Greinasafn fyrir merki: Jesús Kristur

Hönnuð saga

ummyndunTrúir þú virkilega svona sögu um “ljósashow” upp á fjalli í fornöld? Er þessi ummyndunarsaga ekki bara skröksaga, bull sem þjónaði því hlutverki að blekkja auðtrúa fólk? Er ekki eðlilegast að efast um ótrúlega Jesúsögu?

Efi og túlkun

Hvað með efann? Viltu hugsa rökrétt – líka í málum Jesú, Biblíu og trúar? Efinn og trúin eru ágætar systur og líka vinir þegar viskan ræður. Í vökulum heila pælir efinn þann akur sem ber góða ávexti heilastarfseminnar. Efinn greinir, gagnrýnir og leitar þekkingar. Heilbrigð trú hræðist ekki efann, heldur gleðst yfir getu hans og tekur þátt í að kanna túlkanir, möguleika, nýjar hugmyndir um það sem máli skiptir. En hvað um Biblíuna? Eigum við að trúa sögum hennar eins og fréttum af mbl, guardian eða bbc?

Það er skynsamlegt að skoða Biblíuna með velviljaðri gagnrýni og spyrja: Hver eru skilaboðin? Getur þessi ræða eða saga kryddað líf mitt í allt öðrum aðstæðum en til forna? Biblíuna þarf að lesa með köldum en opnum huga og trúarlærdóma þarf að skoða í sögulegu samhengi. Kirkjustofnun er ekki og má ekki vera óbreytanleg. Forn heimsmynd og úreltir samfélagshættir eru ekki aðalmál trúarinnar.

Ég álít að allt sem tengist trú og trúariðkun eigi skoða með opnum huga. Ekkert undanskilið. En ég trúi og þótt ég meti skynsemina, heilann, efann og gagnrýnina mikils trúi ég á Guð. Ég upplifi að Guð er upphaf mitt, tjáir mér elsku sína í hjartslætti mínum, í frumum líkamans, hrifningu daganna – faðmlögum ástvina minna og furðum heimsins. Og ég álít, alveg í samræmi við hefð okkar Vesturlandamanna allt frá tíma Immanuel Kant og upplýsingarinnar, að við skoðum veröldina út frá ákveðnum forsendum og með „rósrauðum“ gleraugum.

Við erum takmörkuð og túlkun okkar á raunveruleikanum er alltaf takmörkuð og hið sama gildir um hið trúarlega. Túlkun á hinu guðlega verður ekki annað en ágiskun og tilraun til að tjá hið ósegjanlega, t.d. með hjálp líkinga, frásagna og vísana. Við trúmenn berum Guði vitni en tölum um samskiptin við Guð með hjálp dæma, sagna og hliðstæðna úr heimi manna. En skyldi Guð verða reiður yfir þeim óbeinu og ónákvæmu lýsingum? Nei, ekki frekar en við foreldrar pirrum okkur ekki á börnum okkar þegar þau eru að læra að tala. Guð gleðst vonandi yfir tilraunum okkar. Og Guð stressar sig – held ég – ekki yfir óvitaskap okkar manna þegar við gerum okkur fávíslegar hugmyndir um Guð.

Reynsla kallar á form frásagnar

En þessi ótrúlega saga af fjallinu? Hvað heldur þú að þessi ljósagangur þýði? Og til hvers þessir zombíar sem allt í einu birtast? Já, sagan af fjallinu er furðuleg. Hún er kölluð ummyndunarsagan enda ummyndaðist eða umbreyttist Jesús Kristur.

Eitthvað gerðist? En hvað? Hvernig á að segja frá því sem enginn annar hefur upplifað? Þegar fólk upplifir eitthvað mjög sérstakt er því vandi á höndum. Stundum segir fólk mér sögur sem það segir engum öðrum en mér, prestinum, og alls ekki kunningjum eða fjölskyldu. Fólk segir ekki sögur ef það á von á því að sá kvittur fari á kreik að það sé orðið kúkú, andlega bilað. Fólk er viðkvæmt fyrir orðspori sínu. Svo var í fornöld einnig. En í öllum menningarkimum verða til mynstur eða leyfilegar fyrirmyndir um hvernig sagt er frá hinu sérstæða eða ótrúlega. Hefðir marka ramma hins leyfilega og einnig mystur orðræðu.

Tákn og saga

Þeir voru fjórir á ferð, Jesús, Pétur, Jakob, Jóhannes og puðuðu upp á fjall. Þar gerðist eitthvað dularfullt. Áhorfendum þótti eins og aðrir kæmu til fundar og komumenn væru ekki af þessum heimi. Félagarnir brugðust við, þeir túlkuðu söguna í anda hefðarinnar og héldu að komnir væru frægir karlar úr fortíðinni, Móse og Elía. Það væri svona álíka og ef við værum að klífa Esjuna og allt í einu væru komnir þar til fundar við okkur Jón Sigurðsson og Snorri Sturluson. Í einhverju kasti – væntanlega stresskasti – býðst lærisveinn til að tjalda fyrir meistara þeirra og komumennina einnig.

Öll sagan er samsett táknum og táknmáli. Þeir voru á fjalli. Móse fékk lögfræði Ísraels á fjalli eins og Íslendingar fengu sín lög í fjallasal. Fjall er tákn um hið guðlega. Þessir nafngreindu foringjar og fyrirmyndir Ísraelssögu, Móse og Elía, eru tákn um lög, hefð og sögu. Að þeir komu til fundar þjónar hlutverki gjörningsins til að opna nýja skynjun, tilfinningu og túlkun. Jesús er hinn nýji sem tekur við og umbreytir hebreskri hefð og sögu. Svo voru postularnir samverkamenn sem tóku við og túlkuðu. Þeir brugðust við en skildu ekki, voru mannlegir, en þrátt fyrir flónskuna var þeim samt treyst til að hlusta á, meðtaka og endurflytja.

