Greinasafn fyrir merki: Jóna M. Sigurjónsdótir

Jóna M. Sigurjónsdótir

„…að hlæja hefir sinn tíma, að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma… “Prédikarinn 3.4.

Jóna geislaði í framan, augun hlógu, hún dansaði djive með stæl. Var alveg tilbúinn að leyfa Þórði að stjórna ferðinni. Hann fann hvernig hún fylgdi og naut augnabliksins. Þetta var þeirra dans laugardagskvöld, haustið ’58. Þau sveifluðust um á gólfinu og svo út í lífið. Sporin voru ólík eftir kröfum daga og aðstæðna. Alltaf voru þau í faðmi hvors annars, allt til enda fyrir viku. Þar voru lokin, vangadansinn.

Fyrstu spor Jónu voru á holtum og mýrardrögum við þarafjöru Skerjafjarðar. Hún tók þátt í ævintýrinu, þegar Ísland nútímans varð til, lagði til þess líf sitt, þjónustu, sögur og gæsku. Jóna var flottur dansari, skynjaði ryþmann, vissi nákvæmlega hvenær gefa skyldi eftir og hvenær bæri að taka hlé. Hún gaf og umvafði, varð sínum mikil móðir, faðmur og maki. Hvað er lífið, hvernig er hægt að lifa? Hvað er að lifa vel?

Ætt og samhengi

Hanna Jóna Margrét fæddist í Reykjavík 13. febrúar 1942. Foreldrar hennar eru Guðrún Ingibjörg Jónsdóttir og Sigurjón H. Sigurjónsson og lifa hana bæði. Systkini Jónu eru Sigurjón, Guðjón, Viðar og Gunnhildur. Guðjón lést árið 1990. Nýfæddri var Jónu komið fyrir hjá Margréti Kjartansdóttur og Georg Jónssyni, á Reynivöllum. Vesturbæingar, sem komnir eru á miðjan aldur, muna Georg, sem fór um á Austin Gypsy og færði húsmæðrunum bökunaregg! Margrét og Georg tóku Jónu að sér og urðu fósturforeldrar hennar. Í börnum þeirra eignaðist Jóna einnig fóstursystkinin, Önnu og Kjartan. Jóna átti því stóra fjölskyldu, marga til að læra af og halla sér að.

Uppeldisreitur og atvinna

Jóna bjó lengstum í Skerjafirði. Hún sótti hverfisskólann, Melaskóla, sem var nýbyggður þegar hún kom þar við sögu. Þaðan fór Jóna síðan í Gaggó Vest. Þegar á unglingsárum axlaði hún ábyrgð á heimilisrekstri á Reynivölllum, sem nú heitir Skildinganes 4. Hún varð snemma móðir og kunni uppeldisstörfum vel og sameinaði því að hlúa að fósturföður, tengdamóður og fjölskyldu. Eftir stuttan stans í Stigahlíð flutti Jóna í Skerjafjörð að nýju. Með húsmóðurstörfum gætti hún barna og varð svo líka forystukona dagmæðra. Jóna vann ötullega að réttindamálunum og varð fyrsti formaður samtaka þeirra í Reykjavík.

Þegar Jóna lét af barnfóstrinu hóf hún að vinna á skrifstofu Bæjarútgerðar Reykjavíkur. Síðan lá leiðin á Borgarspítalann og enn síðar í hið mikla brauðhús Mylluna. Nokkur sumur sá hún um kaffihlaðborðið í Nesbúð á Nesjavöllum og eitt sumar vann hún að veitingastörfum í torfbænum á Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Jóna var ekki bundin við landsteina, fór m.a. segja á sjó einu sinni á frystitogaranum Örvari. Einn túr var alveg nóg til að hún gerði sér grein fyrir að velgja fylgdi veltingi! Síðustu árin var Jóna síðan starfsmaður Hagaskóla, matmóðir unglingana í Vesturbænum og var þeim að auki stuðningur og stefnuviti. Þar fylgdi störfum engin ógleði.

Þórður og fjölskyldan

Þegar Jóna fór snemma á dansleikinn í Gúttó laugardagskvöldið 1958 kom hún auga á strákinn, sem var svo góður dansherra. “Þarna er hann” sagði hún við vinkonurnar sínar, var hrifinn og hafði sett kúrsinn. Auðvitað hafði hún séð Þórð M. Adólfsson og féll fús í faðm hans, leyfði honum að stjórna á dansgólfinu. Þau dönsuðu síðan saman í gegnum lífið, með öllum sporum og tilbrigðumn valsa og ræla. En það var ekki alveg einfalt að giftast Þórði. Jóna þurfti leyfi frá forsetanum til! Hún var það ung. Svo gengu þau í hjónaband heima í stofu 14. nóvember 1959, á afmælisdegi Dodda.  

