Greinasafn fyrir merki: kjúklingur

Brennivínskjúklingur

Þetta er brennivínskjúklingurinn. Mér leist illa á að sulla grísku ouzo eða líbönsku arak yfir kjúkling. En ég var í góðu samfélagi fagurkera og matargerðarfólks sem var sannfært um að Ottolenghi væri treystandi. Við matreiddum því réttinn. Brennivínsbeygurinn þ.e. ouzo-óttinn hvarf snarlega þegar fulleldað var og bylgjur af ólíkum brögðum fóru um munninn. Brennivínið var horfið en anísvíddin var orðin ein af mörgum bragðvíddum í þessu rétti. Brennivínskjúllinn er bragðundur.

Fyrir fjóra

Hráefni

100 ml ouzo eða arak (lakkrísbrennivín)

4 msk ólífuolía

3 msk nýpressaður appelsínusafi

3 msk límónusafi

2 msk kornótt sinnep t.d. Dijon

3 msk ljós púðursykur

2 fennel (ca 500 gr)

1,3 kg kjúklingur– bútaður í 8 bita (ég nota stundum læri – og hluti þeirra úrbeinaður)

4 klementínur (ca 400 gr) skornar í sneiðar

1 msk tímían

2 ½ tsk fennelfræ – grófmöluð

Steinselja grófskorin til skreytingar

Matseldin

Setjið sex fyrstu hráefnin (ouzo og til og með púðursykur) í stóra skál og blandið og bætið við 2 ½ tsk salt og 1 ½ tsk svörtum pipar. Blandið vel og setjið til hliðar.

Snyrtið fennelboltana og skerið báða langsum í tvennt. Skerið hvern helming í fjóra bita langsum. Bætið fennel í vökvaskálina. Setjið kjúklinginn einnig í vökvann. Þá fara klementínusneiðarnar líka í vökvann, sem og tímían og fennelfræin. Blandið vel saman, setjið lok eða plast yfir. Marínerast í ísskáp einhverja klukkutíma eða yfir nótt. Í stressi tímaskorts má auðvitað sleppa þessum maríneringartíma – rétturinn verður vissulega góður en þó ekki eins bragðdjúpur og annars væri.

Hitið ofninn í 200 og notið viftuna. Setjið allt hráefnið í stórt eldfast mót (ca 30×40 cm), alla vega svo stórt að steikingarlagið verði ekki of þykkt. Húðin á kjúklingnum snúi upp. Steikt í 35-45 mín þar til kjötið er vel brúnað og gegnumsteikt. Takið úr ofninum.

Takið kjúklinginn, fennel og klementínurnar úr fatinu og komið fyrir í heitu fati (eða fallegum potti sem má bera fram) með loki. Tilangurinn er að halda heitu meðan vökvinn úr steikingu er soðinn niður. Sem sé: Takið allan vökvann úr ofnsteikingunni og setjið á pönnu og sjóðið niður, alla vega um þriðjung. Hellið síðan heitum vökvanum yfir kjúklinginn, skreytið með steinselju og berið fram.

Ljómandi að hafa sætar kartöflur með – góð uppskrift með pekanhnetum og hlynsírópi – sjá

Steiktar sætkartöflur með pekanhnetum og hlynsírópi !

Sumir vilja bankabygg með og ef fegurðarskyn og smekkur leyfir er hægt að bæta grænu salati við.

Þessi kjúklingauppskrift er úr Jerúsalem-bók Ottolenghi (179), sem ég fékk einu sinni fyrir skírn í húsi við Hagamel. Uppskriftin er líka á netinu: https://ottolenghi.co.uk/recipes/roasted-chicken-with-clementines-arak

 

 

 

 

 

 

Kjúklingur, sítróna og rósmarín

Þetta er ein af mínum uppáhaldsuppskriftum fyrir kjúklinagasteikingu. Ég breyti krydduninni í samræmi við hvað til er í ísskápnum eða laukagarðinum, en grunnurinn er góður og þolir ýmis frávik. Fyrir 4.

1 kjúklingur

3 litlar lúkur af ferskum kryddjurtum, t.d. basilíku, steinselju og salvíu, tætt í matvinnsluvél og sletta af maldonsalti út í

4 matskeiðar ólífuolía

1 sítróna, skorin til helminga

4 lárviðarlaufblöð

2-4 greinar af fersku rósmarín

Saltað og kryddað að smekk.

