Greinasafn fyrir merki: kvikmynd

Forrest Gump

Kvikmyndin um Forrest Gump er viðburðasaga fremur en þroskasaga. Forrest litli tekur út lítinn vitsmunaþroska en rambar í hvert stórævintýrið á fætur öðru. Hann slampast í gegnum allt og uppsker ríkulega. Gæskuríkur Forrest Gump nýtur elskusemi flestra, enda stefnt út í veröldina af miklum kvenskörungi, mömmunni. Æskuástin frá skóladögum verður þó ekki hans nema stuttan tíma áður en hún deyr. Varla er nokkuð stórmál í bandarískri sögu sem Gump tengist ekki með einum eða öðrum hætti. Forrest Gump verður stjarna í amerískum fótbolta, hetja í Víetnam, borðtennisjöfur, vellauðugur útgerðarmaður, hlaupastjarna og nokkurs konar spámaður, áður en hann ástarmær lífs hans fellur honum í faðm og þau eignast afkomanda sem heldur sögunni áfram.

Umfjöllun um sögu og trúarstef

Þrjú ofurmáttarvöld eru í þessari mynd: Mamma Forrest Gump (Sally Field); bernskuvinkonan Jenny (Robin Wright) og Guð. Þau eru burðarstoðir eða þrenning myndarinnar. Og mikilvægt er að gera sér grein fyrir að þetta er kvenleg þrenning sem Forrest lifir af, í og fyrir. Jenny og móðir Forrest eru sem guðlegar ásjónur. Myndin snertir því kvenímynd Guðs og kvenútgáfu guðdómsins. Hins vegar verður þessi mynd aldrei kennd við rótttæka kvennaguðfræði því hún boðar ekki byltingarboðskap eða breytingatillögur. Myndin kann engan feminisma af nútímatagi og predikar ekki góð kvennatíðindi. En hún er engu að síður innlegg í kvennaumræðu þar sem konurnar eru styrkar og magnaðar. Við kíkjum í myndinni í sértækan túlkunarheim í Bandaríkjunum og fáum innsýn í þá konugervið “southern belle” sem ræður mörgu og notar sínar eigin aðferðir í samræmi við stefnuna að tilgangur helgi meðalið. Móðir Forrest Gump er bellukona!

Meginstef myndarinnar, sem unnið er með ýmsu móti, er sátt og sáttargerð. Þrátt fyrir fákænsku verður Forrest Gump hvarvetna farvegur sátta og lífs. Hann hjálpar Jenný til flýja alkóhólíseraðan og ofbeldisfullan föður og styður hana til uppgjörs í lok myndarinnar. Hann styður vin sinn, Dan liðþjálfa, til að gera upp reiðina frá Víetnam. Þótt hann beri nafn stofnanda Ku Kux Klan byggir hann brýr milli hvítra og svartra og gerir ekki upp á milli fólks eftir litarhætti (sbr. Bubba rækjujarl). Konur metur hann jafn mikils og karla og skilur ekki eða virðir að vettugi skiptingar samfélagsins og baráttu hópa, kynþátta og kynja.

Viðsnúningur ímyndanna

Myndin er æfing í viðsnúningi gilda. Að vera efstur í píramída stjórnmála eða samfélags er ekki aðalatriði. Skilaboðin eru einföld. Allt sem fólk sækist eftir á opinberum vettvangi er allt eftirsókn eftir vindi ef heilindi og sannleika skortir. Greind er engin trygging fyrir hamingju því sælir eru fátækir í anda. Stríð mannanna eyðileggja. Baráttuhópar af hvaða tagi sem þeir eru þjóna eigin hag fremur en umbjóðenda sinna. Gildir einu hvort það er fólk sem berst fyrir friði eða réttindum blökkumanna. Að benda á þessi erfðasyndaratriði í öllum hreyfingum og mönnum er ofurlítið framlag til félagsgagnrýni. Myndin er sem sé ekki óraunsæ eða á skjön við lífið heldur dæmisaga til íhugunar og eftirbreytni.

