Greinasafn fyrir merki: kennari

Þriggja blýanta stríð

Skólabjalla Melaskóla hljómar enn falskt en dugar til síns brúks. Hvað er kennt í skólanum og hvaða blýantastefnu skyldu kennarar Melaskóla hafa? Gamalt stríð sem háð var af einurð kemur í hugann. Ég lenti í skotlínu á milli kennara og mömmu. Bæði voru ákveðin. Jón Þorsteinsson, minn frábæri kennari í Melaskóla, setti ýmsar reglur og ein var ófrávíkjanleg. Nemendur í bekknum hans skyldu hefja skólagöngu með því að koma með þrjá nýja og vel yddaða blýanta. Styrjöld var háð vegna þessarar reglu.

Ég var sendur í skóla með þrjá blýanta og þeir voru vel yddaðir. En þeir voru ekki nýir og ekki allir jafn langir. Þegar Jón kennari sá skriffærin hóf hann þunga sókn. Hin eiginlega bakvörn var mamma sem réði því sem hún vildi í skólamálum mínum. Henni þóttu blýantarnir mínir góðir og fullboðlegir. Með það mat fór blýantaberinn í skóla að nýju. Jón þykktist við og setti í brýrnar. Þá var mér ljóst að ég væri peð á milli stórvelda. Stríð var hafið og ég undi stöðu minni illa.

Ekkert skólasystkina minna dirfðist að gera uppreisn gegn reglum hins ákveðna skólamanns sem hafði fullkomið vald í skólastofunni. Hann var dagfarsprúður og öflugur kennari og hafði gott lag í sinni stofu og á sínu fólki. Öllum kom hann til náms og nokkurs þroska. Ég hafði enga trú á að nokkuð gæti brotið þennan helsta kraftajötun íslensks skólakerfis. Þegar Jón hafði gert sér grein fyrir að Sigurður Árni væri ekki annað en málaliði í umboði Svanfríðar sendi hann móður minni beiðni um að finna sig. Ég kveið þeim fundi og var viss um að nú mundi móðir mín lenda í mannraunum. Ég fylgist með því þegar hún fór róleg en ákveðin. Hún kom heim klukkutíma seinna og var þá rjóð í kinnum og með glampa í augum. „Þú ferð með blýantana þína í skólann eins og ég hef áður sagt þér. Kennarinn þinn mun ekki gera fleiri athugasemdir,“ sagði hún. Þetta voru mikil tíðindi af vesturvígstöðvum Reykjavíkur.

Síðar sagði hún mér að þau hefðu tekist á. Jón hafði gert henni grein fyrir að það væri ekki hennar að ákveða skólastefnu hvorki í hans bekk né Melaskóla. Móðir mín hafði hins vegar gert honum jafn skýra grein fyrir eðli foreldraréttarins og að hún hefði skýra uppeldisstefnu gagnvart drengnum sínum. Hún hefði ekki hugsað sér að kenna honum að sóa verðmætum heldur að nota bæði blýanta og annað sem til væri með ábyrgð og nýtni að leiðarljósi. Hún gerði honum grein fyrir gildum, siðferði og stefnu ábyrgðarinnar. Jón náði engum tökum á móður minni enda deildi hann sömu gildum. Í þessari baráttu var mamma sigurvegarinn. Jón var sanngjarn og skildi viðmið mömmu

Eftir orustuna umgekkst Jón Þorsteinsson drenginn hennar Svanfríðar með nokkurri varfærni ekki síst þegar kom að útbúnaði í skólatöskunni. Hann hafði uppgötvað að hann hafði tapað þriggja blýanta stríðinu gegn Svanfríði. Það var ljóst að hann bar virðingu fyrir svo ákveðnum uppalanda. Ég uppgötvaði að mamma var jafnvel öflugri en menntunarhetjur Melaskóla. Síðar á ævinni uppgötvaði ég að ég hef aldrei átt í neinum erfiðleikum með öflugar konur. Þær hafa aldrei skapað með mér ónotatilfinningu. Þar nýt ég uppeldis og mótunar í foreldrahúsum sem ég þakka. Mamma var hugrökk og forðaðist stríð en flýði aldrei. Hún var mikil af sjálfri sér. Hún var stórveldi ástar og umhyggju. 

