Gleðileg jól. Enn einu sinni Heims um ból, helg jól. Enn einu sinni höfum við verið umföðmuð undri og unaði jólanna. Jólalyktin, dásemd í nösum, kliðmjúkir jólasálmarnir, pakkar til glaðnings og guðspjallið um jólabarnið og englana vekja tilfinningar í brjóstum okkar. En skuggar elta ljós. Í bland við spenninginn læðist jólamóri líka um. Við erum umlukin jólum á mörgum plönum. Líka hið innra, því minningarnar koma til okkar á jólum – og í nýju jólaauglýsingu Flugleiða segir hnittilega: „Varðveitum minningar og búum til nýjar.“
Kirkjusvefninn
Fyrst er það jólaminning, sem vinkona mín sagði mér í vikunni. Atburðurinn varð á aðfangadegi um eða eftir 1980. Fjölskyldan hennar bjó á Mímisvegi, sem er í slakkanum, suðaustan við Hallgrímskirkju. Allan daginn hafði snjóað. Logndrífan var svo heillandi, að mamman stóðst ekki mátið þegar liðið var á aðfangadagskvöldið og spurði son sinn hvort hann vildi ekki koma með út að leika í snjónum. Sá stutti var til og mæðginin drifu sig út, bjuggu til engla og nutu útivistarinnar. Þau voru orðin þreytt og „úthlegin“ þegar fólk kom úr húsunum og gékk í átt að kirkjunni. Mamman spurði son sinn: „Eigum við að fara upp í kirkju?“ Hann var til og þau smelltu sér í jólamessuna beint úr englagerðinni í snjódyngjunum. En stuttu síðar kom drengurinn einn heim frá kirkju. Pabbinn varð hissa og spurði áhyggjufullur: „Hvar er hún mamma þín.“ Drengurinn svaraði sposkur: „Hún er sofandi upp í kirkju. Ég gat ekki heyrt neitt fyrir hrotunum í henni!“
Eftir jólaundirbúninginn og leik mæðginanna hafði værð sest að mömmunni og vitund hennar liðaðist inn í undur jólanæturinnar. En svo þegar byrjað var að syngja Heims um bólí messulok rumskaði hún. Hún vaknaði inn í jólin – kom úr draumheimi undirvitundar inn í draumaheim himins, jarðar og jóla. Hún gerði sér grein fyrir að skrákurinn var farinn, en óttaðist ekki því svo stutt var heim frá kirkjunni. Og hún sagði mér, að hún hefði farið að hlægja í kirkjunni þegar hún uppgötvaði að hún hafði sofnað og sá þegar hún rumskaði að hún hafði ekki einu sinni tekið af sér svuntuna áður en hún fór út og síðan óvænt upp í kirkju. Svuntan lafði niður fyrir kápuna hennar þar sem hún vaknaði í heitri kirkju jólanæturinnar. Hann er sætur kirkjusvefninn! Og það er flott að vakna inn í jólanna Heims um ból.
Jólasálmurinn
Já, sálmurinn Heims um bólá tvö hundruð ára afmæli. Hann fangar og tengir flest sem varðar jól. Joseph Mohr, prestur í austurríska fjallaþorpinu Obendorf, var að undirbúa jólin. Samkvæmt einni upprunasögunni var prestur að íhuga jólaprédikunina þegar gömul kona bankaði á dyrnar á prestssetrinu og bað prestinn að koma að skíra nýfætt barn. Og þó hann væri ekki búinn að undirbúa messuna fór hann með konunni. Þegar hann horfði á nýfætt barnið varð hann snortin og tengdi það og foreldrana við Jesú Krist, Maríu og Jósef, nafna prestsins. Gleðin í húsinu og barnsfæðingin hreyfði við skáldinu í klerkinum og meðan hann barðist í gegnum snjóskaflana á heimleiðinni veiddi hann fram sálm úr sálinni. Inntak og andi jólanna féll í hrynjandi orðanna: „Heims um ból – helg eru jól.“ Sr. Joseph fór með sálminn til Frans Gruber, vinar síns og samstarfsmanns, sem bjó til lag við textann. Orgelið í kirkjunni var bilað og því var gítar notaður í aftansöngnum. Og vinirnir sungu sálminn í fyrsta sinn opinberlega. Þetta var fyrir réttum tvö hundruð árum, árið 1818. Og öll jól síðan, í tvær aldir, hefur þessi jólasálmur verið sunginn og síðustu hundrað árin um allan heim. Jólasálmurinn sem vekur jafnvel þreyttar mömmur af kirkjusvefninum.[i]