Þrennan – rosi, sýn og skilaboð

Til að skilja sérstæða sögu er mikilvægt að þekkja bókmenntalegt mynstur hennar og gerð og hlutverk í menningarheimi fornaldar. Það er þarft að greina milli þriggja tegunda af sögum sem tjá birtingu hins yfirskilvitlega. Ein hefur einkenni rosa, önnur varðar sýn og sú þriðja hefur skilaboð – rosi-sýn-boð.

Þeófaía – rosinn

Í fyrsta lagi eru guðsbirtingarsögur rosans, sem tjá komu eða návist Guðs með hjálp náttúruhamfara – t.d. jarðskjálfta, þrumuveðurs og öðru í þeim dúr þó guðinn sjáist ekki í eigin persónu. Þetta eru þeófaníurnar – dramatísku guðsbirtingarnar – sem tjá einfaldlega að Guðinn er nálægur. Þær sögur lýsa hughrifum fólks og oft miklum ótta við nánd hins ógurlega guðs. Ummyndunarsagan sem segir frá í Matteusarguðspjalli er ekki slíkrar gerðar. Þar eru engar náttúruhamfarir. Stíllinn er annar.

Sýn – hið sjónræna

Í öðru lagi eru sögur um sýnir. Sögur um sýnir greina jafnan frá útvöldum hópi fólks sem fær að sjá eitthvað sem er ekki vanalegt í mannaheimi. Fólk sér eitthvað óvenjulegt sem ber fyrir augu – en ekki er miðlað neinni sérstakri þekkingu eða skilaboðum. Vissulega er sýn í ummyndunarsögunni en í þessari sögu er talað og skilboðum er komið áleiðis til þeirra sem upplifðu. Saga dagsins er því ekki sýn af tagi birtingarsögu.

Skilaboðasögur

Þriðja gerð guðsbirtinga eru skilaboðasögur og sem segja frá skyndilegri og óvæntri guðsbirtingu sem einhver eða einhverjir útvaldir verða fyrir. Mikilvægum boðskap er komið á framfæri og skilaðboðin eru heyranleg. Þannig saga er ummyndunarsagan. Skilaboðin eru um persónu og hlutverk Jesú Krists sé og hvaða afleiðingar það hafi. Því er sagt sem svo: Hlustið á hann, takið eftir því sem hann segir. Það eru skilaboðin. Ummyndunarsagan er um skilaboð Guðs til manna. Móse og Elía þjóna aðeins hlutverki dýpkunar. Þeir eru aukapersónur og gefa samhengi en táknum en aðalpersónan er hinn nýji fulltrúi Guðs, Jesús Kristur. Merkingin er að við eigum ekki að staldra við lögmál fortíðar heldur elskuboðskap guðssonarins. Rödd úr guðsvíddinni tjáir: Jesús Kristur er Guðsfulltrúinn – hlustið á hann og hlýðið honum.

Boðskapurinn mótar og knýr á

Og hverju getum við þá trúað? Er þetta skröksaga? Þegar við erum búin að greina söguna kemur í ljós að hún er færð í stílinn vegna þess að sagan er umgjörð um ákveðin skilaboð. Hún hönnuð saga, lituð með ákveðnu móti, með ákveðnum atriðum og í ákveðnni fléttu. Þú mátt hafa allar heimsins skoðanir á hvort sagan hafi tekist eða ekki, hvort hún er trúleg eða ekki, hvort hún er leiðinleg eða skemmtileg en skilaboðin eru skýr. Boðskapurin er að Jesús Kristur sé trúverðugur, áheyranlegur og ákjósanlegur. Spurningin er ekki hvort sagan sé bull og skröksaga heldur hvort Jesús Kristur sé fulltrúi Guðs eða ekki. Trúir þú því – með efasemdum og mannlegum breiskleika þínum? Þar er efinn og þar er trúin.

Neskirkja 9. febrúar, 2014.

Textar síðasta sunnudags eftir þrettánda A-röð

Lexían er úr 5. Mósebók

Spámann slíkan sem ég er mun Drottinn, Guð þinn, láta fram koma úr hópi ættbræðra þinna. Á hann skuluð þið hlýða. Fyrir þá mun ég láta fram koma spámann slíkan sem þú ert úr hópi bræðra þeirra. Ég mun leggja honum orð mín í munn og hann mun boða þeim allt sem ég býð honum. Og hvern þann sem ekki hlýðir á þau orð, sem spámaðurinn flytur í mínu nafni, mun ég sjálfur draga til ábyrgðar.

Pistillinn er úr 2. Pétursbréfi

Þess vegna ætla ég mér ávallt að minna ykkur á þetta enda þótt þið vitið það og hvikið ekki frá sannleikanum sem þið nú hafið öðlast. Ég álít mér líka skylt, á meðan ég er í þessari tjaldbúð, að halda ykkur vakandi með því að rifja þetta upp fyrir ykkur. Ég veit að þess mun skammt að bíða að tjaldbúð minni verði svipt. Það hefur Drottinn vor Jesús Kristur birt mér. Ég vil einnig leggja kapp á að þið ætíð eftir burtför mína getið minnst þessa. Ekki notaði ég uppspunnar skröksögur er ég kunngjörði ykkur mátt og komu Drottins vors Jesú Krists heldur hafði ég verið sjónarvottur að hátign hans. Því hann meðtók af Guði föður heiður og dýrð þá er raust barst honum frá hinni dýrlegu hátign: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á.“ Þessa raust heyrði ég sjálfur koma frá himni þá er ég var með honum á fjallinu helga. Nú getum við enn betur treyst orði spámannanna. Það er rétt af ykkur að gefa gaum að því eins og ljósi sem skín á myrkum stað þangað til dagur ljómar og morgunstjarnan rennur upp í hjörtum ykkar. Vitið það umfram allt að enginn þýðir neinn spádóm Ritningarinnar af sjálfum sér. Því að aldrei var nokkur spádómur borinn fram að vilja manns heldur töluðu menn orð frá Guði, knúðir af heilögum anda.

