Greinasafn fyrir merki: knattspyrna

Gothia Cup 2019

Við feðgarnir, Ísak og Jón Kristján, fórum á fótboltamót í Gautaborg 14.-21 júlí. Svo skaust mamman, Elín Sigrún Jónsdóttir, til okkar í þrjá daga. 39 strákar frá KR, fæddir 2005 og 2006 tóku þátt í knattspyrnuveislunni. KR-liðin voru þrjú og ég var meðábyrgur fyrir einum hóp. Og það voru ekki aðeins lið frá Svíþjóð og Íslandi sem tóku þátt heldur 1686 lið frá 75 þjóðlöndum! Leiknir voru á fimmta þúsund leikir áður en yfir lauk. Þetta var eins og heimsbikar unglinganna í knattspyrnu. Alvöru dæmi.

Félagsleg veisla

Já, þetta var fótboltaferð en var svo meira en bara hlaup á eftir bolta og öskur við hliðarlínu. Gothia er félagslegur viðburður fyrir lífið. Liðsfélagar sváfu saman í skólastofu í Lerlycke-skólanum í einni hverfismiðjunni í Hisingen. Mötuneytið í Tolered-skólanum þar nærri og var matstaðurinn. Hverfisskipulagið minnti á Haga og Mela, með leikskólla, kirkju og grunnskóla í miðjunni, eins og við Hagatorgið. Við yfirtókum forskólann. Í öllum skólabyggingunum voru lið hingað og þaðan að úr veröldinni. Og af því veðrið laðaði út á skólalóð hittust krakkarnir úti, töluðu saman, spiluðu fótbolta, körfu eða pókó. Norræn og alþjóðleg og félagsleg samskipti og öll á góðu nótunum. Karlalið og kvennalið spiluðu og ég saknaði að engin kvennalið fóru frá KR. En ég sá mörg kvennalið spila og heillaðist af einu Breiðabliksliðinu og uppgötvaði svo í lok leiks þeirra, að ég hafði skírt Sylvíu Eik, eina stúlkuna í liðinu. Lið Stjörnunnar vann fimmtán ára aldursflokk, sem er stóafrek því liðin voru 222 í þeim flokki. 

Allir sem einn

KR-liðin stóðu sig frábærlega í fótboltanum, unnu góða sigra, gerðu baráttujafntefli en töpuðu líka. Gaman að sigra, stundum eftir viðsnúning, en sárt að tapa, en þó aldrei nema eftir gríðarlega baráttu. Merkilegt að aldrei gáfust jaxlarnir upp og fögnuðu sameiginlega góðum árangri. Strákarnir studdu hvern annan, voru jákvæðir og eflandi og fóru á leiki hinna KR-liðanna ef þeir gátu. Mér kom á óvart að það voru engir raunverulegir hælbítar í hópnum, engir nöldrarar sem drógu niður. Það var líka áhugavert hve andinn í liðunum var jákvæður. Þessir ungu spilarar hafa lært að liðsandi er afar mikilvægur í fótbolta. Engin lið lifa af ef ekki er unnið með hið andlega og félagslega. Andlega víddin, félagsvíddin, sálarnæring eru að verða mikilvægir aðalþættir í árangri nútímafótbolta. Töfrar í tánum er ekki nóg heldur ekki síður töfrar í samskiptum og liðsfærni. Fótboltiðkun verður þjálfun í lífsleikni.

 

 

 

 

Eldra settið

Síðan var þáttur eldra fólksins sem þjónaði ungliðunum á Gothia. Rósa Hrönn Árnadóttiur var búin að leggja í mikla vinnu að undirbúa ferðina, panta ferðir, bregðast við breytingum í flugrekstri þjóðarinnar og svara með skilningi og elskulegri færni nær endalausum fyrirspurnum okkar foreldra um ólíklegustu mál. Svo voru þær Helga Ösp Jóhannsdóttir að merkja alla boli rétt fyrir ferð. Rósa fylgdi svo öllu eftir, vaktaði mismunandi þarfir drengjanna, heilsufarsþætti og hver væri að fara hvert eftir mót. Flott teymi Rósa og Helga – takk fyrir alla vinnuna.

Þjálfaraþrennan

Það verður ekkert vit í svona ferðum ef ekki væru þjálfarar. Garðar Ingi Leifsson, Auðunn Örn Gylfason og Anton Leifsson undirbjuggu leiki, settu upp leikskipulag, lögðu upp ferlið og stýrðu liðum sínum af festu, færni og öryggi. Og þeir áttu í viðbót við fótboltavitið hlýju og næmni til að efla og styrkja þegar þurfti og ákveðni þegar sækja þurfti. Lof sé þeim.

