Elín breiddi út faðminn og brosti hjartanlega þegar ég færði henni afmæliskaffið í rúmið og hún sagði: „Róm er eins og konfektkassi.“ Hún hafði nú skoðun á hvað hún vildi gera og hvaða molar hentuðu deginum. Eftir að vinir okkar í kaffihúsinu á neðstu hæðinni komu með afmælisköku handa henni með kerti, nýpressaðan appelsínudjús úr sikileyskum appesínum og nammikaffi stormuðum við í bæinn í dásemdarveðri, yfir Tíber, og á blómasýningu ársins í Chiostro del Bramante. Og þvílíkt undur. Enginn sem kemur til Rómar ætti að láta hana fram hjá sér fara.
Ekki bara undrablóm heldur ofurkonfekt fyrir öll skynfæri. Vídéóið er af afmælisbarninu færa lita- og formundur inn í veröldina. Svo fórum við síðdegis og tókum Vatíkansöfnin með trompi. Og eins og fyrir 25 árum fannst mér nútímadeildin best. Ég spurði mig þeirrar áleitnu spurningar hvort kaþólskan væri safngripur, stofnanirnar stirnaðar, allar kirkjudeildirnar. Við afmælisbarnið ræddum kostina á göngunni í Sistínsku kapelluna. Vorum sammála um að við hefðum engar áhyggjur af Guði eða kristninni en þeiim mun meiri af kirkjustofnunum. Og skildum svo þær spurningar og þanka eftir í egypskum könnum og ítölskum miðalda-steinþróm á safninu.
Fórum svo út í vorveðrið og nutum sólarlagsins á þakverönd á háhýsi við Vatíkanið – sem hefur verið okkur meiri og hjartfólgnari vettvangur vegna stóratburða kristni og kaþólsku síðustu daganna. Við höfum alla dagana í Róm komið í eða á einhvern hluta Vatíkansins. Og gaman er nú að gleðja Elínu á afmæli og aðra daga. Kannski prílum við upp í kúpul Péturskirkjunnar í fyrramálið – sjáum til hvað útfararundirbúningur Frans páfa leyfir. En konfektkassinn ekki bara Róm – sem er dásamleg – heldur þar sem Elín er.
Á bak við þessa IMG 3515 er myndskeið af afmælisbarninu njóta lita og forma á blómasýningunni í Bramante.