Gumpísk sögugreining

Forrest Gump tengist flestum stóratburðum Bandaríkjanna frá frumbernsku. Hann kennir Elvis að rokka, er fastur gestur í Hvíta húsinu og hittir alla forseta amerísku þjóðarinnar frá og með Kennedy til Nixon. Hann er við hliðina á George Wallace, síðar forsetaframbjóðanda, í frægu uppgjöri um skólagöngu blökkumanna í Alabama. Hann verður allt í einu ræðumaður á mótmælafundi gegn Víetnamstríðinu í Washington og kemur við í sellu Black Panthers. Hann fjárfestir í Apple sem hann hélt að væri ávaxtafyrirtæki. Myndin er því fléttuð útgáfa trúðsins og sakleysingjans af bandarískri sögu. Í því er hún mikilvæg andsaga stórveldis og hjálpar könum og okkur að sjá söguna í dempaðra samhengi en bandarískir haukar túlka. Forrest Gump er barnaútgáfa Bandaríkjamanna, hið titrandi sjálf á bak við grímur, ímyndir og blekkingar. Með hjálp fíflsins og skopsins er sagan endurtúlkuð. Túlkun sögu er með margvíslegu móti í bandarísku samfélagi. Í þessari kvikmynd er gefið sjónarhorn þeirra sem ekki meta fólk meira en vald, umhyggju meira en styrk, elskusemi og samstöðu meira en yfirgang. Hin mjúku gildi eru í túlkun myndarinnar mikilvægari, betri og kraftmeiri en hin hörðu.

Myndmál og líkingar

Nettar myndlíkingar ramma inn þessa mynd sem er norstursamlega klippt og meðvituð í myndmáli sínu. Gump situr á bekk í byrjun og er eiginlega að segja sögu sína á þessum bekk myndina út. Fiðrildi flögrar inn í myndina í upphafi og út í lokin og gefur tilfinningu fyrir hinu óræða. Nálægð hins yfirskilvitlega er líklega tjáð með þessu flögri. Í seinni hluta myndarinnar verður rækjubáturinn að tákni um björgun sem kemur Dan á lappirnar að nýju. Á bátnum er uppgjör Dans og Guðs og þeir Forrest lifa af mikið óveður, þegar megnið af rækjuflotanum ferst. Svo er skip grunntákn kristninnar. Rútur koma oft við sögu og tákna firringu því þar er Forrest yfirleitt hafnað og hann niðurlægður. Í myndlok hættir hann við að fara í strætó og hleypur til konunnar sem hann elskar. Í ljós kemur að hann hefur eignast barn með henni. Mikið er af alls konar tilfærslutáknum í myndinni, brúm, ökrum, götum, rennandi vatni og öðrum slíkum til að leggja áherslu á hrynjandi og ferli lífsins. Allt er á hreyfingu, fólk er á ferð á lífsvegunum. Svo má heldur ekki gleyma konfektkassanum, sem Forrest skilur sem tákn um fjölbreytilegt líf. „Lífið er eins og súkkulaðikassi. Maður veit aldrei hvernig mola maður fær.”

Skilaboð og mat

Myndin er m.a. um tengsl fólks og leit að hamingju og merkingu. Samband móður og sonar er nærfærið og vel túlkað, ennfremur tilraunir Forrest til að nálgast aðra og vera öllum góður og gjöfull þrátt fyrir andlega fötlun sína. Þá er ljóst að Forrest getur verið einstæður faðir og forsjáraðili þrátt fyrir að vera vitgrannur. Veganesti frá mömmunni er siðaboðskapur: „Heimskur er maður aðeins í verkum sínum.” Það merkir að maður er ekki heimskur í sér heldur fyrst og fremst ef maður hegðar sér heimskulega. Hinn gáfaði getur verið hreinn og klár heimskingi í lífi sínu en hinn vitgranni verið hinn mesti gæfumaður og hegðað sér dásamlega. Þau sem eru álitin lítilmótleg eru kannski þau sem gefa mest, bjarga flestu og eru stórmennin. Kanski má kreista svolítið líkinguna af konfektkassanum. Maður veit aldrei hvað verður úr fólki, hæfileikarnir sem fólk fær í vöggugjöf eru engar tryggingar um hamingjuna. Sitthvað er gæfa og gjörvileiki.

