Greinasafn fyrir merki: Jón Pálmi Þorsteinsson

Jón Pálmi Þorsteinsson + 1915 – 2015

Jón var traustur og áreiðanlegur. Það er vitnisburður barna hans og ástvina. Mér þótti áhrifaríkt að sitja með konu hans og börnum og upplifa traustið í þeim, tengsl og hlýja virðingu – samstöðuna. Traustið sem þau tjáðu með ýmsum hætti rímaði við það sem við nemendur Jóns fundum ávallt og virtum. Jón var ákveðinn, ljúfur og kraftmikill kennari sem við gátum algerlega reitt okkur á og treyst.

Frumtraust

Þessi tilfinning fyrir trausti í Jóni og fólkinu hans minnti mig á kenningu um frumtraust, sem Erik Erikson, einn merkasti sálfræðingur Bandaríkjamanna  á tuttugustu öld, setti fram og hafði mikil áhrif í fræðaheiminum. Jón hafði áhuga á sálfræði og stefndi jafnvel á nám í þeirri grein vestan hafs þó aðstæður styrjaldarára hafi hindrað að hann færi vestur þó hann hefði fengið skólavist. Erikson dró saman efni úr umfangsmiklum rannsóknum og hélt fram að til að barn nái eðlilegum þroska þurfi það að hafa tilfinningu fyrir að andlegum og líkamlegum þörfum þess sé fullnægt og að veröldin sé góður og viðfelldin staður. Þegar þessum þáttum er fullnægt skapast frumtraust – sem er afstaða til lífsins.

Manstu eftir hve Jóni var annt um að öllu hans fólki liði vel? Hann spurði gjarnan um velferðarþætti og var ekki í rótt nema að hann gæti treyst að öllu væri óhætt og vel fyrir komið. Hann spurði um grunnvelferð og vildi að allir nytu hennar, að fólkið hans nyti góðra aðstæðna til þroska, menntunar og hamingju. Og þau atriði eru ekki aðeins mál sálfræði eða skóla, fjölskyldu eða prívatlífs heldur varðar einnig inntak trúar. Traust er trú, trú verður aldrei skilin, ræktuð eða þroskuð nema í anda trausts. Trú deyr í vantrausti. Og þegar dýpst er skoðað er mál Guðs hið sama og Jóns Þorsteinssonar að tryggja traust fólks til að lífið lifi – að allir nái þroska og fái lifað og notið hamingju. Það var erindi Jesú Krists í veröldinni að treysta grunn tilveru manna og alls lífs – að menn megi lifa sem börn í traustu samhengi.

Upphaf

Jón Pálmi Þorsteinsson fæddist 19. október árið 1915 í Gröf í Kirkjuhvammshreppi í V-Húnavatnssýslu. Foreldrar Jóns voru hjónin í Gröf, Þorsteinn Sigurður Jónsson (f. 4. 1.1874 í Mölshúsum Bessastaðahreppi, d. 1.7.1930) og Sigríður Hallný Pálmadóttir (f. 27. 7.1874 í Hraundal Nauteyrarhreppi, d. 18.9.1953). Jón var yngstur systkinanna. Elstur var Hrólfur Jóhannes sem fæddist árið 1907 og Hansína Kristín fæddist ári síðar. Valgerður fæddist árið 1910 og svo kom Jón í heiminn fimm árum síðar. Uppeldisbróðir þeirra var Þorsteinn Ásgeir Hraundal. Nú er allur þessi hópur farinn inn í eilífðina og Jón var síðastur þeirra.

Jón naut frumfræðslu á heimaslóð og ólst upp við sveitastörf og lærði að bjarga sér og hvert gildi vinnu væri. Árið 1930 – þegar Jón var aðeins 14 ára gamall – lést faðir hans. Alþingisárið varð því ekki fagnaðar- heldur sorgar-ár í fjölskyldunni og breytti algerlega stöðu og afkomu hennar. Það var Jóni ekki aðeins tilfinningalegt álag að missa föður heldur breytti menntunarmöguleikum hans til hins verra. En presturinn í Hindisvík á Vatnsnesi kom til hjálpar. Hann hafði grun um hvað byggi í fermingardrengnum og tók hann til sín til að kenna honum og styðja til bókar og þroska. Á þeim árum tóku prestar gjarnan nemendur á heimili sitt og urðu því margir menntunarhvatar og mikilvægir skólamenn. Og að mér hefur læðst að við nemendur Jóns Þorsteinssonar höfum notið einhverra kennsluhátta eða áherslna sem hann lærði af klerki. Í Hindisvík lærði Jón ekki aðeins að opna augu, eyru og hjarta gagvart tungumálum og fjölbreytni heimsins og merkilegum bókum heldur líka að mikilvægt væri að vernda líf og náttúru. Það er ekki aðeins mannfólkinu mikilvægt að traust sé virt og ræktað heldur náttúrunni einnig. Klerkurinn vildi jafnvel friða seli og hvali og virða lífríkið. Hann var því á undan samtíð sinni en blés nemanda sínum hugmyndum í brjóst.

