Greinasafn fyrir merki: Kjellrun Langdal

Framtíðarfólk

Af hverju að senda fólk og fé til Afríku – eða einhvers annars hluta heimsins til að kynna fólki Jesú Krist, kristna trú, kristinn sið? Er það til að bæta heiminn og þjóna fólki? Kristniboðsdagur þjóðkirkjunnar er í dag og hefur verið haldinn frá árinu 1936. Söfnuður Hallgrímskirkju styður hjálparstarf og kristniboð. Sigurður Árni segir frá ferð til Eþíópíu og Keníu í frásögn að baki þessari smellu.

Framtíðarkonur Afríku

8 3 Chep„Við stofnuðum framhaldsskóla í Chepareríu og stúlkurnar fóru í sama skóla og strákarnir,“ sagði Skúli Svavarsson og horfði yfir kristniboðsstöðina. Svo bætti hann við: „Stúlkurnar leigðu í bænum og svo kom í ljós að sumir karlar sem leigðu þeim töldu að innifalið í leigugjaldinu væri aðgangur að þeim. Nokkrar þeirra urðu ófrískar. Þá vissum við að til að tryggja öryggi þeirra og menntun yrði að stofna heimavistarskóla fyrir stúlkurnar.“ Og nú er Propoi High framhaldsskóli fjögur hundruð stúlkna. Kristniboð stendur með öllu fólki, líka konunum.

Jamas skólastýra, Samson biskup og Skúli kristniboði
Jamas Murray Samson biskup og Skúli Svavarsson.

Liljusjóður

Við vorum sjö á ferð í Afríku í janúar og febrúar 2016. Lilja Sólveig Kristjánsdóttir, móðursystir mín, lést á árinu 2015 og skildi eftir í erfðaskrá sinni beiðni um að við færum til að velja gæfuleg kristniboðsverkefni sem erfðafé hennar gæti stutt. Það var til happs og blessunar að í Eþíópíu tóku á móti okkur hjónin Ingibjörg Ingvarsdóttir og Jónas Þórir Þórisson, og í Keníu hjónin Kjellrun Langdal og nefndur Skúli. Ég hef alla tíð metið mikils starf kristniboðs en þegar ég kom í heimsókn gerði ég mér grein fyrir því hve ávaxtaríkt kristniboðið hefur verið milljónum fólks í Eþíópíu og Keníu. Samfélögin hafa batnað og staða kvenna og barna mun sterkari vegna siðmáttar kristninnar. Kristniboðarnir fóru gegn hefðum og venjum og hikuðu ekki við að leyfa konum að njóta sín og afla sér líka menntunar. Alls staðar þar sem við komum höfðu konurnar rétt til að tala og tjá sig. Þær notuðu þann rétt og fluttu oft merkilegustu ræðurnar. Kristniboðið hefur verið farvegur blessunar, kristniboð er kraftaverk.

Kvennaframhaldsskóli

Orðin hans Skúla um kvennaskólann sátu í mér þegar við röltum upp veginn í átt að Propoi High, framhaldsskólanum í Chepareríu. Hópur stúlkna beið okkar uppi í hlíðinni og margar þeirra veifuðu til okkar. Þegar við komum nær sáum við að þær voru allar krúnurakaðar – vegna heilbrigðissjónarmiða — og í skólabúningi. Við vorum boðin velkomin á skrifstofu rektorsins. Vöxtur skólans hefur verið slíkur að ekki var til fé til að reisa skrifstofubyggingu svo starfsfólkið verður að láta sér nægja skólastofuhorn. En skólastýran, Jamas Murray, er kraftmikil og ákveðin, n.k. kvenútgáfa af Obama. Hún er eldklár, með skýra skólastefnu, vald á kennslufræðum og hvernig megi koma kennarahóp og fjögur hundruð tápmiklum ungum konum til þroska. Samson, Pókotbiskup, brosti þegar hún hreif okkur með sér því hann hafði séð í henni framtíðarstýru vaxandi stofnunar og ráðið hana til skólans.

Kennarar í Propoi High
kennararnir eru ungar og kraftmiklar konur.