Forrest Gump er góð mynd og hrífur flesta. En auðvitað munu þau sem vilja að tilveran sé túlkuð algerlega út frá þeirra vitsmunalega sjónarhól verða fyrir vonbrigðum og þykja myndin ekki rísa undir nafni og vera jafnvel á mörkum hins væmna. Myndin er notkunarvæn fyrir hópa, sem vilja ræða um hamingjuna, tilgang lífsins, klisjur í menningunni, söguskoðanir, blekkingar, siðferði, ástina og Guð. Leikurinn er loflegur, Tom Hanks og Sallie Field eiga góðan leik, meistarataktar á öllum póstum. Kvikmyndin er konfekt og klassík. 

Jerúsalem – kvikmynd Billie August

Kvikmyndin Jerúsalem byggir á samnefndri sögu sænsku skáldkonunnar Selmu Lagerlöf sem kom út í tveim bindum á árunum 1901-1902. Sagan fjallar um raunverulega atburði og segir frá því þegar hópur bændafólks frá Nås í sænsku Dölunum fluttist til Jerúsalem árið 1896 til að mæta Kristi þegar hann kæmi aftur. Lítil frétt í blaði um þennan atburð vakti áhuga Selmu Lagerlöf og hún fór bæði til Nås og Jerúsalem til að kynna sér aðstæður og leita svara við því hvað fékk bændur úr Dölunum til að rífa sig upp með rótum og halda á vit óvissunnar suður í Palestínu..

Söguþráður

Í upphafi myndar Billie August er dregin upp mynd af fábrotnu bændasamfélagi, sem tekst á við erfiða lífsbaráttuna. Undir niðri ríkir upplausn því þetta litla samfélag vantar bæði andlegan og veraldlegan leiðtoga eftir að foringi þess fórst við að bjarga börnum á fleka á beljandi fljóti. Dag einn kemur Hellgum, sænsk-amerískur predikari til sögunnar, leikinn af þeim magnaða Sven Bertil Taube. Með mælsku sinni hefur hann mikil áhrif á einstaklinga sem og bændasamfélagið í heild og fær að lokum hóp fólks til að selja eigur sínar og fylgja sér til Jeúsalem í von um frelsun þegar Jesús kemur aftur.

Inn í myndina fléttast ástarsaga tveggja aðalpersónanna, Ingmars, sem leikinn er af Ulf Friberg, og Gertrud, sem Maria Bonnevie leikur. Þau alast upp saman eftir að Ingmar hefur misst foreldra sína. Þegar ástin kviknar milli þeirra ákeður Ingmar að fara í skógarhöggsvinnu til að vinna sér inn peninga svo hann geti tekið við ættaróðali fjölskyldunnar og orðið leiðtogi í sveitarsamfélaginu líkt og faðir hans hafði verið og sveitungar hans reiknuðu með. Á meðan bíður Gertrud þolinmóð. Framtíðin virðist björt. Allt fer þó á annan veg. Karina eldri systir Ingmars, sem leikin er af eiginkonu leikstjórans Pernillu August, hefur búið á ættaróðalinu allt frá dauða föður þeirra. Hún verður fyrir sterkum áhrifum af predikun Hellgum og ákveður að selja óðalið og halda til Jerúsalem með fjölskyldu sína. Kaupandinn er bóndinn Persson. Í örvæntingu sinni svíkur Ingmar Gertrud og ákveður að giftast Barbro, dóttur Perssons (Lena Endre), til að bjarga óðalinu. Niðurbrotin er Gertrud auðveld bráð fyrir Hellgum og slæst í för með honum til Jerúsalem eftir að hafa séð Jesú í sýn.

