Góður maður spurði mig, hvort nokkur starfsemi væri Skálholtsskóla í vetur. Hann sagði mér einnig, að sveitungar okkar spyrðu sig hins sama. Þessu er til að svara, að um 700 manns hafa sótt námskeið og verið á ráðstefnum í skólanum í vetur. Flestir þessara hafa verið þátttakendur á námskeiðum, sem skólinn hefur staðið fyrir. Að auki hefur skólinn gengið til samstarfs með ýmsum aðilum og haldið námskeið. Þriðji hópurinn hefur síðan fengið aðstöðu í skólanum fyrir námskeið. Fjórði hópurinn, sem ekki er talinn með hér, eru fundarmenn á alls konar fundum, s.s. nærsveitungar á aõalfundi sauðfjárræktenda og undirbúningsfundir um Farskóla Suðurlands og annað í þeim dúr. Er mjög gleðilegt, að heimamenn finni sig æ betur heima í Skálholtsskóla. Það hefur verið yfirlýst stefna mín, að opna skólann fyrir starfsemi heimamanna. Dæmi um þetta eru kvöldnámskeið, sem hófust fyrir rúmlega tveimur árum.
Viðgerðir og ný skólastefna
Síðasta skólaár var skólahlé þrátt fyrir fjölda námskeiða. Þegar ég kom til skólans fyrir tveimur og hálfu ári, markaði ég þá stefnu að reka þrenns konar skólastarfsemi: heimavistardeild, kvöldfræðslu og standa fyrir námskeiðum. Ég hugsaði hina síðari þætti sem tilraunastarf í ljósi þess, að heimavistardeildin átti undir högg að sækja. Reynslan sýndi einnig, að Skálholtsskóli átti við sama vanda að stríða og margir aðrir heimavistarskólar. Nemendur þeir, sem sóttu til skólans, þörfnuðust meiri þjónustu en skólinn hafði mannafla til. Skólanefnd ákvað því, að reka ekki heimavistarnám 1988-89. Samþykktu menntamálaráðherrar áætlanir skólanefndar. Var ákveðið að nota hluta kennslukvóta til viðgerða á húsnæði skólans og móta nýja skólastefnu. Að þessu tvennu hefur verið unnið og gengið vel. Margir hafa undrast, að skólanum skyldi hafa verið úthlutuð rífleg fjárveiting á árinu1989. Skýringin er einföld. Skólahúsinu var aldrei lokið og viðhald var mjög lítið. Eftirlitsmenn ráðuneytis gerðu sér grein fyrir hinum miklu skemmdum, sem voru að verða vegna viðhaldsleysis. Niðurstaða margra funda var sú, að ráð væri að gera átak í viðhaldsmálum og fékkst góð fjárveiting á árinu til að ljúka skólabyggingunni og koma í gott horf.
Lok byggingaframkvæmda
Þá hefur Kirkjuráð samþykkt, að ljúka byggingu skólans til að skapa betri rekstrarmöguleika og auka fjölbreytni í skólahaldi. Standa nú yfir samningar við ráðuneyti um fjárveitingar til þessa. Viðbygging verður teiknuð á árinu og framkvæmdir væntanlega hafnar á næsta ári. Áætlað er, að byggja heimavistarálmu með 20 herbergjum til viðbótar beim 10, sem fyrir eru. Þá er áætlað, að byggja fjölnota sal fyrir ráðstefnur, sýningar, kennslu og létta leikfimi. Samtengt þessum sal verði bókasafn. Þá verður byggð lítil starfsmannaíbúð. Allir, sem nálægt rekstri skólans hafa komið, þekkja hversu rekstareiningin er lítil og hve starfsemi er þröngur stakkur skorinn. Þessar viðbyggingar munu tryggja, að hinn ytri rammi verði hagkvæm eining, sem gefur kost á mjög aukinni starfsemi. Þessar viðbyggingar eru forsenda þess að hin nýja skólastefna nái fram að ganga.