Guðspjall úr Matt. 17.1-9

Eftir sex daga tekur Jesús með sér þá Pétur, Jakob og Jóhannes, bróður hans, og fer með þá upp á hátt fjall að þeir væru einir saman. Þar ummyndaðist hann fyrir augum þeirra, ásjóna hans skein sem sól og klæði hans urðu björt eins og ljós. Og Móse og Elía birtust þeim og voru þeir á tali við Jesú. Pétur tók til máls og sagði við Jesú: „Drottinn, gott er að við erum hér. Ef þú vilt skal ég gera hér þrjár tjaldbúðir, þér eina, Móse eina og Elía eina.“ Meðan Pétur var enn að tala skyggði yfir þá bjart ský og rödd úr skýinu sagði: „Þessi er minn elskaði sonur sem ég hef velþóknun á. Hlýðið á hann!“ Þegar lærisveinarnir heyrðu þetta féllu þeir fram á ásjónur sínar og hræddust mjög. Jesús gekk til þeirra, snart þá og mælti: „Rísið upp og óttist ekki.“ En er þeir hófu upp augu sín sáu þeir engan nema Jesú einan. Á leiðinni ofan fjallið bauð Jesús þeim: „Segið engum frá sýninni fyrr en Mannssonurinn er risinn upp frá dauðum.“

Ástarsagan

DSC07926_4494926787_l

Boðskapur þessara jóla. Hver er hann? Ástin og ástalífið!

Hefur þú elskað? Strák eða stúlku, konu eða karl, mömmu eða pabba, barnið þitt, fólkið þitt? Hefur þú orðið fyrir ástarsorg – og þótt lífið hryssingslegt? Á þriðja aldursskeiði æfinnar er ég frjáls, get ég horft til baka og að fenginni reynslu viðurkennt að það besta og dýrmætasta í lífinu er að elska og vera elskaður.  Lesa áfram Ástarsagan

Konungur ljónanna

kon ljónannaFyrir páskana fór ég á leiksýningu Hagaskóla á Konungi ljónanna. Á annað hundrað nemenda gegndu einhverju hlutverki við uppsetninguna, m.a. 22 manna hljómsveit. Þetta var frábær uppfærsla og uppselt á allar tíu sýningarnar. Ég var djúpt snortinn af leik, söng, hljóðfæraleik, dönsum og líka búningum sem nemendur gerðu sjálfir. Ég heyrði ekki aðeins í foreldrum og skólafólkinu heldur líka í fagfólki úr leikhús- og tónlistar-geiranum að sýningin hefði heppnast framar vonum. Það var gaman að fylgjast með ungmennunum sem ég þekki úr fermingarfræðslunni kirkjunni leika, dansa, stjórna, spila, sjá um tæki og tól og þau megnuðu að veita okkur upplifun á dýptina. (Sigríður Birna Valsdóttir, leiklistarkennari, skólastjórn, starfsfólk og nemendur Hagaskóla eiga hrós skilið)

Að heiman og heim
Konungur ljónanna – hvers konar saga er það? Sagan er byggð á minnum úr Gamla testamnti Biblíunnar – um Móse og Jósep – og rithöfundar hafa um aldir notað frumsögurnar, líka Shakespeare í Hamlet og Macbeth. Konungur ljónanna kom fyrst út sem Disneymynd árið 1994. Þetta er þroskasaga og segir af ungum Simba sem var hugaður, djarfur en líka einfaldur, lét plata sig og gerði hrapaleg mistök. Hann flúði svo að heiman því hann hélt að hann hefði banað föður sínum. Svo eignaðist hann nýtt líf í fjarlægu landi. En hann heyrði svo hve illa gengi heima, allt hafði farið á verri veg. Hann hafði hlaupið frá skyldu sinni og hlutverkum og þar með sjálfum sér. Simbi neyddist til að íhuga hlutverk sitt og stöðu. Þegar hann horfðist í augu við sjálfan sig skildi hann að flótti í lífinu dugar ekki. Allir verða að mæta verkefnum lífsins, þó þau séu hættuleg og erfið. Hið illa má ekki sigra. Hið góða verður ekki nema fyrir því sé haft og barist fyrir því. Flótti leiðir ekki til farsældar heldur aðeins það að axla ábyrgð og hafa fyrir því sem máli skiptir og eflir lífsgæðin. Simbi, Pumba, Nala, Tímon og að lokum allir með ráði og réttri rænu tóku þátt í baráttunni fyrir lífinu. Hið góða sigraði.

Þín saga og þín viska?
Hvað er að lifa með ábyrgð? Það er m.a. að komast aftur heim með þroska að veganesti, verða að fullveðja og ábyrgri mannveru. Konungur ljónanna er kennslusaga, góð í snittinu, aukin með tónlist Elton John og Tim Rice og vel unnin. Það var ánægjulegt að sjá vel farið með stóra sögu og gaman að sjá unglinga túlka svo vel. Í sögunni eru íhuganir um föðurinn, um heiminn, himininn, skyldu, siðferði, ábyrgð, flótta, synd, sundrungu, náttúrusýn, samfélag og hin stóru samskiptastef hvernig lífi þarf að lifa til að farsæld ríki. Og hið illa læðist um og reynir alltaf að ná völdum – en vei því samfélagi sem lýtur vondu valdi.

Móse og einnig Jósep fóru að heiman og gerðu tilraunir. Þeirra þroski skilaði góðu til samfélags þeirra. Biblían segir sögur um venjulegt fólk sem gerð mistök en gekk í sig. Sögurnar eru okkur til styrktar og eftirbreytni. Enginn lifir fyrir okkur, við gerum okkar tilraunir til góðs en stundum líka til ills. Jesús sagði hina frægu sögu af syninum sem vélaði út arf sinn, sóaði honum og kom síðan heim að nýju gjaldþrota hið ytra sem innra. Við honum var þó tekið í Jesúdæmisögunni. Hvernig er þín saga? Fórstu að heiman og gerðir tilraunir með þanþol þitt, fjölskyldu þinnar eða lífsins? Fórstu einhvern tíma að mörkum, dastu jafnvel og hruflaðir þig illa? Elskaðir þú en misstir? Áttir þú einhvern tíma í fangi þér ástvin sem er farinn? Mesta undur lífsins er að elska og vera elskaður. Dýpstu sorgir sem menn lifa er þegar elskurnar deyja eða hverfa.