Sveitarsamfélagið í Nås er nú enn sundraðra en fyrr og pílagrímanna í Jerúsalem beið allt annað en þeir höfðu vænst. Umhverfið var framandi og við tók erfið barátta með vonbrigðum og efasemdum. Barbro gerir sér hins vegar smám saman grein fyrir því að hún hafði farið illa með annað fólk og brotið á þeim. Hún vill reyna að bæta fyrir það og hvetur Ingmar til að fara til Jerúsalem og sækja Gertrud.

Trúarstef

Bille August sagði að kvikmyndin Jerúsalem væri í hans huga ekki trúarleg mynd heldur ljóðræn ástarsaga. Þó að rétt sé að myndin sýni ástarsögu þá fjallar hún ekki síður um mátt trúar og vonar í lífi fólks. Hún vekur einnig upp ýmsar spurningar um heimsslitavæntingar, endurkomu Krists, eðli guðsríkisins ásamt því að fjalla um mikilvæg guðfræðileg stef, s.s. synd og frelsun, ósætti og sátt, glötun og eilíft líf. Myndin segir frá venjulegu fólki, aðstæðum þess, samskiptum og örlögum. Hún dregur fram meginstef manlegrar tilveru og fjallar um trú og efa, kærleika og svik, von og örvæntingu, sekt og fyrirgefningu. Styrkur myndarinnar er m.a. sá að hún lýsir því hvernig þessir þættir koma fyrir í lífi og samskiptum fólks án þess að fella dóma um verk þess. Áhorfendur geta því dregið lærdóm af reynslu og viðbrögðum ólíkra einstaklinga.

Sálfræðileg efnistök myndarinnar eru ekki síður sannfærandi. Góður leikur dregur þá hlið vel fram. Sálarástand og tilfinningaglíma aðalpersónanna skilar sér vel. Þunglyndi Gertrud eftir að henni var hafnað er þrúgandi. Ólæknuð sár Karin skína í gegn þrátt fyrir að hún reyni að halda yfirborðinu sléttu og felldu. Barbro þarf að horfast í augu við sjálfa sig, gjörðir sínar og þjáningu og togstreitu Ingmars og það kostar innri átök. Hellgum nær sálrænum tökum á ráðvilltum einstaklingum með sefjunarmætti sínum. Þótt úrvinnslan sé sálfræðileg er hún einnig trúarleg og kemur m.a. fram í því þegar Jesús birtist Gertrud við vatnið og Karin virðist loks finna frið í Jerúsalem þótt hún hafi misst allt sem henni var kærast. Viðbrögð Ingmars þegar þjáningu hans er létt og Barbro hafði fætt honum son sýna hið sama.

Myndin fjallar þó ekki bara um sálarástand og samskipti fólks og afleiðingar þeirra heldur sýnir hún jafnframt hvernig ytri aðstæður þess hafa áhrif á líf þess og örlög og hve auðvelt það getur verið fyrir sterka persónuleika að misnota trú og traust fólks. Undir niðri býr þó spurningin sem Ingmar spyr systur sína þegar hann er kominn til Jerúsalem: Hver er það sem stjórnar lífi hvers? Það er áhugaverð tilvistarspurning sem á bæði við efni kvikmyndarinnar Jerúsalem og líf okkar flestra.

Í mynd Augusts er mikill fjöldi fólks sem áhorfandinn sér en kynnist ekki nógu vel til að geta skilið orð þess og athafnir. Nokkrar persónur eru þó eftirminnilegar og setja sterkan svip á myndina enda leikur flestra leikaranna afbragðsgóður. Hellgum, predikarinn gustmikli, er sterk persóna enda nær hann tökum á mörgum í sveitinni og fær fólkið með sér í Jerúsalemreisuna. Einhverjum kann að finnast að verið sé að gera lítið úr eða hæðast að vakningapredikurum og guðlegri köllun. Sú er þó ekki raunin.

