Greinasafn fyrir merki: jólahefðir

Biblía í jólamatinn

Sæla jólanna kviknar í endurtekningunni. Eða hvað? Skiptir öllu máli að jólin byrji með líku móti og liðin ár, að jólamaturinn sé eins og við fengum í fyrra? Á allt að vera eins? Hverju breyta sóttvarnareglur COVID-jólanna? Eru þessi jól bara áfall eða kannski tækifæri til að skapa eitthvað nýtt og gera tilraunir?

Þetta árið eru kirkjuferðir bannaðar. Hvað er þá hægt að gera heima í stað jólastemningar í kirkjunni? Jól bernsku minnar voru dásamleg. Þegar allir voru komnir að veisluborðinu tók faðir minn Biblíu eða blátt Gideon-Nýja testamenti, fletti upp á öðrum kaflanum í Lúkasarguðspjalli og las svo jólaguðspjallið. Það er upphafin saga um par í ómögulegum aðstæðum, fæðingu barns í gripahúsi og um engla og vitringa. Mér finnst enn vera steikarilmur af þessum texta. Pabbalesturinn opnaði veislu himins og jarðar. Jólin byrjuðu og svo fórum við fjölskylda mín í kirkju um miðnættið.

Þegar ég stofnaði eigið heimili las ég guðspjallið fyrir mitt fólk eins og pabbi. Þegar börnin mín urðu stautfær fengu þau svo það verkefni að lesa. Þar sem engar verða kirkjuferðirnar þessi jólin legg ég til að fólk leggi Biblíu eða Nýja testamenti á jólaborðið. Þegar allir eru sestir getur einhver úr hópnum lesið versin í Lúkasarguðspjalli 2.1-14. „En það bar til um þessar mundir …. og velþóknun yfir mönnunum.“ Ef engin er Biblían á heimilinu er hægt að fletta upp á biblian.is. Þar er líka hljóðskrá, sem sé hægt að fá lesið fyrir sig. Síminn dugar ágætlega til svona upplestrar.

Helgihald Íslendinga tengist kirkjum en trúaruppeldi og mótun lífsafstöðu hefur farið fram á heimilum um aldir. Á COVID-jólum getum við gert eins og fólkið okkar hefur gert í margar kynslóðir, lesið jólaguðspjallið sjálf. Breyting á jólataktinum er ekki kreppa heldur tækifæri. Lesum sjálf jólaguðspjallið heima þessi jól og gerum það að hefð.