Möguleikar
Biblían stendur alltaf með lífinu. Sögurnar sem hún segir eru gjarnan um að þrátt fyrir missi, ólán og hörmungar er lífs að vænta. Við megum endurnýjast. Móse sneri aftur til að beita sér fyrir hinu góða. Jósep varð til stórkostlegrar gæfu þrátt fyrir hann yrði ofbeldi að bráð og margs konar órétti. Og boðskapur Jesú var boðskapur guðsríkisins að hin fangelsuðu, sjúku, fyrirlitnu, kúguðu – þau sem væru á röngunni í lífinu – hefðu líka séns. Lífið væri fyrir alla – ekki aðeins forréttindafólk. Biblían kennir að alltaf er möguleiki, aldrei eru öll sund lokuð, aldrei erum við svo djúpt sokkin og aldrei svo fyrirlitleg að við megum ekki snúa við, fara til baka, horfast í augu við ástand okkar eða aðstæður. Aldrei of seint að snúa við – alltaf nýtt upphaf mögulegt. Okkar er vænst, Guð þráir að við verum við sjálf og í sambandi við okkur sjálf, við samfélag og Guð.

Exit?
En svo er það stóri plús páskanna. Saga Jesú er ekki aðeins það að snúa til baka frá Egyptalandi, úr óbyggðinni eða pólitískri klemmu. Saga hans er ekki þroskasaga unglings sem kemur til sjálfs sín og verður að fullveðja og ábyrgum manni. Jesús Kristur dó, öllu var lokið og öll sund voru lokuð. Honum var komið fyrir holu með engri útleið. Bjargi var velt fyrir innganginn og þar með: Ekkert exit – lífi lokið. Sagan var harmsaga. Ramminn var skýr um mörk mennsku, lögmál heims, lífs og dauða. En Guð er stærri en heimur. Lokaður veruleiki sprakk. Í upprisuboðskapnum er komið að mörkum. Í veruleika Guðs eru möguleikar. Höfundur lífsins er stærri en lífslok. Ást Guðs á mönnum og veröld er meiri enn þröngsýni, sjálfsást eða samsöfnuð eyðilegging manna. Lokurnar voru frá og stórheimur Guðs var opinberaður. Jesús var ekki lengur í landi dauðans heldur lífsins.

Guðssaga
Hvað þýðir það? Okkur er flestum blásið í brjóst það hyggjuvit að við getum bætt fyrir afbrot okkar. Áföllin geta verið stór en mörg má bæta fyrir. Við megum rísa á fætur þrátt fyrir að við hrösum eða dettum. En páskarnir eru opnun alls sem er. Dauðinn er ekki lengur helsi lífsins. Hinn lifandi Jesús Kristur hefur leyst alla fjötra og opnað nýtt land og þar með skilning. Í því er plúsinn fólginn. Guð vill leyfa okkur að lifa í mun stærra samhengi en við fáum séð með eigin hygjguviti. Hin góðu tíðindi páskanna er að líf þessa heims er í góðum tengslum við líf himinsins. Þessi heimur er ekki lokaður heldur galopinn. Jesús Kristur er ekki aðeins konungur ljónanna heldur lífsins. Páskasagan er engin þroskasaga heldur Guðssaga.

Í ljósi páskasólarinnar megum við opna allar gáttir sálar og lífs. Leyfa okkur að snúa við í öllum skilningi, leyfa ástvinum okkar að hvíla í öryggi himinsins, sjá okkur í góðum tengslum við tíma og eilífð. Þegar við opnum getum við sagt með ákefð og nýrri von og trú. Kristur er upprisinn – og svarið við því er: Kristur er sannarlega upprisinn.
Amen.

Páskar 2013, 31. mars.

Textaröð: B
Lexía: Jes 25.6-9
Drottinn allsherjar mun á þessu fjalli
búa öllum þjóðum veislu,
veislu með réttum fljótandi í olíu
og með dreggjavíni, með réttum úr olíu og merg
og skírðu dreggjavíni.
 Á þessu fjalli, fyrir framan fortjaldið,
sem er hula öllum þjóðum
og forhengi öllum lýðum,
mun hann afmá dauðann að eilífu.
 Drottinn Guð mun þerra tárin af hverri ásjónu
og afmá smán lýðs síns af allri jörðinni
því að Drottinn hefur talað.
 Á þeim degi verður sagt:
 Þessi er Guð vor sem vér höfum vonað á
og hann mun frelsa oss.
 Þessi er Drottinn sem vér höfum vonað á,
 fögnum og gleðjumst yfir hjálp hans.

Pistill: 1Kor 15.1-8a

Ég minni ykkur, systkin, á fagnaðarerindið sem ég boðaði ykkur, sem þið og veittuð viðtöku og þið standið einnig stöðug í. Það mun og frelsa ykkur ef þið haldið fast við það sem ég boðaði ykkur, ella hafið þið til einskis tekið trú. Því það kenndi ég ykkur fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna synda okkar samkvæmt ritningunum, að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf. Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu sem flestir eru á lífi allt til þessa en nokkrir eru sofnaðir. Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.
 En síðast allra birtist hann einnig mér.

Guðspjall: Matt 28.1-8
Að liðnum hvíldardegi, þegar lýsti af fyrsta degi vikunnar, komu þær María Magdalena og María hin til að líta á gröfina. Þá varð landskjálfti mikill því engill Drottins sté niður af himni, kom og velti steininum og settist á hann. Hann var sem elding ásýndum og klæðin hvít sem snjór. Varðmennirnir skulfu af hræðslu við hann og urðu sem örendir.
En engillinn mælti við konurnar: „Þið skuluð eigi óttast. Ég veit að þið leitið að Jesú hinum krossfesta. Hann er ekki hér. Hann er upp risinn, eins og hann sagði. Komið og sjáið staðinn þar sem hann lá. Farið í skyndi og segið lærisveinum hans: Hann er upp risinn frá dauðum, hann fer á undan ykkur til Galíleu. Þar munuð þið sjá hann. Þetta hef ég sagt ykkur.“
Og þær fóru í skyndi frá gröfinni, með ótta og mikilli gleði, og hlupu að flytja lærisveinum hans boðin.