Hellgum er fyrst og fremst dæmi um mælskan einstakling sem kann að notfæra sér aðstæður. Um leið er hann verkfæri í annars höndum. Honum tekst að gefa ráðvilltu sveitarsamfélagi ramma til að túlka veruleika sinn út frá. Sá rammi er hins vegar allur málaður með svörtum og hvítum litum. Ábyrgð sterks leiðtoga er mikil. Hann getur fallið í þá gryfju að hlutgera syndina í aukaatriðum og jafnvel leitast við að þurrka út persónueinkenni áhangenda sinna í stað þess að leiða fólk fram til þroskðarar trúar sem tekur Guð alvarlega mitt á sviði hins daglega lífs.

Ingmar er aumkunarverð persóna. Á honum hvílir sú mikla ábyrgð að feta í fótspor föður síns og verða leiðtogi bændanna í héraðinu. Aðstæður haga því þannig til að hann þarf að gera upp á milli ábyrgðarinnar gagnvart sveitarsamfélaginu og eigin tilfinninga til Gertrud. Það uppgjör hefur mikil áhrif bæði á líf hans sjálfs og fjölda annarra. Greinilegt er að Ingmar vill bæði gera það sem hann telur rétt en líka forðast að særa nokkurn. Að ná hvoru tveggja í senn er ekki einfalt mál fyrir hann fremur en aðra sem lenda í svipuðum aðstæðum. Að axla ábyrgð á eigin mennsku og manndómi er aldrei einfalt og sjaldnast augljóst í hverju skylduræni og manndómur felst.

Þrjár konur setja sterkan svip á myndina. Þar fer Gertrud fremst í flokki. Leikur Mariu Bonnevie er áhrifamikill. Með svipbrigðum og látæði sýnir hún vel sálarástand Gertrud og þær tilfinningar sem búa undir yfirborðinu, bæði vonir hennar og trúarvissu og ekki síður sársaukann, vonbrigðin og þunglyndið sem fylgja höfnuninni. Trúarleg einlægni blandast síðan sjúklegu ástandi og hún virðist ekki alltaf greina á milli raunveruleika og draums. Athyglisvert er að bera saman mynd hennar við upphaf myndarinnar og lok. Hún er einlæg, saklaus og lífsglöð í upphafi en við endi hefur erfið reynslan sett mark sitt á hana og sakleysið og lífsgleiðin virðast horfin.

Barbro er einnig áhugaverð persóna. Henni hafði hlotnast það sem hún hélt að væri ómögulegt, þ.e. óðalið og Ingmar, en sér jafnframt hverju hún hefur komið til leiðar með því að fótumtroða tilfinningar hans og Gertrud. Líf hennar er því óbærilegt, ást hennar til Ingimars fjötrar og henni finnst hún vera ofurseld ættarbölvun. Hún skilur þó að lokum mikilvægi þess að gera upp og vill jafnframt gera gott á ný það sem hún hafði eyðilagt, jafnvel þótt það kosti hana allt sem henni hafði hlotnast. Barbro er þannig margbrotin og sérstæð persóna sem dregur lærdóm af gjörðum sínum. Innst inni þráir hún sátt við sig og umhverfi sitt. Þegar þeirri sátt er náð er hún laus úr fjötrum ótta og bölvunar.

