Greinasafn fyrir merki: Kiev 1952

Dagbók pabba – Kiev og Úkraína

Kveikjum ljós til stuðnings Úkraínu. Nú eru þrjú ár liðin síðan Rússar réðust á nágrannaþjóð sína. Okkur Evrópumönnum, raunar heimsbyggðinni allri, ber siðferðileg og pólitísk skylda til að styðja Úkraínumenn þar til réttlátur friður verður saminn. Við hugsum til Kiev og Úkraínuþjóðarinnar og biðjum og berjumst fyrir að ófriði linni. 
Við Jón Kristján, sonur minn, færðum í vetur á rafrænt form dagbók föður míns, Þórðar Halldórssonar, sem hann skráði þegar Sovétríkin buðu honum í ferð til Rússlands og Úkraínu í maí 1952. Hann var fulltrúi Sveinafélags byggingamanna og var í hópi Íslendinga sem var viðstaddur 1. maí-hátíðahöldin í Moskvu. Dabók pabba er mjög nákvæm og merkileg heimild og við gefum út síðar. Pabbi og ferðafélagar hans hrifust af friðarboðskap Sovét þessa tíma. En Rússarnir rufu friðinn fyrir fjórum árum – og raunar oft frá 1952. Hvar er réttlátur friður og hvenær verður hann? Einhvern tíma förum við feðgar svo í pílagrímaferð á þær slóðir sem pabbi heimsótti en það verður ekki fyrr en eftir eld. Greinilegt er að pabba þótti Kiev, sem hann skrifaði Kieff, merkileg og Úkraína – sem hann skrifaði Úkranía – heillandi. Á þessum minningardegi um hrylling árásarstríðs Rússa sem hefur staðið þrjú ár er vert að minnast þess að hernám Þjóðverja stóð í tvö ár og sjö mánuði. Pútín hefur kreppt krumlu sína lengur en Hitler. Hér er færsla pabba frá 8. maí, 1952, vordaginn þegar hann kom til Úkraínu og heillaðist af fegurð og unaði staðhátta og veðurs.
„8. maí. Borgin Kieff mun vera á sömu suðlægu breiddargráðu og London. En Moskva á sömu gráðu og Kaupmannahöfn. Ég sit núna inni í hótelherberginu og virði fyrir mér götuumferðina, sem er mikil. Allir gluggar eru galopnir en ylurinn og blómaangan og ilmurinn af trjánum verkar svo vel á mig að mér líður yndislega vel. Í stofunni eru 2 gluggar stórir, en undir þeim eru miðstöðvarofnar. Á gólfinu er stórt og þykkt teppi. Gluggarnir eru tvöfaldir og sólbekkirnir eru úr gulum marmara. Fínt skrifborð en á því er raflampi og stórt statív með skriffærum og blekbyttu úr marmara. Sest var að borðum kl. 4 og það var vegleg veisla. En viðtökurnar allar eru sérlega alúðlegar og rausnarlegar. Mjög var létt yfir borðum og virtist mér lífsgleðin meiri hér en ég á að venjast. Eftir að við höfðum etið og drukkið kl. 6 um kvöldið var okkur boðið út, til að skoða borgina og um leið gefnar ýmsar upplýsingar, sem að henni laut og auðvitað spurðum við margs. Á ófriðarárunum var Kieff hernumin í tvö ár og þrjá mánuði, en á þeim árum drápu þýsku nasistarnir 175 þúsund manns. Við komum að mörgum veglegum minnisvörðum: einn var af Lenín, annar var af stórskáldinu og mannvininum Letkensko, þessi stytta er í afar fallegum trjá og blómagarði, en við þennan mikla mann er kenndur háskóli einn hér í borg. Enn fremur er hér stórt safnhús helgað minningu þessa mikilmennis. Þá skoðuðum við enn eitt minnismerki af öðru mikilmenni, sem uppi var á seytjándu öld. Hann vann sér það til ágætis, að hann leysti þjóðina undan oki Pólverja. Styttan var reist 1888. Nú höldum við að háskólabyggingu, einni mikilli. Þar er stórt opið svæði, stór trjágarður með miklum trjágróðri. Öll eru trén í fullum