Gína á stalli?

EvrópufániAf hverju er fáni Evrópu blár? Og af hverju er stjörnuhringur á þeim fána? Á hvað minnir þessi geislabaugur stjarnanna? Hvað minnir fáninn á og af hverju lítur hann svo kunnuglega út? Er einhver saga og minni að baki? Já svo sannarlega, fáninn á sér forsögu og merkilegt myndlistar- og menningarsamhengi.

Evrópufáninn er eiginlega skilgetið afkvæmi Maríumynda aldanna, myndverka af Maríu móður Jesú Krists. Evrópufáninnn er líkist fjölda Maríumynda – en mínus María. Blár litur fánans kemur eiginlega frá lit Maríumöttulsins og þeim blálitaða himni sem hún ríkir yfir, en Maríu hefur verið sleppt, henni hefur verið kippt út úr myndinni.

Fáninn varð til á sama tíma og kaþólska kirkjan ræddi um óflekkaðan getnað Maríu á sjötta áratug tuttugustu aldar. Fáninn og ný kenning um þá merku konu voru afgreidd og ákveðin á sama tíma. Síðan hafa tólf stjörnurnar úr geislabaug Maríu verið sem tákn fyrir heild Evrópu á fánanum. Og Maríutáknin hafa birtst á öllum peningaseðlum Evrópusambandsþjóða. Meira að segja skráningarnúmer á bílum þessara þjóða bera þessi tákn Maríu.

Guðskoman boðuð

Í dag er boðunardagur Maríu, ofurkonu í menningarsögu Vesturlanda. María hefur verið kölluð guðsmóðir, heilög María, himnadrottning, móðir María, stjarna hafsins og móðir kirkjunnar og fleira. Hún hefur verið lofuð og líka tilbeðin. María gegnir einnig merku hlutverki meðal múslima. Margar Maríur hafa borið nafn hennar og María er eitt algengasta aðalnafn íslenskra kvenna. Áhrifasaga Maríu er margþætt og margslungin.

Guðspjallstexti dagsins segir sögu af unglingsstúlku og reynslu hennar, sem er túlkuð svo að engill birtist og upplýsti, að hún hefði verið valin til að verða farvegur fyrir hjálp Guðs í heimi. Hvernig lítur engill út? Var hann með lilju í höndum eins og miðaldamálverkin sýna eða er blómið tákn til að tengja huga við trúartúlkunina? Var María í bláum klæðum – litur Maríu er jú blár? Var himininn blár eins og sumar myndirnar sýna?

Skiptir María máli? Siðbótarmenn tóku hana út af dagskrá vegna þess, að Rómarkirkjan hafði glennt guðfræði Maríu of rausnarlega. Maríu hafði eiginlega verið stolið úr mannlífinu og gerð að gínu uppi á tilbeiðslustalli. Hið kvenlega, mannlega, hafði þar með verið læst í fjötra, sem jafnframt urðu fjötrar kvenna og brengluðu líf fólks. Maríu hefur aldrei liðið vel á stalli. Við höfum heldur engan hag af henni þar, ofurhetju handan mannlífs. María ætti að vera í miðri hringiðu lífsins.

Maríuhlutverkin

Hver er og jafnvel hvað er María? Eitt er hver hún var og annað hvaða hlutverki hún gegndi eða gegnir. Hún var móðir og átti fleiri börn en Jesú Krist. Fjórir bræður Jesú eru t.d nefndir í Mattheusarguðspjalli. Og kannski átti hann systur líka? María var eiginkona trésmiðs, húsmóðir og Gyðingur í Rómaveldi. Hún hefur væntanlega gegnt hlutverkum sínum í samræmi við venjur, siði og væntingar.

Gyðingar áttu ekki í neinum erfiðleikum með barnsgetnað og hvernig undur lífsins verður og hverjir koma við sögu. Það voru og eru ekki tvö heldur alltaf þrír aðilar: Kona og karl – en líka hinn þriðji – Guð. Alltaf þrjú. Samkvæmt hebreskri hugsun er Guð tengdur öllu lífi, líka nánasta fjölskyldulífi. En í tvíhyggjusamhengi í hinum grísk-helleníska heimi voru áherslur aðrar en hinum hebresk-gyðinglega. Hið líkamlega var sett skör lægra en hið andlega. Ástalífið, hneigðir og hið líkamlega var talið lægra sett en hið háleita-andlega. Gat Guð verið á því sviði? Gyðingar sögðu já – já, en Grikkir sögðu nei – varla.

Var María einhvers konar staðgöngumóðir fornaldar? Væntanlega lagði hún sitt egg til, en svo sagði sagan – eða jafnvel krafðist – að barnið yrði til án aðkomu Jósefs, festarmanns hennar. Lúkasarguðspjall tjáir t.d. föðurlausn getnað og meyfæðingu.

Út fyrir endimörk alheimsins

Við hrífumst og getum innlifast helgisögunni um Maríu, en ættum þó að skilja hana í samhengi hennar, sem er tilbeiðsla og lofsöngur safnaðar, trú á vængjum ljóðsins. Við megum líka muna, að menn hafa tilhneigingu til að endurhanna sögu mikilmenna. Það er eins og endurskrifa þurfi eftirá og eðlisbreyta verði aðdragandasögu stórmennis. Þar er ein skýringin á upphafssögu Jesú. Fleiri atriði koma til skoðunar einnig. Í goðsögum fornþjóða eru til sögur um meyfæðingar goða. Tilhneigingin var alltaf í tvíhyggjusamhengi að reyna að hreinsa móður guðsins sem mest og gera úr henni flekklausa veru.