Forhitið ofninn og ofnskúffu í 200 gráður. Skolið kjúklinginn að innan og utan og þerrið vel með eldhúspappír. Nuddið kviðarholið með salti og takið síðan létt í húðina við endann á kjúklingabringunni og togið hana varlega upp. Notið hina höndina til að skilja húðina varlega frá bringunni. Troðið í bilið söxuðu kryddjurtunum. Látið síðan smávegis ólífuolíu drjúpa niður í kviðarholið, setjið síðan skornu sítrónuna, lárviðarlauf og rósmaríngreinar. Dragið húðina fram fyrir kjúklingabringuna svo ekki glitti í bert kjöt. Bindið síðan kjúklinginn þétt svo hann haldist vel saman. Nuddið húðina á kjúklingnum upp úr ólífuolíu og kryddið hana rækilega með salti og pipar.

Smyrjið ofnskúffuna með olíu. Leggið kjúklinginn með bringuna niður í skúffuna og setjið hana í ofninn. Bakið í 5 mínútur og snúið kjúklingnum yfir á hina hliðina, enn með bringuna niður. Bakið í aðrar 5 mínútur og setjið þá kjúklinginn á afturendann. Bakið í 70- 75 mínútur við 200 gráður.

Salat og uppáhaldsmeðlæti, þess vegna venjulegar eða sætar kartöflur – eða bygg eða hrísgrjón. Þessi er ættaður frá JO, kokki án klæða.

Þökkum Drottni því að hann er góður. Og miskunn hans varir að eilífu. Amen.  

 

Kjúklingur, spínat, tómatar og sæt kartafla

Ég eldaði þennan rétt eftir að Íslendingar sigruðu Frakka í handbolta með átta marka sigri, 29-21. Þetta var einn glæstasti handboltaleikur Íslendinga síðan gott silfur var gulli betra. Rétturinn er við hæfi á frábærum degi. Afar fallegur á diski. Svo voru allir svangir eftir mikil hróp og átök í sófanum 🙂

2 bakkar úrbeinaðir kjúklingaleggir

1 sæt kart­afla

1 poki spínat

1 dós niðursoðnir kokteiltómatar

1 lít­ill rauðlauk­ur fínskor­inn

Mangó- chutney 3 msk

2msk ólífur

Parmesan-ostur

Balsamik ca 1msk

Hitið ofn­inn í 190°. Flysjið sætu kart­öfluna og sneiðið með osta­skera, flysjara eða mandólíni. Látið sæt-kart­öfluflögurnar í stórt eld­fast mót eða fat. Sletta af góðri ólífu­olíu yfir, saltið og piprið og kryddið með eftirlætiskryddinu. Bakað í ofni í ca. 15 mín­út­ur.

Steikið kjúk­linginn á heitri pönnu. Kryddið með salti, pipar og rósmarín eða öðru eftirlætiskjúklingakryddi. Ég bæti oft chilikryddi við, en það er nú smekksatriði. Í lok steikingar setjið ofurlítið af mangó-chutney á kjúlinginn á pönnunni. 

Þegar kart­öfl­urn­ar hafa verið steiktar í 15 mínútur eru þær tekn­ar út. Þá er spínatið sett yfir sætu kart­öfl­urn­ar og síðan kjúk­ling­urinn yfir spínatið. Koktailtómatarnir og ólífurnar síðan sett yfir kjúkling og rauðlauk síðan þar yfir. Að lok­um parmesan-ostur og svolítilli ólífu-ol­ífuolíu skvett yfir allt.

Setja síðan í ofn og bakið í 30 mín­út­ur.

Þegar rétt­ur­inn kem­ur úr ofn­in­um er bal­sa­mik-ediki dreift yfir allan réttinn. Borið fram með fallegu salati. 

Þökkum Drottni því að hann er góður. Og miskunn hans varir að eilífu. 

 

 

Spænskur pönnukjúklingur

Fyrir 4.

Upprunalega uppskrift fyrir héraleggi en er dásamleg kjúklingauppskrift. Ekki nota úrbeinaða leggi heldur með beininu. 

Kjúklingaleggir 16 stk (3 – 4 á mann)

½ glas vatn og grænmetiskraftur eða kjúklingakraftur

2 gulir laukar

2 paprika – helst í lit!

1 hvítlaukur (þ.e.heill en ekki 1 lauf!)

steinselja, salvía eða annað ferskt krydd – ég átti salvíu í potti.

rósmarín 1 msk.

cayennepipar 2 tsk.

salt og kjúklingakrydd

lárviðarlauf 3-4 stk.