Nemendurnir héldu út úr öllum stofum með stóla í fangi. Hvað voru þau að gera með þessi húsgögn? Svarið var að ekki væri til nema einn stóll á nemanda svo þær tækju hann bara með sér ef þær væru kallaðar á sal. Við fórum á eftir stúlkunum, kíktum í leiðinni á heimavistaraðstöðuna, sem þarf að bæta, og héldum svo í átt að matsalnum. Ég og tíu ára tvíburasynir mínir, Jón Kristján og Ísak, urðum á undan hinum gestunum og kraftmikill söngurinn umvafði okkur þegar við komum í salinn. Þetta var söngur eilífðar og kom frá hjartanu. Átta hundruð augu brostu við okkur og átta hundruð hendur fóru á loft og veifuðu til okkar þriggja. Svo þögnuðu þær. Ég stökk upp á svið og sagði þeim það sem var mér efst í sinni: „I would like to tell you a secret everyone should know: You are wonderful — so wonderful.“ Fagnaðarópin, hláturinn, gleðihljóðin bylgjuðu bárujárnið í þakinu. Allar skildu þær enskuna, allt stúlkur sem hafa orðið að berjast fyrir að vera í skóla, njóta náms sem ekki er sjálfgefið í veröld fátæktar. Skólagjöldin eru há. Flestar stúlknanna hafa lítil efni svo að skóli og nám eru þeim lífsgæði, dásemd og hlið til þroska og jafnvel betra lífs.

Kraftmikill kvennaskóli

Saga og Katla halda ræður
Saga og Katla halda ræður.
Ísak flytur ávarp - og enskan er alþjóðlega tungumálið sem unga fólkið talar gegn ruglingi Babel.
Jómfrúarræða Ísaks fyrir jómfrúrnar í Propoi High.

Svo komu konurnar í lífi mínu, Elín Sigrún og dætur mínar, Katla og Saga. Með skólastýrunni kom Skúli Svavarsson og stúlkurnar þekktu hann því hann er skólaafinn. Nafn hans — í einfaldaðri útgáfu — var skrifað á A3 blað og límt á salarvegginn: „We are proud to have you as our sponsor rev. Skuli Svavason.“ Og allur söfnuðurinn söng þessum stofnanda og verndara skólans: „Grandpa don’t forget us.“ Skúli brosti hógvær og mun minnast og vaka yfir velferð þeirra. Svo fluttum við karlarnir ávörp og allur nemendahópurinn söng. Katla og Saga voru kynntar og stóðu á fætur og töluðu við kynsystur sínar um mikilvægi ástríðunnar og eigin markmiðssetningu í námi, störfum og lífi. Svörtu stúlkurnar hlustuðu á hvítu konurnar sem höfðu sett sér stefnu. Önnur hafði numið arkitektúr og starfaði við grein sína á Íslandi, teiknaði hús og hafði látið drauma sína rætast. Hin hafði stundað ljósmyndanám, tekið myndir víða og birt verk sín í mörgum helstu ljósmyndablöðum heimsins. Meira að segja Leica, einn virtasti myndavélaframleiðandi veraldar, hafði áritað myndavél með nafni hennar og gefið henni. Svo stóð Elín Sigrún á fætur og sagði öllum söfnuðinum að hún væri lögfræðingur. Þá tóku námsmeyjarnar um höfuðið eins og þær vildu verja sig fyrir rannsóknarréttinum. Svo hlógu þær og hlustuðu á söguna um stúlkuna úr sjávarplássi á Íslandi sem tók ákvörðun um að vinna ekki í fiski allt lífið heldur fara í háskóla til að geta þjónað fólki. Þessar konur voru ungum kynsystrum sínum í Propoi High skínandi fyrirmyndir um að þær mættu þora að læra, gætu mótað eigin kjör og gæfu og mættu vitja drauma sinna. Þegar konurnar höfðu haldið ræður vildi hópurinn að drengirnir töluðu líka. Þeir héldu sínar jómfrúarræður á ensku fyrir allar jómfrúrnar í þessum hljómmikla risasöfnuði. Foreldrarnir voru stoltir og snortnir af þessum káta kvennafansi í skjóli íslensks kristniboðs.

Menntunarsókn og aðstaða

Framhaldsskóli stúlkna í Propoi í Chepareríu er stórkostleg stofnun. En aðstaðan er ekki í samræmi við íslenska staðla. Heimavistarhúsin eru eins og hlöður og aðeins stúkað á milli kojanna eins og gert er í útihúsum á sauðburðartíma í íslenskum sveitum. Heiimavist þarf að bæta. Ekkert vatnssalerni er í skólanum en kamrarnir eru hreinlegir. Nú er unnið að því að koma upp sturtuaðstöðu og þvottahúsi svo stúkurnar geti þrifið sig og þvegið plöggin sín. En þær voru þó ótrúlega snyrtilegar. Nýlega er komið tölvuver í skólann en meðan við stóðum við í tölvustofunni fór rafmagnið þrisvar. Átak þarf því að gera í rafmagnsmálum svo tölvurnar kafni ekki.