Saga er alltaf áhrifasaga, viðmið og stýringar laumast yfir alla þröskulda tímans, lifa og hafa afleiðingar. Þegar Maríudýrkun óx á fyrstu öldum kristninnar varð hún fyrir áhrifum frá kvenskilgreiningum umhverfisins, t.d. frá Artemisdýrkun, frá Vestalíum Rómar, frá Isisdýrkun. Menningarlegar og þar með trúarbragðastýringar höfðu áhrif á og stjórnuðu eiginlega hvernig María var skilgreind og tilbeðin. María varð ekki lengur Gyðingakonan María heldur var henni lyft upp úr heimi hins venjulega lífs manna og upp í heim tilbeiðslunnar. Móðirin varð að meyju ofar tíma og lífi. Maríudýrkun óx stöðugt þegar leið á fyrsta árþúsundið og kenningaflækjan þróaðist og gildnaði. Löng saga trúarhugsunar endaði síðan með, að kaþólska kirkjan fékk yfir sig ákvörðun um að María hefði líka verið flekklaust getin eins og Jesús. Hin duldu stýrikerfi upphafningar og hreinsunar upphafssögu Jesú náði hámarki – María var ekki lengur mensk heldur utan við söguna. Hún var eiginlega komin út fyrir endimörk alheimsins!

Andleg tiltekt – María meðal manna

Hver er þörf nútímatrúmanna fyrir hugmyndafræði upphafningar og sögubreytingar? Við ættum að ganga hljóðlega um og með kyrru í návist Maríu og ættum alls ekki þrengja lífi hennar og veruleika inn líkamshrædda fordóma. Við höfum enga þörf fyrir tvíhyggjuaðgreiningu milli raunveruleika okkar annars vegar og trúar hins vegar.

Eins og við þurfum að gera hreint á heimilum okkar ættum við reglulega að gera hreint í hugarheimi og hreinsa kenningakerfin. Það varðar m.a. að leyfa Maríu að koma til sjáfrar sín og án allra kvaða margra alda efnishræðslu. María á ekki að vera á stalli ofar mannlífi. Kristnir menn eiga ekki að rugla saman ólíkum þáttum þótt tengdir séu, frelsun og mannhugmyndum, kristsfræði (Jesús frelsar) og uppeldisfræði (María sem fyrirmynd). María er ekki frelsari mannkyns heldur mikilvæg ímynd mannlífs og kirkju.

María er merkileg fyrirmynd og vinkona. Og nú er komið að því að María megi stíga af stalli og taka þátt í hreingerningunni. María er í menningunni, minningunni, söngvum og tónlistinni, myndlist og sögu. María er á fánanum, peningaseðlunum og blámanum. Ofurhetjur utan við endimörk alheimsins eru góðar fyrir ákveðið skeið bernskunnar. María þarf ekki að vera þar og í því hlutverki – heldur fremur sem ein af fyrirmyndum og þannig eru dýrlingar, vinir sem þjóna fyrirmyndarhlutverki. Gínan María er ekki góð en konan María, móðir Jesú Krists, er stórkostleg. María er eins og við og við erum eins og María. Það er vitnisburður versanna sem lesin voru úr Passíuálmunum áðan. “María, drottins móðir kær, 
merkir guðs kristni sanna.” Til hennar lítur Jesús Kristur með augum elskunnar.

Amen

Boðunardagur Maríu, 5. sd. í föstu, 17. mars, 2013

Lexía:  1. Sam 2.1-10

Hanna bað og sagði:
Hjarta mitt fagnar í Drottni.
Horn mitt er upphafið af Drottni.
Ég hlæ að fjandmönnum mínum
því að ég gleðst yfir hjálp þinni.
Enginn er heilagur sem Drottinn,
enginn er til nema þú,
enginn er klettur sem Guð vor.
Hreykið yður ekki í orðum,
sleppið engum stóryrðum af vörum
því að Drottinn er vitur Guð,
hann metur verkin.
Bogi kappanna er brotinn
en örmagna menn gyrðast styrkleika.
Saddir selja sig fyrir brauð
en hungraðir þurfa þess ekki.
Óbyrja elur sjö börn
en barnmörg móðir visnar.
Drottinn deyðir og lífgar,
sendir menn til heljar
og leiðir þá upp þaðan.
Drottinn sviptir menn eigum og auðgar þá,
hann niðurlægir og upphefur.
Hann lyftir hinum auma úr duftinu
og hefur hinn snauða úr skarninu,
leiðir hann til sætis hjá höfðingjum
og skipar honum í öndvegi.
Stoðir jarðar eru eign Drottins,
á þeim reisti hann heiminn.
Hann ver fætur sinna réttlátu
en ranglátir þagna í myrkrinu
því að enginn er máttugur af eigin afli.
Drottinn kremur þá sem rísa gegn honum,
Hinn hæsti sendir þrumur af himni gegn þeim.
Drottinn dæmir alla jörðina.
Hann eflir konung sinn að mætti
og hefur upp horn síns smurða.

Pistill:  Róm 8.38-39

Því að ég er þess fullviss að hvorki dauði né líf, englar né tignir, hvorki hið yfirstandandi né hið ókomna, hvorki kraftar, hæð né dýpt né nokkuð annað skapað muni geta gert okkur viðskila við kærleika Guðs sem birtist í Kristi Jesú, Drottni vorum.

Guðspjall:  Lúk 1.46-56

Og María sagði:
Önd mín miklar Drottin
og andi minn gleðst í Guði, frelsara mínum.
Því að hann hefur litið til ambáttar sinnar í smæð hennar,
héðan af munu allar kynslóðir mig sæla segja.
Því að mikla hluti hefur Hinn voldugi við mig gert
og heilagt er nafn hans.
Miskunn hans við þá er óttast hann varir frá kyni til kyns.
Máttarverk hefur hann unnið með armi sínum
og drembilátum í hug og hjarta hefur hann tvístrað.
Valdhöfum hefur hann steypt af stóli
og upp hafið smælingja,
hungraða hefur hann fyllt gæðum
en látið ríka tómhenta frá sér fara.
Hann hefur minnst miskunnar sinnar
og tekið að sér Ísrael, þjón sinn,
eins og hann hét feðrum vorum,
Abraham og niðjum hans, eilíflega.

 

María, drottins móðir kær,

merkir guðs kristni sanna:

Undir krossinum oftast nær

angur og sorg má kanna.

Til hennar lítur þar herrann hýrt,

huggunarorðið sendir dýrt

og forsjón frómra manna.