Frá Hindisvík fór Jón svo til náms í Héraðsskólanum á Reykjum í Hrútafirði. Þar var hann á árunum 1933-35. Þegar Jón hafði svo náð að öngla saman nægilegu fé fór hann suður og í Kennaraskólann og lauk þaðan kennaraprófi árið 1937. Þaðan í frá hafði hann atvinnu af að kenna grunnskólanemum. Hann var kennari á Barðaströnd veturinn 1937-8 og næsta skólaár við Hörðudalsskóla í Dalasýslu. Síðan lá leiðin norður í Skagafjörð og hann kenndi við Hofstaðaskóla veturinn 1939-40.

Jón missti föður sinn árið 1930 og Hrólfur, elsti bróðir hans, var það mörgum árum eldri að hann eignaðist í honum fyrirmynd, stoð og styrk. Það var því annað áfall þegar þessi glaðsinna og öflugi bróðir fórst vegna árásar þýsks kafbáts á togarann Pétursey í mars árið 1941. Jón lærði því snemma að ekkert er sjálfgefið og altryggt í þessari veröld.

Árið 1944 fékk Jón stöðu sem kennari við Barnaskóla Siglufjarðar og þar var hann á árunum 1944-51. Svo kenndi hann í eitt ár í einhverjum besta skóla þjóðarinnar á þeim árum, Laugarnesskóla í Reykjavík 1951-2 og svo í Langholtsskóla í Reykjavík næsta skólaár.

Frá árinu 1953 til loka starfsferils í þágu hins opinbera var Jón Pálmi Þorsteinsson kennari í Melaskóla. Kennaralaunin hafa aldrei verið há og til að treysta fjárhag fjölskyldu sinnar stundaði Jón löngum smíðar meðfram kennslu. Hann tók sér hlé á kennslustörfum á stríðsárunum og smíðaði í Reykjavík á árunum 1940-44.

Lovísa Bergþórsdóttir

Svo sáust þau Lovísa Bergþórsdóttir og Jón. Það var ekki á rúntinum í Reykjavík eða á síldarplani norður á Siglufirði heldur á Oxfordstreet í London! Margir hafa farið þangað í verslunarerindum en fá hafa verið eins lánsöm og þau Lovísa og Jón að finna hvort annað á þeirri merku götu í heimsborginni. Oxfordstreet – og það var gaman að sjá ljómann í augum Lovísu þegar hún sagði okkur söguna og að þau Jón voru á sama hóteli – eins og ástmögurinn á himnum hefði laðað þau saman með snilldaráætlun. Og Lovísa mundi hvernig Jón hafði verið klæddur og endurþekkti hann jafnvel á fötunum. Svo kynntust þau, fundu festuna í hvoru öðru, ástin kviknaði og þau luku árinu 1950 með því að ganga í hjónaband 30. desember. Síðan hafa þau verið hvors annars og átt stuðning hins. Í 65 ár – þvílík blessun og gæfa, þeim báðum, börnum þeirra og afkomendum. Mikið þakkarefni og ekki sjálfsagt. Og Oxfordstreet verður héðan í frá ástarstræti í mínum huga.

Þau Jón og Lovísa nutu láns í fjölskyldulífi sínu og eignuðust tvö börn og sjö barnabörn. Pálmi er eldri og fæddist í október árið 1952. Hann er læknir. Kona hans er Þórunn Bára Björnsdóttir, myndlistarmaður. Þeirra börn eru Lilja Björnsdóttir, Jón Viðar, Vala Kolbrún og Björn Pálmi.

Lilja er læknir og hennar maður er Einar Kristjánsson hagfræðingur. Þau eiga börnin Kristján, Lilju Þórunni, Sóleyju Kristínu og Birtu Lovísu.

Jón Viðar er hagfræðingur og sambýliskona hans er Lára Kristín Pálsdóttir, stjórnarráðsfulltrúi. Börn þeirra, hennar úr fyrra sambandi, eru Björk, Freyja og Lilja Sól.

Eins og mörg önnur í fjölskyldunni er Vala Kolbrún læknir. Hennar sambýlismaður er Jón Karl Sigurðsson, stærðfræðingur.

Björn Pálmi Pálmason er tónlistarmaður og kona hans einnig. Hún heitir Veroníque Vaka Jacques.

Jóna Karen er yngra barn þeirra Jóns og Lovísu. Hún er vorbarn, fæddist í maí 1955. Hún er hjúkrunarfræðingur. Hennar maður er Ólafur Kjartansson, læknir. Þau eiga þrjú börn: Lovísu Björku, Kjartan og Davíð.

Lovísa Björk er, læknir og hennar sambýlismaðurer Laith Al Rabadi, læknir. Hún kemst ekki til þessarar athafnar vegna starfa sinna í Boston en biður fyrir kveðjur til ykkar.