Jesútrúin
Hvað ætlum við að gera með jólin og boðskap jólanna? Margir halda fram, að þegar börnin uppgötva að jólasveinar eru bara plat þá hverfi trúin á svein jólanna. Þegar börnin uppgötva að jólasveinar eru fólk í góðu gervi þá byrjar trúin á Jesú að ruglast. Fyrst fer jólasveinatrúin og svo fer Jesútrúin. Er það svo? Þegar börnin trúa ekki lengur á jólasveininn af hverju ættu þau að trúa á Jesú, aðalsvein jólanna? Auðvitað er allur munur á – en það er ekkert einfalt að trúa á himinsveininn. „Af hverju gerðist Guð maður?“ Þeirrar spurningar hefur fólk spurt um allar aldir. Af hverju kom ljósið í heiminn? Hver eðlis er þessi speki um barn í heimi? Gat Guð ekki bara gert heiminn almennilega svo engin neyð eða þjáning þrifist í þessari veröld og ekki þyrfti að senda lausnara af himnum. Er Guð kannski vanmáttugur? Því meira, sem við vitum um geiminn, því smærri verður kúlan okkar í svimandi óravíddum. Af hverju ætti æðsta vald himsins að hafa áhuga á þessum útnára heimsins, þessu smælki í alheiminum, sem jörðin er í geimgímaldinu? Og ekki er mannkynið ekki sérlega sjarmerandi, hópur lífvera sem hefur gert heimili sitt að ruslastíu og farið svo hraklega með óðalið sitt að það er að deyja.
Guð sem teygir sig til…
Á jóladegi er „hitt“ jólaguðspjallið lesið frá altari, upphafsvers Jóhannesarguðspjalls. „Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði og orðið var Guð.“ Svo er sögð saga þessa orðs, viðtöku þess eða höfnun. Stórtákn eru nefnd og þjónar þess kynntir. Inntak þessara fáu setninga er svo rismikið að mörgum þykir þessi texti einn af mikilvægustu og fegurstu textum Biblíunnar. Jafnvel grískan er svo fallega ljóðræn, að ég lærði fyrstu versin utan að fyrir fjörutíu árum. Upphaf guðspjallanna er ólíkt. Í þessum Jóhannesartexta er ekkert sagt um ætt og uppruna Jesú. Hér er engin ættartala eins og í Matteusarguðspjalli. Ekkert klippt og skorið eins og í Markúsi. Ekkert sagt um Kýreneus, Heródes eða Ágústus keisara eins og í Lúkasarguðspjalli.
Nei, formáli Jóhannesar er öðru vísi, rismikill, djúpur og stórkostlegur. Þar er byrjað á himnum, eiginlega innan í Guði og þar á eftir er síðan talað um samband þess Guðs við heim. Fyrstu versin varða skapandi orð, tjá útleitandi elsku. Ekki feiminn, innhverfur Guð heldur tengslasækjandi veraldarvaki. Þungur undirstraumur og ljóðræna textans heillar.
Allir þokkalega biblíufróðir gera sér grein fyrir að þessi vers í jólaguðspjalli Jóhannesar varða skapandi guðdóm. Textinn vísar beint í sköpunartexta Gamla testamentisins, t.d. í fyrstu bók Móse og Davíðssálmum. Hvernig Jesús Kristur er kynntur til sögu varðar að Guð er nálægur og virkur. Í sköpun heimsins varð ljós. Svo þegar Jesús kom í heiminn kom ljós, sem skín í myrkrinu, gefur líf, nærir og blessar.
Jólaguðspjall Jóhannesar veitir okkur innsýn í Guð. Mennskan fæðist í innra lífi Guðs. Upphaf alls, efnis og anda, er í guðsdýpt himinsins. En eitt er undur hins guðlega og annað er hvernig brugðist er við undragjöfunum. Þegar skapandi viska Guðs kemur fram í tíma heyra sumir, nema, skynja, skilja og taka við. Aðrir taka ekki á móti. Mál jólanna er ekki bara að allir séu kátir. Innan hrings jólanna eru líka reiðir menn sem hafna. Fólk allra alda veit að þegar ljós skín sem skærast verða skuggarnir djúpir.