Þeim Jónu og Þórði fæddust fimm börn. Fyrst var Margrét Þórunn, en hún lést aðeins 10 mánaða gömul. Allir foreldrar ættu að geta skyggnst inn í sorgina, sem þau voru þá slegin. En svo kom Sólborg Hulda og hennar maður er Atli Karl Pálsson. Sigurjón var næstur. Kona hans er Hrafnhildur Garðarsdóttir. Þá kom Ragnheiður Margrét. Maður hennar er Jón Oddur Magnússon. Yngst er svo Gróa María. Maki hennar er Baldvin Kárason.

Jóna var alla tíð mannræktarkona. Hún ól önn fyrir fósturforeldrum, foreldrum, skyldfólki og börnum. Og hún var lukkukona í lífinu, átti væn og góð börn, naut ástríkis þeirra og barnabarna og afkomenda. Hún gekk undir sínu fólki ef þess þurfti með, agaði ef á þurfti að halda, sótti ef þau voru strand einhvers staðar, átti alltaf bita í munna, fullan ísskáp af ribssultu til að seðja svanga smákroppa. Amma Jóna studdi barnabörn sín. Jóna hafði unun af að leika sér með sínu fólki, hún föndraði gjarnan með þeim.

Jóna sótti barnabörn út í bæ eða jafnvel norður í land, þegar eitthvað stóð til eða mikið lá við. Hennar fólk stóð aldrei munaðarlaust eða ráðlaust einhvers staðar. Þegar Jóna hafði greint stöðuna, fór hún af stað og tók til sinna ráða og Doddi fór með. Í öllum efnum, verkefnum og atferli smitaði hún þeirri lífskúnst að viðfangsefni væru síður vandamál en viðfangsefni. Hugsun og lífsafstaða Jónu var ekki kreppumiðuð heldur mun fremur lausnamiðuð. Því leystust öll mál í hennar höndum og hún hafði ávallt skoðun á hvað færi best og væri farsælast.

Félagsmál

Bjartsýni, dugnaður og jákvæðni smitar og því var eðlilegt að Jóna væri eftirsótt í félagsstarfi og meðal fólks. Hún starfaði um árabil í skátafélaginu Landnemum og var þar deildarforingi, fór í útilegur og hélt námskeið. Hún axlaði eðlilega ábyrgð og var forystukona. Hún var því frumkvöðull að mótun þegar hún hóf afskipti af réttindabaráttu hinnar nýju stéttar dagmæðra. Síðan tók Jóna að leggja kirkjunni sinni lið og varð formaður í Kvenfélagi Neskirkju, sem hefur um áratugi verið helsta driffjöðrin í að fegra kirkju og hlúa að hinu andlega heimili, sem kirkjan er. Þar var Jóna í forystusveit vaskra kvenna. En nú falla þær hver af annarri og kvenfélagið með þeim. Þökk sé þeim öllum og þökk sé Jónu hennar störf í þágu kirkjunnar.

Síðan var hún öflugur uppalandi  þúsunda ungmenna í Vesturbænum, þar sem hún stýrði mötuneyti í Hagaskóla. Hún kenndi kúnstugum að skilja, hafði stjórn á ungviðinu. Nemendur Hagaskóla voru fljótir að læra, að það þýddi ekki að reyna að snúa Jónu niður eða trufla friðinn. Ef þau ætluðu lengra en góðu hófi gegndi eða breyta leikreglunum sem hún setti lokaði hún bara sjoppunni. Jóna iðkaði stefnumál Hagaskóla, að koma öllum til nokkurs þroska. Hún ól með sér jákvæða mannsýn. Hún tamdi sér umburðarlyndi gagnvart hegðun, tilraunum, og lífsferli annarra. Hún skildi fjölbreytileikann og að fólk er ólíkt. Hún mætti fólki þar sem það var og á þess eigin forsendum. En sjálf fór hún eigin leið, lagði gott til, dæmdi ekki, en skemmti sér svolítið og hló að hinu kátlega.