Ekki felldur niður – heldur efldur
Steinsteypa og rammi eru ekkert ef hjartsláttinn vantar. Skálholtsskóla verður breytt mjög. Lýðháskóli verður ekki lagður niður heldur efldur. Menn spyrja sig, hvað Skálholtsskóli sé og hafa horft mjög á rekstur heimavistardeildar. Lýðháskóli er ekki heimavistardeild heldur hugsjónastarf, mannrækt í anda þeirra tveggia þátta, sem fram koma í markmiðsgrein skólans: „Að starfa í anda kristinnar kirkju og þjóðlegrar menningar – arfleifðar okkar Íslendinga.“ Þó nú verði gerðar breytingar á starfi skólans, hefur enginn hug á að yfirgefa lýðháskólastarf heldur laga það að nútímaþörfum, bæði hvað varðar inntak og starfshætti. Fjallað verður um hagnýt efni annars vegar og hins vegar verða í stað vetrarlangs námskeiðs haldin stutt námskeið, frá tveimur dögum og allt að einum og hálfum mánuði. Ef aðstæður breytast og þegar húsnæði skólans er orðið meira er engan veginn útilokað að heimavistardeild verði stofnsett að nýju. Er rætt m.a. um lýðháskólanám í fimm Norðurlöndum og verði Skálholtsskóli einn skólanna, sem taki pátt í þeirri áætlun.
Arfur Íslendinga – samtíð og trú
Segja má, að starfsemi skólans frá hausti 1989-90 verði þrenns konar.
Í fyrsta lagi verður fjallað um íslenskan menningararf og tungu. Fjallað verður um átrúnað, bókmenntir, þjóðhætti og siði, listir o.fl. Þá verður efnt til námskeiða fyrir útlendinga um arf okkar. Skólinn verður m.a. gluggi útlendra manna til íslensks þjóðararfs, sem er næsta eðlilegt vegna sögu Skálholtsstaðar.
Í öðru lagi verða á dagskrá ýmis samtíðarmál. Efnt verður til námskeiða um deiglumál, hvert íslensk menning stefnir og ætti að stefna. Þá verður reynt að þjónusta nærsveitunga og Sunnlendinga eftir megni. Haldið verður áfram kvöldfræðslu. Gengið verður til samstarfs við Farskóla Suðurlands. Þá hefur skólanefnd fagnað áformum um stofnun Lista – og menningarsamtaka Suðurlands, sem Hjörtur Þórarinson hefur barist fyrir að yrðu stofnuð og ættu samastað í Skálholti. Mun skólinn reyna að veita þessari hugmynd brautargengi. Ljóst er að fjöldi námskeiða um átakaskeið ævinnar verða á dagskrá. Hjónanámskeið skólans hafa gefið góða raun. Áform eru um, að halda námskeið, sem nýst gætu fólki, sem er að glíma við nýjar aðstæður og ný hlutverk. Reynt verður að spanna lífsskeiðin frá þrítugsaldri og til elli.
Í þriðja lagi verður efnt til kirkjulegra samfunda. Komið hefur í ljós að þörf er fyrir kyrðardaga. Í haust mun verða haldið námskeioð fyrir verðandi leiðtoga og síðan verða kyrrðardagar haldnir reglulega. Í annan stað mun skólinn efna til námskeiða fyrir starfsmenn safnaða, s.s. sóknarnefndarmenn. Þá verða haldin námskeið fyrir leikmenn um ýmis efni, fyrir presta og þau sem sinna trúfræoðslu, t.d. fóstrur, kennara o.fl. Ráðstefnur, s.s. akademíur, vera ennfremur á dagskrá.
Framtíð og samvinna
Gróðrartími í Skálholti er hafinn. Eins og fræið fellur í myrkan svörðinn, spírar í kyrrð og myrkri hefur uppbygging farið fram með kyrru. Nú er komið að sprettutíð Skálholtsskóla. Skólinn tekur stakkaskiptum á árinu bæði hið ytra sem og hið innra. Ég vonast til, að kalblettir verði engir og starf hans verði okkur öllum til blessunar. Skólinn er líka vettvangur fyrir þig, sem lest þessi orð. Þú mátt vita, að hann er opin stofnun. Reynt er að koma til móts við óskir heimamanna. Raunar þarfnast hann þess, að í héraði sé hópur fólks, sem tekur pátt í starfi hans og slær vörð um hann. Verður í þessu sambandi að minna á mikið og fórnfúst starf Arnórs Karlssonar frá upphafi Skálholtsskóla. Breyting á starfi skólans gerir það mögulegt, að þjónusta heimamenn betur en áður. En slík þjónusta verður þá fyrst marksækin, ef heimamenn sýna frumkvæði og leita eftir henni. Með þökk fyrir umhyggju, fyrirspurnir og störf margra heimamanna síðastliðið ár.
Bestu kveðjur, Sigurður Árni Þórðarson
„Starf Skálholtsskóla og framtíðin“ (Litli Bergþór, 2. 10. árg. 2. 1989)