blóma en uppi í trjánum er krökt af krákuhreiðrum, sem eru nýlega búnar að verpa. Hreiðrin eru eins og stórir hjálmar efst í trjátoppunum. Í háskóla þessum eru 5 þúsund nemendur, byggingarnar eru nýlega endurbyggðar því að á ófriðarárunum eyðilagðist háskóli þessi. Þá gengum við inn í ákaflega stóran og fagran trjágarð og mikið óskaplega er fallegt í þessum garði og veðrið er líka svo yndislega milt og blítt. Stór og vegleg myndastytta blasir við okkur og er hún af heilögum Valdimar f. 964. Dálítil hæð er hér í garðinum, auðvitað er hún skógi vaxin. Hún heitir Valdimarshæð. Nú blasir við áin Dnepr við okkur, hún er geysibreið og vatnsmikil. Alls staðar er skógur hvar sem litið er beggja megin árbakkanna. Hér er fjarska fallegt útsýni. Mikið athafnalíf er sjáanlegt hér, allt iðar af lífi niður við ána, mörg skip, flutningaprammar og bátar sigla eftir ánni. Gaman væri að dvelja heilan dag og helst marga daga í þessum yndislega fagra garði, en þess er ekki kostur því marg er að sjá í þessari fögru borg. Fylgdarmenn okkar sögðu að Kieffbúar væru mikið gefnir fyrir trjá og blómarækt og svo mikið væri af görðum í borginni að þar væru 22 m2 á hvern íbúa borgarinnar. Næst gengum við að þinghúsinu, það er stutt frá garðinum á undurfögrum stað. Hjá þinghöllinni stendur minnismerki til minningar um þá, sem féllu 1918 í borgarastyrjöldinni. Þingmenn eru 350 að tölu en þar af eiga 150 konur sæti á þingi. Á þinghúsinu blakti þjóðfáni Úkraníulýðveldisins. Hér stutt frá er reistur minnisvarði af hershöfðingjanum Watukin, sem frelsaði Úkraníu undan nasistum í síðar heimsstyrjöld, en féll stuttu síðar. Watukin lifði á árunum 1901 til 1944. Eftir að hafa skoðað þetta og gengið um götur borgarinnar sáum við geysistóra byggingu, en utan um hana voru vinnupallar. Við spurðum túlka okkar hvaða bygging þetta væri. Þeir sögu að þetta væri dómkirkja Kieffborgar og “Sankti Soffía”, sem reist hefði verið árið 1037 og þá byggð sem sigurtákn. Kirkjan hafði skaddast í síðustu heimsstyrjöld, og nú væri verið að gera við skemmdirnar. Næst stigum við upp í bifreiðir og ókum út fyrir borgina og komum að stórhýsi en þar eru gerðar kvikmyndir, húsakynnin eru afar mikil og margt starfsfólk og leikarar vinna hér við framleiðslu á kvikmyndum. Okkur var sýnd kvikmynd, sem sýndi úkranískt atvinnulíf o.fl. Þegar við komum út að sýningu lokinni, var farið að kólna í veðri og brá okkur mikið við hitann frá því í dag og var mér hrollkalt því ég var lítið klæddur. Við gengum gegnum stóran eplagarð. Garðar þessir eru eign starfsfólksins, sem vinnur við kvikmyndagerðina, og vinnur það við eplaræktina í tómstundum sínum. Á milli trjáraðanna voru stórar hálmhrúgur. Forstöðumaður kvikmyndanna, sem með okkur var, sagði að veðurstofan spáði næturfrosti, og ef svo yrði, væri viðbúnaður til að kveikja í hálminum um nóttina til að halda kuldanum frá eplatrjánum, svo að eplablómin ekki króknuðu úr kulda. Menn voru tilbúnir til að vaka yfir eldunum og fylgjast vel með öllu. Við þökkuðum fyrir okkur og kvöddum húsbændur með handabandi, stigum upp í bílana og ókum heim til hótels Intourist og beint upp í matsalinn á 2. hæð og átum kvöldverð en þá var kl 11 e.h. Þar á eftir tókum við á okkur náðir eftir viðburðaríkan og góðan dag.“