Greinasafn fyrir merki: jólaminning

Jólakertið

Vilhjálmur Eyjólfsson á Hnausum í Meðallandi skrifaði æviminningar Einars Einarssonar, oddhags völundar og djákna í Grímsey. Vilhjálmur var vinur minn og ég tölvusetti handrit hans sem var síðar prentað í Dynskógum, héraðsriti Skaftfellinga. Þessar minningar eru hinar merkustu og vænst þykir mér um jólaminningu Einars djákna. Hún er hér að neðan. Nú erum við samverkamenn í Hallgrímskirkju, við Grétar Einarsson, sem er sonur djáknans, mikill dug- hug- og öndvegismaður. 

Jólakertið

eftir Einar Einarsson, djákna.

Það var aðfangadagskvöld jóla og ég hef líklega verið fimm eða sex ára. Það var gott veður og tungsljós, en all mikið frost. Foreldrar mínir höfðu lokið útiverkum. Þetta voru ekki mikil útiverk því skepnurnar voru fáar. Faðir minn gaf kindunum en mamma hrossunum, sem voru aðeins tvö. Og hún var búin að sjóða hangiketið. Búin að baka flatbrauð, steikja kleinur og vinna fleiri eldhúsverk, sem hátíðinni heyrðu til, steypa tólgarkerti og brjóta spýtur í eldinn, til að þurfa ekki að gera það á jóladag. Þá var barið að dyrum og mamma fór til dyra. En gesturinn var góðkunningi okkar, sem átti heima í sveitinni, ekki langt frá okkur og var nú að fara heim til sín. Í hægri hendi hélt hann á einhverju, sem var vafið inn í gljápappír. Ég varð allur að augum og eyrum og gesturinn rétti mér pakkann. „Þú verður að fara vel með þetta,“ sagði gesturinn. „Það má ekki detta. Það getur verið brothætt. Þetta er gjöf, jólagjöf til þín frá huldukonu.“ Ég stóð þarna með pakkann í höndunum, hissa og hálfhræddur. Oft hafði ég heyrt um huldufólk og vissi, að það var gott fólk, en það varð að umgangast það með sérstakri góðvild, annars gat maður haft verra af. Það mátti ekki kasta steinum út í lofið eða einhverjum hlutum, án þess að vita hvað fyrir væri. Þetta gilti auðvitað gagnvart öllum lifandi verum. En okkur var sagt, að forðast þetta vegna huldufólksins. Það mun hafa verið áhrifameira. Í syðri hluta baðstofunnar voru sauðkindurnar og kýrin, værðarleg og jótrandi. Þeim hafði verið gefið betra hey en vanalega og bráðum mundu þau fara að sofa eins og við. Þrátt fyrir jólagjafirnar gaf ég mér tíma til að koma til dýranna og gæla við þau. Ekki gleymdi ég vini mínum, gamla hrútnum. Ég hafði fengið að gefa honum tuggu af góðu heyi og nú vildi hann láta klóra sér. Ég gerði það eins vel og ég gat og svo sagði ég við hann „gleðileg jól.“

Hátíðin nálgast og við erum búin að skipta um föt. Í baðstofunni loguðu 3 ljós, tveir lýsislampar og einn olíulampi, táknmál heilagrar þrenningar. Svo kemur mamma með matinn og hann er betri en venjulega. Og skepnurnar fengu líka betra hey þetta kvöld. Eftir kvöldmatinn var húslesturinn lesinn. Var það jólapredikun úr Vídalínspostillu. Ég sat á vinstra hnénu á pabba og fletti fyrir hann blöðunum, um leið og hann las. Eitt sálmavers var sungið á undan og eftir, pabbi gerði það. Hann hafði mikinn róm og sterkan. Og nú var auðvitað sjálfsagt að skoða jólagjöfina frá huldukonunni. Auðvitað trúði ég þessu, sem hann Eyvi sagði, vinnumaður Stefáns á Hnausum. En seinna komst nú upp, að jólagjöfin var frá Guðlaugu í Króki. Hann Eyvi hafði alltaf gaman að einhverju smáskrítnu. Þegar ég hafði tekið gljápappírinn utanaf kom í ljós stórt og fallegt kerti. Það var gulbrúnt með stórri gylltri rós og úr vaxi, ekki tólg eins og ég var vanastur. Svo fékk ég fleiri gjafir frá nágrönnunum. Og auðvitað varð að kveikja á kertinu undir eins. Ég horfði hugfanginn á ljósið, það var fallegra en á tólgarkerti. Samt gaf ég mér tíma til að koma til vinar míns gamla hrútsins. Ég hafði fengið að gefa honum tuggu af góðu heyi um kvöldið. Nú varð ég aðeins að klóra honum og segja við hann „gleðileg jól.“ Svo fór ég að horfa á kertið mitt. Það var siður, að hafa allt sem rólegast á aðfangadagskvöld. Menn töluðu saman eða lásu í bókum hver fyrir sig. Og svo var einnig heima. Og friður jólanna lagðist yfir gömlu baðstofuna mína, þar sem menn og dýr lögðust til svefns á sömu hæð, aðeins smáhindrun að dýrin kæmust ekki til okkar. Pabbi gekk betur frá kertinu, að það dytti ekki og þau fóru að sofa, en ég vakti og horfði á kertaljósið.

Tíminn leið og ég lá á koddanum og starði á kertið mitt og dýrðina úti fyrir. Jólanóttin var björt en öðru hvoru svifu snjóflugur hægt til jarðar. Tungsljósið glitraði í frostrósum á glugganum og það grillti í puntinn, sem var fyrir utan gluggann. Oft hef ég séð jólaskraut, en alltaf finnst mér, að þetta hafi verið fegurst. Smátt og smátt fannst mér ljósið á kertinu verða skærara og verða eina ljósið og mér fannst punturinn og frostrósirnar breytast í skóg. Það voru grænir grasfletir milli trjánna og þarna milli trjánna svifu litlar hvítar verur. Þær bentu mér til sín og mér fannst, að þær gætu náð mér til sín á þennan hátt. Ég heyrði undurfagran söng, svo fagran, að slíkan söng hef ég aldrei heyrt hvorki fyrr né síðar. Það var ekki venjulegur söngur, orðaskil greindust ekki. þetta voru hljómar án orða, eða var það söngvar lífsins, tónar eilífðarinnar. Ég þokast að glugganum og svo er ég kominn út í græna jörð. Ég er á milli trjánna hjá litlu hvítu verunum. Svo man ég ekki meira. Ég gleymdi stund og stað. Þegar ég vaknaði um morguninn var kominn bjartur dagur. Kertið mitt var auðvitað löngu útbrunnið. Aðeins kveikurinn lá enn samanhringaður í skálinni, sem kertið var sett í. Síðan þetta gerðist er langur tími liðinn, margir tugir ára. Samt man ég þetta eins og það hefði skeð í gær. Og enn í dag finnst mér eins og að aldrei hafi slokknað á þessu dásamlega kerti, jólakertinu mínu, sem huldukonan gaf mér. Svo bjartur getur helgidómur góðra minninga orðið. Og þegar ég ætla að fara að sofa á aðfangadagskvöld, þá finnst mér ennþá, að nú sé kertið mitt komið, stóra gulbrúna kertið með fallegu rósinni.