HP-PSS 37,6

Ofbeldi í borginni

Ofbeldi í borginni hljóðskrá
DSC03022Má bjóða þér til Parísar? Má bjóða þér til London? Viltu koma til Rómar? Ég er meðlimur í alþjóðlegum húsaskiptasamtökum og allt frá jólum hefur rignt inn tilboðum um skipti á húsakynnum. Í gærkvöldi kom tilboð um lán á húsi á Bretagne og annað um lán á íbúð í Barcelona. Ég hef fengið tilboð um að fara til Namibíu og búa þar í höll. Margir Danir vilja líka gjarnan koma til Íslands, fá húsið okkar lánað og bílinn líka og bjóða eigið hús og bíl á móti. Svisslendingar, Frakkar, Þjóðverjar, Spánverjar hafa í löngum bunum sent húsaskiptabeiðnir – einnig Bandaríkjamenn og Kanadamenn. Svo eru líka mörg tilboð frá ýmsum stöðum í Ísarel. Við – fjölskylda mín – spyrjum okkur hvort við ættum að fara eitthvað þetta árið? Langar mig eitthvað út í heim?

Og þá að þér – ætlar þú eitthvað? Ætlar þú kannski í stórborgarferð? Ferðaskrifstofurnar eru farnar að auglýsa og vekja athygli á ýmsum möguleikunum og tilboðum. Til hvers að fara? Kannski höfum við enga löngun til að fara til útlanda. En líf okkar er samt ferðalag og sú reisa – og fólksins okkar – skiptir okkur mestu máli.

Fastan er ferðalag        

Í dag er ferðadagur. Kirkjutextarnir sem lesnir eru í messum þjóðkirkjunnar beina huga okkar að ferðalagi. Það er raunar borgarferð, en samt koma ekki við sögu neinar þotur, hótel eða skip. Ferðin sem er að hejfast er föstuferð Jesú til höfuðborgarinnar Jerúsalem.

Til að marka upphaf þessarar ferðar eru haldnar veislur um hinn vestræna heim og þann hluta sem er undir áhrifum af kristnu tímatali. Við föstuupphaf skemmtir fólk sér víða þessa helgi, með áti, drykkju, karnivalgöngum og sprelli. Á Íslandi byrjar föstuundirbúningurinn með messuhaldi þessa sunnudags sem er í föstuinngangi, svo kemur bolludagurinn og sprengidagurinn sem tengjast föstuupphafinu. Á öskudeginum gengur svo sjö vikna fastan í garð og börnin klæðast alls konar furðubúningum. Við megum gjarnan nota tækifæri og kynna börnunum af hverju allur þessi viðbúnaður við upphaf föstutímans og föstuferðarinnar.

Upp til Jerúsalem

Á öskudeginum hefst Jesúferðin og ganga kirkju hans til Jerúsalem. Sú ferð hefur verið túlkuð, lifuð og endursögð með fjölbreytilegu móti um aldir.

Margar passíur eru til og Passíusálmarnir eru ein útgáfan. „Upp, upp mín sál“ er meginstef þeirra sálma. Og Jesús segir í texta dagsins að nú sé ferðinni heitið upp – upp hvert? Jú, til Jerúsalem sem er hátt uppi – í um 800 metra hæð. Til að fá tilfinningu fyrir þeirri hæð er ágætt að muna að það er nærri hæð Esjunnar. Og til að undirbúa fjallaferðina heldur Jesús fararstjóri fund með tólf vinum. Og litla Jesúklúbbnum þykir ferðaplanið spennandi.

En frásögn af fundinum er bæði undarleg og skelfileg. Fararstjórinn gefur mjög nákvæmar upplýsingar um hvernig ferðin muni þróast en það er eins og ferðarfélagarnir skilji ekkert eða séu í bullandi afneitun. Þeir eru með hugann við annað en það, sem Jesús segir þeim. Einhverjir töldu, að Jesús myndi verða hinn pólitíski frelsari Gyðinga og þessi ferð yrði fyrsta alvöru atlagan gegn Rómverjum. Þeir hafa haft blinda trú á að þessi stórkostlegi ræðusnillingur, spekingur og kraftaverkamaður myndi snúa sig – og þá líka – út úr öllum hugsanlegum klípum. Og því virðast þeir ekki hlusta. Þeir tóku ekki eftir þessum rosalega texta sem Jesús vísaði til, skildu ekki að í borginni yrði Jesús fyrir skipulögðu einelti og einbeittum manndrápsvilja. Náðu ekki að Jesús var sér meðvitaður um hættuna en lét ekki eigin hag ganga fyrir heldur sá hlutverk sitt í stærsta mögulega samhengi.

Alger hörmung

Fararstjórinn er alveg skýr og lýsir með ákveðnu móti: Hann verði fangelsaður og misþyrmt, hann verði niðurlægður og síðan tekinn af lífi. En um viðbrögð ferðafélaganna segir: “Þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin, og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.” Fólk á erfitt með ofbeldi.

Ef ég hefði heyrt svona kynningu hjá fararstjóra ferðaklúbbs hefði ég þverneitað að fara með. Myndir þú fara í ferð, ef stjórnandinn spáði hinu versta, að hann yrði limlestaður, hæddur og síðan líflátinn? Einelti er hræðilegt, hvers konar ofbeldi er andstyggilegt. Stöldrum við.

Tími íhugunar en ekki sjálfspíslar

Krossinn var borinn inn í messuupphafi. Krossburðurinn minnir á hvað kirkjan er og hver ferðaáætlun kristins lýðs er. Krossinn er ferðarlýsing og tákn og blasir við okkur alla messun og túlkar líf. Svo byrjar fastan hjá okkur og við förum í þessa ferð um föstutímann, með Jesú.

Á fyrri tíð föstuðu menn til að skerpa íhugun, ganga á vit hinum dýpri trúarlega veruleika. Á fyrri tíð var tilgangur föstunnar ekki að pína sjálfan sig með því að halda við sig í fæðu, heldur til að skerpa hina andlegu sjón.