Pabbar og mömmur

Fjöldi foreldra kom svo til Gautaborgar og kom á leiki drengjanna sinna. Það er mikilvægt að þeir hafi sitt fólk innan seilingar, í gleði og sorg. Andlega, félagslega víddin er rótfest í lífi fjölskyldnanna. En svo var hópur foreldra sem tók að sér hópstjórn og þjónustu við liðin. Þetta er stór hópur og þetta fólk hefur lagt af tíma sínum, umhyggju, elskusemi marga daga og flestir 24 tíma þjónustu í heila viku í þágu drengjanna. Og það var í mörg horn að líta. Sinna þurfti hagnýtum málum eins og teipa legghlífar, hreinsa sár, lána hleðslutæki, sjá til þess að allir fengju svefn, næringu og hvíld, allir væru vel stemmdir og sáttir við sjálfa sig, skipulagið og liðsfélaga. Svo þurfti að tryggja að frítíminn væri gefandi og jafnvel hvetja stóran hóp að synda yfir, þvera, sænskt stöðuvatn! Og við sem tókum með okkur bækur af því að það yrði svo góður tími milli verkefna komumst að því að tíminn var fylltur, engar tómar stundir. Ég notaði því ferðir í lestum og flugi til að lesa – og skrifa þennan pistil.

Þetta eru hetjurnar sem við foreldrar megum þakka auk fararstjóra og þjálfara: Þorbjörn Geir Ólafsson, Þröstur Hallgrímsson, Agnar Þór Guðmundsson, Sigrún Elva Einarsdóttir, Ragnar Ragnarsson, Ari P. Wendel og Ágúst Freyr Takacs Ingason. Svo voru Styrmir Óskarsson, Þórólfur Jónsson, Oddsteinn Gíslason, Bjarni Jónsson, Ingvi Snær Einarsson og fleiri sem studdu vel og smituðu gleði í hópana.

Göteborg er bäst og KR líka

Ég hef komið til Gautaborgar áður en heillaðist af borginni nú. Hún er fjölbreytileg og ferðirnar um hverfin gáfu okkur innsýn og yfirsýn. Almenningssamgöngurnar eru frábærar. Aðstæður eru góðar fyrir svona alþjóðlegt mót og svo er Liseberg alltaf öruggur staður fyrir adrenalínflæði.

Tómas Magnus, Hjörleifur, Jón Bersi og Jón Kristján

Mér kom á óvart hve strákarnir sóttu í mollin til að versla og þeir reiknuðu út hvernig fjármál þeirr væru og svo var hringt í pabba eða mömmu þegar fjárþurrð varð. Ég var farinn að svara: „Íslandsbanki góðan dag.“ Þá kom hlátur hinum megin. Miðborg Gautaborgar er svo miklu meira en bara Umferðarmiðstöðin – Centralstasjon. En vegaframkvæmdirnar í miðborginni voru okkur bílkeyrandi nokkur amaauki því leiðsögukerfin þekktu ekki götulokanir og götubreytingar.

Gothia var frábært mót, KR-drengirnir stóðu sig vel, þjálfararnir eiga virðingu mína og  foreldrahópurinn er á heimsklassa. Mæli með Gothia 20 og áfram – og svo verður Gautaborg 400 ára eftir tvö ár. Og þá verður örugglega ofurhátíð. Takk fyrir mig – heyr mína bæn – allir sem einn. Áfram KR.

Liverpool, Klopp og lífsviskan

Í gær var ég að vinna í prédikun dagsins. Tíu ára gamall sonur minn beygði sig yfir tölvuna þegar hann sá að ég var að skrifa um fótbolta, las lengi, horfði svo á mig og sagði: “Þetta er góð ræða hjá þér pabbi minn!“  Hann hefur gaman af knattspyrnu, iðkar hana og veit mikið um fótboltafræðin. Og í dag ætla ég að ræða um áhugamál hans og þeirra bræðra.