Ásdís Jóhannesdóttir – minningarorð

Ásdís mynd 1b_ppÁsdís fór á bak hestinum. Vinkonur ætluðu í útreiðartúr. Svo lögðu þær af stað í góðviðri og sumarhita. Ásdís sat hestinn vel og alveg óþarfi að láta hann fara bara fetið. Grannur stúlkulíkaminn var léttur á baki, fingur héldu um taum og hestarnir fóru fljótt yfir, gangþýðir og viljugir – út tungurnar, alla leið út að Norðurá. Og svo fóru þær niður að ánni óhræddar. Þær þekktu Hábrekknavaðið og styttu sig ef áin næði upp á kvið hestanna. Svo fóru þær yfir, óttuðust ekki að falla í ána og svo upp á bakkann í Ytri-tungu og síðan alla leið heim til ömmu á Laxfossi. Þar var þeim vel tekið og bornar fyrir þær veitingar og gert við þær sem héraðshetjur.

Það er birta og yndisleiki í þessari mynd frá fjórða áratug tuttugustu aldar. Ásdís á ferð á heitum sumardegi, frjáls, fagnandi, skynug og meðvituð. Hún sá blómin, þekkti sögu umhverfisins, las landið, naut ferðarinnar, kunni að varast hættur, dró að sér ilm landsins og lyktina af heitum hestinum og gætti að sér að horfa ekki í struminn á vaðinu til að hana svimaði ekki. Svo heilsaði sínu fólki stefnuföst og frjálshuga. Það er gaman að gæla við þessa björtu ferðamynd og sjá í henni táknmynd um Ásdísarævina. Hún fór það sem hún vildi, var tengd gildum, sögu, landi og samhengi. Hún ræktaði tengslin við ættmenni og vinafólk, henni mátti alltaf treysta og hún stóð með lífinu.

Viturt hjarta

Matthías Jochumsson hreifst af nítugasta Davíðssálmi og orti út af þeim sálmi Lofsönginn árið 1874 sem síðar varð þjóðsöngur Íslendinga. Davíðssálmurinn er ljóð um mannlíf, samhengi og hlutverk mennskunnar í heiminum og er jafnan lesinn í kirkjum við áramót. Í fyrradag voru þessi orð lesin í kirkjum landsins og svo var þjóðsöngurinn víða sunginn í sömu athöfn, tvær útgáfur sama boðskapar. Í Davíðssálminum segir:

„Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns.
Áður en fjöllin fæddust og jörðin og heimurinn urðu til,
frá eilífð til eilífðar ert þú, ó Guð.
Þú lætur manninn hverfa aftur til duftsins
og segir: „Hverfið aftur, þér mannanna börn.“
Því að þúsund ár eru í þínum augum sem dagurinn í gær, þegar hann er liðinn, já, eins og næturvaka.

Kenn oss að telja daga vora,
að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Ævi manns er ekki aðeins það fæðast, að slíta barnsskóm, fara í skóla og sinna ástvinum og vinnuverkefnum lífsins – heldur hvað? Að lifa vel. Kynslóðir koma, kynslóðir fara – athvarf frá kyni til kyns. Börn fæðast og vaxa úr grasi, öðlast vit til sjálfsbjargar eða ná aldrei þroska. Og ívaf allrar sögu er: “Hverfið aftur þér mannanna börn.” Orðstír manna lifir vissulega, en allt mannlegt er sem grasið eða blómgróðurinn, sem lifnar – “hverfið aftur…” Hvað gerum við gagnvart því boði? Stöldrum við og biðjum bænina í þessu ljóði guðsmannsins Móse: “Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta?” Ásdís lifði vel og nýtti hæfni sína til að þroskast. Hún er þér fyrirmynd og til þroska.

Ævistiklur

Ásdís Jóhannesdóttir fæddist 21. október árið 1925. Foreldrar hennar voru Hildur Áslaug Snorradóttir og Jóhannes Jónsson. Áslaug var fædd á Laxfossi við Norðurá og Jóhannes á Hömrum í Þverárhlíð. Þeim Áslaugu og Jóhannesi varð tveggja barna auðið. Eldri var Snorri sem var liðlega þremur árum eldri en Ásdís. Þau Jóhannes og Áslaug bjuggu í Efranesi í æsku þeirra systkina, bjuggu góðu búi og voru dugmiklir og framsýnir bændur. Heimilið var rismikið menningarheimili. Jóhannes var gagnfræðingur frá Akureyri og hann var kennari í sinni sveit og kenndi einkum í skólahúsinu í Hlöðutúni.