Kjartan er rafeinda- og verkfræðingur. Davíð lærir til læknis og kona hans er Ramona Lieder, náttúrufræðingur. Þau eiga dótturina Önnu Lovísu.

Jón skapaði traust í fjölskyldu sinni og uppskar traust í fjölskyldutengslum. Honum var í mun að öllum liði vel – nytu frumtrausts í lífinu.

Minningar

Hvaða minningar áttu um Jón Þorsteinsson? Ég á mínar því Jón var kennari minn í grunnskóla. Ég man hve annt honum var um velferð okkar, nemendanna. Hann hélt skapandi aga í bekk sínum, hafði lag á að móta skikkan sem þjónaði námi og framförum. Hann tamdi okkur aga í öllu greinum, m.a.s. hve marga og hvernig blýanta við áttum að hafa í pennaveski okkar í skólanum – þrjá, langa og vel yddaða.

Melaskóli var og er merkileg menntastofnun og þar voru margir afburðakennarar. Jón var einn af þeim bestu og kunnur að skila öflugum námsmönnum til Hagaskóla. Við bárum virðingu fyrir umsjónarkennara okkar, og sú afstaða – eins og traustið – varð til í samskiptum. Jón bjó okkur skýran ramma, gerði skiljanlegar kröfur, studdi okkur þegar við vorum óviss og gerði okkur grein fyrir hvar mörkin lágu. Því leið öllum vel í bekk hans og hann gætti þeirra sem áttu undir högg að sækja heima. Þau börn sem bjuggu við einhverja óreglu eða óreiðu farnaðist vel í bekkjum Jóns og fundu í honum styrka föðurímynd. Svo þótti okkur ekki verra að Jón var örugglega lang-sterkasti kennarinn í skólanum. Ég vil fyrir hönd okkar nemanda Jóns Þorsteinssonar bera fram þakkir fyrir öll kennslu- og menntastörf hans og metnað fyrir okkar hönd – og einnig færa fram þakkir fyrir hönd Melaskóla og Vesturbæinga sem nutu starfa hans og kennslu í áratugi.

Eigindir

Hvernig var Jón Pálmi Þorsteinsson?

Manstu hve orðvar hann var? Að hann stóð alltaf í skilum með alla hluti. Manstu að hann var stólpi til að styðja sig við? Manstu hve vænn hann var í samskiptum við konu sína. Manstu eftir honum hjólandi heim í hádeginu til að eiga stund með sínu fólki? Manstu eftir honjum í stólnum sínum, ekki með ipad í hönd heldur bók? Kannski var það bók á ítölsku eða frönsku, sem hann hafði lært í sjálfsnámi eða bók um hugleiðslu. Manstu eftir áhuga hans á andlegum fræðum, heilbrigðum lífsháttum og hollri fæðu – eða eftir sundmanninum Jóni? Manstu eftir hve annt honum var um fagra tónlist? Tefldir þú við hann einhvern tíma? Manstu frímerkjamanninn og myntsafnarann? Kunnátta hans í þeim fræðum varð fjölskyldu hans til búdrýginda. Manstu hve heimakær hann var? Jón fór og hitti fólk og tók þátt í félagslífi samfélagsins en sagði gjarnan þegar hann kom í ganginn heima að alltaf væri best að vera kominn heim.

Við skilin

Jón Pálmi Þorsteinsson átti gott og gjöfult líf, naut ástríkis í hjúskap, bjartsýnnar og ljóssækinnar eiginkonu, hamingju fjölskyldu og farsældar í störfum. Hann naut lífsins og við sem kynntumst honum nutum hans fjölmörgu kosta. Svo var hann tilbúinn að fara. Eitt sinn varð hann alvarlega veikur og þá kom í ljós að hann óttaðist ekki skilin eða brottför sína. En nú er hann farinn en skilur eftir dýrmætar minningar. Þær minningar varða alúð í samskiptum, leik við heimilisdýr, skilning á þörfum barna sinna og annarra. Dóttir hans sagði eftirminnlega frá að hann var janvel tilbúinn að ná í peninga úr heimilissjóðnum til að kaupa hvíta kápu á hana unglinginn.

Nú er þessi trausti og væni maður farinn inn í þann himinn sem kenndur er við traust – og dýpsta traust varðar trú og reynslu af hinum farsæla. Nú er hann kominn heim og þar er best. Maður nær heillar aldar er alfarinn inn í eilífðina. Ég treysti að fyrir honum sé vel séð, hann megi njóta friðar í því ríki þar sem lífið er ekki bara fagurt heldur friðað af þeim Guði sem er traustsins verður og boðar traust.

Guð geymi hann og varðveiti um eilífð. Guð geymi þig og gefi þér traust og trú.

Amen

Útför Jóns Pálma í Fossvogskapellu fimmtudaginn, 2. júlí, 2015. Bálför og jarðsett í duftgarðinum Sóllandi.