Knattspyrna hefur ekki verið meginefni íhugana í kirkjum landsins og kemur ekki við sögu í messum hvern sunnudag. En boltaíþróttir eru mikilvægar í lífi nútímafólks, tengja saman þjóðir og hópa og eru fremur til friðar en ófriðar. Þær vekja áhuga á fólki frá öðrum svæðum, borgum og menningu. Knattspyrnusamtök vinna að ýmsum góðum málum t.d. er respect-virðingarátak FIFA til að innblása fólki mannvirðingu, að láta engan gjalda fyrir útlit, bakgrunn, lit eða eigindir. Ég tala um fótbolta í dag – ekki til að mæra eða hælast af íslensku landsliðum kvenna og karla sem bæði eru frábær – heldur til að íhuga lífið og hvað er til eflingar. Í dag er það fótbolti og guðsríkið en skoðunarefnið gæti allt eins verið blak, körfubolti og handbolti – raunar allar íþróttir – því kristinn boðskapur fjallar um allt fólk og veröldina.

Season of salvation

FourFourTwoÍ ágústbyrjun kom inn á mitt heimili tímaritið FourFourTwo sem er knattspyrnutímarit. Forsíðan var óvenjuleg og minnti á steindan glugga, helgimynd í kirkju. En í stað postula og engla eru á myndinni fótboltakarlar sem eru frægir fyrir fleira en siðprýði og hetjulund. Á myndinni eru líka Arsene Wenger þjálfari Arsenal í London, þáverandi Liverpool-stjóri, Brendan Rogers, Wayne Rooney úr Manchester United og Vincent Kompany úr City. José Mourinho, einn skrautlegasti knattspyrnustjóri heims, er á miðju myndarinnar eins og Jesús en þó í lakkskóm, með bindi og í jakkafötum. Margar helgimyndir hafa púka einhvers staðar til að minna á að lífið er ekki bara leikur á himneskum blómavelli. Það er m.a.s. púki á Hallgrímsmyndinni yfir aðaldyrum þessarar kirkju. Sepp Blatter, FIFA-forsetinn, er á tímaritsmyndinni í hlutverki hins illa enda aðalleikari í langdreginni spillingarsögu FIFA. Welcome to the Season of Salvation. Velkomin til tíma lausnarinnar, tíma frelsisins. Eða hvað?

Trúlegu skot fótboltans

Þessi forsíða varð umtöluð í knattspyrnuheiminum og þótti ýmsum sú besta í langan tíma. Fótboltinn skýst ekki aðeins inn í peningaveröldina og tískuheiminn heldur yfirtekur boltamenningin líka ýmis ritúalhlutverk trúarbragðanna. Trúarlífsfélagsfræðingarnir hafa löngum bent á að í atferli leikmanna og áhorfenda séu trúarvíddir og boltamenningin þjóni ýmsum þörfum fólks, t.d. að tilheyra hópi, samhengi og þiggja skilgreiningu um hlutverk sín. Og boltinn gegnir uppeldishlutverki einnig því hetjurnar verða mörgum fyrirmyndir um hegðun og afstöðu. Boltasiðferðið verður viðbót eða jafnvel viðmið grunnuppeldis.

Útaf

Það er ekkert öruggt í boltanum. Síða fótboltablaðsins í ágúst er orðin úrelt. Brendan Rogers – sem þjálfaði Gylfa Þór Sigurðsson hjá Swansea og vildi fá hann með sér til Liverpool þgar hann fór þangað -var sagt upp. Honum var hent út, settur út af “sakramentinu” – sýnt rauða spjaldið. Hann þótti ekki nógu góður því Liverpool hefur tapað og tapað og er mun neðar á stigatöflunni en púlarar (stuðningsmenn Liverpool) sætta sig við. „You never walk alone“ er slagorð Liverpool en nú gengur Rogers aleinn og yfirgefinn. Mourinho í Chelsea er hugsanlega á útleið og hinir jafnvel líka.

Celebrity-menningin

Helgimynd fótboltans í ágústblaðinu varð mér til íhugunar. Það er ekki rétt að fótboltahetjurnar hafi geislabaug sem verðlaunaskjöld eldskírnar, sigurlaun í úrslitaleik lífsins. Hetjunum á takkaskónum er hampað um stund meðan þeir hafa töfra í tánum og þjóna hlutverki í liðinu sínu en svo er þeim kastað út. Ef þeir eru “góðir” í boltanum eru sjaldnast gerðar til þeirra miklar vistmunalegar, menntunar-, félagslegar eða siðferðilegar kröfur enda hefur komið í ljós að margar stjörnurnar í boltanum hafa brennt illa af í vítaskotum einkalífsins.

