Jóhann hafði gaman tækjum og gerði sér grein fyrir möguleikum tækninýjunga og hann nýtti þær. Jóhann var ágætlega hæfur í notkun á tölvum og gat jafnvel tekið sundur bilaða tölvu til að laga. Engin hræðsla eða ótti við sýndarheima og tækniveröld. Það var gaman að hlusta á fólkið hans Jóhann segja frá getu hans til að fanga nýungar. „Þú hefðir átt að vinna við tölvur“ var sagt við hann þegar hann var í Boston og tjáði getu hans til skapandi vinnu á tæknisviðinu.
Svo hlustaði ég á dætur hans segja frá myndasmiðnum Jóhanni. „Merkilegt“ hugsaði ég. Jóhann hafði auga fyrir hinu sérstaka og vildi fanga augnablikið. Hann fór því að taka myndir, tók myndir á súper 8 filmu, síðan vídeómyndir og svo kom tölvufærnin honum til góða og hann færði gömlu myndirnar yfir á vídeospólur og síðan yfir á DVD-form. Gömlu myndirnar voru uppfærðar, myndir og myndskeið af fólkinu hans voru endurnýjaðar á því sniði sem notað var á hverjum tíma. Og breytingarnar hafa verið hraðar eins og þau vita sem fylgst hafa með byltingunni, sem hefur orðið í myndageiranum, frá tímum filmu til starfrænnar töku og vinnslu. Og Jóhann tók myndir af mörgum ykkar og náði að vera skrásetjari stórfjöskyldunnar, sem hefur líklega ekki verið upphaflegt markmið hans. Myndasafnið hans er dýrmætt og ber að varðveita og endurnýja ef hægt er – taka afrit af því og helst setja á vefinn og þar með að smella myndskeiðunum á youtube!
Mynd af Jóhanni myndasmið varð mér áleitin. Hann tók ekki aðeins myndir af skýjum, fjöllum eða viðburðum í þjóðfélaginu. Hann var ekki fréttaljósmyndari eða landslagsljósmyndari. Hann tók myndir af fólkinu sínu, heima og heiman, í fjölskylduboðum og á ferðalögum. Hvernig er ljósmyndari? Jafnan aftan við tækið, stendur oftast utan sjónsviðs myndavélarinnar, beinir linsunni að viðfangsefni og myndefni. Kannski var það sjálfvalin staða Jóhanns að taka af öðrum eða öðru og vinna síðan með það efni. Stundum fór Jóhann einförum, fáir sáu hann allan eðu þekktu djúp sálar hans. Hann fór sinna ferða og kynntist mörgum, en fáir urðu honum nánir eða náðu til hans að baki linsu lífsins. En hann beindi sjónum og sjónglerjum sínum til þín, til fjölskyldunnar, hafði það mikinn áhuga á ykkur að hann vildi taka af ykkur myndir. Og þessar myndir eru síðan erfðagjöf hans til ykkar, til fólksins sem lifir hann. Hann þjónaði ákveðnu hlutverki í lífi ykkar og svo skilar hann af sér.
Hver skyldi vera mesti myndasmiður þessarar veraldar. Það er ekki einher ljósmyndari í sögu sjónlista. Heldur hver? Guð – sem sér þessa veröld, skugga og ljós. Er ljósgjafinn sem lýsir upp myndsviðið allt, sér alla leikarana og beinir sjónglerjum sínum að lífinu. Ekki til að sjá misfellur, bresti og áföll, heldur til að gefa líf. Guð skannar ekki aðeins, tekur ekki aðeins mynd af fólki og veröldinni. Guð sá allt og kom svo sjálfur í rammann til að tryggja að allt færi vel.
Við sjáum í Jóhanni mynd manns sem gat svo margt og m.a. sá fólk en var líka mennskur í því að hann náði aldrei að leysa alla hnúta. En svo er hann farinn inn í stóran himinn og þar er Guð sem leysir allt, sér allt og tekur nýja mynd af heiminum sem er betri en allar aðrar.
Og nú er komið að því að við lyftum upp nokkrum mynd af Jóhanni Þorsteinssyni, lífi hans, ferli og upplifunum þínum af honum.
Upphaf og samhengi
Jóhann Þorsteinsson fæddist í Stykkishólmi 5. nóvember árið 1935. Þetta var tíminn milli stríða. Stykkið var á sínum stað og hæðir og hólar Hólmsins urðu skjól til lífs og leikja. Svo var stutt í töfrastaðinn Helgafell. Það var gaman að vaxa úr grasi í Stykkishólmi og mannlífið var fjölbreytilegt, myndríkt og gott.