Þriðja konan er Karin, eldri systir Ingmars. Hún hefur þurft að þola marga raun og virðist líða vegna óuppgerðs sársauka og sorgar og óheilinda við bróður sinn. Hún þráir frið og tekur því fegins hendi á móti boðskap Hellgum og lítur á hann sem bjargvætt í lífi sínu. Hún væntir lausnar í Jerúsalem en verður fyrir enn meiri raunum og vonbrigðum þegar hún missir það sem henni er kærast, dóttur og eiginmann. Var vonin um frelsun og frið í Jerúsalem þá bara blekking? Í Karin endurspeglast þrá fólks eftir að finna vilja Guðs sem oft reynist svo torskilinn, þrá eftir ást Guðs sem virðist svo fjarri í hörðum heimi, þrá eftir að finna þá „Jerúsalem“ sem býr yfir lausn sem gefur frið við Guð og menn.

Myndin Jerúsalem lyftir upp og spyr fjölda spurninga um líf og samskipti fólks á öllum tímum, trú þess, von og kærleika, örlög þess og hinstu rök tilverunnar. Undir lok myndarinnar er lítið barn skírt. Í þeim gjörningi er svar við mörgum spurningum myndarinnar. Ósjálfbjarga menn í hörðum heimi finna sátt og frið við Guð, sjálfa sig og sín á milli vegna elsku Guðs, hverjar svo sem ytri aðstæður þeirra og örlög eru.

Leikstjóri: Bille August

Handritshöfundur: Bille August eftir samnefndri skáldsögu Selmu Lagerlöf.

Helstu leikarar: Maria Bonnevie, Ulf Friberg, Pernilla August,  Lena Endre,  Sven-Bertil Taube, Reine Brynolfsson, Jan Mybrand, Max von Sydow, Olympia Dukakis, Björn Granath, Viveka Seldahl, Sven Wollter, Johan Rabaeus, Mona Malm, André Beinö

Framleiðsluland: Svíþjóð

Framleiðsluár: 1996

Lengd: Kvikmynd: 168 mín. Sjónvarpssería: 220 mín.

Trúartextar:1M 2, Sl 52:2, Sl 139:9, Mt 7:14, Mt 10:37, Mt 18:3, Mt 28:18-20, Mk 13:13, Jh 10:12, Jh 20:29, Rm 6:23, Opb 19:7-8, Opb 21:10, Opb 22:17

Hliðstæður: 1M 2, Mk 6:48, Opb 21-22

Persónur í trúarritum: Jesús Kristur, Jóhannes skírari, Jóhannes postuli, Pontíus Pílatus

Guðfræðistef:

brúður Krists, bölvun, Eden, efi, eftirfylgd, eilíft líf, eldur, endurkoma Krists, engill, falsspámaður, freistingar, frelsun, fyrirgefning, glötun, heilagur andi, heimsslit, helvíti, hin nýja Jerúsalem, hreinleiki, iðrun, kraftaverk, kross Krists, kærleikur, köllun Guðs, lífsins vatn, náð, náðargjöf, opinberun, paradís, refsing Guðs, réttlæti, rödd Guðs, satan, sekt, sköpun, synd, trú, útvalning, vantrú, vegir Guðs, yfirbót, þrenningin

Siðfræðistef: Andleg kúgun, félagslegur þrýstingur, fórn fyrir aðra, flokkadrættir, fyrirgefning, heimshöfnun, náungakærleikur, ofbeldi, óvinátta, réttlæti, ritskoðun, skilnaður, útskúfun

Trúarbrögð: gyðingdómur, helgunarfjölskyldan, islam, kristni, lútherska kirkjan

Helgistaðir: kirkja, moska, trúboðshús, vígð mold

Trúarleg tákn: harpa, kross, skeifa

Trúarembætti: prestur, predikari, spákona

Trúarlegt atferli: bæn, fyrirbæn, pílagrímsför, píslarganga, sálmasöngur, skírn, trúarsamkoma

Trúarleg reynsla: afturhvarf, köllun, opinberun, sýn

Upprunalega skrifað fyrir kvikmyndavefinn www.dec.is

Kennimyndin að ofan er af Grátmúrnum í Jerúsalem.