Greinasafn fyrir merki: Kristín Þórðardóttir

Fyrsti liður í …

Pabbi var slappur. Hann var lagður inn á Landspítalann þegar farfuglarnir komu og birkið brumaði. Þegar ég vitjaði hans átti hann erfitt með að festa augu á mér eða tjá líðan sína. Það var eins og hann stæði í skugga og hluti persónunnar væri horfinn. Þegar ég kvaddi hann á ganginum sagði hann bless, stóð svo og horfði á eftir mér. Pabbi stóð í sömu sporum þegar ég leit um öxl við enda gangsins og veifaði til hans. Þegar ég rölti vestur Bergstaðastræti hömuðust þrestirnir við hreiðurgerðina í trjánum í Þingholtunum en ég var dofinn af ugg. Daginn eftir dó pabbi, inn í vorbirtuna. Ég var bara 23 ára og allt í einu var tíminn breyttur.

Ég vissi alltaf hvar ég hafði pabba, þekkti næmt fegurðarskyn hans, listást, reglusemi og verkaga. Hann var fyrirsjáanlega fullkominn í mörgu en alls ekki í málum nándar. Hann raðaði skónum óaðfinnanlega, meðhöndlaði bækur eins brothætta dýrgripi og hefði verið skekinn ef hann hefði greitt einhverjum fimm aurum of lítið. Hann stóð alltaf við sitt og öll loforð. Hann var fínn í tauinu, keypti bara vandaða skó – helst Lloyds – og burstaði þá af blíðlegri alúð. Hann umgekkst fólk af tortrygginni virðingu, horfði vel en spurði aldrei um líðan eða viðhorf. Hann sökkti sér í stóru sögur heimsins. Hann hafði áhuga á réttlætismálum og pólitík, fór á sýningar og dró mig með. En hann spurði ekki um túlkun mína. Hann hafði engan áhuga á vinum mínum eða tilfinningamálum unglingsáranna. En ég vissi að hann studdi mig í flestu sem ég bardúsaði. Já, fyrirsjáanlega fullkominn í því sem hann gerði en fyrirsjáanlega ófær um að tjá ást með orðum eða snertingu. Svo þegar hann dó sagði hann bara bless og hvarf af braut sinni í veröldinni. Mig grunaði að eitthvað væri óskýrt og jafnvel ósagt.

Pabbi var traustur en af hverju var hann ekki nálægur? Fór hann á mis við eitthvað í uppeldinu? Kunnu foreldrar hans ekki að strjúka, faðma, hugga, næra og kyssa hvort annað og drenginn sinn? Mér þótti grunsamlegt að pabbi vildi ekki tala um ættfólk sitt og  foreldra. Hann sagðist vera fyrsti liður í ætt en ég skildi að fleiri spurningar mínar væru tilgangslausar og yrði ekki svarað.

Eftir að pabbi lést fór ég að leita að skyldfólki og upplýsingum til að greina erfðir, persónumótun og úrvinnslu. Afi dó ári áður en ég fæddist og amma dó sex árum fyrr. Með hjálp uppflettivefja netsins komast ég að því að afi, kallaður Dóri í bænum, hafði keypt kot á Grímsstaðaholti í Reykjavík árið 1893. Þá var hann kvæntur Sigríði en hún dó eftir stuttan hjúskap þeirra. Nokkrum árum síðar kynntist hann Guðbjörgu ömmu og hún eignaðist tvíbura sem dóu áður en pabbi kom í heiminn. Ártöl og nöfn læddu að mér grun um að afi og amma hafi verið sorgarfólk sem átti jafnvel erfitt með að næra lítinn dreng tilfinningalega. En þau hafa líklega verið vænar manneskjur því þau tóku tvö fósturbörn og komu þeim til manns auk pabba.