Íþróttahetjurnar hafa orðið hluti celebrity-meningarinnar. Fótboltastjörnurnar eru í hópi fræga fólksins. Menningararvefur vestrænna samfélaga hefur breyst. Áhersla á dyggðir hefur dvínað og siðferðisgildunum hefur verið skotið út af. Þetta á við um meginskyldur, aðalreglur lífs, mennsku og trúar, að við berum ábyrgð á hverju öðru, velferð annarra, menningargildum og samfélagi. Þessi siðgildi skiljast illa eða ekki. Hetjur í trúarlegum, samfélagslegum, pólitískum og menningarlegum skilningi eru týndar en fræga fólkið er komið í staðinn. Celebrity-menningin er umbreyta viðmiðum og er sett í staðinn fyrir siðmenningu eða flæðir inn í götin sem myndast í gildaflæði. Fræga fólkið getur orðið fyrirmyndir í ýmsu en sjaldnast sem þroskaðar fyrirmyndir um hvað við eigum að gera í siðferðisklemmu, gagnvart flóttamönnum í neyð, í nánum samskiptum fjölskyldu og áföllum eða gagnvart dauða.

Árni Guðjón var skírður áðan. Hvað haldið þið að foreldrar hans og fjölskylda vilji helst gefa honum sem nesti til ævinnar? Það sem reynist honum best. Hann mun alast upp í samhengi og menningu sem haldið er fram í samfélagi og vefmiðlum og foreldrarnir vilja að hann mannist vel og hafi gott innræti, menningu og menntun til lífs.

Hvernig afstaða og iðkun

Textar dagsins fjalla um tengsl fólks. Við erum minnt á hetjuna Rut í bók sem ber nafn hennar. Hún var flóttamaður sem þorði að velja hið erfiða en siðferðilega fagra. Í dauðanum valdi hún lífið. Hún var hetja og því dýrlingur. Í pistlinum er fjallað um að gera hið rétta, iðka hið góða sem alltaf er í krafti Guðs og vera þar með skínandi ljós og fyrirmynd meðal fólks. Í guðspjallinu er svo sjónum beint að mismunandi viðbrögðum fólks. Þar eru tveir en ólíkir synir. Annar segir já þegar pabbi hans bað hann en gerði þó ekkert. Hann sem sé sveik. Hinn sagi nei við pabbabeiðninni en framkvæmdi þó það sem beðið var um. Líf fólks er líf gagnvart öðrum, atferli okkar hefur áhrif á aðra og varðar gildi, sannleika, traust eða vantraust. Við erum alltaf í tengslum og iðkum annað hvort hið góða eða vonda. Og yfir okkur er vakað. Allt sem við gerum eru tengsl við grunn lífins, það sem við trúmenn köllum Guð. Jesús sagði að það sem við gerðum hinum minnstu systkinum gerðum við honum.

Klopp og Guð

Áfram með fótboltann. Brendan Rogers var rekinn frá Liverpool og er aleinn og yfirgefinn. Og af því celeb-menningin gleypir siðinn er söngur Liverpool úreltur: You never walk alone. Svo var Jürgen Klopp ráðinn í hans stað. Hann er kraftaverkamaður sem gerði Borussia Dortmund að stórkostlegu liði í Þýskalandi og heimsboltanum. Af hverju skilar hann liðum lengra en aðrir? Það er vegna þess að Klopp byggir á gildum en ekki yfirborðshasar, virðir mennsku spilaranna en ekki bara töfra í tánum, leggur upp úr að allir vitji þess sem innra býr og spili með hjartanu.

En af hverju þessar íþróttafréttir í messu? Hvað kemur Klopp kirkju við? Það er vegna þess að Guð er aðili að fótbolta Klopp. Hann var spurður um hvort fótboltaguðinn hefði snúið baki við honum. Klopp skrifaði og talaði um að hann tryði ekki á fótboltaguð heldur alvöru Guð. Við menn værum í frábærlega góðum höndum Guðs sem væri stórkostlegur. Sá Guð elskaði okkur, með kostum okkar en líka göllum og hefði gert okkur ábyrg gagnvart okkur sjálfum og öðrum. Guð héldi ekki á okkur sem strengjabrúðum. Við værum sjálf ábyrg fyrir því sem við værum og gerðum. Við menn yrðu að skora okkar eigin mörk í lífinu.