Ljósið sem skín
Í vikunni kom hópur frá Englandi og Bandaríkjunum í Hallgrímskirkju. Þau voru að vinna efni fyrir samfélagsmiðla Apple um tengsl fólks á Íslandi við látna ástvini og hefðir okkar Íslendinga við að kveikja kerti á leiðum ástvina. Þau höfðu hrifist af lífsástinni, sem kemur fram í virðingunni á lífi genginna ástvina sem ljósin tjá. Mér þótti gaman að tala við þetta íhugula fólk sem skrifar fyrir tugi milljóna á samfélagsmiðlunum. Ég held, að við kveikjum ljós á leiðinum af því það er ævagömul hefð fyrir að lýsa vegfarendum. Fyrir tíð rafmagns setti fólk ljós í glugga til að ferðafólk gæti séð mannabústaði. Kristin kirkja hefur alla tíð talað um ljós Guðs, sem kemur í heiminn til að lýsa í myrkri. Við elskum fólkið okkar og viljum lýsa því á leiðinni inn í himinn Guðs. En svo eru ljósin á leiðunum líka áminning um að við erum á sömu leið og ástvinir okkar á undan okkur, pílagrímar í tíma, á leið um myrkar og ljósar lendur heimsins, á leið inn í himininn. Á jólum kveikjum við á mörgum kertum, hlöðum seríum í glugga, á ufsir og í tré. Og ljósadýrðin er mikil í og við húsin okkar hjér á norðurslóð. Það er ekki bara löngun til að tjá myrkrinu að við viljum ekki vera döpur, heldur tjáning um að við viljum að tilveran sé björt og upplýst en ekki drungaleg veröld. Með atferli okkar tjáum við hina dýpstu þrá, vonina um að til sé gott afl, guðleg veröld sem heimsljósið lýsir.
„Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. .. öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.“
Nóg fyrir kirkjusvefn, kirkjuvöku, jól heima, allt árið. Ljós Guðs lýsi þér.
Hallgrímskirkja jóladagur 2018
Textaröð: B
Lexía: Jes 62.10-12
Gangið út, já, gangið út um hliðin,
greiðið götu þjóðarinnar.
Leggið, leggið braut,
ryðjið grjótinu burt,
reisið merki fyrir þjóðirnar.
Sjá, Drottinn hefur kunngjört
allt til endimarka jarðar:
„Segið dótturinni Síon,
sjá, hjálpræði þitt kemur.
Sjá, sigurlaun hans fylgja honum
og fengur hans fer fyrir honum.“
Þeir verða nefndir heilagur lýður,
hinir endurleystu Drottins,
og þú kölluð Hin eftirsótta,
Borgin sem aldrei verður yfirgefin.
Pistill: Tít 3.4-7
En er gæska Guðs, frelsara vors, birtist og elska hans til mannanna, þá frelsaði hann okkur, ekki vegna réttlætisverkanna, sem við höfðum unnið, heldur frelsaði hann okkur af miskunn sinni. Það gerði hann í þeirri laug endurfæðingar og endurnýjunar heilags anda sem hann lét ríkulega yfir okkur streyma sakir Jesú Krists, frelsara vors. Þannig erum við réttlætt fyrir náð hans og urðum í voninni erfingjar eilífs lífs.
Guðspjall: Jóh 1.1-14
Í upphafi var Orðið og Orðið var hjá Guði og Orðið var Guð. Hann var í upphafi hjá Guði. Allt varð til fyrir hann, án hans varð ekki neitt sem til er. Í honum var líf og lífið var ljós mannanna. Ljósið skín í myrkrinu og myrkrið tók ekki á móti því. Maður kom fram, sendur af Guði. Hann hét Jóhannes. Hann kom til vitnisburðar, að vitna um ljósið og vekja alla til trúar á það. Ekki var hann ljósið, hann kom til að vitna um ljósið. Hið sanna ljós, sem upplýsir hvern mann, kom nú í heiminn. Hann var í heiminum og heimurinn var orðinn til fyrir hann en heimurinn þekkti hann ekki. Hann kom til eignar sinnar en hans eigið fólk tók ekki við honum. En öllum þeim sem tóku við honum gaf hann rétt til að verða Guðs börn, þeim sem trúa á nafn hans. Þau urðu ekki til á náttúrulegan hátt né af vilja manns heldur eru þau af Guði fædd. Og Orðið varð hold, hann bjó með oss, fullur náðar og sannleika og vér sáum dýrð hans, dýrð sem sonurinn eini á frá föðurnum.
[i]Texti sálmsins er eftir Sveinbjörn Egilsson og er texti hans frumsaminn fremur en þýðing. Matthías Jochumsson þýddi hins vegar texta Joseps Mohr: Hljóða nótt, heilaga nótt.