Húsmóðirin

Tíu ára byrjaði Jóna að sjá um heimili í Skerjafirði, ung var hún þegar hún fór að elda krásirnar fyrir Dodda sinn sem alltaf tók vel við og hafði líka á henni matarást. Margir voru barnamunnarnir, sem hún eldaði fyrir, oft var hún að matargerð, og hafði löngum atvinnu af. Líklega fannst henni best að elda það sem munnarnir tóku við. Matur var fyrir lífið, en ekki endir í sjálfu sér. Jóna var listakokkur en hún var ekki síðri baksturssnillingur. Aldrei neitt mál að slá í köku og þeir sælkerar Nói og Síríus höfðu vit á að gefa út kökuhefti, sem Jóna sá um. Alltaf var hún veisluglöð, efndi til þorrablóta með vinum og hélt stórveislur heima. Hún hafði gaman af nýjungum í matarmálum, sótti námskeið, gerði það jafnvel að hobbíi að fara með dætrum sínum á matarnámskeið Hagkaupa. Þau Jóna og Þórður þjónuðu sínu fólki, urðu í því fyrirmynd fyrir börnin sín og vini. Er það ekki undursamlegt að nú þegar hún er öll kemur þetta fólk, stendur saman, og leggur til allar veitingar og þjónustu í erfidrykkjunni í safnaðarheimilinu hér á eftir. Í því greinum við tjáningu og þakklæti. Og Þórður og fjölskyldan eru böðuð í kærleika. Þegar maður er opin sorgarund sefar umhyggjan. Guð laun.

Af hverju?

“…að hlæja hefir sinn tíma, að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma…” segir í þeirri fornu spekibók Prédikaranum. Af hverju er hún Jóna hrifin á brott í miðju dagsverki? Hvað tilgangur er í því? Vildi Guð taka hana á brott? Nei, Guð slítur ekki ástvini okkar úr faðmi okkar, úr lífi okkar. En Guð hins vegar tekur við þeim, sem við elskum og varðveitir þau. Á því er allur munur, að Guð beitir sér ekki í dauða, heldur tekur við hinum látnu. Það er ekki einhver hulin ráðsályktun fólgin í að fólk deyr fyrir tímann og Jóna fór fyrir aldur fram. Hún dó í miðju dagsverki, hún dó frá fólki sem þarfnaðist hennar, Þórður og öll börnin hennar hafa misst hana. Það er stóra sorgarefnið, en svo er það verkefni okkar sem lifum að vinna með höggið, bregðast við því og rísa upp þó mátturinn sé veikur. Jóna stefndi á lausnir.

Hvað er lífið og til hvers? Jóna var mikil fyrirmynd, hvati til að lifa vel, þjóna öðrum, umfaðma þau sem þörfnuðust hjálpar, hlý hendi þeim sem var kalt eða voru óstyrk. Alltaf reiðubúin til að efla og styðja, næra, klæða, strjúka. Amma Jóna var fullkomin, sagði lítil kona í Skildinganesinu í fyrradag.

„…að hlæja hefir sinn tíma, að kveina hefir sinn tíma og að dansa hefir sinn tíma…” Sorgin kemur til okkar allra og við missum. Ekkert okkar sleppur. Það er mikilvægt að muna, að hláturinn hefur líka sinn tíma, brosin, spaugið, strokurnar líka. Hin helga bók hefur líka orð um dansinn, hann á sinn tíma.

Sporin fram á við, mjaðmahnykkur og hlátur þeirra Jónu og Dodda. Hamingjuspor alla ævi, lifandi hjörtu fólksins sem þau elskuðu allt umhverfis þau. Dansinn dunaði í öllum myndum, við ljósa daga og skuggsetta. En vangadansinn endaði á föstudeginum fyrir viku síðan, Jóna lést 6. maí, inn í vorið, inn í hvítasunnu, inn í söng fulglanna við Skerjafjörðinn. Ribsberjarunnarnir hennar blómstra, berjavísarnir eru margir í ár, en Jóna er fjarri, fingurnir hennar munu ekki fara um grannar greinar og lesa bleik og rauð berin næsta haust. Hún mun ekki sulta í ár.

En hún heldur áfram dansinum, á dansgólfinu stóra í “Guttó himinsins.” Þar hindra engin ökklamein, þar er ræll og tangó ein samfelld skemmtun. Því þar ríkir gleðin ein, þar eru þær mæðgur saman, áar og eddur, frændgarðurinn allur, því þar er Guð, himinn, elska og gáski.

Í því er vonarboðskapur kristninnar að dauðinn er ekki meir, því Guð er Guð lífsins, lætur sig velferð manna varða, alls sem er. Lífið er ekki lítið og smátt, heldur mikið og gott, því Guð elskar, bæði þig og Jónu. Það er hinn himneski djive.

Neskirkja, 13. maí 2005