upplifunum og ég var ekki einn. Frá þessum ágústdegi í Sviss hefur sannfæringin lifað í mér um mikilvægi kyrrðar í lífinu. Jesús fór í óbyggðir til bænahalds, dró sig í hlé til að eiga næði og kyrrð með Guði. Við eigum þar fyrirmynd. Jesúatferli er hagnýtt.

Þagnarflótti

Afþreyingarmenning nútímans gengur á búsvæði kyrrunnar. Umhverfi okkar er mettað ómum, sem deyfa, og léttvægum orðum. Bakgrunnstónlist fyllir almannarýmið og opinberar byggingar. Áthraða fólks á veitingastöðum er jafnvel stýrt með tempóbreytingu tónlistar. Á heimilum eru sjónvörpin í gangi þótt enginn horfi. Streymisveiturnar eru síbyljur. Hávaðinn er alls staðar, á heimilum, vinnustöðum og verustöðum fólks. En hávaði einangrar fólk. Í ómsúpu ruglast samskipti. Orð, sem snerta inntak og dýptir, linast og slappast. Samfundir fólks líkjast kokteilboðum. Hinir dugmestu synda frá einum til annars, tala linnulaust og fara svo. Þetta er orðahríð án eyrna, tiltal en ekki samtal. Hávaði og sýndariðni er leið fólks til að vera. Þegar dagar á fólk, að það lifir í ofgnótt merkingarskerts hávaða læðist að grunur um kyrrð sé heimili merkingar og dýptar. Ofurstressað fólk andar djúpt út á gangstétt. Er best að setja tilfinningar og líðan á ís? Nei í streitu leitar sálin kyrrðar. 

Dýrmæti þagnar

Margir óttast hljóðleysi. Þögn virðist óræð og jafnvel ógnvænleg í takmarkaleysi sínu. Í þögninni virðist ekkert til að styðjast við eða grípa í. Þögn er sem hyldýpi, tóm sem þarf að fylla. En þögnin getur verið góð og hlý. Þögn er ekki aðeins það að láta orðin vera. Þögn getur verið þrungin merkingu, gæsku og gleði. Þögn getur verið full nándar. Þagnar- eða kyrrðarsekúndan eftir að síðasti hljómur góðra tónleika deyr út og áður en klappið hefst er oft þrungnasta augnablik tónleika. Þegar náttúran stendur á öndinni vitjar Guð skepnunnar.

Þögn í trúarlegu samhengi er ekki bragð til að kæfa fólk, heldur vettvangur samtals Guðs og sálar. Þögnin er sá heyrnarstóll, sem við setjumst í þegar við getum talað um það sem máli skiptir. Við Guð tölum við þegar við erum með sjálfum okkur eða í sambandi við dýptir okkar. Þegar við lifum sorg, erum hrifin, efumst eða lifum sálarmyrkur, þegjum við gjarnan. Við þögnum þegar orku þrýtur í lífsglímunum, við verðum fyrir óréttlæti eða heyrum sjúkra- eða andlátsfregn. Sú þögn er frjóakur Guðs. Þá erum við reiðubúin að heyra máttarorð, iðrunarkall, huggunarræðu eða lausnarboð. Þögn getur verið fæðingarvegur til lífs ef við þorum. Það er svo auðvelt að flýja sársauka samvisku eða vitund um hversu vanmáttugur og úrræðalaus maður er á krossgötunum. Til að heyra hvað Guð segir er stundum nauðsynlegt að þola þögnina og hina djúpu samræðu. Þá dagar á mann speki lífsins og möguleikar opnast – nýr tími verður.

Kvöldkirkjan

Allir, sem koma inn í Hallgrímskirkju fimmtudagskvöldið 24. október ganga inn í kyrrð og rökkvaða kirkju með kertaljósum. Þetta kvöld verður fyrsta kvöldkirkjan, sem er samvinnuverkefni presta og starfsfólks Hallgrímskirkju og Dómkirkju. Kvöldkirkja verður frá kl. 17 til 21,30 og verður fyrst um sinn einu sinni í mánuði, fyrst í Hallgrímskirkju og í Dómkirkjunni eftir áramótin.

Af hverju kvöldkirkja? Margt fólk upplifir samskipti fólks yfirborðsleg og ekki nærandi. Við prestarnir vitum, að margir leita einhvers, sem er djúptækt og persónulega gefandi í glundroða nútímans. Allir vilja jákvæða reynslu sem ógnar ekki eða spillir, heldur róar og kyrrir. Sunnudagsmessur og kyrrðarstundir dagkirkjunnar eru magnaðar en höfða þó ekki til allra.

Tilgangur kvöldkirkjunnar er að opna trúarheiminn fyrir fólki, sem finnur sig ekki í venjulegu helgihaldi dagkirkjunnar. Kvöldkirkjan er öðru vísi en hefðbundnu helgistundirnar, sem fólk hefur áður upplifað. Hún er ekki á sunnudegi heldur á virkum degi. Fólk er ekki bundið við kirkjubekkina, heldur hefur möguleika að ganga um kirkjurýmið, setjast niður, færa sig og finna nýja stað. Svo hefur fólk möguleika að tjá sig og tilfinningar sínar, skila inn í helgirýmið spurningum, líka reiði og sekt, sem sé túlka stóru lífsmálin og skila þeim til Guðs. Tilfinningarnar má svo líka setja á blað. Bænir eru tjáðar og iðkaðar með ýmsu óhefðbundnu móti í kvöldkirkjunni.

Þögn er mjög áberandi einkenni kvöldkirkjunnar. En orð hljóma þó á slökunarstundum og íhugunum. Þau, sem koma í kvöldkirkju, ganga inn með kyrrlátum hætti. Fólk talar um hversdagsmál sín utan kirkjunnar. Stundum verður tónlistarflutningur í kvöldkirkjunni. Og sá flutningur er ekki eins og á tónleikum, heldur þjónar aðeins íhugun og slökun. Eitt hljóðfæri verður stundum notað eða orðlaus söngur mannsraddar.

Fólk hefur frelsi til að vera það sjálft í hinu heilaga rými. Mikill hreyfanleiki er stíll kvöldkirkjunnar. Fólk situr ekki lengi, heldur rölta margir um kirkjuna í kyrrð og hlustar á sitt innra hvísl eða önnur hljóð rýmisins. Sumir eru lengi inni í kirkjunni og aðrir stutt. Mörgum hentar jafnvel að leggjast á kirkjubekki eða á dýnur til að stilla sinn innri mann og tengja við tákn og hljóma kirkjunnar. Sumir kveikja á kerti til íhugunar eða sem bænakerti. Aðrir krjúpa einhvers staðar í kirkjunni.

Kvöldkirkjan reynir að gefa fólki gott næði. Myndatökur eru t.d. ekki heimilaðar því þær trufla. Það er gott að fara í kvöldkirkjuna í Hallgrímskirkju og svo geta menn farið á pöbbinn eða út að borða og líka komið við í kirkjunni á leiðinni heim.

Dómkirkjuprestarnir, Elínborg Sturludóttir og Sveinn Valgeirsson, og Hallgrímskirkjuprestarnir, Irma Sjöfn Óskarsdóttir og Sigurður Árni Þórðarson, auk kirkjuvarða, sjá um efni kvöldkirkjunnar. Grétar Einarsson, kirkjuvörður í Hallgrímskirkju, er í stýrihópnum. Kvöldkirkjan verður í þrjú skipti í Hallgrímskirkju haustið 2019: Fimmtudaga 24. okt. 21. nóv. 12. des. , kl 17-21,30.