Á hverju vori fórum við, fjölskyldan, og hreinsuðum leiði í Suðurgötukirkjugarði og plöntuðum stjúpum og morgunfrúm. Ég hélt að þar væri legstaður bæði afa og ömmu. Það var ekki fyrr en mörgum áratugum seinna að ég komst að því að gröf ömmu var í Fossvogskirkjugarði. Þangað fórum við aldrei. Af hverju? Svo uppgötvaði ég líka að leiði afa var við hlið fyrri konu hans. Þá dagaði á mig að fjölskyldusagan væri óuppgerð. Afi hafði væntanlega elskað þá konu meira en þá seinni. Pabbi tjáði aldrei biturð í garð foreldra sinna því hann talaði aldrei um þau og var bara fyrsti liður í ætt. Ég vissi þó að pabbi var ósáttur við að foreldrar hans studdu hann ekki til háskólanáms. En hafi hann verið þeim reiður orðaði hann ekki slíkar tilfinningar. Foreldrar mínir töluðu mikið saman en pabbi ræddi jafnvel ekki við móður mína um uppvöxt sinn. Hann hafði sjálfur átt konu sem dó barnlaus áður en þau mamma urðu par og eignuðust okkur systkinin. Fyrri hjúskapur pabba var ekki leyndarmál en bernska hans var hjúpuð þögn.

Við systkinin ólumst upp við hefðbundin kynjahlutverk. Mamma var hjarta heimsins og risastór faðmur. En pabbi var dugmikill vinnuþjarkur og sá um efnislega aðdrætti og ytri ramma heimilisins. Hann laðaðist – held ég – að elskugetu og persónustyrk mömmu sem bætti upp getuleysi hans til nándar. Hann varð eins og fylgitungl plánetu. En af hverju varð pabbi svona dulur um tilfinningar en fyrirsjáanlega vandvirkur og traustur? Það fólk er dáið sem getur ráðið fjölskyldurúnir pabba. En arfur hans er ekki horfinn. Ég veit af honum í mér og systur minni og sé nákvæmnismanninn og fagurkerann stundum birtast í viðbrögðum og látæði barna okkar. En frásagnir mömmu og ættmenna, skrásettar minningar fólks og greftrunarstaðir hafa sannfært mig um að pabbi var ekki fyrsti liður í ætt heldur skilgetið afkvæmi sorgar. Afi var bitinn sorg eftir dauða fyrri konu sinnar. Hvernig tókst amma á við missi tvíbura? Kannski hafði afi ekki neitt aflögu hið innra til að styðja hana í missinum? Depurð hefur líklega lamað Guðbjörgu ömmu. Þegar lesið er í tölur um missi, barnadauða, dauðsföll til lands og sjávar er saga afa og ömmu saga langrar sorgarhefðar. Og pabbi var ekki fyrsti hlekkur í keðju sorgarinnar. Hann varð einfaldlega að reyna að lifa af dapurlegar aðstæður. Hann var eina barnið í kotinu á Grímsstaðaholti í mörg ár og varð að spjara sig, mannast, læra störfin og móta sér stefnu. Hann var hvorki strokinn né kysstur en naut ramma, skjóls og fæðis til vaxtar. Hann varð líklega einbeittur reglumaður til að hemja misvísandi tilfinningar. Mamma sá síðar um allt hitt. Pabbi var fyrirsjáanlega skilvirkur og góður í sínu. Svo stóð hann þarna á ganginum á Lansanum og vissi að hann var að hverfa af sporbaug sínum. Skugginn var í augum hans og hann var á leið inn í myrkrið. Hann talaði ekki um tengslin við mig eða ást sína. Hann vissi að fjölskyldufólkið hans myndi lifa af þótt hann hyrfi. Við værum ekki fyrsti liður í ætt sorgar heldur ástar.

Skráð í október 2024. 

Hamingjuleitin er aðalmálið

Ferming – sérblað Fréttablaðsins. Ýmislegt hefur breyst frá því Sigurður Árni Þórðarson, sóknarprestur Hallgrímskirkju, fermdist fyrir tæpum 53 árum í Neskirkju í vesturbæ Reykjavíkur. Í ár fermast yngstu börnin hans tvö.

Tæp 53 ár eru síðan Sigurður Árni Þórðarson,  sóknarprestur Hallgrímskirkju, fermdist en í ár fermast yngstu börnin hans, tvíburarnir Jón Kristján og Ísak. Starfsins vegna hefur hann séð fermingar þróast undanfarna áratugi betur en margir og segir þær snúast í æ meira mæli um upplifun og innlifun. „Ferming var siður í samfélaginu og flestir fermdust áður fyrr. Kirkjan var eins og skólinn, stofnun sem var nýtt og sótt. Áherslan í fermingarundirbúningnum var því á fræðslu en er í dag meiri á upplifun og innlifun, sem getur orðið á kostnað fræðslu. Það er mjög áberandi hvað fermingarungmenni eru upptekin af hamingjunni. Ég hef í fimmtán ár kannað viðhorf fermingarungmenna og hamingjuleitin er þeim aðalmál. Það er æviverkefni að vinna að lífshamingjunni og fermingartíminn er mikilvægt skref á þeim vegi.“