Á föstutímanum förum við í fjallgöngu með Jesú. Það er tími ferðalags með Jesú. Hann var ekki handtekinn fyrr en að kvöldi skírdags. Vafalaust hefur Jesús verið angistarfullur einhvern tíma á ferðinni, en pínan hefst ekki fyrr en í kyrruviku, á skírdegi fyrir páska. Leyfum depurðinni að bíða þess tíma.

Meinlæti af hörkutaginu hefur engan trúarlegan tilgang og kristnin er ekki og á ekki að vera píslarsækinn. Kristnin er fremur veislutrú og leggur áherslu á lífið og gleðina. Fastan er ekki og á ekki að vera skuggalegur tími depurðar og sorgar yfir vonsku mannanna, illsku eða gæskuskorti. Á föstunni megum við staldra við kraftaverk lífsins. Fastan er fremur tími til að skoða starf, stöðu, gerðir, boðskap og sögu Jesú og spegla eigið líf í spegli hans, sögu hans. Sú saga er um að lífið er dramatísk ferð, sem endar ekki dauða heldur lífi.

Hver Guð er
Hvernig er hægt að nota þennan föstutíma framundan? Hann er ferðatími fyrir hinn innri mann og endurnýjun mennsku og menningar. Vissulega er hægt að minnka mat og drykk. Við hefðum flest gott af! Og sumir leggja það á sig sem erfitt er – opna ekki netið, tölvupóstinn eða facebook og halda sér frá netinu í heilan sólarhring! Það getur verið ein tegund föstu ef aðgerðin varðar að fara ofurlítinn spotta á uppleið föstunnar.

Borgartilboðið Jerúsalem 2013 er fyrir alla. Við erum ekki kölluð til að fara hættuför til dauða heldur leyfa föstusögu að verða stórsögu sem við tengjust. Jesúsagan er ekki bara um hóp ferðafólks á afmörkuðum stað eða tíma, heldur saga um heiminn, mannkyn og Guð. Föstusagan er einn kafli í stórsögu, sem Guð hefur sagt um sig, ferðasögu, sem á sér upphaf í elsku til okkar manna og vilja til að ganga með okkur á öllum vegum okkar. Það er saga um makalausa guðsför um mennskan móðurlíkama konu, uppvöxt í mannheimi, mannkyni í gleði og sorg, gæsku og grimmd, reynslu af þér og mér. Allar smásögur okkar koma síðan saman í krossi á hæð, angist og dauða. Þeirri sögu lauk ekki á Golgatahæð heldur hélt hún áfram í grafhýsi og páskasögu. Það er um að lífið er þrátt fyrir allt gott, litríkt, ástríkt, vonbjart, skemmtilegt og mikilfenglegt.

Það er ferðasaga Guðs, sem smásögur okkar eru hluti af. Á föstu er sögð ofursagan um samspil lífs og dauða, Guðs og heims. Sú erkisaga skiptir öllu máli. Ferðatilboðin eru fjölmörg. Borgarreisur eru í boði. Húsaskipti líka. En merkilegasta ferðin er ferðin upp og mega ferðast með besta mögulega ferðafélaganum sem völ er á ? Fastan er að hefjast – ferðin er að byrja. Hvert ætlar þú?

Amen

Prédikun í Neskirkju á sunnudegi í föstuinngangi, 10. febrúar, 2013.

Textaröð: B

Lexía: Jes 50.4–11


Drottinn Guð hefur gefið mér lærisveinatungu
svo að ég lærði að styrkja hinn þreytta með orðum.
Á hverjum morgni vekur hann eyra mitt
svo að ég hlusti eins og lærisveinn.
Drottinn Guð opnaði eyra mitt
og ég streittist ekki á móti,
færðist ekki undan.
Ég bauð bak mitt þeim sem börðu mig
og vanga mína þeim sem reyttu skegg mitt,
huldi ekki andlit mitt fyrir háðung og hrákum.
En Drottinn Guð hjálpar mér,
þess vegna verð ég ekki niðurlægður.
Því gerði ég andlit mitt hart sem tinnu
og veit að ég verð ekki til skammar.
Nærri er sá er sýknar mig,
hver getur deilt við mig?
Við skulum báðir ganga fram.
Hver ákærir mig?
Komi hann til mín.
Drottinn, Guð minn, hjálpar mér,
hver getur sakfellt mig?
Sjá, þeir detta allir sundur eins og klæði,
mölur étur þá upp.
Hver er sá yðar á meðal sem óttast Drottin
og hlýðir á boðskap þjóns hans?
Sá sem gengur í myrkri
og enga skímu sér,
hann treysti á nafn Drottins
og reiði sig á Guð sinn.
En þér, sem kveikið eld
og vopnist logandi örvum,
gangið sjálfir inn í eigið bál
og eldinn sem þér kveiktuð með örvunum.
Úr minni hendi kemur þetta yfir yður,
þér munuð liggja í kvölum.

Pistill: 1Kor 1.18-25


Því að orð krossins er heimska þeim er stefna í glötun en okkur sem hólpin verðum er það kraftur Guðs. Ritað er:
Ég mun eyða speki spekinganna
og hyggindi hyggindamannanna mun ég að engu gera.
Hvar er vitringur? Hvar fræðimaður, orðkappi þessa heims? Er ekki það sem heimurinn telur speki heimska í augum Guðs?
Enda þótt speki Guðs sé í heiminum gátu mennirnir ekki þekkt Guð með sinni speki. Þess vegna ákvað Guð að boða það sem er heimska í augum manna og frelsa þá sem trúa.

Guðspjall: Lúk 18.31-34

Jesús tók þá tólf til sín og sagði við þá: „Nú förum við upp til Jerúsalem og mun allt það koma fram sem spámennirnir hafa skrifað um Mannssoninn. Hann verður framseldur heiðingjum. Þeir munu hæða hann, misþyrma honum og hrækja á hann. Þeir munu húðstrýkja hann og lífláta en á þriðja degi mun hann upp rísa.“
En þeir skildu ekkert af þessu, orð þessi voru þeim hulin og þeir skynjuðu ekki það sem sagt var.