Foreldrar Jóhanns voru Veronika Konráðsdóttir (1909) og Þorsteinn G. Þorsteinsson (1906). Hún var úr Ólafsvík, en ólst upp í Hólminum hjá Jósafat Hjaltalín og Ingveldi Jónsdóttur. Þorsteinn var úr Hafnarfirði. Veronika og Þorsteinn kynntust fyrir sunnan en þegar Ingveldur, fósturmóðir Veroniku, lést bað Jósafat, fóstri hennar, unga fólkið að koma og það varð úr. Þau tóku sig upp og fóru í Stykkishólm.
Pétur var elstur þeirra systkina og fæddist árið 1929, og síðan kom María í heiminn tæpum tveimur árum síðar. Jóhann var þriðji í röðinni en yngstur var Sveinn sem kom í heiminn árið 1937. Þau eru nú öll farin inn í himininn. Jóhann var síðastur í röðinni.
Foreldrarnir vildu að börnin þeirra nytu skólagöngu og menntuðust. Jóhann gekkst við þeirra þrá. Hann gekk fyrst í skóla fyrir vestan. En svo var komið að því að Pétur færi í skóla fyrir sunnan og þá voru góð ráð dýr. Þau Þorsteinn og Veronika seldu eignir sínar á Snæfellsnesi og keyptu sér hús í Efstasundi. En tíminn var erfiður og vegna atvinnuleysis sáu þau á bak húsi sínu í Sundunum. Þá bar auðnan þau hingað vestur í bæ og í þann sögufræga Camp Knox. Jóhann fór í Melaskóla. Síðan flutti fjölskyldan inn í Hlíðar og Bogahlíð 18 varð eins konar fjölskyldumiðstöð allt þar til Þorsteinn og Verónika létust.
Þegar Jóhann hafði lokið grunnnámi voru ýmsir kostir í stöðunni en niðurstaðan var að hann fór vestur í Núp við Dýrafjörð og var þar tvo vetur, frá 1949-51. Á Núpi lauk hann landsprófi. Síðan fór hann strax í Samvinnuskólann í Reykjavík og starfaði síðan í Ríkisbókhaldi til ársins 1956. Þaðan lá leiðin vestur í Ólafsvík en þar var kaupfélagið Dagsbrún og varð starfsstöð Jóhanns í tvö ár. Þá tók við sjósókn sem síðan leiddi til náms í Sjómannaskólanum.
Vegna þessarar breiðu menntunar og starfsreynslu voru Jóhanni margir vegir færir. Hann hafði stýrimannsréttindi og var því á sjó og stýrði bátum. Hann vann líka á landi og við verslunarstörf.
Dætur hans Jóhanns
Pétur, bróðir Jóhanns, var kaupfélagsstjóri vestur á Bíldudal. Það varð úr að Jóhann fór til bróður síns og vann við kaupfélagið á virkum dögum. En svo var það hinn músiklipri Jóhann sem spilaði á harmónikuna um helgar og lék fyrir dansi. Og líf Jóhanns var ekki aðeins fjölbreytilegt hvað vinnu varðar heldur hafði áhrif á líf hans með margvíslegum hætti. Hann kynntist færeyskri stúlku á Bíldudal. Hún heitir Nicolina Susanna og er Bjarnason Hojgård og þau eignuðust dóttur 4. febrúar árið 1958. Hún fæddist í Færeyjum og heitir Sólrit og býr í Þórshöfn. Bjarni Berg er maður hennar. Sólrit er hjúkrunarfræðingur og hann tónlistarmaður. Þau eiga fjögur börn. Þau eru Runa, Ingmar, Björk og Tóki.
Nicolina og Jóhann bjuggu ekki saman og hún fór til Færeyja áður en dóttir þeirra fæddist og því varð langt milli Sólrit og föður hennar og samband komst ekki á fyrr en á fullorðinsárum hennar. Jóhann sendi Sólrit skeyti þegar hún var átján ára og sendandinn var pabbinn á Íslandi. Þaðan í frá uxu tengsl og með auknum samskiptum.
Jóhann tók saman við Halldóru Sveinbjörgu Gunnarsdóttur. Hún var frá Bíldudal. Þau hófu hjúskap og gengu í hjónaband á þjóðhátíðardeginum 1964. Þau Halldóra og Jóhann eignuðust eina dóttur. Hún heitir Arnbjörg Linda og fæddist 27. september árið 1959. Linda er nálastungu- og grasalæknir og kennari í þeim fræðum. Börn hennar eru Halldóra, Yvonne og Irene. Halldóra og Jóhann skildu eftir liðlega tuttugu ára hjúskap.