Spyrja gagnrýninna spurninga

Sjálfur fermdist Sigurður árið 1966 og hefur margt breyst síðan þá. „Menningarsamhengið hefur breyst, einhæfnin er rofin og fjölbreytnin er meiri. En inntakið í fermingarundirbúningnum er jafn áleitið og fyrrum. Mér þótti allt fermingarferlið merkilegt og sagði alvöru já við Guði og lífinu. Fermingarungmenni nútímans grufla af miklum heilindum, spyrja gagnrýninna spurninga og skoða mál trúar með opnum huga. Þau eru raunverulega að glíma við mennsku sína og þar með Guð. Og nú er framundan ferming tvíbura minna. Ég dáist að því hvað þeir eru tengdir sjálfum sér og opna fyrir lífsreynslu og hugsa stóru málin.“

Guð gefur lífið

Í fermingunni hljóma ekki aðeins já fermingarbarna segir Sigurður, heldur já, já, já Guðs. „Við erum oft með hugann við mannheima en gleymum stundum Guðsvíddinni. Mesta undrið í fermingunni er sama undrið og í skírninni. Guð gefur lífið og lofar að vera alltaf nærri. Guð svarar fermingarspurningunni ekki aðeins með fermingaryfirlýsingu: „Vertu trú(r) allt til dauða, og ég mun gefa þér kórónu lífsins.“ Guð svarar með því að gefa allt sem við þurfum til að lifa vel og með hamingju. Hvað er ferming? Já á jörðu og já á himni hljóma saman. Fermingarungmenni staðfesta lífið sem Guð gefur, staðfestir og viðheldur.“

Mættust á miðri leið

Ferming Sigurðar var eftirminnileg, ekki síst þar sem hann var yngri en hinir krakkarnir auk þess sem þau voru bara tvö fermingarbörnin í fermingarathöfninni í Neskirkju. „Ég var ekki fermdur að vori heldur haustið 1966. Við systkinin erum tvö og stutt á milli okkar. Ákveðið var að hafa eina fermingu og eina veislu. Systir mín er eldri og hún seinkaði fermingu sinni og ég fermdist hálfu ári á undan jafnöldrum mínum, var bara 12 ára. Við systkinin mættumst því á miðri leið og vorum fermd 23. október. Ég sótti fermingarfræðslu með krökkum á undan mér í aldri sem komu úr Hagaskóla en ég var úr Melaskóla. Í fermingarfræðslunni lærði ég 23 sálma, biblíuvers og fræði Lúthers og við vorum ágætlega undirbúin.“

Sannkölluð tertuveisla

Fermingarveislan var haldin heima á Tómasarhaga og segir Sigurður hana hafa verið eins og framlag Íslands í heimsmeistarakeppni í tertugerð. „Stórfjölskyldan og fjölskylduvinir komu og m.a. biskupshjónin sem bjuggu hinum megin götunnar, Magnea og Sigurbjörn. Þau gáfu mér Biblíu sem Sigurbjörn skrifaði fallega í. Veislan endaði á eftirminnilegri myndasýningu um náttúruperlur Hornstranda en við systkinin vorum ekki spurð um útfærslu veislunnar en hún varð þó eftirminnilegur menningarviðburður.“

Var sítengdur Guði

Eftir á að hyggja var kannski ekki skrýtið að Sigurður skyldi hafa valið sér þennan starfsvettvang. „Ég var sem barn sítengdur við Guð. Efni og andi, tími og eilífð, hafa alla tíð verið mér eining. Ég sótti að og í sjóinn við Ægisíðu og var á fjöllum og kafi í veiði og náttúrupplifunum í sveitinni. Náttúra og yfirnáttúra voru systur og aldrei andstæður í lífi mínu. Fermingarfræðslan varð eitt af mörgum skrefum í minni lífsframvindu. Á menntaskólaárunum hætti ég við að verða læknir og ætlaði að læra líffræði en tók u-beygju varðandi náms- og starfs-val um tvítugt og þá vegna veikinda.“

Grein í sérblaði Fréttablaðsins – Fermingar, 26. febrúar 2019. Ljósmyndina af okkur feðgum tók Ernir Eyjólfsson, ljósmyndari. 

Frá vinstri: Jón Kristján, SÁÞ og Ísak.