Ásdís var efnisbarn, bráðskörp, fljót til bókar og bóksækinn. Jóhannes faðir hennar var umsjónarmaður lestrarfélagsins og sá um að bæta bókakost og lestrarefni sveitunga sinna. Ásdís hafði því þegar í bernsku góðan aðgang að bókum, hafði áhuga á þeim og inntaki þeirra og efni alla tíð. Hún lagði á sig að ná sér í bækur þegar komið var fram yfir svefntíma, lærði meira að segja að forðast brakandi gólffjalir þegar hún var að laumast í bækurnar seint á kvöldin.

Foreldrar Ásdísar kenndu henni og hún tók vel við. Þær mægður voru samstiga og Ásdís var alla tíð góð móður sinni. Pabbinn studdi og efldi dóttur sína til náms og kom vel til móts við námsgetu dóttur sinnar. Í foreldrahúsum lærði Ásdís strax að eitt eru gáfur og annað hvað menn gera úr. Lífshamingjan er áunninn. Þekkingu afla menn sér með því að nýta getu og gáfur og viskan er ávöxtur þekkingar, íhugunar – þroskuð úrvinnsla lífsefna, menningar og lífsreynslu. „Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.“ Hlöðutúnsskólinn reyndist Ásdísi vel og þar var hún í fjögur ár eins og jafnaldrar hennar.

Reykholtsskóli var í héraðinu. Héraðsskólarnir voru íslensk útgáfa hinna norrænu lýðháskóla og Reykholtsskóli var lengi góð menntastofnun. Foreldrar Ásdísar vildu að hún nyti góðrar menntunar og sendu hana í Reykholt. Þar var hún í þrjú ár. Hún átti auðvelt með nám og henni leið vel með bækur á milli handa. Hún fór suður vel undirbúin og margfróð og fór í Kennarskólann og beint í annan bekk. Ásdís lauk kennaraprófi árið 1946 og var strax ráðinn kennari til hins merka Laugarnesskóla. Þar starfaði hún sem barnakennari alla starfstíð sína og þar til hún lét af störfum árið 1993. Hún kenndi því börnum í Laugarneshverfinu hátt í hálfa öld.

Kennarinn

Og hvað er það að kenna börnum? Er það að tryggja að börnin kunni lágmark í reikningi, draga til stafs og geta lesið skammlaust af bók? Mann- og menntunarafstaða Ásdísar var ríkulegri en svo. Jú, hún kom þeim börnum til manns sem henni voru falin. En hún gerði meira, hún leit eftir hvernig börnunum liði, hvort þau nytu stuðnings og væru vel nærð. Ef ekki vann hún umfram alla skyldu, leyfði þeim að koma í skólann snemma til að gefa þeim matarbita sem voru vannærð og hjálpa þeim sem þurftu stuðning. Ásdís kennari var ekki aðeins menntunarstjóri heldur iðkaði það sem í kristninni hefur verið kallaður kærleikur. Hún hafði augun á fólki sem henni var falið að efla, sá það sem á vantaði, greindi geðslag og möguleika, styrkti þau sem hún gat og nærði með því móti sem henni sýndist best. Ásdís var því nálæg nemendum sínum og tengdist þeim vel. Mörg þeirra höfðu samskipti við hana í mörg ár eða jafnvel áratugi. Ásdís á þökk fyrir allt hennar starf að kennslu og mannrækt unga fólksins í Laugarnesskóla. Og falleg og lýsandi er sagan um að einn nemandi hennar nefndi dóttur sína Ásdísi til heiðurs kennara sínum.

Heimilið

Jóhannes faðir Ásdísar brá búi og hætti kennslu um miðjan aldur vegna heilsubrests. Foreldrar Ásdísar fluttu til Reykjavíkur og héldu heimili með henni. Fyrstu árin bjuggu þau í Hlíðunum en síðan keyptu þau saman hæðina á Silfurteigi 2. Jóhannes lést árið 1953 og síðan bjuggu þær mægður saman og með góðri samvinnu næstu tíu ár en Áslaug lést árið 1963. Var Ásdís alla tíð afar natin og umhyggjusöm dóttir og sá um að foreldrum hennar og síðar móður liði vel og nyti alls sem hún þurfti og vildi.