ólífuolía

(Fyrir þau sem vilja kraftmeiri útgáfu er hægt að steikja smátt skorið bacon með, 200-300 gr. og bæta yfir kjúklinginn áður en grænmetið er sett yfir fyrir langsuðuna. Svo er ljómandi að fínskera eitt fræhreinsað chili líka og bæta út í).

Laukurinn og paprikan grófsöxuð og steikt í olíu. Sett til hliðar. Kjúklingurinn kryddaður með kjúklingakryddi, rósmarín, cayennepipar, salti, salvíu og pönnusteiktur. Síðan er hvítlauk, lárviðarlaufi og forsteiktu paprikunni og lauknum ásamt kryddinu skellt yfir og beint á pönnuna. Uppleystum grænemtiskrafti og vatninu hellt yfir. Síðan er allt látið malla á loklausri pönnunni í 45 mínútur.

Berið fram með uppáhaldskjúklingameðlæti. Ég nota gjarnan bygg eða hrísgrjón og svo grænmeti. 

Þökkum Drottni, því að hann er góður og miskunn hans varir að eilífu.

 

Kjúklingur með miso, mirin, engifer og fleiri dásemdum

„Pabbi, þetta er uppáhaldskjúklingarétturinn minn“ sögðu yngri synir mínir þegar við vorum að borða. Þeir voru að vísu búnir að vera úti í körfubolta og fótbolta í marga tíma. En þetta er frábær réttur, sem upprunalega kom frá Ottolenghi en hægt að spinna með uppskriftina í ýmsar áttir. Ljómandi með eggjanúðlum eða basmati-hrísgrjónum. Ef eitthvað vantar af hráefnum er það til í Melabúðinni, ég er búinn að kaupa svo oft í þennan rétt.  Fyrir 6.

12 kjúklingaleggir eða tveir bakkar úrbeinaðir kjúklingaleggir.

2 msk ólífuolía

2 ½ msk mirin

2 ½ msk hlynsíróp

2 ½ msk soya eða tamarin

80 gr hvítt miso eða 1 poki miso.

4 cm ferskur engifer, flysjaður og síðan rifinn – ca 30 gr

4 hvítlauksrif smáskorin eða marin

1 límóna – börkur rifinn og safinn pressaður

40 gr kóríander

2 rauðir chilli, meðalsterkir. Fræhreinsaðir og skornir langsum – þurrkaðar chilliflögur duga ef ekki er til chilli í kælinum

10 vorlaukar. 8 skornir langsum en 2 fínt þverskornir til að bera fram í lokin. Í kvöld átti ég ekki vorlauk en notaði bara púrrulauk í staðinn sem sést á meðfylgjandi mynd.

Salt, pipar og krydd að vild

  1. Forhita ofninn í 200 °C og með viftuna á.
  2. Koma kjúklingnum fyrir í skál og krydda og setja olíu yfir.
  3. Steikja síðan kjúklinginn á pönnu við meðalhita og snúa við eftir ca 4 mínútur og steikja fjórar mínútur í viðbót.
  4. Meðan kjúllinn steikist setjið í stóra skál mirin, soya-sósuna, miso, engifer, hvítlauk, límónubörkinn og límónusafann. Blandið saman.
  5. Setjið síðan nýsteiktan kjúklinginn í skálina með öllum vökvanum, hrærið lítillega til að tryggja að marineringin nái að öllum kjúklingabitunum.
  6. Olíuberið ofnþolið fat. Setjið lauk, kóríander og chilli í botninn og síðan kjúklingabitana ofan á. Hellið vökvanum yfir. Setjið inn í heitan ofninn og álpappír eða lok yfir. Steikið í ca 20 mínútur. Takið lokið af og snúið kjúklingabitunum. Steikið síðan í 20 mínútur í viðbót eða 30 mínútur ef þið notið kjúklingaleggi með beinum.
  7. Berið síðan fram með núðlum eða hrísgrjónum. Og skreytið gjarnan með skornu kóríanderlaufi og vorlauk. Ausið bragðmikilli sósunni yfir kjúling og núðlur. Og auðvitað má nota litríkt salat með eða strá einhverri tegund af Ecospíru yfir eins og ég gerði þennan sólardag í apríl. 

Þökkum Drottni, því að hann er góður. Miskunn hans varir að eilífu.

Verði ykkur að góðu.