Atvinna og störf
Jóhann var fjölhæfur og gat margt. Með Samvinnuskólapróf stóðu honum margar dyr opnar. Hann starfaði ekki aðeins við kaupfélagið á Bíldudal. Um tíma var hann kaupfélagsstjóri í Vestannaeyjum. Jóhann var oft á vertíðum á yngri árum, m.a. í Grindavík. Og útgerðin heillaði þá bræður Pétur og Jóhann svo að þeir gerðust útgerðarmenn og Jóhann var oft við stjórnvölinn á bátunum sem þeir gerðu út, 40-60 tonna bátum.
Svo fór Jóhann í land og rak frystihús um tíma við Súðavogi. Og Jóhann lærði þar með á alla þætti fiskveiða og fiskvinnslu og varð verðmætur starfsmaður með yfirlit og tækniþekkingu í útgerðar- og vinnslugeiranum. Jóhanni bauðst vinna í frystihúsi í Masachusetts í Bandaríkjunum. Hann fór utan árið 1979 til að miðla íslensku fiskvinnsluviti. Og vestra saug hann í sig það sem efst var á baugi, kynnti sér viðmið í menningu og nýjungar í tækni. Meðal annars hreifst hann af bílaþvottaaðferðum í Bandaríkjunum.
Þegar Jóhann kom heim um 1984 slitu þau Halldóra samvistir.
Jóhann flutti í fjölskylduhúsið í Bogahlíðinni. Þá var þar í húsinu Björg Björgvinsdóttir, jafnaldra Jóhanns. Þau vissu af hvoru öðru frá æsku og kynntust að nýju, hófu sambúð og gengu síðar í hjónaband.
Þau stofnuðu saman og byggðu Bílaþvottastöðina “Laugina” við Vatnagarða (Holtagarða) árið 1985 og ráku hana til ársins 1995. Eftir að þau seldu þá stöð stofnuðu þau fyrirtæki sem seldi “heita potta.” Fyrirtækið hét Laugin ehf. og voru þau Björg brautryðjendur á sínu sviði hér á landi. Í þrjú ár bjuggu þau Jóhann í Danmörk, Þýskalandi og Englandi vegna hins fjölþjóðlega fyrirtækjareksturs þeirra, en fluttu síðan heim fyrir aldamótin og héldu áfram rekstri til 2005 er þau seldu reksturinn. Árið 2006 greindist Björg með krabbamein, náði heilsu um tíma en svo tók mein sig upp að nýju og ekki var við neitt ráðið. Björg lést árið 2012.
Myndirnar
Þetta eru nokkrar myndir úr lífi Jóhanns. Hvaða myndir lifa í huga þér og hvaða myndir hefur þú tekið af honum og vilt varðveita?
Manstu tímaskyn hans? Jóhann gat sprottið upp seint að kvöldi og farið í bíltúr!
Hann var ákveðinn og stefnufastur. Einu sinni varð eftir hjá honum bók sem hann gluggaði í: The easy way to stop smoking. Og hann tók efnið til sín og steinhætti að reykja, og hafði þó reykt mikið áður.
Manstu hvernig hann leit út? Fötin hans. Tengslin við hann? Manstu áherslu hans á frelsi manna og pólitískar skoðanir hans? Manstu eftir bókunum hans og um hvað hann talaði? Manstu eftir ferðum hans niður að höfn? Manstu eftir bílstjóranum, sem keyrði hratt og hve lipur hann var þrátt fyrir hraðann? Manstu tengsl hans við systkini hans og fjölskyldustíllinn?
Og manstu eftir ljósmyndaranum Jóhanni að beina linsu að þér? Nú beinir þú þinni lífslinsu að Jóhanni og skoðar myndirnar á þessum tímamótum. Hverjar eru góðar og hugnast þér? Þú heldur í þær, hinar sem eru síðri falla í gleymsku tímans. Farðu vel með myndasafnið og lærðu að vinna með það, ekki bara myndasafn í tölvum og albúmum – heldur myndasafn tilfinninga, afstöðu og innri manns. Lærðu að halda í það sem er gott og mikilvægt en gerðu upp við hitt. Í því er viskan fólgin. Hvað lærðir þú af Jóhanni sem var gott og getur dugað þér til lífs með öðrum?
Jóhann tekur ekki fleiri myndir, skoðar enga tölvu og færir ekkert á milli tækniveralda lengur. Hann er farinn inn í vinnsluminni himinsins – sem á sér engin takmörk og þar verður aldrei kerfishrun.
Svo er besti myndasmiðurinn Guð. Guð beinir allri sinni athygli að mönnunum og þar með Jóhanni, sér hann allan og vinnur með mynd hans. Og Guð horfir alltaf með elsku. Linsur hans eru linsur kærleikans. Og Guð beinir sjónum sínum að þér og horfir á þig með kærleiksaugum og yfirgefur þig aldrei.
Guð geymi Jóhann og Guð geymi þig.
Amen.
Bálför. Erfidrykkja hjá Veroniku og Ólafi í Urriðakvísl 4.