Heimili Ásdísar er prýtt bókum. Þar eru eiginlega fallegri bækur en á heimilum okkar hinna því flestar þessar bækur eru í fallegu bandi og bera vitni menningarafstöðu og öguðu fegurðarskyni. Bókakosturinn er eins og á vænu bókasafni. Og fallegar myndir eru á veggjum, myndir af fólki og dýrum í fallegu náttúruumhverfi. Svo eru húsgögnin falleg og heimilið ber smekkvísum fagurkera vitni.

Eigindir og tengsl

Hvernig manstu Ásdísi? Jú í henni bjó skapfesta, mannúð og reglusemi. Hún var merk kona og heiðarleg. Hún umvafði fólkið sitt elskusemi og afkomendur Snorra nutu vel og þeirra fólk. Þau hafa líka á síðari árum verið vakandi fyrir velferð hennar og gengið erinda hennar. Þau endurgjalda því að Ásdís var alla tíð vakandi fyrir þeirra velferð. Umhyggjan verður best þegar hún er gagnvirk.

Hvað er efst í hug þér er þú kveður Ásdísi? Hún hafði vakandi áhuga á öllu því sem íslenskt er. Hún lagði rækt við íslenskan menningararf, las mikið og á mörgum sviðum, s.s. sagnfræði, ljóð, skáldsögur, þjóðlegan fróðleik, náttúrufræði, byggðasögu. Og svo fór hún um landið í menningar- og sögu-rannsóknarferðir. Eitt sinn skiptu vinkonurnar Þuríður og Ásdís landinu í þrjá hluta og luku yfirferð eins-þriðja á ári. Í þessu þriggja ára Íslandsverkefni fóru þær yfir margar ár, margar tungur og hálsa, skoðuðu fjöll og byggðir, lásu land og menningu – „…að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Ferðarlok og upphaf annarar

Stúlkan sem sveiflaði sér upp á hest í Efranesi til að heimsækja ömmu fer ekki fleiri ferðir í þessum heimi. Engir litlir munnar fá mat eða nammi frá henni. Hún kennir ekki fleirum íslensku – hvorki í skóla eða símafjarkennslu. Ásdís fer ekki í fleiri rannsóknarferðir og fólkið hennar getur ekki lengur hringt í hana eða heimsótt hana. Bækurnar hennar eru eftir, myndirnar hennar og minningar um hana. Þær minningar má gæla við í huga og leyfa þeim að bera ávöxt í lífinu. „Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.“

Í þessari útfararathöfn umlykja okkur textar Íslandsástar – textar um smávini í náttúru Íslands, litskrúðug blómin – söngvar um ást til heimahaga og hins ögrum skorna Íslands. Og svo eru það líka undursamlegir textar jóla: Fögur er foldin, um göngu pílagrímsins, fram um víða veröld. Og kynslóðir koma, kynslóðir fara. Nú eru bæði systkinin frá Efranesi farin inn í himininn, foreldrarnir líka. En boðskapurinn sem var fyrst fluttur fjárhirðum lifir enn, textarnir um frið á foldu eru enn sungnir. Fagna þú maður, frelsari heimsins fæddur er. Já, við getum efast en áfram lifir vonin um að lífið sé ekki bara leikur þessa heims heldur eigi tíminn sér fang í eilífðinni og dauðinn sé aðeins för yfir vað til landsins hinum megin – himneskar Stafholtstungur og uppsveitir eilífðar – þar sem amma er, afi líka, pabbi og mamma og öll þau sem við elskum. Það er boðskapur kristninnar sem við megum trúa – vonarboðskapur – boðskapur um lífið.

Guð geymi Ásdísi.

Guð geymi þig og blessi.

Amen.

Jarðsett í Kópavogskirkjugarði. Erfidrykkja á Silfurteigi 2.

Sigurður Árni Þórðarson, s@neskirkja.is og s@sigurdurarni.is

Heimasíða: www.sigurdurarni.is