Greinasafn fyrir merki: kalkúnn

Kalkúnn fyrir jól

Við höfum notað þessa kalkúnauppskrift á okkar heimili í nær aldarfjórðung því matargerðin er prestsvæn. Elín fann uppskriftina árið 1986. Það er yndislegt að finn hvernig lyktin í húsinu á aðfangadegi undirbýr jól. Uppskrift fyrir 8.

4-5 kg kalkúnn

3 hnefafylli af ferskum sveppum

6-8 hvítlauksrif pressuð eða fínskorin

2 stilkar sellerí

250 g beikon til sneiðingar + 3-4 bréf til klæðningar

5 sneiðar brauð

2 msk dragon (terragon eða estragon)

200 g rjómaostur

½ tsk salt

Aðferð

Beikonið, u.þ.b. 250 g, er sneitt og látið krauma í potti. Skornu sellerí er bætt út í, þá sveppum og síðast hvítlauk sem estragon og salti. Hrærið allt saman og líka rjómaostinn. Hiti minnkaður. Þegar blandan er orðin bragðgóð er brauðið rifið saman við en skorpan ekki notuð og lögð til hliðar.

Fuglinn er kryddaður að innan með salti og pipar. Fyllingin er sett í kalkúninn og hann síðan lagður í smurða ofnskúffu sem búið er að krydda með salti og piparblöndu. Kalkúnninn er klæddur eða hulinn með beikonsneiðum og opið er einnig hulið með beikoni. Vængir og leggir eru einnig vafðir með beikoni. Þar sem kalkúnakjöt er fremur magurt kemur beikonið í veg fyrir að kjötið þorni. Fuglinn er settur í 200°C heitan ofn og hitinn lækkaður eftir 10 mínútur í 180°C. Ekki spara beikonið, mörgum finnst stökkt beikon gott. Óhætt er að treysta upplýsingum um að steikingartími sé 50 mínútur á hvert kíló. Til að athuga hvort fuglinn er tilbúinn er hægt að stinga hann þar sem hann er þykkastur. Ef safinn er tær er kalkúnninn nægilega steiktur. Ef beikonið verður ískyggilega dökkt er ráð að bregða álpappír yfir fuglinn.

Waldorfsalat

Waldorfsalat er nauðsyn! Epli, sellerí, græn vínber, sýrður og þreyttur rjómi. Ef valhnetur falla ekki í kramið er hægt að nota rifnar möndlur í staðinn. Síðan er gott að hafa bakaða kartöflubáta með. Þeim er raðað með hýðið niður í eldfast ósmurt mót. Saltað yfir og haft í ofninum síðustu 40-50 mínúturnar sem fuglinn er að steikjast. Rifsberjahlaup tilheyrir réttinum og árstíðinni. 

Sósa

Kalkúnninn er tekinn úr ofninum og settur á heitt fat. Vökvanum úr steikingunni er hellt í pott gegnum sikti. Fitu fleytt ofan af. Skafa má bragðgjafana úr steikarfatinu/plötunni og nota í sósuna. Bragðbætt með pipar og estragoni og síðan soðið með rjóma. Lögg af rauðvíni bætir líka. Á jólunum er um að gera að nota þeyttan rjóma og setja hann neðst í sósuskálina og hella sósunni yfir.

Friður á jörðu ríki og blessun meðal manna.

 Ef tími er til er hagnýtast að flétta beikonið á fuglinn. Þá sígur það ekki niður og hylur betur fuglinn. Svo er það fallegast og góð skilaboð. Í friði aðfangadagsins 2023 leit fléttan svona út.