Kristniboð til trúar og menntunar

Heimsókn í söfnuði og skóla á kristniboðssvæðinu i Pókot er áhrifarík. Ég er snortinn af einbeitni Kjellrunar og Skúla og sporgöngumanna þeirra. Þau hafa auk kirkjustarfsins stofnað metnaðarfulla skóla til að veita fólki menntun. Fyrir komu íslenskra kristniboða höfðu kenísk yfirvöld hvorki haft rænu á né metnað til að mennta herskáa Pókotmenn. Margir óttuðust að fara inn á þetta svæði viðsjálla stríðsmanna. En Kjellrun og Skúli hikuðu ekki í Pókot frekar en kristniboðar í Konsó. Þau reyndu að veita fólki hlut í elsku Guðs sem vill að sérhver maður njóti ríkulegra gæða, ekki aðeins trúartrausts, heldur líka menningar, heilbrigðisþjónustu og menntunar. Raunverulegt kristniboð er ekki þröngt heldur víðfeðmt. Íslenskt kristniboð hefur alla tíð verið iðkað í anda hinnar góðu þrenningar: Heilbrigðisþjónustu, menntunar og trúar. Trú sem slitin er úr tengslum við menntun endar í vantrú. Trú sem ekki lýtur að hinum særðu við veginn er á villigötum. Ég vissi að íslenskir kristniboðar voru góðir þjónar, en ég skildi ekki vel fyrr en í þessari Liljuferð að þeir hafa verið kraftaverkamenn Guðs í heiminum. Skólakerfið sem þeir hafa byggt upp frá grunni er á við skólakerfi Íslendinga. Nú er þetta mikla menntakerfi rekið af innlendum aðilum, fyrir innlent fé og af innlendum metnaði.

Munum og styðjum

„Afi, ekki gleyma okkur,“ sungu stúlkurnar. Þær gleyma ekki því ein heimavistin ber nafn hans. Ég held að Skúli gleymi ekki söngnum meðan hann hefur mátt og rænu. Við ættum ekki heldur að gleyma þeim. Kristniboð er í þágu lífsins vegna þess að Guð elskar fólk, hvar sem það er og hvernig sem það er.

íslenskar konur meðal framskólanema í hepareríuHvað verður um stúlkurnar í Propoi High? Hvernig mun menntun þeirra nýtast þeim? Mun samfélagið leyfa þeim að njóta hæfileika sinna? Margar réttu upp hendur þegar þær voru spurðar hverjar þeirra vildu verða lögfræðingar. Margar vildu verða andlegir leiðtogar. Kannski eiga sumar við að þær vilji verða prestar og biskupar? Ekkert okkar sem horfðum í augu þessara framtíðarkvenna Keníu efuðust um að í þeim búa máttur og hæfileikar. Ég trúi á framtíð Pókot og Konsó eins og Lilja, móðursystir mín. Ég trúi að þessar stúlkur muni standa sig ef þær fá rými og frelsi til. Okkar er að styðja þessar framtíðarkonur Afríku. Þökk og lof sé íslenskum kristniboðum sem höfðu þor til að boða fagnaðarerindið og stunda mannvinsamlegt kristniboð.

Meðfylgjandi myndir frá heimsókn í kvennaskólann í Chepareríu, Pókot. Á myndunum eru nemendur Propoi High, Jamas Murray rektor, Skúli Svavarsson kristniboði, Samson biskup í Pókot, Elín Sigrún Jónsdóttir, Katla Maríudóttir, Saga Sigurðardóttir, Jón Kristján og Ísak Sigurðarsynir.

Þessi gein birtist í Bjarmi, tímarit um kristna trú, 1tbl. 110. árg, mars, 2016. Páskablað, s. 30-33.

Kristniboðssambandið gefur öllum sem vilja tækifæri til að styrkja nemendur til náms í Pókot. Þeir sem hafa áhuga geta lagt inn á reikning 0117-26-2818, kt. 550269-4149 með skýringu á að um skólagjöld í Pókot sé að ræða.
Sjá einnig grein frá Skúla Svavarssyni í Kristniboðsfréttum 2016 1. tbl bls 4.