Knattspyrnan hjá Klopp er ekki kristilegri heldur en í hinum liðunum – heldur er afstaða hans til mannlífs og annara hið áhugaverða og skilar að mínu viti jákvæðri mannsýn, hvatningu og ástríðu. Sem drengur í Svartaskógi var hann alinn upp við eflandi tengsl við Guð. Mamman kenndi honum bænir og amman fór með hann í kirkju sem hann sækir. Hann tekur tíma á hverjum degi til að vitja sjálfs sín og biðja sínar bænir. Síðan hefur hann lifað í stóra neti guðstrúarinnar og ræktaðri mannvirðingu. Sem þjálfari nálgast hann leikmenn sem mannverur en ekki aðeins vöðvavélar, að allir leiti hamingju og merkingar í áföllum og gleði lífsins. Nú festa hundruðir þúsunda aðdáenda Liverpool trú sína við Klopp en Klopp festir trú sína við meira en sjálfan sig.

Árni Guðjón, ferðamennirnir og þú í þínum verkum, gleði og sorgum, fótboltabullurnar og öll hin sem hafa engan áhuga á tuðrum, – öll reynum við að lifa hamingjuríku lífi. Hvað dugar best; celeb eða siður, lúkkið eða viskan? Ætlar þú að segja já eða nei í lífinu? Hvað ætlar þú gera? Já er best í lífinu og siðvit í samræmi við það já.

Amen.

Prédikun í Hallgrímskirkju 20. sunnudag eftir þrenningarhátíð, 18. október, 2015.

Lexía: Rut 2.8-12

Þá sagði Bóas við Rut: „Taktu nú eftir, dóttir mín. Tíndu ekki kornöx á neinum öðrum akri og farðu ekki héðan heldur haltu þig að stúlkunum mínum. Hafðu augun á akrinum þar sem piltarnir eru að skera korn og gakktu á eftir þeim. Ég hef bannað vinnufólkinu að amast við þér. Ef þig þyrstir farðu þá að vatnskerunum og drekktu af þeim sem piltarnir hafa fyllt.“

Þá féll hún fram á ásjónu sína, laut til jarðar og sagði við hann:

„Hvers vegna sýnir þú mér þá góðvild að virða mig, útlendinginn, viðlits?“

Bóas svaraði: „Mér hefur verið sagt allt um það hvernig þér fórst við tengdamóður þína eftir dauða manns þíns, að þú yfirgafst föður þinn og móður og ættland þitt og fórst til þjóðar sem þú hafðir aldrei áður kynnst. Drottinn, Guð Ísraels, launi þér verk þitt til fullnustu fyrst að þú ert komin til að leita verndar undir vængjum hans.“

Pistill: Fil 2.12-18

Þess vegna, mín elskuðu, sem ætíð hafið verið hlýðin, vinnið nú að sáluhjálp ykkar með ugg og ótta eins og þegar ég var hjá ykkur, því fremur nú þegar ég er fjarri. Því að það er Guð sem verkar í ykkur bæði að vilja og að framkvæma sér til velþóknunar. Gerið allt án þess að mögla og hika til þess að þið verðið óaðfinnanleg og hrein, flekklaus Guðs börn meðal rangsnúinnar og gerspilltrar kynslóðar sem þið skínið hjá eins og ljós í heiminum. Haldið fast við orð lífsins mér til hróss á degi Krists. Þá hef ég ekki hlaupið til einskis né erfiðað til ónýtis. Enda þótt blóði mínu verði úthellt við fórnarþjónustu mína þegar ég ber trú ykkar fram fyrir Guð, þá gleðst ég og samgleðst ykkur öllum. Af hinu sama skuluð þið einnig gleðjast og samgleðjast mér.

Guðspjall: Matt 21.28-32

Jesús sagði: „Hvað virðist ykkur? Maður nokkur átti tvo syni. Hann gekk til hins fyrra og sagði: Sonur minn, far þú og vinn í dag í víngarði mínum. Hann svaraði: Það vil ég ekki. En eftir á sá hann sig um hönd og fór. Þá gekk hann til hins síðara og mælti á sömu leið. Hann svaraði: Já, herra, en fór hvergi. Hvor þeirra gerði vilja föðurins?“ Þeir svara: „Sá fyrri.“ Þá mælti Jesús: „Sannlega segi ég ykkur: Tollheimtumenn og skækjur verða á undan ykkur inn í Guðs ríki. Því að Jóhannes kom til ykkar og vísaði ykkur á réttan veg og þið trúðuð honum ekki en tollheimtumenn og skækjur trúðu honum. Það sáuð þið en tókuð samt ekki sinnaskiptum og trúðuð honum.“